Golffélagarnir - Golfvellirnir - Myndasýning |
||||
---|---|---|---|---|
Frábærri ferð til Túnis er lokið og við komin heim i hversdaginn. Við mættum í ferðina án þess að þekkja nokkurn mann, en á þessum 8 dögum kynntumst við yndislegu fólki sem náði vel saman bæði á golfvellinum og utan hans. Þar á fararstjórinn Sigurður Pétursson ekki sístan hlut. Hann hélt hópnum saman allan tímann með kennslu á völlunum og skipulagi á golfinu. Fyrir okkur Önnu var þessi ferð upplifun þar sem þetta var í fyrsta sinn sem við fórum í golfferð en verður alveg örugglega ekki sú síðasta. Haldin voru tvö mót í ferðinni, golfmót FB, sem var einstaklingskeppni. Þar var sigurvegari í karlaflokki Þorsteinn Gunnarsson og í kvennaflokki María Sigurðardóttir. Síðan var Bændaglíma þar sem rauðir kepptu á móti bláum. Bændaglíman var spiluð á La Forêt-vellinum en golfmót FB á Les Oliviers. Bændaglímuna vann rauða liðið. Við Anna vorum í bláa liðinu og þurfti liðið að syngja tvö lög, annað á barnum á hótelinu og hitt á veitingastað, Pomodoro, sem við fórum á á laugardagskvöldinu, síðasta kvöldinu í Túnis. Texti var saminn í snarheitum sem sunginn var á barnum en á veitingastaðnum var Litla flugan sungin undir styrkri stjórn sérstaks tónlistarráðunauts blárra, Hængs Þorsteinssonar. |
||||
Við spiluðum á fjórum völlum i Túnis, þeir voru Sea völlurinn í El Kantaoui, Flamingo völlurinn sem var í um það bil 40 mínútna keyrslu frá El Kantaoui og á Citrus svæðinu spiluðum við á tveim völlum, Les Oliviers og La Forêt. Ef við getum fundið eitthvað að þessari ferð er það helst það að þurfa að fara í bíl á vellina. Hótelin tvö sem við gistum á voru í bæjum en ekki á golfvöllunum. | ||||
Það gat líka verið kostur því þá vorum við í bæjum sem var hægt að skoða - og kannski styrkja hina ýmsu kaupmenn. Við litum í Medinuna í Hammamet þar sem mannlífið var litríkt í besta lagi, kaupmennirnir ágengir svo að það jaðraði við að vera óþægilegt en vandist þó. Þarna var prúttað þar til báðir voru ánægðir og fóru sælir með sitt að lokum, við með varninginn en þeir með peningana. Við þökkum ferðafélögum okkar einstaklega ánægjulega samveru og góð kynni. Anna og Eiríkur |
Gert 31. mars 2008