Minnisvarðar á Norðurlandi

Strandir

Hólmavík

Spánverjavígin
Spánverjavígin
 

Reist árið 2015 í minningu baskneskra hvalfangara, 31 talsins, sem drepnir voru árið 1615, ,,hverjir sín skip brutu í einum firði nærri Trékyllisvík fyrir ís og veður nóttina fyrir S. Mattheusmessu, 21. september, en síðan eftir það þá voru þeir afslegnir af stríðsfólki bóndans Ara Magnússonar í [Ögri], sem staddir voru fimm í Æðey en 13 á Sandeyri, en áður nokkru fyrri voru menn af öðrum tveimur bátum sama skips afslegnir í Dýrafirði, utan einn skyldi þar hafa afkomizt […]. Hlýði nú þeir sem vilja, en hinir gangi frá sem ekki girnast.”

(Jón lærði Guðmundsson: Sönn frásaga af spanskra manna skipbrotum og slagi).

Minnisvarðinn stendur við Galdrasafnið á Hólmavík.

Hermann Jónasson (1896-1976)
Hermann Jónasson

 

Hermann Jónasson 
 F. 25.12.1896 – d. 22.1.1976

Þingmaður Strandamanna 1934-1959, Vestfirðinga 1959-1967.
Að hugsa ekki í árum, en öldum
Að alheimta ei daglaun að kvöldum
– því svo lengist mannsævin mest.
St.G.St.

Reist af Strandamönnum 1979
með virðingu og þökk.

Minnisvarðinn stendur rétt utan við Hólmavík.

Hermann Jónasson

Húnavatnssýslur

Hjaltabakki
Hjaltabakki
 

Kirkju er fyrst getið á Hjaltabakka um 1318 og var hér prestssetur um aldir.
Ný kirkja var vígð á Blönduósi 1895 og grafreitur árið 1900. Gamla kirkjan var þá rifin en sléttað yfir grafreitinn um miðja 20. öld.

Minnisvarðinn var reistur árið 2011 og stendur í túninu á Hjaltabakka þar sem gamla kirkjan og kirkjugarðurinn voru.

Landpóstar
Landpóstar
 
Minnisvarði um landpósta
Minnisvarði um landpóstana svokölluðu var afhjúpaður á Stað í Hrútafirði 13. maí síðastliðinn að viðstöddu fjölmenni. Athöfnin hófst með ávarpi póst- og símamálastjóra, í kjölfarið fylgdu ræður og ljóðalestur, frumflutt var tónverk og loks var minnisvarðinn afhjúpaður.

Í upphafi athafnarinnar ávarpaði póst- og símamálastjóri, Ólafur Tómasson, viðstadda. Þá flutti Indriði G. Þorsteinsson minni landpósta. Kristjana Emilía Guðmundsdóttir flutti frumort ljóð um landpóstana og frumflutt var tónverk fyrir þrjú blásturshljóðfæri eftir Gunnar Reyni Sveinsson. Að því búnu afhjúpaði Halldór Blöndal samgönguráðherra minnismerkið.

Samkvæmt heimildum póst- og símamálastofnunar var reglugerð um póstsamgöngur á Íslandi gefin út árið 1776 og hófust slíkar samgöngur milli Norður- og Suðurlands árið 1783. Til póstferðanna völdust einbeittir menn og hraustir og voru þeir jafnt þekktir fyrir skyldurækni sem dugnað. Fluttu þeir bæði bréf og peninga. Spunnust margar sagnir af hreysti þeirra en aldrei fór sögum af eiginlegum póstræningjum. Eina kunnuga dæmið er frá 1809 og segir frá viðskiptum Hallgríms Jónssonar, sem þá átti leið suður, og Jörundar Hundadagakonungs sem kvað hafa rænt Hallgrím.

Staður í Hrútafirði var um árabil stærsta póstmiðstöð í sveit á Íslandi og var minnismerkið reist að áeggjan Staðarbræðra, Magnúsar og Eiríks Gíslasona, í samvinnu við Póst og símamálastofnun. Grímur Marinó Steindórsson myndhöggvari var síðan fenginn til þess að gera hugmyndina að veruleika. 

Minnisvarðinn stendur við Staðarskála í Hrútafirði og var afhjúpaður árið 1993, fyrst við gamla Staðarskála, en var fluttur þegar nýi Staðarskáli var opnaður.

Landpóstar
Fyrstu kristniboðarnir
 
Þeir voru kjörnir til samvinnu. Hreysti Þorvalds og hugprýði vakti virðingu heiðingja fyrir kristniboðinu, en Friðrik biskup var það höfuð og höndin, sem stýrði og má þakka viturleik hans og þolinmæði að þeir gátu verið hér úti í full 5 ár. Við trúnni var tekið af lýði innan 15 ára frá burtför þeirra úr Húnaþingi.
 
Gullsteinn og minnisvarðinn standa við Stóru-Giljá í V-Húnavatnssýslu.
Gullsteinn
Gullsteinn
Ásdís Bárðardóttir á Bjargi í Miðfirði
Ásdís á Bjargi
Grettir á Bjargi

 Ásdís Bárðardóttir á Bjargi í Miðfirði

Lágmyndir eru eftir Halldór Pétursson.

Tilvitnanir í Grettissögu eru á lágmyndunum:

,,Nú fari þit synir mínir tveir, og mun ykkarr samdauði tegask, og má engi renna undan því sem honum er skapat. Mun ek hvárigan ykkar sjá sinni síðan. Látið nú eitt yfir ykkr ganga.”

,,Mundut síðr en sauðir, sýrar graps, fyri dýri. Komit es norðr af Njörðum nýtt skaup, á sjá hlaupa, ef styrviðir stæði, stála Freyr í eyju. Verit hefk lofs of lýði létt, ósjúkan Gretti.” 

,,Þau tíðkast nú hin breiðu spjótin”

,,Sverð þetta átti Jökull föðurfaðir minn, ok inir fyrri Vatnsdælar, og var þeim sigrsælt. Vil ek nú gefa þér sverðit, og njót vel”.

Minnisvarðinn stendur við Bjarg í Miðfirði

 

Bríet Bjarnhéðinsdóttir (1856-1940)
 
Hér fæddist Bríet Bjarnhéðinsdóttir 27. september 1856.
Stofnandi og fyrsti formaður Kvenréttindafélags Íslands og brautryðjandi í kvennabaráttu á Íslandi.
Kvenréttindafélag Íslands.
 

Minnisvarðinn stendur við bæinn Haukagil í Vatnsdal

Einar, Friðrik og Guðmundur M. Björnssynir
 
Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu var stofnaður fyrir tilstilli bræðranna Einars, Friðriks og Guðmundar M. Björnssona.
Markmið sjóðsins er að rækta skóg í Húnavatnssýslum
… menning vex í skjóli nýrra skóga. Hannes Hafstein
 
Minnisvarðinn stendur í skógarlundi í Svartárdal, Austur-Húnavatnssýslu
Svartárdalur
Grímur Gíslason (1912-2007)
Veðurathugun

Grímur Gíslason 
Heiðursborgari Blönduósbæjar, bóndi og ættarhöfðingi, var félagsmálamaður, fræðimaður, veðurathugunarmaður og fréttaritari Ríkisútvarpsins.

Víðfræg var kveðja hans í lok fréttapistils í útvarpi:
,,Þetta er Grímur Gíslason sem talar frá Blönduósi”

 

Veðurspámaður

eftir Ásmund Sveinsson (12893-1982) myndhöggvara. Afsteypa.

Grímur Gíslason var heiðraður með afhjúpun styttunnar fyrsta vetrardag, 21. október 2006.

Bæjarstjórn Blönduósbæjar, vinir og vandamenn.

Styttan stendur framan við skólahúsið á Blönduósi.

Ingimundur gamli
 

Til minningar um Ingimund gamla fyrsta landnámsmann Húnvetninga – 895-1995

Minnisvarðinn stendur við Hof í Vatnsdal, ofan vegar.

Kvennaskólinn á Ytri-Ey 1883-1901
Ytri-Ey

Kvennaskólinn á Ytri-Ey 1883-1901

Í sálarþroska svanna
býr sigur kynslóðanna
og hvað er menning manna 
ef menntun vantar snót.  [MJ]

Kvennaskóli Húnvetninga, stofnaður árið 1879 á Ytri-Ey í Austur-Húnavatnssýslu. Árið 1883 voru kvennaskólar Húnvetninga og Skagfirðinga sameinaðir og skóli settur á Ytri-Ey, og var Elín Briem fyrir honum í tólf ár, eða til 1895.
Hinn nýi skóli var nefndur Kvennaskóli Húnvetninga og Skagfirðinga að Ytri-Ey, en í daglegu tali Ytrieyjarskólinn eða Kvennaskólinn á Ytri-Ey. Skólinn var að vísu sameign beggja sýslnanna, Skagfirðingar lögðu honum fé að jöfnu við Húnvetninga og skipuðu stjórn hans að hálfu. 

Brjóstmynd af Elínu Briem er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara. Lágmyndin af skólanum er eftir Jónas S. Jakobsson myndhöggvara. Minnisvarðinn stendur við Ytri-Ey á Skaga.

Elín Briem
Frú Elín Briem sjötug 18. október 1926
Ytri-Ey
Magnús Björnsson (1889-1963)

Magnús Björnsson var að mestu sjálfmenntaður og nýtur mikillar virðingar fyrir störf sín sem fræðimaður og sagnaritari. Eru bækur hans og sagnaþættir taldir með því betra sem út hefur komið af slíku efni.Voru þrjár bækur gefnar út með þáttum Magnúsar; Mannaferðir og fornar slóðir (1957), Hrakhólar og höfuðból (1959) og Feðraspor og fjörusprek (1965). Alls 64 þættir. Ellefu þættir til viðbótar voru gefnir út í húnvetnska ritsafninu en 20 prentaðir þættir til viðbótar hafa komið út í ýmsum ritum.

Minnisvarði um Magnús var afhjúpaður á Syðra-Hóli á aldarafmæli hans 30. júlí 1989.
Lágmyndin á varðanum er eftir Erling Jónsson myndhöggvara.

_MG_5563-e
Sigurður Jónasson (1863-1887)
Sigurður Jónsson

 

Sigurður Jónasson 1863-1887 frá Eyjólfsstöðum í Vatnsdal íslenskaði ,,On the Subjection of Women” Kúgun kvenna grundvallarrit í sögu kvenréttindabaráttunnar eftir enska heimspekinginn John Stuart Mill.

Minningarstöpull reistur árið 2015 á aldarafmæli kosningaréttar kvenna.

Sigurður Jónsson
Skafti Fanndal Jónasson (1915-2006)
Jóna Guðrún Vilhjálmsdóttir (1918-2003)
Skafti Fanndal Jónasson

 

Minnisvarði um heiðurshjónin frá Dagsbrún, 
Skafta Fanndal Jónasson, f. 25.5.1915 – d. 2.9.2006 og
Jónu Guðrúnu Vilhjálmsdóttur, f. 15.7.1918 – d. 13.7.2003

Blessuð sértu sveitin mín.

Minnisvarðinn stendur við kirkjuna á Skagaströnd.

Skafti Fanndal
Thomas J. Thomsen (-1877)
Thomas J. Thomsen

 

Thomas J. Thomsen
sá sem fyrstur byggði við Blönduós árið 1876.

Thomsen var kaupmaður og byggði íbúðarhús og verslunarhús á Blönduósi. 

Upphaf er til alls fyrst.

Thomsen var talinn norskur, því hann kom frá Bergen og flutti með sér fyrsta húsið sem byggt var á Blönduósi. Árið eftir lést hann af slysförum

Minnisvarðinn stendur við Blöndu á Blönduósi

Thomas J. Thomsen
Þórdís Ingimundardóttir (1895- )
Þórdís Ingimundardóttir

 

Þórdís dóttir Ingimundar gamla 
fæddist hér á Hörpu 895.

Húnvetningafélagið í Reykjavík græddi lund og reisti varða 1962.

Sunnan undir Vatnsdalshólum, vestan vegar, er Þórdísarlundur, skógarreitur sem Húnvetningafélagið í Reykjavík hefur ræktað og girt. Í Þórdísarlundi er minnisvarði um fyrsta innfædda Húnvetninginn, Þórdísi, dóttur Ingimundar gamla að Hofi. Enn þekkjast örnefni sem við hana eru kennd, Þórdísarholt þar sem hún fæddist að sögn Vatnsdæla sögu og Þórdísarlækur. 

Þórdís fæddist í sunnanverðum Vatnsdalshólum, þar sem nú er Þórdísarlundur, rétt eftir að skip föður hennar komu að landi og er hún því talin fyrsti Húnvetningurinn. Sonur Þórdísar var Þorgrímur Kornsárgoði og átti hann son einn, Þorkel kröflu, við ambáttinni Neireiði af ætt Orkneyjajarla. Þorgrímur lét bera sveininn út en Þorsteinn mágur hans á Hofi bjargaði barninu og kom því í fóstur. Þegar Þorkell krafla var tólf vetra var fundur sá er Vatnsdælir héldu til þess að velja sér goðorðsmann og þar vó Þorkell krafla nafna sinn, Þorkel silfra, og tryggði föðurnum sem hafði látið bera hann út, goðorðið. Fyrir það verk gekkst Þorgrímur Kornsárgoði við faðerninu.

Minnisvarðinn stendur í Þórdísarlundi í Vatnsdal.

Þórdísarlundur
Þórdísarlundur

 

1952  Þórdísarlundur  2002

Kristján Vigfússon og fjölskylda á Vatnsdalshólum gáfu Húnvetningafélaginu í Reykjavík þetta land til skógræktar. Þeim fjölmörgu sem lagt hafa hönd á plóginn í 50 ár eru þökkuð vel unnin störf.

,,Ok er þeir kómu at Vatnsdalsá þá mælti Vigdís, kona Ingimundar: ,,Hér mun ek eiga dvöl nokkurra, því at ek kenni mér sóttar.” Ingimundur svarar: ,,Verði þat at góðu.” Þá fæddi Vigdís meybarn. Hon var Þórdís kölluð. Ingimundur m ælti: ,,Hér sklal Þórdísarholt heita”. [Vatnsdæla saga]

Þarna leit hinn fyrsti innfæddi Vatnsdælingur dagsljósið.

Minnisvarðinn stendur í Þórdísarlundi í Vatnsdal

Þórdísarlundur

Hvammstangi - Vatnsnes

Sæfari
Minnisvarði

 

Öll eru gengin ævispor
dauði vill oss granda
mildur Drottinn minnstu vor
með tak þú vorn anda.

Agnar Jónsson Illugastöðum
17.3.1848 – 16.10.1875

 

Gefið af kvenfélagasambandinu og fleirum í Húnaþingi vestra til minningar um drukknaða sjómenn.

Hönnun og smíði: Árni Jóhannesson frá Syðri Þverá

Lagaritun
Lagaritun

Á Breiðabólstað í Vesturhópi að Hafliða Mássonar voru fyrst skráð lög á Íslandi.

Lögmannafélag Íslands reisti minnisvarða þennan á 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974. 

Stendur við Breiðabólstað í Vesturhópi

Guðmundur Bergþórsson (1657-1705)
 

Guðmundur Bergþórsson (1657-1705) rímnaskáld, fæddur á Stöpum á Vatnsnesi.

Með þessum minnisvarða er minnst þeirra alþýðuskálda sem með rímnakveðskap sínum studdu drjúgt að áhuga almennings á skáldskap og fróðleik. Guðmundur Bergþórsson er góður fulltrúi þessa hóps sem mikilvirkasta rímnaskáld sinnar tíðar, en eftir hann hefur varðveist fjöldi rímna-flokka og kvæða um margvísleg efni.

Minnisvarðinn er reistur árið 2010 af þremur kvæðamannafélögum, Gefjunni á Akureyri, Iðunni í Reykjavík og Vatnsnesingi á Vatnsnesi, og á einnig að minna á að kvæðahefð hefur lengi verið við lýði á Vatnsnesi. Einn þekktasti kvæðamaður lands, Jón Lárusson (1873-1959) bjó að Hlíð á Vatnsnesi og margir merkir kvæðamenn og -konur sem teljast með brautryðjendum í Kvæðamannafélaginu Iðunni voru einmitt upprunnir á Vatnsnesi.

Páll Guðmundsson á Húsafelli hjó í steininn sem tekinn var í fjörunni hér fyrir neðan. Á skiltinu sést skrift Guðmundar Bergþórssonar á Olgeirs rímum Danska í handritinu ÍB 190 4to sem varðveitt er á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.

Minnisvarðinn stendur við Stapa á Vatnsnesi.
Annar minnisvarði um Guðmund Bergþórsson er á Arnarstapa á Snæfellsnesi

Skagafjörður

Upplýsingar um minnisvarða í Skagafirði eru að nokkru leyti teknar úr riti sem tekið var saman af nemendum Varmahlíðarskóla í Skagafirði og heitir Minnisvarðar í Skagafirði og kom út árið 2005. Þar eru upplýsingar um 45 minnisvarða sem nemendur skólans tóku myndir af og rituðu upplýsingar um hvern og einn. Ritið er aðgengilegt á netinu.

Byggð í Óslandshlíð
Óslandshlíð
 
Átthagafélagið Geisli
 
Lifðu vel sveitin mín
lánið þér fagni.
Láti þér hamingjan
allt verða að gagni.
 
Á steininum eru taldir bæir í Óslandshlíð, á einni hlið þeir sem eru í byggð og aðra hlið þeir sem ekki eru lengur í byggð.

Steinninn stendur í Hlíðarlundi í Óslandshlíð.

_MG_0430-e
Farskólar
Farskólar

 

Farskólar

,, … Á stöku stað fléttaðist saman reglulegt barnaskólahald og farskólahald eins og hér í Óslandshlíð þar sem farskólahald hófst 1903 og lauk árið 1967 eftir að hafa staðið þar hvað lengst allrar farkennslu í landinu.
Fullyrða má að farkennslan markar fyrsta stóra framfarasporið í menntun fyrir alla alþýðu manna. Það er tæpast tilviljun að þessi þáttaskil haldist í hendur við upphaf mesta framfaraskeiðs þjóðarinnar í efnahagslegum skilningi og lokahnykkinn í sjáfstæðisbaráttunni sem í hönd fór.
Saga farkennslu á Íslandi hefur ekki verið skráð með heillegum hætti. Hún skipar hins vegar mikilvægan sess í skólasögunni og alþýðumenntun þjóðarinnar.” [Úr texta á minnisvarða]

Menntamálaráðuneytið og Átthagafélag Óslandshlíðar stóðu að gerð þessa varða sumarið 2004 til að minnast og þakka allt hið merka og góða starf sem unnið var á þessum vettvangi.
 
Minnisvarðann afhjúpaði Páll Pétursson ráðherra 31. ágúst 2002. Hann stendur í Hlíðarlundi í Óslandshlíð. [Minnisvarðar í Skagafirði, 2005.]
Farskólar
Hofsós
Hofsós

 

Hofsós

Minnisvarði um drukknaða sjómenn.

Minnisvarðinn er reistur í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því að mótorbáturinn Svanur SK fórst við Hofsós 9. nóvember 1959.
Með honum fórust;
Gísli V. Gíslason
Hafsteinn Friðriksson
Jón Friðriksson

Blessuð sé minning þeirra.

Minnisvarðinn stendur við höfnina á Hofsósi.

Drukknaðir Hofsósi
Húsmæðraskóli á Löngumýri
Ingibjög Jóhannsdóttir
 

Ingibjörg Jóhannsdóttir sendi minningarstein norður árið 1988 um stofnun Húsmæðraskólans á Löngumýri 1944. 

Steinninn stendur í garðinum á Löngumýri

Fallið
Fallið


Fallið

Eftir Heidda Snigil no. 10 (Heiðar Þórarinn Jóhannsson)

Til minningar um fórnarlömb mótorhjólaslysa.
Gefið af Sniglum – Bifhjólasamtökum lýðveldisins í tilefni 100 ára afmælis mótorhjólsins á Íslandi 2005.

Minnisvarðinn stendur í Varmahlíð í Skagafirði

_MG_2828-e
Flugusteinninn
Flugusteinn
 

Steinn þessi er tekin þar sem áður var Brimnesskógur og er til minningar um hryssuna Flugu, sem er eina hrossið er nafngreint er í fornum heimildum og frá skýrt að flutt var til Íslands. Fluga stökk frá borði í Kolbeinsárósi og týndist í Brimnesskógi en Þórir dúfunef keypti í henni vonina og fann hana síðar og nefndi Flugu. Reyndist Fluga kostagripur, allra hrossa fljótust á skeiði, og hafði sigur í fyrstu kappreiðum er sögur fara af og þreyttar voru suður á Kili, milli Dúfunefsfells og Rjúpnafells. [Texti á steininum]

Steinninn stendur við Vallhólma í Skagafirði

Hóftunga
Hóftunga

 

 Hóftunga

Í landi Vindheima eru Vindheimamelar en þar hafa verið haldin mörg hestamót. Fyrir Landsmót hestamanna 1990 var plantað trjálundi. Var hann vígður og gefið nafn af þáverandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur, sem kom norður og setti landsmótið. Í þennan trjálund var settur minnisvarði um komu Vigdísar.
Minnismerki þetta má finna austan við aðalkeppnisvöllinn og er hann gjöf frá sunnlensku hestamannafélögunum.

Aðrir sem lagt hafa hönd að verki við þennan skógarlund: 
Kaupfélag Skagfirðinga; Sauðárkrókskaupstaður; Skógræktarfélag Íslands; Skógræktarsjóður Skagfirðinga; Bekaert International Trade, Belgia.
[Minnisvarðar í Skagafirði, 2005]

Hóftunga
Ófeigur
Ófeigur
 

Til minningar um stóðhestinn Ófeig 882 frá Flugumýri
Fæddur 1974 – dáinn 1999

Hann markaði djúp spor í íslenskri hrossarækt.

Minnisvarðinn er á hlaðinu á Flugumýri í Skagafirði

Stígandi
Stígandi

Stígandi

Reiðhestur Jóns Péturssonar frá Valadal
1911-1931.

Stígandi var undan grárri hryssu á Hofsstöðum árið 1911. Hann var taminn fimm vetra og var rólegur fyrsta árið, en sjö vetra gamall var hann orðinn svo viljugur að hann var aðeins fyrir fullvana reiðmenn. Hann var sjálfráður en þegar ,,saman fór vilji hans og húsbóndans lagði hann fram meiri kosti en flestir hestar samtíða” (Stígandi (1995), bls. 163).

Stígandi var felldur 21 vetrar gamall á Skiphóli og heygður þar. Skiphóll er hóll skammt fyrir norðan Vindheimamela. Hestamannafélagið Stígandi sem stofnað var árið 1945 er nefnt eftir þessum eftirminnilega hvíta hesti. Flestir Skagfirðingar, sem einu sinni höfðu séð hann, geymdu hann í minni sínu löngu eftir að hann var felldur.

 

Sauðkindin
Hestur

 

Sauðkindin

Áður gaf það gæfu mesta
góða reka sauðahjörð.
Fólk með kindur hund og hesta
heldur niður Gönguskörð. 
(J.G.)

Sauðkindin hefur verið samofin landinu og búskaparsögu þjóðarinnar frá upphafi. Einn þáttur þessarar sögu, sem nú er aflagður, er rekstur á fjall að vori og í heimahaga að haustgöngum loknum.
Það er komið haust, göngum lokið og réttarstörf afstaðin. Safnið af Nesinu er rekið niður Skörðin gegnum Krókinn og er á leið austur Sandinn. Hann er léttstígur forystusauðurinn, sem rennur á undan síðasta spölinn í heimahagann eftir að hafa notið sumarsins á Skálahnúksdal og Tröllabotnum. 
Þetta er það sem var, nú aðeins minning þeirra, sem þarna voru þátttakendur.
Listaverkið er til að minnast þessa þáttar bænda í Hegranesi.
Steinninn er úr Miðmundaborg í landi Hellulands. Verkið er unnið af Einari Gíslasyni.
Lengi fyrna falinn auð
fósturland og saga
. (DS)
Ágúst 2005 [Texti á skildi]
 
Þessir minnisvarðar standa í Vallhólma, Skagafirði
_MG_9502-e
Minnisvarði um vegagerð
Vegagerð
 

Hér störfuðu Jörvi hf og Borgarverk hf
sumarið 1990.
Gæfa fylgi góðfúsum vegfaranda

Steinninn stendur við vegamót Norðurlandsvegar og vegar á Kjálka, skammt frá Silfrastöðum.

Minnisvarði um vegagerð
Vegagerð
 

Bundið slitlag
Reykjavík – Akureyri
september 1994

Vegagerðin

Stendur á Öxnadalsheiði

Örlygsstaðabardagi 1238
Örlygsstaðabardagi

 

Örlygsstaðabardagi 1238

Fjörbrot þjóðveldis
Örlygsstaðabardagi
21. ágúst 1238

Norska konungsvaldið efldist mjög alla 13. öldina, á valdatíma Hákonar gamla (1217-1263) og gafst góður friður til að styrkja innviði ríkisins og víkka það út. Hákon gerði sér far um að vingast við íslenska höfðinga og gerðust margir hirðmenn hans. Einn þeirra var ungur og metnaðarfullur höfðingi af Sturlungaætt, Sturla Sighvatsson, en ætla má að hann hafi gerst handgenginn konungi í utanferð sinni 1232-1235. Hann hitti Hákon í Túnsbergi 1234 og hefur verið í ráðagerðum þeirra að Sturla kæmi landinu undir konung. Skyldi Sturla reka íslenska höfðinga utan á fund konungs og hefur Hákon væntanlega ætlað að láta þá gefa upp ríki sín. Sturla byrjaði á því að hrekja föðurbóður sinni, Snorra Sturluson, úr landi. Því næst lagði hann til atlögu við Gissur Þorvaldsson af Haukadalsætt. Tókst Sturlu að handsama hann við Apavatn en Gissur slapp fljótlega úr haldi. Gissur myndaði bandalag við höfðingja Skagfirðinga, sem þá var Ásbirningurinn Kolbeinn ungi Arnórsson. Uppgjörið fór fram á Örlygsstöðum 21. ágúst árið 1238 í fjölmennustu orustu sem háð hefur verið í landinu, en Gissur og Kolbeinn höfðu á að skipa yfir 1600 manna liði gegn rúmlega 1200 manna liði þeirra feðga, Sturlu og Sighvats. Sturlungar urðu fyrir miklum hrakförum í orustu þessari en alls féllu 49 menn úr liði þeirra feðga, en 7 úr liði hinna. Meðal hinna föllnu voru þeir feðgar báðir og þrír aðrir synir Sighvats.
Í Sturlunga sögu segir að Sturla hafi búið um sig til varnar í gerði einu ,,það er heitir á Örlygsstöðum. Sauðahús stóð í gerðinu. En garðurinn var lágur svo það var öllu ekki vígi.” Enn má sjá menjar hringlaga gerðis á Örlygsstöðum og tóftir bygginga. Sumarið 2005 fór fram fornleifakönnun á staðnum þegar snið var tekið í gegnum gerðið og þess freistað að greina aldur þess út frá gjóskulögum. Ljóst er að garðurinn er hlaðinn eftir Heklugos árið 1104. Er líklega um menjar býlis að ræða, bæjarhól með vallargarði í kring. Það hefur þá verið komið í eyði er orustan var háð þar á staðnum en þjónað sem beitarhús. Minjarnar voru friðlýstar af þjóðminjaverði árið 1926.

Minnisvarðinn stendur á Örlygsstöðum

Örlygsstaðabardagi
Gísli Konráðsson (1787-1877)
Gísli Konráðsson
 

Gísli Konráðsson sagnaritari
1787-1877.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 1982 og stendur á hlaðinu í Glaumbæ í Skagafirði

Gísli Konráðsson
Guðmundur Arason (1161-1237)
Guðmundur Arason
 

Guðmundur Arason var biskup á Hólum 1203-1237

Minnisvarðinn er eftir Gunnfríði Jónsdóttur og stendur í jaðri skógarlundar fyrir ofan Hóladómkirkju

Guðríður Þorbjarnardóttir
Guðríður Þorbjarnardóttir


Guðríður Þorbjarnardóttir

landkönnuður á öndverðri 11 öld og ein víðförlasta kona þeirra tíma með soninn Snorra Þorfinnsson, fyrsta Evrópumanninn fæddan í Ameríku. Hann bjó í Glaumbæ og reisti kirkju þar.

Afsteypa af verki Ásmundar Sveinssonar ,,Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku” frá 1939.

Verkið stendur fyrir kirkjudyrum í Glaumbæ í Skagafirði.

Guðrún Sveinsdóttir (1890-1978)
Guðrún Sveinsdóttir
 
Guðrún Sveinsdóttir Bjarnastaðahlíð
f. 30. maí 1890 – d. 23. október 1978
Guðrún var einn af frumkvöðlum skagfirskrar skógræktar.
Hún starfaði sem barnakennari í Skagafirði um áratuga skeið,
og ásamt skólabörnum vann hún af mikilli atorku að gróðursetningu trjágróðurs.

Hún var ákaflega dugleg og sjálfstæð kona, fæddist einhent en þrátt fyrir fötlun sína
vann hún ötullega að skógræktarmálum, eftir hana liggur mikið ævistarf.
Varmahlíð 8. apríl 2003 – Skógræktarfélag Skagafjarðar.

Minnisvarðinn stendur í elsta hluta skógarins í Varmahlíð, sunnan við Laugarbrekku

Hermann Jónasson 1896-1976)
Hermann Jónasson

Hermann Jónasson forsætisráðherra
fæddur að Syðri-Brekkum 25.12.1896 – látinn 22.01.1976
Sveimhugi jafnan á sóldögum blíðum.
Sæll undir vorloftsins kór.
Leiðsögumaður í moldviðris hríðum
manndóms og átaka stór.
– Karl Kr.

Minnisvarða þennan reistu Framsóknarfélögin í Skagafirði og Framsóknarflokkurinn,

Vangamyndin er eftir Sigurjón Ólafsson.
Minnisvarðinn stendur við Syðri-Brekkur í Blönduhlíð, Skagafirði.

_MG_0361-e
Herselía Sveinsdóttir (1900-1983)
Herselía Sveinsdóttir
 
Herselía Sveinsdóttir frá Mælifellsá 1900-1983.
Skólastjóri í Lýtingsstaðahreppi 1942-1949 og Steinsstaðaskóla 1949-1965.
Minnisvarðinn var reistur af nemendum hennar 2002.

 

Minnisvarðinn stendur rétt ofan við gamla skólahúsið á Steinsstöðum

Hjálmar Jónsson (1796-1875)
Bólu-Hjálmar
Bólu-Hjálmar
 
Hjálmar Jónsson 1796-1875
 

Flest ég tætti tals í þætti
til miðnættis kröpin vóð.

Bólu-Hjálmar.

Minnisvarðinn stendur í trjálundi við heimreiðina að Bólu í Skagafirði. Lágmyndin og minnisvarðinn er eftir Jónas S. Jakobsson listamann.

Legsteinninn stendur í Miklabæjarkirkjugarði: 
Hjálmar Jónsson frá Bólu og
Guðný Ólafsdóttir kona hans 
Bólu-Hjálmar
Hrafna Flóki

 

Hrafna Flóki

Minnisvarða þennan reistu hjónin 
Herdís Á. Sæmundardóttir og Guðmundur Ragnarsson
árið 2012.

Hönnuður: Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson

Minnisvarðinn stendur í Flókadal í Fljótum en þar er sagt að Flóki Vilgerðarson hafi numið land er hann kom til Íslands öðru sinni.

Hrafna-Flóki
Ingibjörg Jóhannsdóttir (1905-1995)
Ingibjörg Jóhannsdóttir
 
Ingibjörg Jóhannsdóttir Löngumýri
f. 1. júní 1905 – d. 9. júní 1995
8. apríl 1933 var Skógræktarfélag Skagafjarðar stofnað að frumkvæði Ingibjargar. Hún var fyrsti formaður þess og vann alla tíð ötullega að gróðurmálum.
Eftirfarandi tilvitnun í blaðagrein eftir Ingibjörgu frá 1936 lýsir vel hugsjónum hennar:
,,Treystið sjálfum ykkur til þess að gjörast duglegir liðsmenn félagsins. Undir fjörbreyttum skoðunum ykkar er frjór jarðvegur sem getur fóstrað frækorn, sem íslenskar skrautjurtir geta sprottið upp af”.

Varmahlíð 8. apríl 2003.
Skógræktarfélag Skagafjarðar,

Minnisvarðinn stendur í ,,Gamla-Skógi” í Varmahlíð en það er elsti hluti skógræktarinnar fyrir neðan íbúðarhúsið í Laugarbrekku og norðan við Fagrahvol. [Minnisvarðar í Skagafirði]

Ingibjörg Jóhannsdóttir (1905-1995)
Björg Jóhannesdóttir (1899-1995)
Ingibjörg Jóhannsdóttir
 

Þessi trjálundur er gefinn til minnigar um 
Ingibjörgu Jóhannsdóttur, skólastjóra og
Björgu Jóhannesdóttur, kennara.

Frá nemendum Staðarfellsskóla 1943-44.

Lundurinn var gróðursettur við Löngumýri í Skagafirði
[Texti á steininum]

Ingibjörg Jóhannsdóttir (1905-1995)
Björg Jóhannesdóttir (1899-1995)
Ingibjörg Jóhannsdóttir
 
Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri
Björg Jóhannesdóttir kennari
Með virðingu og þökk
Nemendur Löngumýrarskóla

Ingibjörg fæddist á Löngumýri 1. júní 1905. Hún sótti námskeið í Húsmæðraskólanum í Reykjavík, námskeið í garðyrkju og síðar fór hún í Kennaraskólann. Ingibjörg var skólastjóri á Staðarfelli 1937-1944. Björg Jóhannesdóttir kom að Staðarfelli sem kennari haustið 1940 og eftir það fylgdi hún Ingibjörgu og studdi á allan hátt. Ingibjörg stofnaði húsmæðraskólann á Löngumýri 1944 og var skólastjóri þar til ársins 1967. Björg kenndi allan þann tíma sem Ingibjörg var skólastjóri. [Minnisvarðar i Skagafirði 2005]

Minnisvarðinn stendur í garðinum á Löngumýri, Skagafirði

Jón Arason (1484-1550)
Jón Arason

Turn Hólakirkju er minnisvarði um Jón Arason biskup á Hólum 1524-1550. Mósaik-verkið í turninum er eftir listamanninn Ferro sem síðar kallaði sig Erro (Guðmundur Guðmundsson)
Jón Arason
Jón Ósmann ( Jón Magnússon)(1862-1914)
Jón Magnússon
Jón Ósmann
 
Ferjumannsstarfið var þrotlaust erfiði og vossamt, heilu dagana og jafnvel næturnar líka, einkum á kauptíðum vor og haust, enda völdust til starfsins dugnaðarmenn, sumir nafnkunnir fyrir hreysti. Jón Magnússon frá Utanverðunesi er talinn hafa verið ferjumaður lengst allra á Íslandi, í nær 40 ár, frá unglingsárum til æviloka og nafnkunnastur allra ferjumanna. Hann tók sér nafn af Ósnum og kallaði sig Jón Ósmann, annálað hreystimenni sem segja má að lifað hafi og dáið ferjusiglingunum. Hann mótaðist af starfi sínu, varð sérstæður maður og minnisstæður þeim sem af honum höfðu kynni, þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Hann var ríflega tveggja metra maður á hæð og eftir því þrekvaxinn, tröllaukinn að burðum en barngóður og greiðasamur með afbrigðum. Sú veiðikló sem hann var á sel, fugl og fisk hafði hann iðulega gefið frá sér allann sinn dagsafla að kvöldi. Hann átti vinfengi ýmissa í framvarðarsveit íslenskrar þjóðar sem stefndi að sjálfstæði. Hannesi Hafstein ráðherra fannst mikið til um slíkan mann sem átti sér þá ósk heitsta að Ósinn yrði brúaður, þrátt fyrir að þá myndi hann missa starf sitt. Jón varð viðfangsefni rithöfunda og listamanna, s.s. Jóns Stefánssoar listmálara. Árið 1974 gaf Sýslunefnd Skagafjarðar út bók eftir Kristmund Bjarnason rithöfund á Sjávarborg um líf og starf Jóns. Hún nefndist Jón Ósmann ferjumaður.
Fjaran austan við ós Vestari-Héraðsvatna er afmörkuð klettavegg á annan veg, Vötnunum á hinn. Hana nefndi Jón Furðustrandir. Þar byggði hann skýli og hafðist við  löngum, oft sólarhringum saman, lifði að mestu á því sem náttúran gaf, veiddi sér til matar og hressti sig og vini sína stundum á Skudda úr Brúnku sinni, en þau orð notaði hann yfir drykk sem hann átti í brúnni flösku. Þessar aðstæðu mótuðu manninn að hátterni, viðhorfum og orðfæri. Kannski var Jón Ósmann persónugervingur ferjumannsins en hitt er þó trúlega nær sanni að enginn lifði ferjumannsstarfinu til sömu fullnustu og hann. Hann endaði líf sitt í fljótinu sem hann ferjaði yfir og barðist við í fjóra áratugi.
 
Listaverkið af Jóni Ósmann gerði Ragnhildur Stefánsdóttir og stendur það við Vestari-Ós Héraðsvatna.
Konráð Gíslason (1808-1891)
_MG_5257-e
Konráð Gíslason


Konráð Gíslason

Síðasti Fjölnismaðurinn
Fánaberi íslenskrar málhreinsunar
Konráði er eignuð ljóðlína Jónasar í kvæðinu Ísland:
Landið er fagurt og frítt 
og fannhvítir jöklanna tindar.
Eftir honum er höfð þessi einstaka staðhæfing:
Maður á aldrei að fyrigefa neinum neitt.
Rotaryklúbbur Sauðárkróks reisti varðann 4. janúar 2011
 

Konráð Gíslason (3. júlí 1808 – 4. janúar 1891) var íslenskur málfræðingur og einn Fjölnismanna. Hann var fæddur á Löngumýri í Skagafirði og var elsta barn hjónanna Gísla Konráðssonar sagnaritara og konu hans, Efemíu Benediktsdóttur. Hann fékk einhverja tilsögn hjá séra Jóni Konráðssyni og dóttur hans en naut engrar annarrar skólagöngu, gætti sauða föður síns á vetrum og sat yfir fé á sumrum.

Þegar hann var á átjánda ári fór hann suður til sjóróðra og vann um sumarið við grjóthleðslu á Álftanesi fyrir Hallgrím Scheving, kennara við Bessastaðaskóla, en Gísli faðir hans hafði látið hann prófa kunnáttu Konráðs tveimur árum áður. Brátt fór Hallgrímur að kalla vinnumanninn inn úr grjóthleðslunni og láta hann bera saman íslensk fornrit með sér og las síðan með honum latínu. Svo fór að Hallgrímur tók Konráð upp á sína arma, útvegaði honum ölmusu (skólastyrk) þegar hann hóf nám í Bessastaðaskóla, hafði hann í vinnu hjá sér á sumrin og með skólanum og styrkti hann á ýmsan hátt. Vorið 1831 lauk Konráð námi, sigldi til náms við Kaupmannahafnarháskóla um haustið og kom ekki aftur til Íslands.

Hann hóf nám í lögfræði en fljótlega náði áhugi hans á norrænum fræðum og íslenskri tungu yfirhöndinni. Þeir Jónas Hallgrímsson, Brynjólfur Pétursson og Tómas Sæmundsson voru skólabræður hans úr Bessastaðaskóla og í Höfn og 1834 stofnuðu þeir tímaritið Fjölni og gáfu fyrsta tölublað þess út ári síðar. Konráð vildi laga íslenska stafsetningu að framburði og innleiddi nýja stafsetningu í öðrum árgangi Fjölnis en hugmyndir hans á því sviði náðu aldrei fótfestu og hann hvarf frá henni síðar. Áhrif hans á íslenskt ritmál urðu þó mikil.

Konráð varð styrkþegi Árnasafns 1839 og vann næstu ár að orðabókargerð og rannsóknum á íslensku máli. Hann var brautryðjandi í íslenskri orðabókargerð, samdi meðal annars Danska orðabók (1851) og átti mikinn þátt í íslensk-enskri orðabók sem kennd er við R. Cleasby og Guðbrand Vigfússon. Hann rannsakaði fornmálið og gerði fyrstur grein fyrir muninum á íslensku fornmáli og nútímamáli í ritinu „Um frumparta íslenzkrar túngu í fornöld“ (1846). Þá gaf Konráð út fornrit, meðal annars Njálu (1875-1889) þar sem hann valdi saman texta úr ólíkum handritum eftir því sem honum þótti fara best.

Árið 1846 var honum veitt kennarastaða við Lærða skólann sem hann hafnaði þó stuttu seinna, enda hafði hann þá fengið vilyrði um kennarastöðu í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Það embætti fékk hann 1848 og var gerður að prófessor 1853. Hann hélt þeirri stöðu til 1886.

Dönsk unnusta Konráðs dó 1846, skömmu fyrir fyrirhugað brúðkaup þeirra, og tók hann lát hennar mjög nærri sér. Níu árum síðar giftist hann systur hennar og bjuggu þau saman þar til hún lést árið 1877. Hann arfleiddi Árnasafn að eignum sínum og handritum eftir sinn dag. [Wikipedia]

Brjóstmynd Konráðs gerði Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson. Minnisvarðinn stendur við brú yfir Héraðsvötn ekki langt frá Löngumýri.

Pálína Konráðsdóttir (1899-1992)


Til minningar um Pálínu Konráðsdóttur síðasta ábúanda á Skarðsá
f. 6.2.1899 – d. 30.11.1992

Hinn rammi safi rennur frjáls í gegnum rót er stóð í sinni moldu kyr.   J.H.

Guðmundur Þór Guðmundsson, Miklagarði, hannaði minnisvarðann. Hreppsnefnd Staðarhrepps lét reisa hann og var hann vígður 10. október 1999.

Pálína Konráðsdóttir fæddist á Skarðsá og bjó fyrst með föður sínum. Eftir að hann dó bjó hún þar einsömul þangað til hún þurfti að fara á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki vegna heilsubrests og fyrir aldurs sakir. [Minnisvarðar í Skagafirði]

Minnisvarðinn stendur við Skarðsá í Sæmundarhlíð

Pálína Konráðsdóttir
Reynistaðabræður


Minnisvarði um Reynistaðabræður
vígður 26. ágúst 2018
Bygging þessa minnisvarða er tileinkuð 100 ára ártíð foreldra okkar, hjónanna 
Guðrúnar Steinsdóttur f. 4.9.1916 og 
Sigurðar Jónssonar, f. 4.9.2017 bænda á Reynistað.
Saga Reynistaðabræðra hefur alla tíð fylgt staðnum og ábúendum hér og mun svo vera um ókomin ár.
Núverandi Reynistaðabræður.

Til minningar um Reynistaðabræður:
Einar Halldórsson 11 ára og Bjarna Halldórsson 19 ára  Þeir urðu úti á Kili snemma vetrar 1780 í fjárkaupaferð á Suðurland.

Minnisvarðinn stendur í hlaðinu á Reynistað í Skagafirði

Reynistaðabræður
_MG_0484-e
Sigurður Jónasson (1910-1978)

Sigurður Jónasson skógarvörður á Norðurlandi vestra 1947-1978.
Þakkir fyrir margháttuð störf til eflingar trjá- og skógræktar í umdæminu.

Þennan stein reistu Skógrækt ríkisins, Héraðsnefnd Skagfirðinga, Skógræktarfélag Skagfirðinga.

Þegar uppeldi plantna í Varmahlíð hófst á vegum skógræktarnefndar Skagafjarðarsýslu árið 1944 var Sigurður Jónasson ráðinn til að annast það. Fyrstu plönturnar voru afhentar árið 1947 en árið 1950 tók Sigurður við starfi skógarvarðar á Norðurlandi vestra þegar Skógræktin tók við landinu á Reykjarhóli og gróðrarstöðinni. Sigurður gegndi starfinu til dauðadags árið 1978. Hann getur með réttu kallast faðir skógræktar í Skagafirði. Honum tókst að þróa aðferðir í plöntuuppeldi í Varmahlíð og Laugabrekku við mjög erfiðar aðstæður svo að árangur varð smám saman góður. Hann færði hinum mörgu eigendum skógarreita í Skagafirði og Húnavatnssýslum trjáplöntur heim í hlað og leiðbeindi þeim með gróðursetningu. Aðferð hans til þess að hlífa trjáplöntunum við hinum mikla vexti snarrótarpunts var að gróðursetja þétt til að kæfa grasvöxtinn sem kallaði á grisjun skógarins síðar. Vegna þessa uxu upp hinir mörgu trjálundir við sveitabæi á svæðinu sem nú blasa við, auk skóganna á Reykjarhóli og Hólum í Hjaltadal. 
Sigurður Jónasson
Skúli Magnússon (1711-1794)


Skúli Magnússon
landfógeti
Sýslumaður Skagfirðinga 1737-1750

Skúli var fæddur að Keldunesi í Norður-Þingeyjarsýslu 12. des 1711. Föðurætt Skúla er runnin frá Skagafirði en langafi hans var Skúli Magnússon, prestur í Goðdölum. Skúli Magnússon yngri var sýslumaður Skagfirðinga frá 14. apríl 1737-1750. Merkasta umbótamál sem Skúli beitti sér fyrir á
sýslumannsárum sínum er án efa samþykkt um sumarbeit hrossa en hún var gerð við Vallalaug 13. maí 1739. 

Við suðausturhorn gamla torfbæjarins á Stóru-Ökrum er minnisvarði um Skúla Magnússon sem bjó á Stóru-Ökrum þegar hann var sýslumaður í Skagafirði. Enn standa tvær af sex bæjarburstum torfbæjarins sem Skúli byggði upp þegar hann settist að á Stóru-Ökrum. Það var
Sýslunefnd Skagafjarðar sem lét reisa Skúla minnisvarðann sem stendur við Stóru-Akra í Blönduhlíð,

Steinn Leó Sveinsson (1886-1957) 
Guðrún S. Kristmundsdóttir (1892-1978)
 

Minnisvarði um hjónin á Hrauni,
Stein Leó Sveinsson, f. 17. janúar 1886 – d. 27. nóvember 1957 og
Guðrúnu S. Kristmundsdóttur, f. 12. október 1892 – d. 24. október 1978.
Þau hófu búskap á Hrauni 1914 og bjuggu þar til æviloka.
Þau eignuðust 12 börn, 11 komust upp og náðu háum aldri.

Minnisvarðinn var afhjúpaður á Niðjamóti Hraunsættarinnar
sem haldið var í Skagaseli 28. júní 2003. Hann stendur við Hraun á Skaga.


Minning

Sólin hneig að hafsins brún
húma fór um Skaga.
Sóley gyllti grund og tún
geymum liðna daga

Út við hafið ysta þitt
aldrei kyrrðin dvínar.
Hafðu gamla Hraunið mitt
hjartans þakkir mínar.

Höf. Svanhildur Steinsdóttir

Stephan G. Stephansson (1853-1927)

Stephan G. Stephansson
Stephan G. Stephansson

Stephan G. Stephansson
,,Klettafjallaskáldið”
Stefán Guðmundur Stefánsson fæddist árið 1853 á Kirkjuhóli ofan við Víðimýri í Skagafirði og ólst þar upp fram um 1860 er fjölskylda hans fluttist að Syðri-Mælifellsá. Þaðan fluttist hún að Víðimýrarseli árið 1862 og átti heima þar til vors 1870. Þá fóru foreldrar hans byggðum að Mýri í Bárðardal. Stefán var vinnumaður að Mjóadal í sömu sveit uns leið hans lá til Wisconsin í Kanada árið 1873. Þar bjó hann til 1880 er hann fluttist suður í Garðabyggð, í Norður-Dakota í Bandaríkjunum. Árið 1889 settist hann að í Alberta í Kanada og bjó í Íslensdingabyggðinni hjá Markerville vestur við Klettafjöll fram á elliár.
Að loknum vinnudegi bóndans fékkst Stefán við ljóðagerð og önnur ritstörf. Hann orti ætíð á Íslensku og er eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar.


Stephan G. Stephansson
,,Klettafjallaskáldið”

Stefán fæddist þann 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson. Talað er um annan fæðingardag eða jafnvel fæðingarstað í sumum heimildum en það á rætur sínar að rekja til þess að presturinn sem skírði hann í Víðimýrarkirkju fór ekki rétt með í kirkjubókinni. Til fimmtán ára aldurs bjó Stefán í Skagafirði, en fluttist þá í Þingeyjarsýslu og starfaði þar sem vinnumaður. Hann bjó þar allt til þess er hann fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum og systur árið 1873, þá að verða tvítugur. Í fimm ár bjó hann í Wisconsinfylki í Bandaríkjunum og kvæntist sama ár og hann flutti þaðan náfrænku sinni, Helgu Sigríði Jónsdóttur. Þau áttu saman átta börn, en sex þeirra komust upp.

Næst bjó Stefán að Görðum í Norður-Dakóta, í tíu ár. Þar lést faðir hans, en Stefán sá fyrir foreldrum sínum á meðan þau lifðu. Árið 1889 fluttist hann síðan til Albertafylkis í Kanada og bjó þar til dauðadags, en Stefán lést þann 9. ágúst árið 1927, næstum 74 ára.

Fyrstu ár Stefáns í Vesturheimi vann hann t.d. við járnbrautalagningu og skógarhögg en hætti því upp úr fertugu og einbeitti sér að búskapnum. Hann afrekaði það sem bóndi að nema land þrisvar og virðist hafa farist það vel úr hendi. Í Wisconsin kallaði Stefán sig Stefán Guðmundsson en í Dakóta var hann skrifaður Stefansson. Þetta leiddi til þess að bréf hans rugluðust við bréf annarra Stefanssona svo Stefán tók upp nafnið Stephan G. Stephansson sem hann varð þekktur undir.

Hús Stefáns og Helgu í Alberta stendur enn á heimilisjörð fjölskyldunnar, skammt frá þorpinu Markerville. Húsið (Stephansson House) hefur verið gert upp og í dag er það sögustaður á vegum Albertafylkis (Alberta Provincial Historic Site). Á sumrin (maí-ágúst) er það opið almenningi.

Stephan G. Stephansson

Komstu, skáld, í Skagafjörð,
þegar lyng er leyst úr klaka-
laut og yfir túnum vaka
börnin glöð við gróðurvörð …

Stephan G. Stephansson

Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfoss og hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!

Stephan G. Stephansson

Minnisvarði um Stephan G. Stephansson var reistur á Arnarstapa í Skagafirði árið 1953, í tilefni af aldarafmælis skáldsins. Þann 19. júlí 1953 var minnisvarðinn afhjúpaður að viðstöddu miklu fjölmenni í góðu veðri. Ríkarður Jónsson myndhöggvari var fengin til að gera hugmyndir um minnisvarðan og hannaði hann og gerði lágmyndir á varðann. 

Sveinn Guðmundsson (1922-2013)
Sveinn Guðmundsson


Sveinn Guðmundsson

f. 3. ágúst 1922 – d. 29. maí 2013
Til minningar um einn fremsta hestamann og ræktanda íslenska hestsins.

Hestamannafélag Skagfirðinga, Hrossaræktarsamband Skagfirðinga, Sveitarfélagið Skagafjörður

Sveins Guðmundssonar heiðursborgara á Sauðárkróki er einkum minnst fyrir brautryðjendastarf á sviði hrossaræktar í landinu enda má rekja flest af bestu kynbótahrossum landsins til hans ræktunar. Fyrir störf sín að ræktun íslenska hestsins var Sveinn sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og Landssamband hestamannafélaga gerði hann að heiðursfélaga fyrir störf sín í þágu íslenska hestsins.

Þá var Sveinn formaður hestamannafélagsins Léttfeta í áratugi og gerður að heiðursfélaga þar eftir að hann lét af störfum en að félagsmálum hestamanna í Skagafirði var Sveinn mikilsvirtur. Þá veitti Rótarýsamtökin Sveini viðurkenningu fyrir störf sín í hrossarækt.

Árið 1997 var Sveinn gerður að heiðursborgara Sauðárkróks en þar bjó hann alla sína ævi, fæddur 3. ágúst 1922, sonur Guðmundar Sveinssonar og Dýrleifar Árnadóttur.

Minnisvarðinn stendur við skeiðvellina á Hólum í Hjaltadal

Sveinn Guðmundsson
Sölvi Helgason (1820-1895)
Sölvi Helgason


,,Ég er djásn og dýrmæti 
Drottni sjálfum líkur”.

Sölvi Helgason f. 16. ágúst 1820 á Fjalli í Sléttuhlíð
d. 20. október 1895 á Ystahóli í sömu sveit.
Hann var flakkari, listamaður og heimspekingur á Íslandi á 19. öld. Sölvi missti foreldra sína ungur, var vistaður á mörgum bæjum og fór svo að flakka um landið. Sölvi var dæmdur nokkrum sinnum fyrir flakk, fölsun á reisupassa eða vegabréfi og smáþjófnað. Hann var oft hýddur og var í þrjú ár í fangelsi í Danmörku. Til eru yfir hundrað myndir eftir Sölva og þónokkuð af handritum. [Wikipedia]

Ég sé Sölva Helgason fyrir mér þar sem hann situr á skýjahnoðra yfir Sléttuhlíð í Skagafirði. Augu hans flökta en staðnæmast við minnisvarðan í Lónkoti. Rósin þín og styttan mynna okkur á að einu sinni fyrir löngu var förumaður á Íslandi sem lifði í eigin heimi. Hann reyndi að opna augu samferða fólks síns á sjálfum sér í máli og myndum. Engin skildi hann fyrr en eilífðin hafði sléttað yfir sporin hans.”  -GT

Minnisvarðinn sem er eftir Gest Þorgrímsson, stendur við bæinn Lónkot í Sléttuhlíð, Skagafirði.

Sölvi Helgason
Þorvarður Spak-Böðvarsson
Þorvarður Spak-Böðvarsson

 

Þorvarður Spak-Böðvarsson
lét gera kirkju á bæ sínum Ási
— en kirkja sú var ger sextán vetrum áður kristni var í lög tekin á Íslandi [Kristni-saga]

Neðri–Ás, þar bjó til forna Þorvaldur Spak–Böðvarsson, sem fyrstur Ís­lend­inga reisti kirkju á bæ sínum, 984. Heitir þar enn Bænhús sem ætla má að kirkjan hafi staðið. Um langan tíma hefur staðið þar fjárhús. Sumarið 1997 var grunnur fjárhússins kannaður og sannaðist þá að þar hefði kirkja staðið áður fyrr. Þorvaldur var ættfaðir Ásbirninga og Ás því elsta ættaróðal þeirra. Út og niður frá Neðra–Ási, miðri við þjóðveg, er minnisvarði reistur í tilefni 1000 ára afmælis kirkju í Neðra–Ási. [Vegahandbókin]

_MG_0368-e
Víðivallabræður
Víðivallabræður


Víðivallabræður

Dr. Pétur Pétursson, biskup, 1808-1891
Brynjólfur Pétursson, Fjölnismaður, 1810-1851
Jón Pétursson, háyfirdómari, 1812-1896
Varðann reistu ættingjar í minningu þeirra.

Minnisvarðinn stendur við Víðivelli í Skagafirði

Sauðárkrókur

Jón S. Nikódemusson (1905-1983)
 

Jón S. Nikódemusson 1905-1983
Hitaveitustjóri Hitaveitu Sauðárkróks 1953-1973.

Það var listakonan Ragnhildur Stefánsdóttir í Reykjavík sem gerði brjóstmyndina, en Pétur Bjarnason í Garðabæ steypti hana í brons.

Að baki brjóstmyndarinnar af Jóni hefur verið endurgerður og settur upp jarðbor sem Jón smíðaði og notaði við boranir á fyrstu holunum sem virkjaðar voru í mýrunum.

_MG_0474-el-e
Jónas Kristjánsson (1870-1960)
Jónas Kristjánsson
 
Brautryðjandinn
Jónas Kristjánsson héraðslæknir á Sauðárkróki 1911-1937
Berum ábyrgð á eigin heilsu.
 

Jónas Kristjánsson var héraðslæknir í Skagafirði í 27 ár. Hann var hugsjónamaður og á starfsárum sínum þar kom hann að fjölmörgum málum sem til framfara horfðu, meðal annars stofnaði hann Framfarafélag Sauðárkróks og var forseti þess frá árinu 1914 til 1938 er hann flutti úr héraði. Þá stofnaði hann skátafélagið Andvara árið 1922, og árið 1929 var hann frumkvöðull að stofnun Tóbaksbindindisfélags, sem talið er vera hið fyrsta hérlendis, og þó víðar væri leitað.

Jónas var mikill baráttumaður fyrir bættum húsakosti landsmanna, heilbrigðara fæðuvali og lifnaðarháttum og lagði hvarvetna til góð ráð svo þessum markmiðum yrði náð.

Eftir það vann hann að uppbyggingu Heilsuhælis Náttúrulækningafélags Íslands sem opnað var í Hveragerði 1955. [Mbl. 20/6/07]

Minnisvarða þennan reisti NLFI á 70 ára afmæli félagsins 2007.
Brjóstmynd Jónasar gerði Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson.
Varðinn stendur við sjúkrahúsið á Sauðárkróki.
Jónas Kristjánsson
Jónas Kristjánsson
Frúarstígur
Frúarstígur

 

Konur stóðu fyrir gerð þessarar fyrstu götu á Króknum 1897-1905, Skemmtistíg suður úr bænum sem nefndur var Frúarstígur.
Karlafélög á Króknum gáfu kvennafélögum þennan stein í tilefni 
afmælishaldsins árið 1997.

Steinninn var afhjúpaður 19. júní 1997 og stendur á horni Skólastígs og Freyjugötu, sem áður var Frúarstígur og Skemmtistígur.

Frúarstígur
Náttúrulækningafélag Íslands – NFLÍ
Náttúrulækningafélagið


Náttúrulækningafélag Íslands – NLFÍ

Stofnað á Hótel Tindastóli, Sauðárkróki 5. júlí 1937.
Tilgangur félgsins er:
Að efla og útbreiða þekkingu á heilbrigðum lifnaðarháttum.
Stofnfélagar Náttúrulækningafélags Íslands,
Sauðárkróki, 6. júlí 1937
Björn Kristjánsson stórkaupmaður, Jónas Kristjánsson læknir, frú Hansína Benediktsdóttir, frú Guðbjörg Jónasdóttir Birkis, frk. Rannveig Jónsdóttir, frú Þórunn Kristj. Elvar, frú Svava Stefánsdóttir Fells, Eyþór Stefánsson verslunarmaður, frú Sigríður Stefánsdóttir, frk. Sigríður Kristjánsdóttir, Valgarð Blöndal póstafgr.maður, Haraldur Júlíusson kaupmaður, frú Jóhanna Blöndal, Jón Sigfússon verslunarmaður, Rannveig Líndal kennslukona.
Í stjórn voru kosnir: Jónas Kristjánsson forseti, Björn Kristjánsson varaforseti, Haraldur Júlíusson ritari, Eyþór Stefánsson gjaldkeri, Valgarð Blöndal. [Skilti]

Minnisvarða þennan reisti NLFÍ á 70 ára afmæli félgsins árið 2007 og stendur hann við sjúkrahúsið.

Náttúrulækningafélagið
Sauðá
Sauðá


Hér stóð bærinn Sauðá í Borgarhreppi

Þennan minnisvarða reistu afkomendur hjónanna
Christians Hansen og Bjargar Jóhannesdóttur Hansen sem voru hér ábúendur 1882-1940.
Stendur við hið gamla bæjarstæði ofan við sjúkrahúsið á Sauðárkróki.

Eyjafjörður

Engidalur
Minnisvarði um snjóflóð


Engidalur

Síðustu ábúendur frá 1908
Garibaldi Einarsson, f. 1.6. 1864 – d. 1.8.1918
Margrét Petrína Pétursdóttir, f. 3.12.1867.

Í apríl 1919 féll snjóflóð á bæinn og fórust þar
Margrét Petrína Pétursdóttir, f. 3.12.1867
Pétur Garibaldason f. 30.8.1891
Sigríður Pálína Garibaldadóttir, f. 6.8.1897
Málfríður Anna Garibaldadóttir, f. 6.10.1899
Gísli Gottskálksson, f. 7.7.1890
Halldóra Guðmundsdóttir, f. 7.11.1842
Kristólína Kristinsdóttir, f. 4.10.1912.

Niðjar Margrétar og Garibalda reistu steininn 1989.

Steinninn stendur neðan Engidals við þjóðveginn.

_MG_9403-e
Sauðárkot
Sauðárkot
 
Síðustu ábúendur hér í Sauðárkoti þar til bærinn brann 1905
og lagðist í eyði, voru
Jórunn Magnúsdóttir, fædd 9.8.1881, dáin 29.12.1969 
Símon J. Jónsson, fæddur 28.7.1875, dáinn 14.6.1963.
Minnisvarða þennan reistu afkomendur þeirra hjóna árið 1987. [Texti á skildi].
Sauðárkot
Stóri-Árskógssandur
Minnisvarði um horfna


Friður Guðs fylgi þeim sem farnir eru.
Minningin lifir

Minnisvarði í kirkjugarði Stóra-Árskógs

Davíð Stefánsson (1895-1964)
Davíð Stefánsson

Davíð Stefánsson
fæddur 21. janúar 1895
dáinn 1. mas 1964.

Brennið þið vitar
lýsið hverjum landa
sem leitar heim
– og þráir höfn.

Brjóstmyndina gerði Ríkarður Jónsson en Severin Jacobsen gerði bronsafsteypuna.
Minnisvarðinn, sem stendur í Fagraskógi var afhjúpaður 18. júlí 1973

Eyvindur Jónsson (1678-1746)
Karlsá


Eyvindur Jónsson
duggusmiður

Hér við naustin á Karlsá var mikil skipa- og bátasmíðastöð á 18. öld. Stærst og frægast var haffært skip með hollensku lagi. Yfirsmiður og eigandi var Eyvindur Jónsson duggusmiður, f. 1678, d. 1746. Duggan fórst við land í ofvirði 1717.

Meðan íslenskt flýtur far
og fornar sagnir geymst
afrek Duggu-Eyvindar
aldrei munu gleymast.
 

Minnisvarðinn stendur við Karlsá.

Hrærekur konungur Dagsson
Hrærekur á Kálfskinni


Hér er talið að Hrærekur konungur Dagsson frá Heiðmörk í Noregi sé grafinn. Dáinn að KLálfsskinni um 1022.

Steininn reisti Lionsklúbburinn Hrærekur árið 1976.

_MG_6795-e
Jón Arason (1484-1550)
 
Jón Arason var biskup á Hólum frá 1524 þar til hann var líflátinn í Skálholti 1550.
Listaverkið er eftir Gunnfríði Jónsdóttur.

Verkið stendur við Munkaþverárkirkju í Eyjafirði
Jónas Hallgrímsson (1807-1845)
Jónas Hallgrímsson


Jónas Hallgrímsson

Ungur var eg og ungir
austan um land á hausti
laufvindar blésu ljúfir,
lék eg mér þá að stráum.

Það er svo bágt að standa í stað og mönnunum munar
annaðhvurt afturábak ellegar nokkuð á leið.

Brjóstmynd Jónasar gerði
Kristinn E. Hrafnsson.

Minnisvarðinn stendur í Jónasarlundi við þjóðveg 1 í Öxnadal á móts við Hraun. Hann var afhjúpaður þann 28. júní 1997 af Halldóri Blöndal. [Dagur-Tíminn, 1/7/1997]

_MG_6315-e
Látra-Björg (1716-1784)
Látra-Björg
 

Vestan blika
kúfnum kalda
Kaldbak hleður

Sunnan kvika
utan alda
austan veður.

Björg Einarsdóttir skáldkona er talin fædd í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd en fór með foreldrum sínum Margréti Björnsdóttur og Einari Sæmundssyni að Látrum á Látraströnd árið 1722. Foreldrarnir fluttu þaðan aftur þremur árum síðar en Björg varð eftir þá 9 ára. Á Látrum átti hún að líkindum heima fram um miðjan aldur og var því kennd við þann bæ. Á seinni hluta ævinnar gerðist hún förukona og flakkaði milli sveita. Hún lést á vergangi í Svarfaðardal í Móðuharðindunum 1784 og var jarðsett að Upsum.
Björg var alla tíð einhleyp. Hún var kona stórskorin og mikil vexti og þótti karlmannsígildi til allra verka. Hún sótti sjó frá Látrum á sínum yngri árum og kvað um sjósókn og um átök hafsins. Vísur Látra-Bjargar eru margar hverjar sérkennilegar, kraftmiklar og stundum kaldhæðnar. Snúast þær oftast um daglegt líf og baráttu manna við náttúruöflin. Eftir hana liggur fjöldi vísna um sveitir (t.d. Fnjóskadal, Fjörður, Melrakkasléttu o.fl.) þar sem hún ber lof á sumar en last á aðrar. Meðal þekktustu vísna Látra-Bjargar eru Fagurt er í Fjörðum þá frelsarinn gefur veður blítt. [Wikipedia].


Minnisvarðinn er eftir Sigurð Guðmundsson, myndhöggvara og var afhjúpaður árið 2016. Hann stendur í Stærra-Árskógi, Árskógsströnd.

Arthur Kavhan Round, Henry James Talbot, Keith Garrett,
Reginald Albert Hopkins


In memory of
Flying Officer Arthur Kavhan Round, RAF
Pilot Officer Henry James Talbot, RAF
Flight Sergeant Keith Garrett, RAF
Flight Sergeant Reginald Albert Hopkins, RAF
who tragically died when their Fairy Battle aircraft P-2330 of 98 Sqn.
crashed near Akureyri, Iceland on the 26th May 1941.
This memorial was erected by members of RAF Mountain Rescue Service
during the recovery of the aircraft in August 2000.

Minnisvarðinn stendur á flugvellinum á Melgerðismelum í Eyjafirði.

Arthur Grant Wagstaff (1959-2015)
Arthur G Wagstaff
 
Arthur Grant Wagstaff, August 3rd 1959 – August 9th 2015
 Flugið er frelsið í hreinustu myndum
að fylgja eftir skýjum sem dansa með vindum.
 Að svífa og vagga, með stýrinu vinna
og vaxandi gleðina innra með finna.
 Frá vanda á jörðu sér vinda á flug
er vorið með hlýjunni fangar þinn hug.
 Og lenda svo aftur er líður á nóttu
laus við þær raunir, sem að þér sóttu.
 Ef mín endalok koma meðan á flugi ég er
á myrkri nóttu eða degi, hvert sem mig ber.

 Enga skalt vorkun né meðaumkun veita,
vitandi það að ég myndi engu breyta.
 Því dauðinn á endanum heimta mun alla
og frá fæðingu heyri ég flugið kalla.

Myndir af flugmanni
eftir Gary Claud Stoker
Þýðing: Vilhjálmur B. Bragason.

Ljóðið einnig á ensku á minnisvarðanum sem stendur á flugvellinum á Melgerðismelum í Eyjafirði.

Erlendur Árnason (1972-1990)
 
Erlendur Árnason
f. 26.5.1972 – d. 22.12.1990
Verð ég varfleygur
er vinir þverra.
 
Minnisvarðinn stendur á flugvellinum á Melgerðismelum í Eyjafirði

Grímsey

Grímsey
Minnisvarði um drukkknaða


Minning um ástvini sem hvíla fjarri okkur,

Drottinn elskar, Drottinn vakir
daga og nætur yfir þér
– Hvíl í friði

Minnisvarðinn er í Miðhúsakirkjugarði í Grímsey

_MG_4308-e
Daniel Willard Fiske (1831-1904)
Willard Fiske


Fiskehátíð er haldin í Grímsey 11. nóvember á hverju ári til að minnast afmælis Daniel Willard Fiske (1831-1904) sem steig þó aldrei fæti sínum á land í Grímsey.
Fiske var bandarískur prófessor við Cornell Háskóla í New York fylki í Bandaríkjunum. Hann lærði íslensku þegar hann var í námi í Danmörku 1849 og safnaði öllu íslensku efni sem til var á prenti auk ljósmynda af Íslandi. Stórt safn íslenskra bóka og ljósmynda er nú varðveitt í Cornell.
Fiske sigldi hringinn  í kringum landið 1879. Þá sá hann Grímsey tilsýndar og heillaðist af dugnaði og menningaráhuga íbúanna. Grímseyingar voru góðir skákmenn og þar sem Fiske var mikill áhugamaður um skák komst hann í bréfasamband við tvo menn í Grímsey. Þar með hófst vináttusamband hans við Grímseyinga sem varði meðan hann lifði.
Árið 1901 færði Fiske Grímseyingum stórt bókasafn sem hann nefndi Eyjarbókasafnið. Það er nú varðveitt í bókasafni skólans í upprunalegum bókaskápum. Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Grímseyingum veglegan peningasjóð, Grímseyjarsjóð Willard Fiske, til að endurbæta húsakostinn og bæta mannlíf í eyjunni. Í þakklætisskyni voru nokkrir drengir skírðir eftir honum.

Minnismerkið um Willard Fiske er eftir Gunnar Árnason  myndhöggvarqa og gefið af Kiwanisaklúbbnum Grími. Það var afhjúpað 11. nóvember 1998.

Siglufjörður

Lífsbjörg
Siglufjörður
 

Minnisvarði um drukknaða sjómenn frá Siglufirði
Afhjúpaður 5. júní 1988

Minnisvarðann gerði Ragnar Kjartansson

Gústi guðsmaður (1897-1985)
Gústi guðsmaður
 
Ágúst Gíslason 1897-1985 sjómaður og kristniboði.
Hann var alþýðuhetja og mikill mannvinur sem gaf allt sitt aflafé til fátækra barna víða um heim,
Gústi lifði eftir orðum Krists: Sælla er að gefa en þiggja.
 

Gústi gerði út bátinn Sigurvin SI 16 í kompaníi við Guð almáttugan. Báturinn er nú á Síldarminjasafninu á Siglufirði.
Minnisvarðinn, sem Ragnheiður Stefánsdóttir, myndhöggvari gerði, strendur á Ráðhústorginu á Siglufirði þar sem Gústi var vanur að predika.

Bjarni Þorsteinsson (1861-1938)
Bjarni Þorsteinsson
Bjarni Þorsteinsson
Minningamörk á leiði sr. Bjarna Þorsteinssonar og konu hans Sigríðar Lárusdóttur í Hvanneyrarkirkjugarði
 
Bjarni Þorsteinsson 1861-1938

prestur, þjóðlagasafnari, heiðursborgari Siglufjarðar

Við lok þjóðlaga­hátíðar á Sigluf­irði árið 2013 var vígður minn­is­varði um séra Bjarna Þor­steins­son, tón­skáld og heiðurs­borg­ara Siglu­fjarðar. Um leið var vígt svo­nefnt Bjarna­torg, skreytt ís­lensku stuðlabergi. Minn­is­varðinn stend­ur fyr­ir fram­an Siglu­fjarðar­kirkju.

Minn­is­varðann  gerði listakonan Ragnhildur Stefánsdóttir, en torgið hannaði Fanney Hauksdóttir arkitekt, Steinverkið gerði Þór Sigmundsson steinsmiður. Minnisvarðinn og Bjarna­torgið voru af­hjúpuð af gef­end­um verk­anna. Þeir eru Arnold Bjarna­son, afa­barn séra Bjarna, sem gaf mynda­stytt­una, og Sigl­f­irðing­ur­inn Páll Samú­els­son sem gaf efni og vinnu við torgið.

Meðal gesta við at­höfn­ina voru Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, for­sæt­is- og þjóðmenn­ing­ar­ráðherra, tengda­son­ur Páls Samú­els­son­ar, gef­anda Bjarna­torgs, og Sigl­f­irðing­ur­inn Ill­ugi Gunn­ars­son, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Við at­höfn­ina lék Sig­urður Hlöðvers­son, formaður sókn­ar­nefnd­ar, lagið Blessuð sértu sveit­in mín á trom­pet úr kirkjut­urni Siglu­fjarðar­kirkju. Síðar verður lagið Ég vil elska mitt land sungið af viðstödd­um en bæði lög­in eru eft­ir séra Bjarna.

Séra Vig­fús Þór Árna­son, fyrr­ver­andi sókn­ar­prest­ur Sigl­f­irðinga, flutti ávarp um Bjarna og áhrif hans á ís­lenska menn­ingu. Séra Sig­urður Ægis­son, sókn­ar­prest­ur Sigl­f­irðinga, bless­aði mann­virk­in. [Mbl. 5.7.2013]

Hafliði Guðmundsson (1852-1917)
Hafliði Guðmundsson
 
Lensmann
Hafliði Guðmundsson 1852-1917
Reist av norske venner 1922
Minnisvarðinn stendur á Siglufirði.
Jóhann Þorvaldsson (1909-1999)
Jóhann Þorvaldsson
 
Jóhann Þorvaldsson
f. 16.5.1909
d. 9.10.1999
,,Að gefast upp kom aldrei til greina”.

Minnisvarðinn stendur í skógræktinni í Siglufirði
Jóhann Þorvaldsson
Steingrímur Magnússon (1918-1987)
Steingrímur Magnússon

 

Steingrímur Magnússon frá Hlíð
f. 3. 10.1918 – d. 7.6.1987
Verkstjóri við Síldarverksmiðjur ríkisins í 50 ár.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Siglufirði

 

Steingrímur Magnússon
Samúel Ólafsson (1887-1935)
Einarsína Pálsdóttir (1891-1941)
Siglufjarðarkirkja


Kirkjutröppur

Kirkjutröppurnar eru gjöf frá Siglfirðingnum Páli Samúelssyni, fjölskyldu hans og systkinum. Þær eru gefnar til minningar um foreldra þeirra, Einarsínu Pálsdóttur og Samúel Ólafsson og ömmu þeirra og afa Önnu Einarsdóttur og Páll Árnason

Samúel Ólafsson

Ólafsfjörður

Minnisvarði um drukknaða
Ólafsfjörður


Minnisvarði um drukknaða

Minnisvarði drukknaðra sjómanna á Ólafsfirði 

Drottinn gefi dánum ró, hinum líkn sem lifa.

Lágmyndin á minnisvarðanum er eftir Ríkarð Jónsson

Ólafsfjörður
Minnisvarði
Minnisvarði


Minnisvarði

Sjá, ég hef rist þig í lófa mína.  Jesaja, 49.16a

Þessi minnisvarði stendur í kirkjugarðinum á Ólafsfirði.

“Markmiðið er ekki að losna algjörlega við áhyggjur heldur að hafa góða kjölfestu og rétta stefna. Þá bíta ekki áhyggjurnar á mann og setja mann ekki úr skorðum í lífinu. Áhyggjurnar verða viðráðanlegar ef við erum viss um það að bjargið sem líf okkar hvílir á hreyfist ekki.” [kirkjan.is]

Norrænt samstarf
Norrænt samstarf
 
Detta ankera är en gåva från Olafsfordurs vänorter i Norden
– Borre i Norge – Hilleröd i Danmark – Karlskrona i Sverige
– Lovisa i Finland –
Det är en symbol för trygghet, säkerhet och vänskap.
(Síðasta línan ólæsileg)
 
Reist 1991? og stendur í mynni Ólafsfjarðar

Héðinsfjörður

Halldóra Björnsdóttir ( 1866-1942)
Sigurður Guðmundsson (1868-1954)
Héðinsfjörður
 

Til minningar um Halldóru Guðrúnu Björnsdóttur, 1866-1942 og
Sigurð Guðmundsson, 1868-1954 sem voru til heimilis að Vík 1886-1898,
en ábúendur að Grundarkoti 1898-1903 og að Vatnsenda 1903-1930.

Afkomendur reistu þennan minnisvarða 26. júní 2010.

Minnisvarðinn stendur í Héðinsfirði

Ólína Einarsdóttir (1904-1976)
Þorvaldur Sigurðsson (1899-1981)
Ólína Einarsdóttir


Til minningar um síðustu ábúendur á Vatnsenda (1923-1949)

Ólínu Einarsdóttur f. 18.12.1904 d. 22.11.1976 og Þorvald Sigurðsson f. 27.04.1899 d 17.06.1981.

Steinhúsið á Vatnsenda byggðu þau árið 1936. Það eyðilagðist í snjóflóði  17. janúar 2004.

Blessuð sé minning þeirra.

Skiltið er á rústum Vatnsenda í Héðinsfirði

Vatnsendi

Dalvík - Svarfaðardalur

Árni Steinar Jóhannesson 1953-2015
Árni Steinar Jóhannesson

 

Minningarreitur um Árna Steinar Jóhannesson
landslagsarkitekt
1953-2015

Reist 2016 af SAMGUS – RARIK – Dalvíkurbyggð

Árni Steinar Jóhannesson
Árni Steinar Jóhannesson
Minnismerki um drukknaða
Dalvík
 
Minnismerki um drukknaða sjómenn frá Dalvík og Svarfaðardal
Það er eins og Ísland bendi
yfir vík og fjörð:
sjómannslíf í herrans hendi
helgast fósturjörð. 
 
Minnisvarðinn er eftir Jónas S. Jakobsson og stendur í kirkjugarðinum á Dalvík
Dalvík
Minning um líf
Minning um líf


Minning um  líf

Minnisvarðinn er í kirkjugarðinum við Dalvíkurkirkju

Rósa Þorsteinsdóttir (1856-1928)
Jón Stefánsson (1859-1935)
Nýibær Dalvík
Nýibær


Í minningu hjónanna í Nýjabæ
Rósu Þorsteinsdóttur, f. 12.7.1856, d. 29.3.1928 og
Jóns Stefánssonar, f. 21.8.1859, d.18.3.1935
frumbyggja Dalvíkur, en hér hófu þau búsetu á vordögum 1887 

…allt, sem grær, ber merki fornra minja.
Hvert moldarfræ er vöxtur tveggja kynja.
Og sami réttur er þeim báðum borinn.
Frá barnsins vöggu liggja ævisporin,
að myrkri gröf, sem eilíft vakir yfir.
Við yrkjum sömu jörð – og stofninn lifir.

Höggmyndir á varðanum eru eftir Jónas S. Jakobsson. Minnisvarðann reistu niðjar þeirra, sumarið 1983.

Jón Stefánsson
Rósa Þorsteinsdóttir
Séra Friðrik Friðriksson (1868-1961)
 
Séra Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi og stofnandi KFUM og KFUK fæddist hér að Hálsi í Svarfaðardal 25. maí 1868. Hann lézt í Reykjavík 9. mars 1961.
 
Ó kallaðu á æskuna, kærleikans andi,
að koma nú skjótt
til Jesú, að frelsist hér lýður í landi
og lifni við drótt …  (Fr. Friðriksson)
 
Lágmyndina gerði Jónas S. Jakobsson myndhöggvari.
Minnisvarðann reistu nokkrir áhugamenn til minningar um sr. Friðrik Friðriksson árið 1995.

Minnisvarðinn stendur við Háls í Svarfaðardal
Friðrik Friðriksson
Guðmundur Arason (1161-1237)
Guðmundur Arason
 

Guðmundar steinn hins Góða
Guðmundur Arason (Góði)
Prestur á Völlum 1190-1197
Biskup á Hólum 1201-1237
Hér má drekka vígt vatn og styrkja minningarsjóð Guðmundar Góða

Steinninn stendur við bæinn Velli í Svarfaðardal

Hugrún

Hörgársveit

Jón Sveinsson (1857-1944) Nonni 
Jón Sveinsson Nonni
 

Pater Jón Sveinsson Nonni
fæddur á Möðruvöllum 16.11.1857
dáinn í Köln 16.10.1944

Minnisvarðinn stendur á Möðruvöllum í Hörgárdal

Nonni

Akureyri

Caroline Rest
Caroline Rest


Caroline Rest

Í júlí 1912 kom til Akureyrar þýskættaður Bandaríkjamaður að nafni George Herman Ferdinand Schrader f. 1858 – d. 1915.
Næstu þrjú árin dvaldi hann í kaupstaðnum, vann góðverk og menntaði bæjarbúa. Á Akureyri kynntist Schrader íslenska hestinum sem honum fannst illa farið með og af vankunnáttu. Hann ákvað að bæta úr og sótti um leyfi til að reisa hesthús með fáeinum stíum – sem verður að vera í miðbænum, áréttaði Schrader, til að koma sveitamönnum að gagni. Hinn 16. desember 1913 var húsið opnað fyrir gesti og gangandi. 
Ári síðar var það stækkað og rúmaði þá 130 hross og 30 næturgesti. Húsið reisti Schrader til minningar um móður sína og nefndi eftir henni, Caroline Rest eða Hvíldarheimili Karólínu. Í mars 1915 gaf Schrader hvíldarheimilið til Akureyrarbæjar með þeim skilyrðum að þar yrði aldrei annað en gististaður fyrir menn og hesta.
,,Látið yður umhugað um annað, meira og hærra en að græða fé” kenndi Schrader Akureyringum og lét ekki sitja við orðin tóm.
Hestamannafélagið Léttir, stofnað 5. nóvember 1928 minnist 85 ára afmælis síns. Af því tilefni vottar félagið George H.F. Schrader, velgjörðarmanni hestsins okkar og mannvini, virðingu og þökk með því að reisa honum þennan minnisvarða á lóð Caroline Rest, nú þegar 100 ár eru liðin frá því að þetta merka hús var byggt. [Skjöldur]

Skjöldurinn er á minnisvarða við  kirkjutröppurnar á Akureyri

Carolina Rest
Golfvöllur á Akureyri
Golfvöllur á Akureyri

Á þessum stað var fyrst leikið golf á Akureyri
en hér var fyrsti golfvöllur Golfklúbbs Akureyrar á árunum 1935-1945

Golfklúbbur Akureyrar þakkar Slippstöðinni á Akureyri margvíslegan stuðning í áraraðir.

Skjöldur þessi var afhjúpaður á 50 ára afmæli Golfklúbbs Akureyrar árið 1985.

Minnisvarðinn stendur við Hjalteyrargötu skammt frá Slippstöðinni 

Glerárbrú
Glerárbrú

Göngubrú yfir Glerá
Stíflan, sem er grunnurinn undir brúnni er fyrsta mannvirki Rafveitu Akureyrar og hluti af Glerárstöð, sem var fyrsta virkjun rafveitunnar.
Stíflan var byggð árið 1921, stöðvarhúsið 1922 og virkjunin tekin í notkun það ár.
Verkið var undirbúið af sænska verkfræðifyrirtækinu ,,Billie & Wijkmark” og framkvæmdum stjórnað af sænska verkfræðingnum Olof Sandell. Eftir að framkvæmdum lauk tók fyrsti rafveitustjórinn á Akureyri, Knud Otterstedt, við stjórn virkjunarinnar. Hún var starfrækt fram til ársins 1960. Rafveita Akureyrar lét hanna göngubrúna og lagði fram þriðjung kostnaðar við byggingu hennar, í tilefni af 75 ára afmæli sínu árið 1997.
Akureyrarbær lét smíða brúna árið 1998. Hönnuðir voru Arkitektastofan í Grófargili og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen. Verktaki var Sæstál á Dalvík. [Skilti]

Glerárbrú
Glerárvirkjun
Glerárstífla
Glerárstífla 1968
Minnisvarði um horfna
Horfnir sjómenn


Minnisvarði um týnda og drukknaða sjómenn

Jesús sagði: ,,Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi”.

Minnisvarðinn, sem var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1989, stendur við Glerárkirkju á Akureyri.

Oddfellowreglan á Íslandi
Oddfellowreglan


Oddfellowreglan á Íslandi
 
100 ára 1997

Minnisvarðinn stendur við Oddfellowhúsið á Akueyri

Ármann Dalmannsson (1894-1978)
Ármann Dalmannsson
 
Í minningu Ármanns Dalmannssonar
skógarvarðar sem hóf hér [í Kjarnaskógi] skógrækt árið 1947.

Ármann Dalmannsson fæddist 12. september 1894 í Fíflholtum, Hraunhreppi, Mýrum vestra. Hann lauk prófi frá búnaðarskólanum á Hvanneyri 1918 og frá íþróttaskóla í Danmörku 1925. Hann starfaði við kennslu og í fyrstu og búnaðarráðsgjöf þar til hann gerðist framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga árið 1948. Hann stafaði þar við skógrækt í Kjarnaskjógi og víðar fram undir sjötugt.
Ármann Dalmannsson var litríkur persónuleiki sem setti svip á umhverfi sitt. Hann fékkst við skáldskap frá unga aldri og gaf út tvær ljóðabækur, Ljóð af lausum blöðum og Fræ. Á efri árum,þegar fór að hægjast um, fór hann að setja saman vísnagátur sem fyrst voru notaðar í fjölskylduboðum en urðu það vinsælar að gefin voru út fimm lítil hefti á árunum 1974-1979.

Minnisvarðinn stendur í Kjarnaskógi
Brynjólfur Sveinsson (1898-1982)
 

Minning um Brynjólf Sveinsson kennara við Menntaskólann á Akureyri 1927-1970.

Frá dætrum og tengdasyni

Minnisvarðinn stendur á lóð Menntaskólans

Elísabet Geirmundsdóttir (1915-1959)


Útþrá

Til minningar um ,,Listakonuna í fjörunni”, Elísabetu Geirmundsdóttur
frá fjölskyldu og velunnurum.

Listaverkið Útþrá er frá árinu 1951 og er eftirgerð af frummynd og stækkun.
Verkið var gefið Akureyrarbæ 2016.

Verkið stendur í gömlu fjörunni fyrir framan Minjasafn Akureyrar.

 

Friðbjörn Steinsson (1838-1918)
Friðbjörn Steinsson
 
Friðbjörn Steinsson 1838 – 1918
Stofnandi st. Ísafoldar nr. 1
1884

Minnisvarðinn stendur við Friðbjarnarhús, Aðalstræti 58 á Akureyri.

Húsið hýsir nú leikfangasafn sem er hluti Minjasafnsins á Akureyri.

Gunnar Konráðsson (1920-2004)
 
Gjöf til GA frá afkomendum Nunna Konn
í tilefni aldarafmælis hans 26. júní 2020.

Drykkjarfonturinn stendur á golfvelli Golfklúbbs Akureyrar á Akureyri
Halldóra Ólafsdóttir (1892-1968)
Halldóra Ólafsdóttir
 

Halldóra Ólafsdóttir
skólameistarafrú
1892-1968

Minnisvarðinn er eftir Ásmund Sveinsson og sendur við Menntaskólann á Akureyri
Halldóra var eiginkona Sigurðar Guðmundssonar skólameistara

Sigurður Guðmundsson (1878-1949)
 

Sigurður Guðmundsson
skólameistari 
1878-1949

Minnisvarðinn er eftir Ásmund Sveinsson og  stendur við Menntaskólann á Akureyri
Sigurður var eiginmaður Halldóru Ólafsdóttur

Hermann Stefánsson (1904-1983)
Þórhildur Steingrímsdóttir (1908-2002)
Hermann Stefánsson
 

Hermann Stefánsson 1904-1983
Þórhildur Steingrímsdóttir 1908-2002
Brautryðjendur í íþróttum og menningu.

Skalk þó glaðr
með góðan vilja
ok óhryggr 
heljar bíða.
  Úr Sonatorreki

Vangamyndina gerði Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari. Minnisvarðinn stendur við íþróttahús (Fjósið) Menntaskólans á Akureyri

_MG_5352-e
Jón Rögnvaldsson (1895-1972)
Jón Rögnvaldsson
 
Jón Rögnvaldsson, f. 18.6.1895 – d. 10.8.1972.

Mikilhæfur leiðtogi á sviði skrúðgarðyrkju og skógræktar.

 Brjóstmynd gerð af Helga Gíslasyni, afhjúpuð 18.6.1995 og stendur í Lystigarðinum á Akureyri

_MG_3762-e
Jón Sveinsson Nonni (1857-1944)
Jón Sveinsson Nonni
 

Jón Sveinsson Nonni 
Íslenskur Jesúítaprestur og höfundur Nonnabókanna.

Íslensk listakona, Nína Sæmundsson (1892-1965) gerði þessa styttu 1958.

Zontaklúbbur Akureyrar lét reisa styttuna við Nonnahús honum til heiðurs.

Nonni
Kristján Níels Júlíus Jónsson – Káinn (1859-1936)
Káinn
 

Káinn
Kristján Níels Júlíus Jónsson 
Fæddur á Akureyri 7. apríl 1859
Dáinn í Mountain, Norður-Dakota 25, október 1936.

Kæra foldin, kennd við snjó,
hvað ég feginn yrði,
mætti holdið hvíla í ró
heima í Eyjafirði.

Miðvikudaginn 25. október 2017, sem er dánardagur skáldsins Kristjáns Níelsar Júlíusar Jónssonar eða KÁINS, var minnismerki um hann vígt í innbænum á Akueyri, skammt sunnan Minjasafnsins á Akureyri.
,,Icelandic Roots, The Icelandic Communities Association of NE North-Dakota og aðrir velunnarar Káins vestan hafs létu gera afsteypu af lágmynd sem prýðir minnismerki um skáldið í Norður-Dakota og færðu Akureyringum að gjöf. Lágmyndin hefur verið felld í stuðlabergsdranga sem myndar nýja minnismerkið.” [kaffid.is]
Káinn
Matthías Jochumsson (1835-1920)
Matthías Jochumsson

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir
Darraðarljóð frá elstu þjóðum,
heiftareim og ástar-bríma
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vigðum geymir í sjóði.
MJ

 

Varða þennan reistu Akureyrar-búar skáldinu Matthíasi Jochumssyni á áttræðisafmæli hans 11. nóvember 1915.

Matthías Jochumsson (11. nóvember 1835 – 18. nóvember 1920) var íslenskt skáld. Hann fæddist á bænum Skógum sem stóð um 100 metra frá sjó í austurhlíðum Þorskafjarðar undir Vaðalfjöllum. Átti hann heima í Skógum til 11 ára aldurs hjá foreldrum sínum. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sjómennsku og sveitavinnu, en einnig verslunarstörf í Flatey. Matthías var nokkuð hverflyndur í trúarskoðunum sínum, en hann var greinilega hallur undir únítarisma.

Í Latínuskólann fór hann 24 ára gamall. Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði, t.d. leikritið Skugga-Sveinn og hann samdi ljóðið Lofsöngur sem síðar var tekið upp sem þjóðsöngur Íslands. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðari hluta ævi sinnar bjó hann í Sigurhæðum á Akureyri, en húsið lét hann reisa sjálfur. Áður var hann prestur í Odda á Rangárvöllum og um tíma bjó hann í Móum á Kjalarnesi. Að Skógum er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr stuðlabergi úr Vaðalfjöllum. Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans.

Matthías þýddi Friðþjófssögu og Sögur herlæknisins á íslensku.

Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir kom út haustið 2006.

Matthías Jochumsson
Matthías Jochumsson
Margrethe Schiöth (1871-1962)
Margrethe Schiöth
 

Margrethe Schiöth
Hún gerði garðinn frægan.

Verkið var afhjúpað á áttræðisafmæli frú Schiöth, hinn 31. júlí 1951. Margrethe, Friis að föðurnafni, var frá bænum Vejen á Jótlandi en fluttist til Akureyrar árið 1899 og giftist skömmu síðar bakarameistaranum Axel Schiöth. Margrethe er vafalaust fyrsta konan á Akureyri sem lét sér til hugar koma að gróðursetja sumarblóm á bersvæði. Hún var í áratugi forsvarsmaður Lystigarðsins eða þangað til 1. október 1953 þegar hún hætti sem formaður stjórnar Lystigarðsfélagsins og Akureyrarbær tók við garðinum. Árið 1941 var Margrethe gerð að heiðursborgara Akureyrar en hún andaðist 20. júní 1962.

Jónas S. Jakobsson gerði brjóstmyndina en varðinn var afhjúpaður 1951 og stendur í Lystigarðinum á Akureyri

_MG_3769-e
Páll Briem (1856-1904)


Páll Briem
 
f. 19. október 1856 – d. 17. desember 1904

Hann var fulltrúi hjá yfirréttarmálaflutningsmanni í Kaupmannahöfn 1884–1885. Hlaut 1885 styrk úr landssjóði til rannsókna á íslenskum lögum og vann að þeim í Reykjavík og Kaupmannahöfn 1885–1886. Sýslumaður í Dalasýslu 1886–1887, sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887–1890. Sýslumaður í Rangárvallasýslu 1890–1894, sat fyrst í Odda, en síðan í Árbæ í Holtum. Skipaður frá 12. september 1894 amtmaður í norður- og austuramtinu, fluttist þá til Akureyrar, lausn með biðlaunum 1. ágúst 1904, er amtmannsembættin voru lögð niður. Varð þá bankastjóri við Íslandsbanka og fluttist til Reykjavíkur.

Skrifstofustjóri Alþingis 1885. Bæjarfulltrúi á Akureyri 1897–1900 og 1903–1904. Hvatamaður að stofnun Ræktunarfélags Norðurlands og formaður þess 1903–1904. Samdi frumvarp til stofnlaga um Búnaðarfélag Íslands. Sat á Búnaðarþingi 1901. Yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1887 og 1889. Skipaður 1901 formaður milliþinganefndar í fátækramálum.

Alþingismaður Snæfellinga 1887–1892. Kosinn alþingismaður Akureyrar 1904, en dó áður en þing kom saman. [Alþ.]

Minnisvarðinn stendur við gömlu gróðarstöðina á Akureyri

Páll Steindór Steindórsson (1966-2013)
Pétur Róbert Tryggvason (1977-2013)
Akureyri

Minnisvarði um flugslys

Til minningar um
Pál Steindór Steindórsson, f. 3. des. 1966 og
Pétur Róbert Tryggvason f. 14. nóv. 1977 sem fórust með sjúkraflugvélinni TF-MYX þann 5. ágúst 2013.

Minningar um dáðadrengi munu ætíð lifa

Minnisvarðinn stendur á svæði Bílaklúbbs Akureyrar þar sem flugvélin fórst.

Minnisvarðar
Sigurður Sigurðsson (1871-1940)


Sigurður Sigurðsson
f. 5. ágúst 1871 – d. 1. júlí 1940

Sigurður stofnaði Trjáræktarstöð á Akureyri 1899. Skólastjóri búnaðarskólans á Hólum 1902-1919, var í stjórn ræktunarfélags Norðurlands (sem hann stofnaði) 1903-19, framkvæmdastjóri frá stofnun til 1910, formaður Búnaðarfélags Íslands 1919-23, Búnaðarmálastjóri 1923-35.(Ísl. æviskrár)

Minnisvarðinn er eftir Ríkarð Jónsson og stendur við gömlu gróðarstöðina á Akureyri.

Stefán Stefánsson (1853-1921)
Stefán Stefánsson skólameistari


Stefán Stefánsson
skólameistari
1.8.1863 – 20.1.1921

Stefán Jóhann Stefánsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, fæddist á Heiði í Gönguskörðum hinn 1.8. 1863. Foreldrar hans voru Stefán Stefánsson, bóndi á Heiði, og k.h., Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, frá Heiði.

Börn Stefáns og k.h., Steinunnar Frímannsdóttur frá Helgavatni, voru Valtýr, ritstjóri Morgunblaðsins, faðir Helgu leikkonu og Huldu, fyrrv. blaðakonu, og Hulda skólastjóri, móðir Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts.

Stefán lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1884 og las náttúrufræði við Háskólann í Kaupmannahöfn 1884-87.

Stefán var kennari við Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og síðan Gagnfræðaskólann á Akureyri 1887-1908 og skólameistari Menntaskólans frá 1908.

Stefan var alþm. Skagfirðinga 1900-1908 og síðan konungkjörinn alþm. 1908-1916. Hann sat í dönsk-íslensku milliþinganefndinni um sambandsmálið 1907 sem leiddi til „Uppkastsins“ fræga og sögulegra alþingiskosninga 1908, og var amtráðsmaður og bæjarfulltrúi á Akureyri 1906-1918.

Stefán ferðaðist mikið um landið við gróðurrannsóknir. Hann sat í stjórn ýmissa fyrirtækja og var aðalhvatamaður að stofnun Náttúrufræðifélags Íslands og Náttúrugripasafnsins.

Stefán lést 20.1.1921.

Minnisvarðinn stendur í Stefánslundi við Menntaskólann á Akureyri og er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara. Sigurjón vann búk undir portrettmynd sína af Stefáni frá 1933 (LSÓ 216). Minnisvarði frá vinum og afkomendum Stefáns, afhjúpaður í Stefánslundi við Menntaskólann á Akureyri 1950.

Vilhjálmur Stefánsson (1879-1962)
Vilhjálmur Stefánsson


Vilhjálmur Stefánsson
 (3. nóvember 1879 – 26. ágúst 1962) var landkönnuður og mannfræðingur af íslenskum ættum. Hann fæddist í Gimli í Manitobafylki í Kanada og var við nám í N-Dakóta og Iowa og lauk námi í mannfræði frá Harvard-háskóla og kenndi þar einnig um tíma.

Áhugi Vilhjálms á Norðurheimskautssvæðinu var mjög mikill og var hann einna fyrstur til að rannsaka menningu og líf Inúíta að nokkru ráði. Fyrir þær sakir var hann einn best þekkti landkönnuður síns tíma. Eftir hann liggja margar bækur og rit og eru skrif hans enn í dag uppspretta fróðleiks um líf á norðurslóðum.

Hann ferðaðist í mörg ár um norðursvæði Kanada og stóð meðal annars fyrir leiðangri á skipinu Karluk norður gegnum Beringssund inn í hinn frosnu hafsvæði norðurpólsins. Sú ferð endaði illa og var tilefni nokkurrar gagnrýni á Vilhjálm.

Skjöldurinn er á klettavegg við Háskólann á Akureyri

Vilhjálmur Stefánsson
Minnisvarði um félaga

Núna eru okkur allir vegir færir
Til minningar um látna félaga Bílaklúbbs Akureyrar.

Reist af félögum Bílaklúbbs Akureyrar 5.8.2016

Minnisvarðinn stendur á svæði Bílaklúbbs Akureyrar

Hrísey

Jörundur Jónsson (1826-1888) – Hákarla-Jörundur


Jörundur Jónsson
(1826-1888) – Hákarla-Jörundur

Jörundur Jónsson fór sem fátækur unglingur að heiman frá Kleifum í Ólafsfirði árið 1843 eftir að móðir hans dó af barnsförum nokkru áður. Um árabil var hann smali og vinnumaður á ýmsum bæjum á austurströnd Eyjafjarðar þar sem honum tókst að lokum að brjótast úr hlekkjum fátæktar og vinnumennsku og verða sjálfstæður útvegsbóndi. Hann efnaðist og árið 1862 settist hann að á Syðstabæ í Hrísey með fjölskyldu sinni. Þar hélt velgengni hans áfram og Jörundur gat sér orð fyrir að vera einn fengsælasti hákarlaveiðimaður landsins, áræðinn og farsæll skipstjóri. Viðurnefni hans, Hákarla-Jörundur, segir meira en mörg orð. Þeir sem á annað borð þekkja til Jörundar kannast fyrst og fremst við hann sem útgerðarmann. Færri vita að á árunum 1865 til 1888 rak hann eitt af stærstu sauðfjárbúum í Eyjafirði. Af rekstri sínum til sjós og lands komst hann í hóp efnuðustu manna í landinu um sína daga en hann lést árið 1888, þá rétt að verða 62 ára.
Jörundur eignaðist 17 börn með konum sínum, Svanhildi Jónasdóttur og Margréti Guðmundsdóttur. Af þeim komust 10 til fullorðinsára og afkomendur hans eru fjölmargir, margt þjóðþekkt fólk.

Brjóstmynd Jörundar gerði Ríkarður Jónsson mydhöggvari árið 1957 og stendur hún við Syðstabæ í Hrísey.

Grímsey

Orbis et Globus


Orbis et Globus

Heimskautsbaugur. Á mörgum stöðum er valið að staðsetja tákn um heimskautsbauginn við 66°33’N. Á Grímsey er táknið “Brúin og vegpresturinn” við 66°33,3’N, rétt norðan við gistiheimilið Bása sem er við flugstöðina og nýja táknið (2017) Hringur og kúla / Orbis et Globus við norðurenda eyjarinnar við 66°33,916’N.

Þetta verk heitir Hringur og kúla (Orbis et globus) og var endanlega staðsett á heimskautsbaugnum í Grímsey. Á þessari mynd er verkið ekki á endanlegum stað, heldur þar sem það var skilið eftir þegar það var flutt í eyjuna 2017. Verkið er eftir Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda.

 

Heimskautsbaugur

Brúin og vegpresturinn

Heimskautsbaugurinn á Grímsey.
Þessi heimskautsbaugur er við flugvöllinn í Grímsey og er heimsóttur af nánast öllumj sem heimsækja Grímsey.

Þingeyjarsýslur

Einar Benediktsson (1864-1940)

Einar Benediktsson skáld
“Hjá þér eru yngstu óskir míns hjarta skírðar”
“Mín léttustu spor eru grafir í þína sanda”

Vangamynd af Einari á minnisvarðanum er eftir Ríkarð Jónsson
Jóhann Björnsson á Húsavík sagði fyrir um gerð minnisvarðans sem var reistur árið 1972 í túnfætinum á Héðinshöfða á Tjörnesi þar sem skáldið ólst upp og bjó fram á þrítugsaldur.
Hjálmar R. Bárðarson (1918-2009) 
Else Sörensen Bárðarson (1920-2008)
Hjálmar R. Bárðarson
 

Til minningar um
Hjálmar R. Bárðarson (1918-2009)
Else Sörensen Bárðarson (1920-2008)

Með virðingu og þakklæti fyrir gjöf til landgræsluskógræktar.
Landgræslusjóður 2011

Minnisvarðinn stendur fyrir framan Ásbyrgi

Hjálmar R. Bárðarson
Jóhann Sigurjónsson (1880-1919)
Jóhann Sigurjónsson
 
Jóhann Sigurjónsson skáld 19.6.1880-30.8.1919.

Á hvítum hestum hleyptum við 
upp á bláan himinbogann
og lékum að gylltum hnöttum


Lágmynd á minnisvarðanum gerði Ríkarður Jónsson myndhöggvari en Einar Hákonarson gerði minnisvarðann sem stendur við Heiðarendann á nesi því er skilur að Laxá og Reykjakvísl við Laxamýri. Minnisvarðinn var afhjúpaður með athöfn 17. júní 1980.

Jóhann Sigurjónsson
Látra-Björg (1716-1785)
Látra-Björg


Látra-Björg
 1716-1785

Orgar brim á björgum, 
bresta ölduhestar,
stapar standa tæpir,
steinar margir veina.
Þoka úr þessu rýkur,
þjóð ei spáir góðu.
Halda sumir höldar
hríð á eftir ríði.

Minnisvarðinn er merktur Grýtubakkahreppi og stendur við höfnina á Grenivík

Látra-Björg
Oddi Helgason 
Stjörnu-Oddi


Oddi Helgason

Stjörnu-Oddi 
Uppi á fyrri hluta 12. aldar
Múla í Aðaldal – Flatey á Skjálfanda

Setti fram reglur um tímasetningu sólhvarfa og vikulega breytingu á sólarhæð.
Miðaði átt dögunar og dagseturs.

Stjarnvísindafélag Íslands reisti steininn á sumarsólhvörfum 2020.

Minnisvarðinn stendur við Grenjaðarstað í Aðaldal, S-Þing.

Sigurlaug Jósefsdóttir (1874-1959)
Sigvaldi E. Sigurgeirsson (1871-1922)
Sigvaldi E. Sigurgeirsson
 
Minningarreitur um hjónin 
Sigurlaugu Jósefsdóttur f. 131.2.1874 d. 20.11.1959 og 
Sigvalda E. Sigurgeirsson f. 3.7.1871 d. 7.10.1922
Reistur 1999 að tilhlutan Sigurðar Óskars Sigvaldasonar.
Sigurlaug og Sigvaldi fluttu að Gilsbakka vorið 1901 og bjuggu þar til æviloka. 
Gilsbakki hefur síðan verið í ábúð afkomenda þeirra hjóna.
Börn þeirra voru:
Benjamín, f. 1895; Sigurður, f. 1897; Friðgeir, f. 1899; Sigrún, f. 1900; Halldór f. 1902;
Ástríður f. 1904; Kristín f. 1906; Sigurður Óskar, f. 1908; Rakel, f. 1910; Guðný Ingibjörg f. 1911; Sesselja f. 1913; Guðbjörg f. 1915. Fósturdóttir: Margrét f. 1923.
Skúli Magnússon (1711-1794)
 
Skúli Magnússon landfógeti
fæddist í Keldunesi 12.12.1711.

Skúli var fæddur að Keldunesi í Norður-Þingeyjarsýslu 12. des 1711. Föðurætt Skúla er runnin frá Skagafirði en langafi hans var Skúli Magnússon, prestur í Goðdölum. Skúli Magnússon yngri var sýslumaður Skagfirðinga frá 14. apríl 1737-1750. Merkasta umbótamál sem Skúli beitti sér fyrir á
sýslumannsárum sínum er án efa samþykkt um sumarbeit hrossa en hún var gerð við Vallalaug 13. maí 1739. 
 

Minnisvarðinn stendur við félagsheimilið Skúlagarð

Þorgeir Ljósvetningagoði
Ljósvetningagoði
 
“En nú þykir mér það ráð, að vér látum og eigi þá ráða, er mest vilja í gegn gangast, og miðlum svo mál á milli þeirra, að hvorirtveggju hafi nokkuð síns máls, og höfum allir ein lög og einn sið. Það mun verða satt, er vér slítum sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn.”
Með þessa fornu lögspeki að leiðarljósi vann Þorgeir Ljósvetningagoði Þorkelsson það afrek að miðla málum þegar stefndi í átök milli heiðinna manna og kristinna á Alþingi árið 1000.
 

Minnisvarðann lét Lögmannafélag Íslands reisa árið 1997 til minningar um Þorgeir Ljósvetningagoða og afrek hans. 

Minnisvarðinn stendur við Goðafoss.

Þorgeirskirkja


Meðal þess sem gert hefur verið til þess að minnast þúsund ára kristni í landinu er bygging nýrrar kirkju á Ljósavatni í Suður-Þingeyjarsýslu. Var hún vígð að viðstöddu fjölmenni 6. ágúst eins og fram hefur komið í fréttum. Með þessu vildu menn heiðra Þorgeir Ljósvetningagoða fyrir hans viturlega úrskurð á Þingvöllum árið 1000. Um trúarsannfæringu Þorgeirs vitum við ekki neitt, en hann hefur haft spurnir af framsókn kristninnar í nálægum löndum og talið að fyrr eða síðar mundu hin heiðnu goð víkja fyrir Kristi. Ljóst er að niðurstaða Þorgeirs hefur komið í veg fyrir blóðsúthellingar og ófrið innanlands sem hefðu getað staðið lengi. Eftir atvikum má telja viturlegt að leyfð voru blót á laun, en Þorgeir hefur viljað vera afdráttarlaus og fargaði sínum goðamyndum svo sem frægt hefur orðið.

Hrafnkell Thorlacius arkitekt var fenginn til þess að teikna kirkju og velja henni stað. Hann benti á tvo unga arkitekta, Gunnlaug Jónasson og Gunnlaug Johnson. Þeir tóku að sér að teikna Þorgeirskirkju á stað sem Hrafnkell hafði valið. Kirkjan er þeirra verk og talsvert frábrugðin þeirri lausn sem Hrafnkell hafði lagt upp með. 

Laugar

Halldóra Sigurjónsdóttir (1905-1994)
Ljóðið við rokkinn
 
Til minningar um ævistarf Halldóru Sigurjónsdóttur 1905-1994, sem var kennari við 
Húsmæðraskóla Þingeyinga á Laugum 1930-1966 og jafnframt skólastjóri frá 1946.
Frá Kvenfélagasambandi Suður-Þingeyinga, Menningarsjóði þingeyskra kvenna,
samstarfsfólki og nemendum.
Verkið Ljóðið við rokkinn gerði Ásmundur Sveinsson á árunum 1893-1982 
 
Minnisvarðinn stendur við Laugaskóla.
Minningarlundur á Laugum
Minningarlundur
 

Þennan lund gerðu Laugamenn árg. 1970 
til minningar um
Þórólf Arnkelsson, f. 14.2.1952 d. 1.8.1971
Tryggva Ingason, 18.10.1953 d. 1.8.1984
Hilmar Hermóðsson, f.  30.8.1953 d. 1.6.1999

Lundurinn er sunnan við Laugaskóla.

Laxárdalur

Hulda skáldkona (1881-1946)
Hulda skáldkona
 
Hulda Unnur Benediktsdóttir Bjarklind, fædd á Auðnum 1881
Aldarminning 6. ágúst 1981.
 
Gefðu mér lind og lítinn fugl
sem ljóðar um Drottins frið,
á meðan sólin á morgni rís
við mjúkan elfarnið.
 
Kyrrlátann dal með reyr og runn,
rætur og mold og sand
sólheita steina ber og barr
 – blessað ósnortið land. 
 

Með virðingu og þökk
Kv. S.Þ.

Minnisvarðinn stendur í Huldulundi við Auðnir í Laxárdal.

Huldulundur
Hulda
Jón J. Víðis (1894-1975)
Jón J. Víðis
 
Jón J. Víðis fæddist á Þverá 1894. Lést 1975.
Hann var ættarhöfðingi.
Hann mældi hafnir, bæi og vegi um land allt.
Hann teiknaði útsýnisskífur og hús.
Reist af frændfólki, Ingólfsbræðrum og Vegagerðinni 2009.
 
Stendur við fæðingarstað hans,  Þverá í Laxárdal

Húsavík

Garðar Svavarsson
Garðar Svavarsson

Farfuglar
Minnisvarði Garðars Svavarssonar
Farfuglar
Sigurjón Ólafsson myndhöggvari 1976
Skógrækt
Skógrækt
 
Skógræktarfélag Húsavíkur stofnað 1943

Þórir Friðgeirsson, Sigurður Gunnarsson, Einar J. Reynis, Jón Haukur Jónsson,
Einar J. Guðjohnsen.
Þökkum ykkur framsýnina og þrautsegjuna 1995.

Minnisvarðinn stendur í skógræktinni við Botnsvatn

Þórður Sveinbjörnsson Guðjohnsen (1844-1926)
Þórður S. Guðjohnsen


Veglegt og virðulegt ættarmót héldu ættingjar Þórðar Sveinbjörnssonar Guðjohnsen á Húsavík helgina 10.­-11. september 1994, í tilefni af 150 ára minningu Þórðar, sem fæddur var 14. september 1844. 

Í tilefni tímamótanna höfðu ættingjar Þórðar látið gera um hann minnisvarða, sem gerður er af Helga Gíslasyni myndhöggvara og staðsettur í miðbæ Húsavíkur, vestan við kirkjuna.

Afhjúpunin fór fram að viðstöddum hinum fjölmenna ættingjahópi og bæjarbúum. Hún hófst með ávarpi Aðalsteins Guðjohnsen rafveitustjóra, en síðan tók til máls Sören Langvad verkfræðingur, sem er dóttursonur Þórðar og afhjúpaði hann listaverkið og afhenti Húsavíkurbæ það til varðveislu. Bæjarstjórinn Einar Njálsson veitti minnisvarðanum móttöku og þakkaði þá ræktarsemi, sem ættingjarnir sýndu Húsavík og sagði að minnisvarðinn væri bænum til prýði og minnti á merkan þátt í sögu Húsavíkur.

Við þetta tækifæri flutti Sæmundur Rögnvaldsson sagnfræðingur fróðlegan þátt um verslunarstjórann og athafnamanninn Þórð Sv. Guðjohnsen. Hér skal aðeins drepið á nokkra kafla úr erindi sagnfræðingsins:

Þórður var fæddur í Reykjavík 14. september 1844, og ólst þar upp, sonur Péturs Guðjohnsen organista og kennara í Reykjavík og konu hans Guðrúnar S. Knudsen. Aðeins 14 ára gamall hóf hann verslunarstörf í Reykjavík og varð síðar búðarmaður á Seyðisfirði, í Grafarósi og aftur í Reykjavík. Tuttugu og þriggja ára varð hann verslunarstjóri við verslun Sveinbjarnar Jakobsen í Reykjavík. Sumarið árið 1870 varð hann kaupstjóri á seglskipinu Gránu, sem Sveinbjörn hafði á leigu en safnaði um leið vörum upp í hlutafjárloforð fyrir Gránufélagið um Norðurland.

Um vorið 1871 var Þórði boðin staða verslunarstjóra fyrir Örum og Wulff á Húsavík, með því skilyrði að hann drifi sig strax norður svo hann yrði til staðar þegar Iversen yfirkaupmaður kæmi með fyrsta skipi til Húsavíkur. Ef hann yrði ekki þar til staðar væri með skipinu maður, sem fengi stöðuna.

Brá Þórður nú fljótt við og fór á hestum norður og var kominn norður á Húsavík fyrir lok mars. Það er skemmst frá að segja að Þórður Guðjohnsen varð síðan verslunarstjóri Örum og Wullfs á Húsavík næstu 30 árin en allt til ársins 1902 er hann fluttist til Danmerkur. Á Húsavík var ævistarf hans og þar var hugur hans upp frá því þrátt fyrir búsetu í Danmörku og segir hann eitt sinn í bréfi að hann fylgist með öllu “heima” á Íslandi, því þar séu rætur sínar og annars staðar verði hann aðeins gestur. Enda hvíla jarðneskar leifar hans á Húsavík.

Þórður var tvíkvæntur. Fyrri kona hans Halldóra Margrét Sveinbjörnsdóttir fluttist með honum til Húsvíkur en hún andaðist 1881 en síðar kvæntist hann Maríu Kirsten Sveinbjörnsson.

Slíkur maður sem Þórður Guðjohnsen var hlaut að setja mark sitt á þetta litla samfélag hér nyrðra. Hann var um árabil hreppsnefndarmaður, … tók þátt í stofnun Sparisjóðs Húsavíkur og íshúss, byggði vatnsmyllu og var aðili að flestu því sem hér var brallað og of langt mál væri að telja. Hann hvatti menn til útgerðar og hóf að kaupa fisk af mönnum strax og hann kom hér, á svipaðan hátt og hann hafði vanist syðra.” [Mbl.]

Sigurjón Ármannsson (1896-1958)
 

Strandfuglar

Eftir Sigurjón Pálsson
Tileinkað afa hans, Sigurjóni Ármannssyni (1896-1958) kennara og bæjargjaldkera á Húsavík
 
Reist 2015 á bökkunum fyrir framan Húsavíkurkirkju
Strandfuglar
Apollo Astronaut training 1965 & 1967
Geimfarar
 
Apollo Astronaut training in Iceland 1965 & 1967
Geology field trips 1965 &1967.
William Anders
Neil Armstrong
… and 30 others
 
Æfingar Apollo geimfara á Íslandi 
Jarðfræðiferðir 1965 og 1967
 
Minnisvarðinn sendur norðan hafnarinnar á Húsavík.
Ægir
Minnisvarði um drukknaða


Ægir

Minnisvarði um látna sjómenn á Húsavík.
Jesús sagði: Ég lifi og þér munuð lífa.

Minnisvarðinn er eftir Hallstein Sigurðsson og stendur við Húsavíkurkirkju

Mývatnssveit

Miðkvíslarstífla
Miðkvíslarstífla
 
Miðkvíslarstífla
reist 1960.
Heimamenn sprengdu stífluna 25. ágúst 1970 til að mótmæla stórvirkjun við Brúar.
Tímamót i náttúruvernd á Íslandi.
 
Stendur við Miðkvísl Laxár við Mývatn.
Einarsætt

Reykjahlíð
Búsetuafmæli Einarsættar 1995
Innkomnir í Reykjahlíð 1895 frá Svartárkoti
Hjónin 
Einar Friðriksson 55 ára
Guðrún Jónsdóttir 49 ára
Börn þeirra:
Jón Frímann 24 ára, Illugi Arinbjörn 22 ára, Guðrún Friðrika 19 ára, Ingólfur Ísfeld 16 ára, Þuríður 12 ára, Sigurður 11 ára, Anna Sigríður 8 ára, María 6 ára, Jónas 4 ára, 
Vinnufólk:
Björg Júlíana Friðriksdóttir 47 ára, Gerður Jónsdóttir 12 ára, Guðfinna Þorláksdóttir 26 ára, Sigurður Jónsson 20 ára.
 

Minnisvarðinn stendur á bökkum Mývatns við Reykjahlíð

Reykjahlíð
Böðvar Björgvinsson (1942-1999) Jón Kjartansson (1945-1999) Sigurgeir Stefánsson (1962-1999)


Til minningar um 
Böðvar Björgvinsson, fæddur 1942, starfsmaður Símans,
Jón Kjartansson, fæddur 1945, starfsmaður Símans,
Sigurgeir Stefánsson, fæddur 1962, starfsmaður Kísiliðjunnar
sem drukknuðu í Mývatni við lagningu ljósleiðara þann 26. október 1999.

Blessuð sé minning þeirra.

Reist af Félagi íslenskra símamanna og Rafiðnaðarsambandi Íslands 2003.

Minnisvarðinn stendur við Mývatn norðanvert.

Böðvar Jónsson frá Gautlöndum (1925-2009)
Böðvar Jónsson
 

Því get ég kvatt mín fögru föðurtún
án geigs og trega, þegar yfir (líkur [sic]) lýkur
að hugur leitar hærra fjallsins brún,
og heitur blærinn vanga mína strýkur.

Í lofti blika ljóssins helgu vé
og lýsa mér og vinum mínum öllum.
Um himindjúpin horfi ég og sé,
að hillir uppi land með hvítum fjöllum.  Davíð Stefánsson

Minnisvarðinn stendur uppi á Sandfelli í Mývatnssveit

Böðvar á Gautlöndum

Kópasker - Melrakkaslétta - Þistilfjörður

Björn Kristjánsson (1880-1973)
Björn Kristjánsson
 

Björn Kristjánsson kaupfélagsstjóri KNÞ 1916-1946 og Rannveig Gunnarsdóttir
byggðu Útskála 1934.
Þau voru önnur fjölskyldan sem settist að á Kópaskeri og bjuggu þar 1918 til 1957.

Minnisvarðinn stendur við Útskála á Kópaskeri

Björn Kristjánsson
Jóhanna Sigfúsdóttir (1881-1925)  Aðalsteinn Jónasson (1875-1958)
Hvammur Þistilfirði
 
Jóhanna Sigfúsdóttir, f. 20.5.1881, d.22.6.1925
Aðalsteinn Jónasson, f. 21.6.1875, d. 4.5.1958

Niðjar

Steinninn stendur á Krummahól þar sem gamli bærinn í Hvammi stóð og var minnisvarðinn afhjúpaður á ættarmóti árið 1980.
Jóhanna Sigfúsdóttir

Langanesbyggð

Arnljótr Ólafsson (1823-1904)
Arnljótur Ólafsson
 
Arnljótr Ólafsson prestur og rithöfundur
fæddur 21-11-823, dáinn 29-10-1904.
Þ. Hólmfríður Þorsteinsdóttir kona hans.
fædd 22-10-1839, dáin 8-3-1904.
 
Minnisvarðinn stendur við Sauðaneskirkju
Kristján frá Djúpalæk (1926-1994)
 

Kristján Einarsson frá Djúpalæk, f. 16.7.1916, d. 15.4.1994 

Minnisvarðinn stendur við Djúpalæk þar sem Kristján ólst upp. Bærinn er nú í eyði.
Drangarnir þrír tákna fegurð, gleði og frið, sem eru lokaorðin í kvæðinu Mitt faðirvor sem er á einum steinanna.
 

Mitt Faðirvor

Ef öndvert allt þér gengur
og undan halla fer
skal sókn í huga hafin
og hún mun bjarga þér.
Við getum eigin ævi
í óskafarveg leitt
og vaxið hverjum vanda
sé vilja beitt.


Þar einn leit naktar auðnir
sér annar blómaskrúð.
Það vex sem að er hlúð.
Þú rækta rósir vona
í reit þíns hjarta skalt
og búast við því besta
þó blási kalt.

Þó örlog öllum væru
á ókunn bókfell skráð,
það næst úr nornahöndum
sem nógu heitt er þráð.
Ég endurtek í anda
þrjú orð við hvert mitt spor:
Fegurð, gleði, friður –
mitt Faðirvor.

Strengir

Steinarnir eru strengir,
strengina vatnið knýr.
Gaman það væri’ að vita
hvað í vatnsins huga býr.

Hvaðan skyldi það koma
hvert er heitið þess ferð!
Síðan á öldum söngsins
samferða því ég verð.

Lyngið á líka strengi,
leikur blærinn á þá
söngva sorgar og gleði
er í sálum kveikja þrá.

Vorljóð draums og vonar
veröldin syngur öll.
Berast vil ég með’ blænum
burt yfir hæstu fjöll.

Russell W. Sims, jr.
Daniel A. Blycker
Flugvél
 

Russell W. Sims jr. CDR. – USN
On July 25, 1969 command pilot Commander Russell W. Sims, Jr., and co-pilot Lt. Daniel A. Blycker, crash landed this United States Navy R$D-6 cargo aircraft on a supply mission in support of the US Air Force 667 Aircraft Control and Warning Squadron located at the Langanes Air Station. The plane remains at the original site of the crash and the former Þórshöfn runway.

Skjöldurinn er inni í flugvélinni, sem er enn á gamla flugvellinum á Þórshöfn og skýlir nú hestum.

Russell W. Sims, jr.
Krosshæð
Enskir menn

Hér hvíla 11 enskir menn

Sagt er að þeir hafi verið enskir skipbrotsmenn sem ekki náðu til byggða.

Engelskagjá er í sjávarbjarginu við Font á Langanesi. Mannskæð sjóslys hafa orðið við Font í gegnum tíðina en Engelskagjá dregur nafn sitt af einu slíku. Enskt skip með 12 manna áhöfn er sagt hafa strandað við bjargið snemma á 18. öld og náði áhöfnin að klifra upp gjána. Skipstjórinn lifði einn af en hinir mennirnir eru sagðir hafa örmagnast og látið lífið. Stór hvítur kross sem hefur verið endurnýjaður í gegnum tíðina stendur enn í dag til minningar um mennina. 

Krossinn er á Krosshæð milli Skoruvíkur og Skála þar sem líkin eru talin grafin. [Texti á heimasíðu Langanesbyggðar].

Minnisvarði um norska sjómenn
 
Disse nordmenn omkom ved Langanes da
d/s “Frithjof” av Tromsö forliste
5. oktober 1907.

Á steininum eru nöfn þeirra sem fórust með skipinu. Einn lifði af.

Þessi minnisvarði stendur í Sauðaneskirkjugarði á Langanesi.

Norskir sjómenn