Hafnarfjörður

Minnisvarðar í Hafnarfirði

Altari sjómannsins
Altari sjómannsins Hafnarfirði

Altari sjómannsins

Til minningar um horfna sjómenn

Minnisvarðann gerði Erlingur Jónsson árið 1993 og stendur hann framan við Víðistaðakirkju í Hafnarfirði

 

Minning um drukknaða fiskimenn
Við Kaplakrika Hafnarfjörður
Minnisvarði í Kaplakrika í Hafnarfirði

In memoriam – Minning um drukknaða fiskimenn

Eiríkur Jónsson, f. 2.6.1857, d. 18.4.1922
og synir hans
Benjamín Franklín, f. 12.3.1892, d. 28.2.1910
Bjarni, f. 24.9.1896, d. 8.2.1925
Jón Ágúst, f. 17.8.1902, d. 18.4.1922

Drottinn drangan blessi
góðir menn hann verndi.

Reistur af Guðbjörgu Jónsdóttur og Birni Eiríkssyni, Sjónarhóli, Hafnarfirði 2.6.1957.

Stendur við íþróttahúsið í Kaplakrika, Hafnarfirði.

Minnisvarðinn var endurgerður árið 2016.

Platan er samhljóða því sem stendur á dranganum og er fest á vegginn aftan við hann.


Sigling
Minnisvarði um sjómenn

Sigling

Tæpum tuttugu árum eftir að hafin var fjársöfnun til að reisa „minnismerki um drukknaða hafnfirzka sjómenn“ var „heiðursmerki sjómanna“ vígt við Strandgötu í Hafnarfirði. Verkið heitir „Sigling“ og er eftir Þorkel G. Guðmundsson, auk nafns verks og höfundar er áletrunin: „Heiðursvarði hafnfirzkra sjómanna. Reistur 1974 af Hafnarfjarðarbæ.“ Í stað þagnar sem oft fylgir afhjúpun minnismerkja um samfélagsleg áföll var hrópað ferfalt húrra við afhjúpunina, fyrir hafnfirskri sjómannastétt.

Minnisvarðinn stendur framan við Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði


Minnisvarði um látna skáta
Skátar

Minnisvarði um látna gildisfélaga með þökk fyrir samfylgdina.

Minningarnar lifa.

Minnisvarðinn stendur við skátaskálann við Hvaleyrarvatn.


Knattspyrnufélagið Haukar
Haukar
Haukar
Knattspyrnufélagið Haukar

Stofnfundur Knattspyrnufélagsins Haukar
(endurritun úr fundargerðarbók.)

1. fundur.

Sunnudaginn 12. apríl 1931 komu nokkrir drengir saman í húsi KFUM til þess að stofna íþróttafélag er eigi að standa á grunndvelli KFUM.

Þeir sem eru stofnendur félagsins eru þessir:
Óskar Gíslason, Karl Auðunsson, Jens Sveinsson, Þórður Guðbjörnsson, Jóhannes Einarsson, Helgi Vilhjálmsson, Sigurgeir Guðmundsson, Magnús Kjartansson, Jón Halldórsson, Bjarni Sveinsson, Hallgrímur Steingrímsson, Nikolaj Grímsson, og Geir Jóelsson.

Á fundi gerðist sem hér segir:

  1. Sigurgeir Guðmundsson sagði frá för sem hann og tveir aðrir drengir fóru til þess að tala við Jóel Ingvarsson um stofnun þessa félags.
  2. Í stjórn félagsins voru þessir kosnir. Karl Auðunsson formaður, Sigurgeir Guðmundsson gjaldkeri. Hallgrímur Steingrímsson ritari.
    Varamenn voru kosnir Bjarni Sveinsson varaformaður en Nikolaj Grímsson vararitari.
    Fleira var ekki lagt fyrir fundinn og honum því slitið.

Hallgrímur Steingrímsson ritari.


Rafvæðing Hafnarfjarðar
Rafvæðing Hafnarfjarðar

Fyrsta almenningsrafveitan

Fyrsta almenningsrafveita á Íslandi tók til starfa í Hafnarfirði í desember árið 1904. Aðdragandi þess var á þá leið að tveimur árum áður settist að í bænum ungur trésmíðameistari, Jóhannes Reykdal að nafni. Hann reisti árið 1903 trésmíðaverkstæði við Hamarskotslækinn og notaði lækinn til að knýja vélarnar.
Jóhannes hafði kynnst því á ferðalögum sínum í Noregi hvernig Norðmenn beisluðu fallvötn til að framleiða rafmagn. Eftir að hafa nýtt orku lækjarins til að knýja trésmíðavélar sínar ákvað hann að gera tilraun og setja upp rafstöð. Árið 1904 keypti Jóhannes 9 kW rafal frá Noregi og tengdi hann við ás nýs hverfils. Í kjölfarið réði hann Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðing, sem þá var nýkominn heim úr námi í Þýskalandi. til að annast raflagnir til húsanna í nágrenninu og Árna Sigurðsson, sem síðar varð fyrsti rafvirki landsins, til að sjá um tengingu raflagnanna innanhúss. Í desember 1904 voru svo fyrstu rafljósin kveikt en þá var búið að leggja rafmagn í 16 hús auk fjögurra ljóskera í bænum. Meðal húsanna sem tengd voru má nefna Góðtemplarahúsið, Barnaskólann, trésmíðaverkstæðið og íbúðarhús Jóhannesar Reykdals.
Fljótlega kom upp sú staða að rafstöð þessi náði ekki að anna þeirri eftirspurn sem myndaðist og var þá ráðist í að reisa aðra, mun stærri rafstöð við Hörðuvelli. Hún var tekin í notkun árið 1906. Hafnarfjarðarbær keypti báðar rafstöðvarnar af Jóhannesi Reykdal árið 1909. Þessi fyrsta almenningsrafstöð landsins var rekin í 19 ár eða allt til ársins 1923 er hún var lögð niður.
Stöðvarstjórar hennar voru Árni Sigurðsson 1906-1914 og Halldór Halldórsson 1914-1923.

Listaverkið er eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara og stendur við lækinn þar sem fyrsta stíflan var reist. Testi er af skilti við verkið.


Víðistaðir
Víðistaðir

Víðistaðir

Til minningar um
Bjarna Erlendsson, 1881-1972 og
Margréti Magnúsdóttur, 1889-1960
sem reistu býli að Víðistöðum árið 1918 og bjuggu þar til æviloka.

Minnisvarðinn sendur í Víðistaðatúni í Hafnarfirði.

Víðistaðir

Bjarni Sivertsen (1763-1833)
Bjarni Sivertsen Hafnarfjörður

Bjarni Sivertsen (1763-1833) riddari 

Faðir Hafnarfjarðar. Brjóstmyndin gerð af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara.
Minnisvarðinn stendur í Hellisgerði


Friðrik Bjarnason (1880-1962)
Friðrik Bjarnason Hafnarfirði

Tónlist hans lifir
Friðrik Bjarnason

Fæddist á Stokkseyri 27. nóvember 1908
Fluttist til Hafnarfjarðar árið 1908
Organisti við Hafnarfjarðarkirkju í 36 ár
Kennari, tónskáld og kórstjóri.
Stofnaði Karlakórinn Þresti árið 1912.
Hann lést 28. maí 1962.

Karlakórinn Þrestir gekkst fyrir afhjúpun minnismerkisins í tilefni af 100 ára afmæli kórsins 
19. febrúar 2012.
Verkefnið var styrkt af Hafnarfjarðarbæ.  [Texti á skildi]

Minnisvarðinn stendur við Hafnarfjarðarkirkju

Friðrik Bjarnason

Guðmundur Einarsson (1883-1968)
Guðmundur Einarsson Hafnarfjörður

Frumkvöðull að vernd og ræktun Hellisgerðis 1923.

Ríkarður Jónsson myndhöggvari gerði brjóstmyndina sem er á klettavegg við Fjarðarhelli í Hellisgerði.

Brjóstmyndin var afhjúpuð 5. október 1963.

Í tilefni af fjörutíu ára afmæli Hellisgerðis var 5. október 1963 afhjúpaður minnisvarði af Guðmundi Einarssyni (1883-1968), trésmíðameistara og framkvæmdastjóra trésmiðjunnar Dvergs, en hann átti frumkvæðið að stofnun garðsins, ræktun hans og vernd. Þá hélt Guðmundur framsögu á fundi í Málfundafélagi Magna 15. mars 1922, þar sem hann benti á hvílík áhrif það gæti haft til bóta fyrir bæinn ef félagið kæmi upp blóma- og skemmtigarði þar sem sérkenni landsins, hraunborgirnar og gjárnar, fengju að halda sér og njóta sín óspillt, jafnframt því að hlúa að gróðrinum. Fullyrti Guðmundur að slíkur garður myndi vera félaginu til sóma og bænum til prýði. Árið eftir hófust fyrstu framkvæmdir í garðinum en myndin af Guðmundi er felld inn í hraunvegg, rétt við hellinn í gerðinu. [Hafnarborg]

,,Hellisgerði er skrúðgarður Hafnarfjarðar og liggur vestan Reykjavíkurvegar, norðan Hellisgötu og sunnan Skúlaskeiðs. Nafnið tengist Fjarðarhelli fyrir miðju garðsins sem var upphaflega fjárskjól. Hellisgerði var afhent Málfundafélaginu Magna í sumarbyrjun 1923 og hófst ræktun sumarið eftir. Sumarið 1927 var Hellisgerði opnað almenningi á sunnudögum og nokkrum árum seinna var það opið alla daga eftir hádegi yfir sumarmánuðina. Núna er Hellisgerði almenningsgarður sem er öllum opinn. Þó svo að Hellisgerði sé formlega talið vera níutíu ára gamalt má rekja upphafið til ræktunartilrauna athafnamannsins Bjarna Sívertsens.” [Ferlir]


Guðmundur Gissurarson (1902-1968)
Guðmundur Gissurarson

Guðmundur Gissurarson

Fyrsti forstjóri Sólvangs og formaður byggingarnefndar Sólvangs.
Gjöf Félags ungra jafnaðarmanna til Sólvangs.
Gestur Þorgrímsson gerði verkið 1966.

Verkið stendur við Hjúkrunarheimilið Sólvang í Hafnarfirði.

Guðmundur Gissurarson

Hrafna-Flóki
Hrafna Flóki Hafnarfjörður

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi reist vörðu (varða) til minningar um Flóka Vilgerðarson og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til þess að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borið síðan. Minnisvarðinn stendur efst á Hvaleyri í Hafnarfirði, við golfvöllinn. 
Aðrir minnisvarðar um Hrafna-Flóka eru við Flókalund á Barðaströnd og í Flókadal í Fljótum.


Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)
Jóhannes Reykdal

Reykdalsstífla 1906

Jóhannes J. Reykdal var stórhuga brautryðjandi og athafnamaður sem reisti m.a. þrjár vatnsaflsvirkjanir í Læknum í Hafnarfirði. Sú hin fyrsta var gangsett þann 12. des. 1904 og markaði sá viðburður upphaf rafvæðingar Íslands. Þá voru kölduljós kveikt í 15 húsum í bænum auk fjögurra götuljósa. Hörðuvallavirkjun, nokkru ofar í Læknum, var svo gangsett haustið 1906. Afl hennar, 37 kW, fullnægði þörf bæjarins fyrir rafmagn. Kallast hún nú Reykdalsvirkjun. Sú þriðja, enn ofar, var gangsett árið 1917.

Jóhannes J. Reykdal
Jóhanns J. Reykdal
Jóhanns J. Reykdal

Jóhannes J. Reykdal (1874-1946)
Jóhannes Reykdal

Rétt sunnan golfvallarins í Setbergi er þessi minnisvarði um Jóhannes Reykdal og fjölskyldu hans. Þau voru grafin í heimagrafreit þar sem nú er minnisvarðinn.

“Heimagrafreiturinn Setbergi er staðsettur að Hólsbergi 13 í Hafnarfirði. Þar hvílir Jóhannes Jóhannesson Reykdal ásamt konu sinni Þórunni Böðvarsdóttur Reykdal og fimm börnum þeirra sem dóu þegar þau voru á aldrinum 12 til 34 ára (þau hjónin eignuðust alls 12 börn)”. (legstadaleit.com).

“Lengi stóð grafhýsi í Setbergshverfi ofan Hafnarfjarðar. Athafnamaðurinn Jóhannes Reykdal var sá fyrsti sem þar hvíldi. Hann varð goðsögn í lifanda lífi þegar hann bókstaflega lýsti upp Hafnarfjörð árið 1904 með því að setja þar upp rafmagnsljós.
Fyrir nokkrum árum var hins vegar mokað yfir grafreitinn en áður voru þeir sem síðast voru þar greftraðir fluttir í kirkjugarð bæjarins og jarðaðir þar.” (DV 2007).

Þau sem þarna er minnst eru Reykdalshjónin og fimm af börnum þeirra:

Jóhannes J. Reykdal,
f. 18.1.1874 – d. 1.8.1946
Þórunn B. Reykdal,
f. 21.10.1883 – d. 3.1.1964

Jóhannes Reykdal

Ásgeir Reykdal,
f. 25.7.1906 – d. 24.6.1933
Böðvar Reykdal,
f. 23.6.1907 – d. 2.1.1931
Jóhannes Reykdal,
f. 3.11.1908 – d. 30.12.1942
Friðþjófur Reykdal,
f. 28.7.1911 – d. 26.2.1934
Lovísa Reykdal,
f. 18.11.1918 – d. 20.4.1931


Óskar Páll Daníelsson (1979-2012)
Óskar Páll Daníelsson Helgafell við Hafnarfjörð

Óskar Páll Daníelsson 
f. 18. október 1979, d. 12. janúar 2012

Frá Dýrð til Dýrðar

Þetta skilti er vestan í klettabelti Helgafells við Hafnarfjörð en Óskar Páll hrapaði þar


Stefánshöfði
Stefán Stefánsson
Stefán Stefánsson

Stefánshöfði er vestan við Kleifarvatn. Höfðinn er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni f. 5.12.1878, d. 22.12.1944, eða Stebba guide, en ösku hans var dreift í vatnið árið 1944. Skjöldur á klettavegg Stefánshöfða við veginn.


Þórður Edilonsson (1875-1941)
Þórður Edilonsson Hafnrfjörður

Þórður Edilonsson læknir

Þórður Edilonsson fæddist 16. september 1875 og lést 14. september 1941. Hann var stúdent frá MR 1895 og lauk prófi frá læknaskóla í Reykjavík 1899. Vann á sjúrahúsum erlendis 1899-1900, en varð staðgengill héraðslæknis í Keflavík sumarið 1899. Settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1900-1903, aðstoðarlæknir í Reykjavík með aðsetur í Hafnarfirði. Aftur settur héraðslæknir í Kjósarhéraði 1903-1908. Settur Héraðslæknir í Hafnarfirði 1908 til æviloka 1941. 
Þórður gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í Hafnarfirði, m.a. í bæjarstjórn, fræðslustjórn, stjórn sparisjóðs Hafnarfjarðar o.fl. Hann sat einnig í stjórn Læknafélagsins.

Kona hans var Helga Benediktsdóttir skálds Sveinbjarnarsonar Gröndal. Þau áttu tvo syni.

Minnisvarðinn stendur við Sólvang í Hafnarfirði og er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.


Heiðursvarðar í skógarlundum í Hafnarfirði

Brautryðjendur
Brautryðjendur

Minnisvarðinn stendur í Gráhelluhrauni, Hafnarfirði

Brautryðjendur

Til minningar um brautryðjendurna,
Þorvald Árnason, Jón Gest Vigfússon, Jón Magnússon í Skuld, sr. Garðar Þorsteinsson
sem unnu óeigingjarnt starf við skógrækt í Hafnarfirði.


Aðalheiður Magnúsdóttir (1914-1994) – Andrés Gunnarsson (1904-2003)
Aðalheiður og Andrés

Andrésarlundur

Í minningu hjónanna Aðalheiðar Magnúsdóttur og Andrésar Gunnarssonar.

Minnisvarðinn stendur í Andrésarlundi við Hvaleyrarvatn.


Björn Árnason (1928-2007)
Björn Árnason

Björnslundur

Til minningar um Björn Árnason bæjarverkfræðing og skógarbónda

Minnisvarðinn stendur í skógræktinni við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

 

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975)
Guðmundarlundur

Guðmundarlundur

Guðmundur Kristinn Þórarinsson (1913-1975) kennari
gróðursetti furulundinn.
Sumarið 1965 hóf Guðmundur gróðursetningu á stafafuru í Gráhelluhrauni og er þar nú þéttur skógur. Minningarskjöldur hans er á stórri hraunhellu við göngustíginn í miðjum skógræktarreitnum sem hann plantaði út. 

Minnisvarðinn er i Gráhelluhrauni


Hólmfríður Finnbogadóttir (1931-2019) – Reynir Jóhannsson (1927-2012)

Hólmfríður hóf störf hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar 1980, sat í stjórn og var formaður og síðan framkvæmdastjóri til 2013.

Afhjúpað á sjötíu ára afmæli Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2016.

Minnisvarðinn stendur við Kaldárselsveg í Hafnarfirði.

Hólmfríður Finnbogadóttir

Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson hófu skógrækt hér 1980.


Ingvar Gunnarsson (1886-1961)
Ingvar Gunnarsson

Til minningar um 
Ingvar Gunnarsson 
fyrsta formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

,,Árið 1930 hóf Ingvar Gunnarsson kennari við Barnaskóla Hafnarfjarðar gróðursetningu í Undirhlíðum en Litli-Skógarhvammur var girtur í ársbyrjun 1934. Sama vor hófu nemendur Barnaskóla Hafnarfjarðar ræktun Skólalundar undir stjórn Ingvars. Næstu árin plöntuðu börnin út mörg þúsund trjáplöntum, en starfinu lauk þegar fullplantað var í girðinguna fáum árum seinna. Skógrækargirðingin fékk lítið sem ekkert viðhald en 1942 gerði bæjarstjórnin samning við Fjáreigendafélag Hafnarfjarðar um sumarbeit innan bæjargirðingarinnar. Fjáreigendur tóku að sér að annast viðhald allra girðinga í upplandinu, en þrátt fyrir samninginn töldu þeir sig ekki hafa efni á að viðhalda skógræktargirðingunni. Hákon Bjarnason skógræktarstjóri ritaði bæjarstjóra bréf  1948 og óskaði eftir því að girðingin væri endurnýjuð. Sumarið áður hafði sauðfé gert sig heimakomið í Skólalundi og skemmt birkikjarrið mikið og bitið stöku skógarfurur og grenitré.
Þann 25. júní 2005 fór fram táknræn athöfn í Undirhlíðaskógi þegar 75 trjáplöntur voru gróðursettar í Skólalundi til að minnast 75 ára afmælis Skógæktarfélags Íslands og að 75 ár voru liðin frá því að Ingvar Gunnarsson gróðursetti þar fyrstu trén.” [Undirhlíðar]

Minnisvarðinn stendur í Skólalundi í Undirhlíðum


Jónas Guðlaugsson (1929-2009)
Jónas Guðlaugsson Hafnarfjörður

Í minningu Jónasar Guðlaugssonar

Vinabæjarfélagið Cuxhaven – Hafnarfjörður.

Jónas Guðlaugsson fæddist á Guðnastöðum í Austur-Landeyjum 21. apríl 1929 og lést 30. júlí 2009. Jónas var ekki nema 13 ára þegar hann setti upp vindmyllu við heimili sitt sem var tengd rafgeymi og lagði rafmagn í bæinn. Það kom engum á óvart þegar hann hóf nám í rafvirkjun á Selfossi og seinna í Reykjavík. Hann hélt síðan til Hamborgar í Þýskalandi til að læra rafmagnstæknifræði og lauk prófi árið 1959. Á Þýskalandsárunum kynntist hann Dórótheu Stefánsdóttur frá Siglufirði og gengu þau í hjónaband og eignuðust fjögur börn.

Jónas starfaði við raflagnateikningar eftir að hann sneri aftur heim til Íslands og var verkstjóri á teiknistofu Rafmagnsveitu Reykjavíkur í eitt ár en kenndi einnig við Iðnskólann á Selfossi áður en hann réðst sem tæknifræðingur til Rafveitu Hafnarfjarðar árið 1962. Þar gat hann sér gott orð og var gerður að rafveitutstjóra árið 1969. Hann var rafveitustjóri til ársins 1999 þegar hann lét af störfum.

Föstudaginn 6. júlí komu nokkrir félagar úr Vinabæjarfélaginu Cuxhaven – Hafnarfjörður ásamt nokkrum góðum gestum frá Þýskalandi saman í Cuxhaven lundinum við Hvaleyrarvatn. Tilgangur samfundarins var afhjúpun minningarskjaldar um Jónas Guðlaugsson fyrrverandi rafveitustjóra og formann félagsins til margra ára. Ekkja Jónasar Dóróthea Stefánsdóttir afhjúpaði skjöldinn sem komið var fyrir á látlausum steini sem er skammt frá minningarsteini um Rolf Peters, en þeir voru miklir mátar. Að afhjúpun lokinni voru gróðursett 30 tré sem Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gaf til minningar um Jónas, en hann var alla tíð dyggur stuðningsmaður Skógræktarfélagsins. Síðan héldu allir viðstaddir í Selið, höfuðstöðvar Skógræktarfélagsins, þar sem bornar voru fram veitingar. (Cuxhaven-lundur)

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Jónas Guðlaugsson Hafnarfjörður

Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson (1914-1996)
Ólafur Vilhjálmsson

Ólafslundur
Ólafur Tryggvi Vilhjálmsson
(1914-1996) var einn af stofnendum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Hann var kjörinn í varastjórn á stofnfundinum og starfaði með félaginu alla tíð. Hann tók við formennsku árið 1965 og gegndi þeirri stöðu lengst allra eða í 24 ár. Hann var vakinn og sofinn í starfinu og fáir einstaklingar hafa lagt eins mikið af mörkum við ræktunarstarfið og hann. Ólafur var útnefndur heiðursfélagi á 45 ára afmæli félagsins 1991, en tveimur árum fyrr hafði hann látið af formennskunni eftir áratuga farsælt starf. Á ýmsu gekk í formannstíð Ólafs og félagið varð fyrir nokkrum áföllum. Með þrautseigju sinni, æðruleysi og dugnaði tókst Óla Villa að færa alla hluti til betri vegar. Til að minnast þessa mæta forystumanns var útbúinn fjölbreyttur skógarreitur í suðausturhlíðum Húshöfða, sem nefndur er Ólafslundur. Þar stendur minningarsteinn Ólafs Tryggva Vilhjálmssonar.

Ólafur fæddist í Hafnarfirði 17. desember 1915 í Illugahúsi (Kóngsgerði) í vesturbæ Hafnarfjarðar. Hann var lengst af starfsævinni leigubílstjóri og bjó ásamt fjölskyldu sinni að Bólstað í Garðabæ. Ólafur var einn helsti hvatamaður að stofnun Skógræktarfélags Garðabæjar.


Rolf Peters
Rolf Peters Hafnarfjörður

Jónas Guðlaugsson og Rolf Peters frá Cuxhaven áttu mikinn þátt í þeim góðu samskiptum sem mynduðust milli vinabæjanna Hafnarfjarðar og Cuxhaven í Þýskalandi eftir að stofnað var til þeirra árið 1988. Þetta leiddi til þess að árið 1993 var stofnað félag í Hafnarfirði um vinabæjarsamstarfið og tók Jónas strax sæti í stjórn félagsins. Hann var formaður félagsins á árabilinu 1999 til 2007 og voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á heimili hans og Dórótheu Stefánsdóttur. Jónas var jafnan í fararbroddi þegar gesti frá Þýskalandi bar að garði og sá til þess að þeir nytu þess besta sem Hafnarfjörður hafði upp á að bjóða. Þegar Jónas ákvað að láta af stjórnarsetu vegna heilsufarsástæðna árið 2007 voru þau hjón gerð að heiðursfélögum í Vinabæjarfélaginu. Þetta var ekki eina viðurkenningin sem Jónasi hlotnaðist því borgaryfirvöld í Cuxhaven veittu honum heiðursorðuna ,,Schloss Ritesbüttel“ árið 2002 og Johannes Rau forseti Þýskalands sæmdi hann heiðursorðunni ,,Das Verdienstkrauz 1. Klasse“ árið 2003. (Cuxhaven-lundur)

Minnisvarðinn er í Cuxhaven-lundi við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði

Rolf Peters Hafnarfjörður

Í minningu Rolf Peters

Vinabæjarfélagið Cuxhaven – Hafnarfjörður


Systkinalundur
Systkinalundur Hafnarfirði

Minningarlundur

Gunnlaugs Kristmundssonar,
Ingibjargar Kristmundsdóttur og
Guðmundar Kristmundssonar.

Þau systkinin voru fædd á Haugi í Núpsdal í Miðfirði en fluttust síðar öll til Hafnarfjarðar. Hélt Ingibjörg heimili með Gunnlaugi þar í bæ en síðar með Guðmundi í Sveinskoti á Hvaleyri. Sandgræsluvörður var Gunnlaugur skipaður árið 1907 og gegndi síðan því starfi í 40 ár, en sandgræðslustjóraembættið var ekki formlega stofnað fyrr en 1942. [Mbl. 28/6/1989]

Minnisvarðinn var afhjúpaður árið 1989 og stendur hann í skógarlundi við Hvaleyrarvatn, sem við þau systkinin er kenndur og kallaður Systkinalundur.
Minnisvarði um Gunnlaug Kristmundsson er einnig í Gunnarsholti.


Trjálundur Lions
Lions Hafnarfirði

Trjálundur Alþjóðasamtaka Lions 
Lions Clubs InternationalFundur alþjóðastjórnar Lions haldinn á Íslandi í apríl 2019Guðrún Yngvadóttir alþjóðaforseti Lions 2019 Minnisvarðinn stendur við Kaldárselsveg.


Vatnshlíðarlundur
Hjálmar R. Bárðarson
Vatnshlíðarlundur

Til minningar um hjónin 
Hjálmar Rögnvald Bárðarson siglingamálastjóra
og Else Sörensen Bárðarson.
Þau gáfu hluta eigna sinna til landgræðsluskógræktar, þar sem áður var lítt gróið bersvæði.
Með virðingu og þökk
Landgræðslusjóður 2012.

Lundurinn er í hlíðinni vestan Hvaleyrarvatns