Árdís Sigmundsdóttir

Um Árdísi Sigmundsdóttur

Árdís Sigmundsdóttir er fædd 27. júní 1963. Hún útskrifaðist með BA-próf í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og lauk meistaranámi í hönnun frá Listaháskóla Íslands árið 2019. Í meistararitgerð sinni fjallaði Árdís um samband manns og náttúru í umhverfi Helgafells, útivistarsvæði Hafnfirðinga, út frá fyrirbæra- og fagurfræði, jafnframt því að huga að upplifun af landslagi. Árdís hefur starfað sem kennari á grunn- og framhaldsskólastigi, auk þess sem hún hefur kennt skartgripagerð og silfursmíði. Hún hefur tekið þátt í ýmsum sýningum á hönnun og handverki, auk þess sem hún var annar tveggja fulltrúa Hafnarfjarðar á Vindhátíð í Reykjavík árið 2000 [Hafnarborg].

Harpa vindanna

Harpa vindanna

Harpa vindanna (2000)

Verkið varð til í tilefni Vindhátíðar í Reykjavík, sem var haldin árið 2000, en hátíðin var óður til vindsins, þar sem allar hinar jákvæðu hliðar hans voru dregnar fram. Fjallað var um vindinn frá ólíkum sjónarhornum og áhrif hans á landslag, list og klæðnað skoðuð. Meðal þess sem var til sýnis á Vindhátíðinni voru vindhörpur, vindspil og vindföt alls konar. Þá var verki Árdísar Sigmundsdóttur komið fyrir uppi á þaki Faxaskála yfir hátíðarhöldin, þar sem Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, átti eftir að rísa síðar. Verkið var seinna flutt á þann stað sem það stendur nú, í tjörninni við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. [Hafnarborg]