Ræða Sölva Sveinssonar á hátíðarkvöldverði
 
Góðu vinir

Ég er stundum að velta því fyrir mér hvaða kynslóð við erum sem fæddumst 1950 og árin þar í kring. Við vorum kannski ekki yngsta kynslóðin þegar við settumst í MA haustið 1966, en áreiðanlega næstum því. Og við erum ekki elsta kynslóðin núna, en verðum þaðlíklega næstum því eftir nokkur ár, nema þjóðin haldi áfram að eldast úr hófi. En við erum örugglega eina kynslóðin sem fékk lög Bítlanna beint í æð á unglingsárum og við erum væntanlega síðasta kynslóðin sem kann Óskalög sjúklinga og Lögin á frívaktinni og allan textann við Ömmubæn með Alfreð Clausen - tik-tak-tik tak,- enda erum við síðasta kynslóðin sem átti ömmu á heimilinu. Og við erum líka síðasta kynslóðin sem fékk nýja soðna ýsu í hádeginu á mánudögum með mikilli hamsatólg sem við megum ekki lengur láta út á fisk. Og við drengirnir í árganginum erum hinir síðustu sem þurftu ekki að brjóta saman föt eða búa um rúm í uppvexti okkar.

Við erum líka fyrsti árgangurinn sem heldur upp á 35 ára stúdentsafmæli í París! Í raun finnst mér hópurinn ekki hafa breytzt að gagni síðan við sátum rennsveitt í kórnum á Akureyrarkirkju fyrir 35 árum og héldum að Steindór ætlaði aldrei að hætta að tala og sáum einunugis hnakkasvipinn á honum og við Vilmundur Jósefsson skorðuðum hann Teit tryggilega milli axla okkar svo hann ylti ekki fram yfir sig. Nóttin hafði níðzt meira á honum en okkur og þetta voru erfiðir tímar í miklu sólskini. Við höfum þroskast á þessum 35 árum og lífið hefur fært okkur öllum gleðistundir þótt allir hafi líka þurft að takast á við söknuð, sorg og jafnvel sáran harm. Undan því verður aldrei vikist og öll erum við lífs utan einn.

Mig langar að deila með ykkur hugrenningum mínum um af hverju við erum samstæður hópur svo ólík sem við erum. Af hverju halda ævilangt þau vináttubönd sem hnýtt eru í menntaskóla? Við komum öll hálf blaut á bak við eyrum í skólann, mis-ósjálfstæð, liggur mér við að segja, hrædd undir niðri við eldri og reyndari skólafélaga. Við vorum flest að fara úr foreldrahúsum í fyrsta skipti og feimnin rjátlaðist furðu fljótt af okkur. Alnýjum degi fær þú aldrei kynnst, segir Hannes skáld, því maður speglar tilveru sína ætíð í ljósi hins liðna. Óttinn og spenningurinn viku býsna hratt fyrir þeirri staðreynd að Friðrik Vagn og Finnbjörn voru ekkert öðruvísi en við Skagfirðingarnir þótt þeir væru að vestan, og Siggi Páls og Brynja á Skipalæk, jafnólík og þau eru, voru heldur ekkert skrýtin, að minnsta kosti ekkert sérstaklega, þótt þau væru austan af Héraði. Það voru helzt Vestmannaeyingar sem voru skrýtnir, enda eru þeir það. Og jú, sumir Vestfirðingar, til dæmis Gaui Kristjáns, sem gat gengið sofandi upp kirkjutröppurnar og rumskaði ekki fyrr en hann var tekinn upp ef hann þá rumskaði á annað borð. Sumir kennarar agnúuðust útí "þetta fólk" af Faxaflóasvæðinu sem hjá Helga Hallgrímssyni náði frá Vestmannaeyjum og upp í Borgarnes. Þetta var fólk eins og Davíð, Dagný, Árni Skúli, Teitur og Trausti.

Talandi um sjálfstraust. Gott ef við Varðborgarar efldumst ekki að sjálfstrausti þegar Ævar Kjartansson kom sér í fremstu söngröð hverju sinni og tók svo undir sönginn að efribekkingar efuðust um sóma sinn og hneyksluðust á þessu þingeyska monti. Má ég svo bæta því við að hann Ævar brautskráðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands í dag.

En við urðum öll vinir þvert á alla bekki og deildaskiptingu og það hangir saman við námskrárnar tvær, einkum þó hina óskráðu. Við lærðum eftir opinberri námskrá eigi síðar en fyrir próf, en hin jafna framvinda námsins vetrarlangt var háð ýmsum ytri öflum, svo sem aga í tímum, veðri rétt fyrir klukkan 8, þungu skammdegi og sækni í Sjallann og guð má vita hverju. Þá var með öllu óþekkt að unglingar ynnu með skóla og enginn kom á bíl nema Matti Garðars þegar pabbi hans var á sjó og Kjartan Örn sem kom á leigubíl þennan vetur sem hann var með okkur.

Okkur var raðað í bekki með dularfullum hætti. Hvers áttum við strákar utan af landi að gjalda að setjast saman í bekk? Engar stelpur! Var Hjallastefnan kannski fundin upp í MA? Við vorum skildir frá stelpunum öll árin. Sumir fóru svo í stærðfræði- eða náttúrufræðideild, við hin í máladeild. En samt sem áður skilaði þetta einni samstæðri en mislitri hjörð út úr skólanum. Þar kemur til sögunnar hin námskráin, dulda námskráin sem svo er kölluð í fræðunum. Það gilda alveg óskráðar reglur um hegðun á göngunum, um augnagotur og hvísl, um samskipti utan kennslustofunnar. Hvað þá hver fer inn í hvaða herbergi á vistunum. Jafnvel þótt fröken Ragnheiður sæti og prjónaði í gættinni rjóð og prúð á vangann. Það var einmitt alveg andstætt þessari námskrá sem Ævar Kjartansson stillti sér upp í fremstu röð og söng gjörsamlega úr takt við feimni okkar hinna sem kunnum varla lögin.

Samheldnin á líka rætur í því að á þessum árum er flest nýtt sem unglingar taka sér fyrir hendur. Við sem komum utan af landi vorum að fara undan pilsfaldi mömmu og ömmu, við sáum ótalmörg jafngömul andlit í sömu sporum. Við vorum eins og hænur í hlaðvarpa, lyftum varlega öðrum fæti og héldum á lofti, hölluðum undir flatt, veltum svo höfði á hinn vangann áður en við stigum niður. Menn voru grafalvarlegir á svip fyrstu dagana og gægðust fyrir horn með óttablandinni feimni, en smám saman gliðnuðu þessi andlit í brosi sem um síðir náði alveg upp til augnanna. Og til að sýnast menn með mönnum keyptu margir sína fyrstu vínflösku fyrir 1. desballið, sú var minnsta kosti raunin með okkur Skagfirðingana, við Snorri Björn, Óli Ingimars, Bessi og Jón Júl fengum einhvern til þess að kaupa einn sjéniverbrúsa og urðum allir fullir af þessum 10 dropum sem komu í hlut hvers og eins. Hvort sem það var nú ímyndun eða raunveruleiki. Svo vaknaði náttúran fyrir alvöru á þessum árum, jafnvel svo að margir úr árgangnum voru harðtrúlofaðir þarna í kórnum á Akureyrarkirkju.

Öll munum við eftir einstökum atvikum frá þessum árum og urðu sum þeirra lærdómsrík. Ég minnist þess að ball var haldið í kjallara Möðruvalla og hafði salurinn verið skreyttur eins og skipslest og hátt að stíga gegnum dyr eins og tíðkast á skipum þegar menn ganga af þilfari inn í vistarverur. Netadræsur höfðu verið hengdar í loftið, tjöruangan í lofti. Af einhverjum ástæðum höfðum við hafnað nokkrir inni á herbergi hjá Sigurði Pálssyni rétt hjá Frímúrarahúsinu fyrir ballið og drukkum þar gambra sem hann hafði bruggað í 10 lítra belju. Það var göróttur drykkur, gruggugur og vondur en við létum okkur hafa það. Gengum svo fram hjá sundlauginni sem leið liggur að Möðruvöllum. Aðalsteinn og Ingi leikfimikennari voru við gæslu og gengu nösum þöndum með stirðnað bros um svæðið. En sem ég er búin að vera einhverja stund í blikkandi ljósum í lestinni þá finn ég að gambrinn leitar uppgöngu og ætla mér á klósettið inni á ganginum eins og þið munið en áttaði mig ekki á þessum undarlega dyraútbúnaði og datt á hraðferð minni og náði þó að hrifsa í netin og rífa með mér þannig að ég lá í sparifötunum á grúfu með netin ofan á mér. Og þegar ég stóð upp voru Ingi og A-a-aðalsteinn þar báðir. Ég reyndi að ganga virðulega og beint inn á klósett og tókst það - gambrinn samt orðinn æði ágengur - komst inn á klósettið en sem ég ætlaði að opna þar einn klefann og komast að skálinni tókst ekki betur til en svo að hurðarflekinn kom fljúgandi í fangið á mér og í því að Aaaaðalsteinn og Ingi komu inn þá dansaði ég á móti þeim með hurðina í fanginu og spjó eins og ég ætti lífið að leysa. Þetta vakti lítinn fögnuð þeirra félaga og ég var leiddur á dyr.

Nú hefði slíkt aldrei átt sér stað og ég man eins og gerst hafi í gær hvað ég var ískaldur og illa haldinn þegar ég loksins komst heim á Hamarsstíg. Fór nú í hönd lengsta helgi ævinnar til þessa og leið hún í mikilli eymd og volæði þar sem ég margyfirfór atburði helgarinnar og miklaði fyrir mér refsinguna. Ég yrði áreiðanlega rekinn og ég var búinn að semja skýringarræðu fyrir foreldra mína og jafnframt íhuga hvað ég tæki mér fyrir hendur. Svo loksins, loksins kom mánudagur og ég fór til Steindórs sem sat í sínum rauða silkislopp og hélt stutta ræðu um hvað ungdómurinn léti mikið glepjast af lystisemdum heimsins nú orðið. Það hefði verið öðru vísi áður fyrr, en um síðir var ég orðinn heillakarl og hundakroppur og var sagt að fara aftur í tíma. Það má mikið vera ef hann sá hvern hann var að skamma því að hann opnaði ekki augun allan tímann.

Ég var mjög léttstígur upp á Norðursal eftir þetta viðtal og þarna lærði ég að eiginlega er alveg nóg refsing fyrir flest brot í skóla að láta unglingana bíða í nokkra daga eftir ádrepunni. Þeir hugsa mikið þá daga. Ef ég þarf að tala föðurlega til unglinga í skólanum hjá mér núna þá læt ég þá ævinlega bíða nokkra daga ef þess er nokkur kostur.

Það er auðvitað mismunandi hvaða kennarar eru okkur minnisstæðastir. Þeir eru nokkrir alveg ógleymanlegir af ýmsum sökum, bæði fyrir hvað þeir voru góðir kennarar, en ekki síður fyrir margvíslegt hátterni sitt. Jón Árni sökum meinfyndni sinnar, Árni Kristjánsson fyrir óborganlegar skammir sem maður vildi ekki verða fyrir sjálfur, Friðrik fyrir fágaða framkomu sína og praktíska stíla um hraðlestir, Bahnhof og eitt og annað þarflegt og þótt Karl heitinn Sveinsson hafi kennt okkur skamma stund í 3. b er hann alveg ógleymanlegur. Hann settist gjarnan út í horn á stofunni ef Bakkus hafði verið nærgöngull fram eftir degi og lét okkur skrifa samhengislausa stíla upp á töflu: Litli drengurinn fór inn í garðinn hjá gömlu konunni sem keypti rósir hjá blómasalanum sem vissi ekki að hún var ekkja og fór hvert sumar til Jótlands og hjólaði á rauða hjólinu með bastkörfunni... og svo framvegis.

En skyndilega var hann horfinn úr samkvæminu og Gunnar Steindórsson kominn að kennarapúltinu. Þetta var á þeim árum sem ráðherrar höfðu metnað til að skipa hæfa menn í starf og Gunnar var munstraður eldvarnaeftirlitsmaður á Norðurlandi.
Svona gæti ég haldið áfram lengi kvölds en læt þó staðar numið og þó með einni játningu. Ég iðrast einskis frá þessum góðu árum nema að hafa ekki lært meira í frönsku, því hljómfagra og blæbrigðaríka máli. En satt best að segja held ég að enginn í 5. og 6. c hafi lært nokkuð að gagni hjá Sigríði nema ef vera skyldi veislustjóri kvöldsins og Páll Þorgeirsson.

Menntaskólinn á Akureyri er einstakur meðal framhaldsskóla landsins að einu leyti og þar vísa ég til hinnar ríku sönghefðar og hún ein og sér á ríkan þátt í þeirri tilfinningu okkar að við séum ein heild. Söngurinn sameinar og ég minnist nú með nokkurri virðingu söngtíma í setustofunni hjá Hermanni Stefánssyni þar sem hann kenndi okkur Vem kan segla, Sjung om studentens... og síðan þjóðsöngva Norðurlanda.

Annars á ég þá minningu tengda Hermanni að hann rak okkur Snorra Björn úr sundtíma í innilauginni. Snorri hafði stungið sér með slíkum tilþrifum að Hermann rennblotnaði en síðan syntum við skriðsund eins og best við kunnum og þegar við komum móðir og másandi að bakkanum stóð Hermann á stéttinni með fingur á lofti og rak okkur út fyrir fíflalæti. Fyrir fíflalæti í sundinu og við sem syntum eins og best við kunnum.

Svona gat lífið verið harðneskjulegt á þessum árum.

Ég held að enginn hafi vitað hvað hann eða hún ætlaði að verða þegar við settumst í þriðja bekk haustið 1966 nema Trausti Jónsson frá Borgarnesisem hélt vöku fyrir herbergisfélögum sínum á Gömluvistum þegar hann tók veðurskeytin kl. 1 á nóttunni og hlustaði á Eric Clapton og vissi allt um the Monkeys og aðrar hljómsveitir. Við höfum síðan ratað út í alla kima samfélagsins að heita má. Hvern hefði órað fyrir því að Davíð yrði séra Davíð þegar hann kom síðhærður í nýjum karnabæjargalla sunnan úr Keflavík? Af Faxaflóasvæðinu. Að Guðmundur Þór Ásmundsson yrði skólastjóri heimavistarskóla, einhver mestur brotamaður á heimavistarreglum Arnfinns Varðborgarstjóra á dögum okkar þar? Hvern gat órað fyrir því að Pétur Þorsteinsson yrði einn upphafsmanna nútíma tölvusamskipta á Íslandi?

Við vorum einu sinni eins og við vorum og við erum nú eins og við erum, sem betur fer. Lyftum nú glasi okkur til heilla og megum við vera eins og við erum lengi enn. Skál!