Seyðisfjörður

Minnisvarðar á Austurlandi


Vopnafjörður
Múlaþing Seyðisfjörður Egilsstaðir og HéraðEiðar Hallormsstaðaskógur Breiðdalsvík og Breiðdalur
Fjarðabyggð Norðfjörður Eskifjörður Reyðarfjörður Fáskrúðsfjörður Stöðvarfjörður Djúpivogur, Álftafjörður
Lón

Vopnafjörður

Minnisvarði um drukknaða sjómenn
Vopnafjörður

Blessuð sé minning þeirra.

Minnisvarðinn var reistur árið 2005 í minningu Þorsteins Jóns Björgólfssonar sem fórst með báti sínum Þernu ÁR 22, 20 mars 1981.

Bjarki Björgólfsson, einn af fimm eftirlifandi systkinum Þorsteins heitins, sá um hönnun og smíði minnisvarðans með aðstoð góðra manna, en Vopnafjarðarhreppur sá um staðarval og undirstöður. 

Á minnisvarðanum eru 5 skildir með nöfnum Vopnfirðinga sem farist hafa.

Minnisvarðinn stendur á hafnarsvæðinu í Vopnafirði.

Vesturfarar
Vesturfarar Vopnafirði

Steinn þessi er gjöf frá Vesturfarasetrinu á Hofsósi til minningar um þá Íslendinga sem frá Vopnafirði fóru til Vesturheims.
Gefinn 28. maí 2002.

Úr Íslendingadagsræðu

Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalandsmót,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfoss og hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!

Yfir heim eða himin,
hvort sem hugar þín önd,
skreyta fossar og fjallshlíð
öll þín framtíðarlönd!
Fjarst í eilífðar útsæ
vakir eylendan þín:
nóttlaus voraldar veröld
þar sem víðsýnið skín.

Stephan G. Stephansson

Minnisvarðinn stendur við húsið Kaupvang í miðbæ Vopnafjarðar 


Múlaþing

Borgarfjörður eystri

Naddakross
Draugar

Óvættur er Naddi hét og bjó í Naddahelli í Skriðunum réðst á vegfarendur eftir að skyggja tók. Þegar loks tókst að ráða niðurlögum Nadda var reistur kross við götuna nefndur Naddakross. Krossinn er með latneskri áletrun og ártalinu 1306. Krossinn hefur oft verið endyrnýjaður. Áður fyrr gerðu vegfarendur bæn sína hjá krossinum. [Vegahandbókin]
Áletrunin á krossinum: Efficiem Christi oui transit pronus honora anno MCCCVI.

Krossinn stendur við veginn í Njarðvíkurskriðum.


Seyðisfjörður

Dagbjartur Guðmundsson (1886-1972) – Erlendína Jónsdóttir (1894-1974)
Dagbjartur Guðmundsson
Dagbjartur Guðmundsson Seyðisfjörður
Bautasteinn

Síðustu hjónin á Hjalla, 
Dagbjartur Guðmundsson f. 19.10.1886 – d. 6.4.1972
og Erlendína Jónsdóttir f. 3.5.1894 – d. 14.7.1974
bjuggu þar 1916-1956.

Börn þeirra: Guðný f. 1916 -1941; Sigrún 1918; Elsa 1920-1941; Guðjón 1921-1998; Jóhann 1924-1946: Sæunn 1925-1941; Guðmundur 1927-1927; Friðfinnur 1929-1931; Vilborg 1930; Páll 1932; Þórir 1935; Þorleifur 1936.

Móðir húsfreyju: Guðríður Pálsdóttir 1860-1937, heimilisföst á Hjalla 1916-1937.

Úr Kyndilmessu:

Blessaðir veri fingurnir smáu,
hennar mömmu
sem tíndi fífu í mýrinni.
Blessaðar veri hendurnar gigtarbólgnu
hennar ömmu
sem sneri kveikinn.
Blessaður veri hann afi minn
sem smíðaði kolu úr járni.
Blessaðir veri frændur mínir
sem bræddu lýsið.
Blessað veri fólkið
sem þreyði í myrkrinu.
Blessað veri ljósið
sem logaði á grönnum kveik
örlítil blaktandi týra í heimskautanóttinni.

Vilborg Dagbjartsdóttir

Sólardagurinn á Hjalla var á Kyndilmessu annan febrúar. [Texti á skildi].

Minnisvarðinn er á klettavegg á Vestdalseyri í Seyðisfirði


Ingi T. Lárusson (1892-1946)
Ingi T. Lárusson
Ingi T. Lárusson

Ingi Lár
Svanur ber undir bringudúni banasár.– Það er ævintýrið um Inga Lár.
Tærir berast 
úr tjarnarsefi tónar um fjöll.– Heiðin töfrast og hlustar öll.
Sumir kveðja 
og síðan ekki söguna meir.– Aðrir með söng er aldrei deyr.
[Þ.Vald.] 

Frá austfirskum átthagafélögum vinum og aðstandendum 1976.

Minnisvarðinn stendur í skrúðgarði við Seyðisfjarðarkirkju.


Ólafur Marel Ólafsson (1925-2009) – Jón Kristinn Pálsson (1930-2004)
Jón Kristinn Pálsson Seyðisfjörður
Ólafur Marel Ólafsson

Til minningar um Ólaf Marel Ólafsson f. 30.4.1925 – d. 4.1.2009 útgerðarmann og Jón Kristinn Pálsson f. 21.10.1930 – d. 25.12.2004 skipstjóra.

Farsælt samstarf þeirra  félaga hófst 1959 með útgerð Gullvers NS-12. 
Alls hafa þeir félagar gert út fjögur fiskiskip með nafninu Gullver og komið að útgerð fleiri skipa ásamt vinnslu í landi. 
Þessi sjónskífa var sett um 2009 til að minnast 50 ára útgerðarsögu þeirra með þakklæti fyrir mikilvæga þátttöku í atvinnulífi Seyðisfjarðar.

Gefandi: Áhöfn Gullvers NS-12

Minnisvarðinn stendur innst í kaupstaðnum


Margrét Friðriksdóttir (1891-1971)
Margrét Friðriksdóttir

Margrét Friðriksdóttir

Minning

Þakka vinir
þöglum huga
leiðsögn liðinna ára.
Fylgdu önn hverri
andleg bita
Gengin til giftu spor.

[EHG]

Minnisvarðinn sendur í skrúðgarði við Seyðisfjarðarkirkju.

Margrét Friðriksdóttir fæddist á Akureyri hinn 14. nóvember 1891 og lést í Reykjavík 18. október 1971. 

Margrét var mjög mikilhæf kona. Hún var frábærum gáfum gædd og mjög vel menntuð. Til dæmis var tungumálakunn-átta hennar sérstök. Fyrr á árum var það ekki svo að menn væru færir í mörgum tungumálum. Því var það að þegar Margrét kom til Seyðisfjarðar spurðist það fljótt að hún væri vel að sér í að minnsta kosti fjórum erlendum tungumálum (ensku, dönsku, þýsku og frönsku). 

Margrét tók mikinn þátt í félagsmálum kvenna á Seyðisfirði og einnig í sambandi austfirskra kvenna. Þá tók hún einnig þátt í leikstarfsemi í bænum. Allt þetta fór henni svo vel úr hendi sem best verður á kosið.

Eitt af aðaláhugamálum hennar var skógrækt. Hún var stofnandi Skógræktarfélags Seyðisfjarðar og formaður þess frá upphafi. Þá kom hún upp fallegum trjágörðum við heimili þeirra hjóna á Seyðisfirði, enda hafði hún mjög góða alhliða þekkingu á þessu sviði. Varla var svo nefnd nokkur plöntu- eða trjátegund að hún ekki kynni á henni sklil og oftast latneska nafnið líka. 

Margrét Friðriksdóttir var glæsileg kona. Framkoman var höfðingleg en jafnframt látlaus. Strax og menn byrjuðu tal við hana kom fram að hér fór menntuð kona og siðfáguð.

Maður hennar var Þorsteinn Gíslason, póst- og símamálastjóri á Seyðisfirði. Þeim varð ekki barna auðið, en ólu upp kjördóttur.

(Úr minningargrein eftir Jónas Jónsson í Mbl. 27/10/71)


Otto A. Wathne (1843-1898)
Otto A. Wathne Seyðisfirði
Otto a. Wathne Seyðisfirði

Otto Andreas Wathne
R. af Dbr
fæddur 13. ágúst 1843 – d. 15. október 1898

Deyr fé deyja frændr
Deyr sjálfr it sama.
En orðstírr deyr aldrigi
hveim er sér góðan getr.

Ottó Wathne var kaupmaður og útgerðarmaður á Seyðisfirði. Hann var ættaður frá Noregi en kom til Íslands fyrst árið 1869 og hóf síldveiðar á Seyðísfirði og byggði hús sem kallað var Vatnbugt á Búðareyri. Útgerðin heppnaðist ekki í það skipti og fór Otto til Englands, tók stýrimannapróf og sigldi um heimsins höf í nokkur ár. Hann kom aftur er síldveiðar Norðmanna hófust að nýju og má segja að eftir það hafi hann byggt upp Seyðisfjörð og gert hann að einum þekktasta útgerðarbæ á landinu. [Minningargreín í Austra]

Minnisvarðinn stendur við Fjarðará á Seyðisfirði.


Þorbjörn Arnoddsson (1897-1976)
Þorbjörn Arnoddsson
Þorbjörn Arnoddsson

Þessi varði er reistur af Seyðfirðingum til minningar um ferðagarpinn 
Þorbjörn Arnoddsson.
Hann var brautryðjandi í vetrarferðum yfir Fjarðarheiði.
F. 13.3.1897 – D. 31.8.1976.

Þorbjörn Arnoddsson hóf bifreiðaakstur í almannaþágu árið 1935 og var það upp frá því hans aðalstarf. Það mun svo hafa verið veturinn 1952-1953 sem hann hóf snjóbílaakstur yfir Fjarðarheiði og rauf þar með þá einangrun sem Seyðisfjörður hafði búið við allt frá hausti og langt fram á vor í ómuna tíð. Þorbjörn var sæmdur Riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 1975 fyrir brautryðjendastörf á sviði samgöngumála.

Ástvaldur Kristófersson formaður nefndar þeirrar er hafði veg og vanda af gerð minnisvarðans, skýrði frá byggingu hans. Súlurnar eru úr stuðlabergi úr Hjaltastaðaþinghá og táknar forsúlan þann sem ryður brautina og sækir á brattann og minni súlurnar þar fyrir aftan tákna þá sem eftir fylgja. [Mbl.]

Minnisvarðinn var afhjúpaður 11. september 1983 og stendur á Neðri-Staf í Fjarðarheiði.


Snjóflóð
Snjóflóð

Minnisvarði um snjóflóð.

Eftir Theodór Blöndal

Minnisvarðinn er gerður úr járni sem var í burðarvirki húss sem splundraðist í snjóflóði sem kom úr Bjólfi árið 1995.


Egilsstaðir og Hérað

Gálgaklettur
Gálgaklettur

Hér á þessum stað voru þeir af lífi teknir sem töldust hafa brotið lög þessa lands.
Enginn veit nú nöfn þessara ólánssömu manna nema Valtýs á grænni-treyju.
Kletturinn einn vitnar þögull um stór örlög. [Texti á skildi].

“Aldrei hefur fengist nein staðfesting á sanngildi Valtýsssögu, önnur en sú að við Gálgaklett komu upp mannabein sem lágu þar í óreiðu fram um miðja 20. öld, en var þá safnað saman og sett í kassa með glerloki sem festur var á klettinn. Árið 1975 gekkst Rotaryklúbbur Héraðsbúa fyrir því að sett var upp skilti á klettinn en beinakassinn tekinn niður og settur á Minjasafnið á Egilsstöðum og um áratug síðar á Þjóðminjasafnið þar sem beinin eru nú geymd.” [Upplýsingaskilti á staðnum].


Silfurstökkið
Vilhjálmur Einarsson þrístökk Egilsstaðir

Þrístökk Vilhjálms Einarssonar á Ólympíuleikunum í Melbourne árið 1956.

Vilhjálmur fæddist 5. júní 1934. Hann hóf sinn keppnisferil á skólamótum á Eiðum um 1950. Vilhjálmur hreppti silfurverðlaun í þrístökki á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu 27. nóvember 1956 með stökki upp á 16,26 metra. Stökkið var Ólympiumet í tvær klukkustundir, en Da Silva frá Brasilíu bætti það með sigurstökki sínu. Vilhjálmur varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum og er sá eini hingað til sem hefur sett Ólympíumet. Vilhjálmur var sigursæll íþróttamaður allan sinn feril. Hann lést 28. desember 2019. [isi.is]

Minnisvarðinn stendur við Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum


Ungmennafélag Íslands
Ungmennafélag Íslands Egilsstaðir

Ungmennafélag Íslands óskar Austur-Héraði og Austfirðingum til hamingju með glæsilegan Íþróttaleikvang.
Þökkum fyrir góða aðstöðu og veitta aðstoð við framkvæmd 23. Landsmóts UMFÍ 12.-15. júlí 2001.

Ungmennafélag Íslands.

Minnisvarðinn stendur við Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum


Unglingalandsmót UMFÍ
Íþróttir Egilsstaðir

14. og 20. Unglingalandsmót UMFÍ
Egilsstöðum, 29.-31. júlí 2011 og 3.-8. ágúst 2017.
Bestu þakkir fyrir gott samstarf við framkvæmd mótsins.

Bestu kveðjur frá Ungmennafélagi Íslands.

Minnisvarðarnir standa við Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum.


Brynhildur Stefánsdóttir (1908-1984)

Brynhildargarður

Þessi minnisvarði var reistur 9. ágúst 1997 til heiðurs Brynhildi Stefánsdóttur, ljósmóður frá Merki á Jökuldal, f. 25.3.1908 – d. 11.2.1984.
Hún hóf að rækta þennan garð um 1957 og arfleiddi Egilsstaðabæ að eignum sínum til þess að verkinu yrði lokið.

Brynhildargarður er fyrir neðan súkrahúsið á Egilsstöðum.


Gunnar Gunnarsson (1889-1975)
Gunnar Gunnarsson

Gunnar Gunnarsson skáld

f. 18. maí 1889 – d. 21. nóvember 1975

 

Minnisvarðinn stendur á hlaðinu á Skriðuklaustri sem Gunnar byggði árið 1939 þegar hann kom heim frá dvöl erlendis, en hann bjó í Danmörku og skrifaði sögur sínar á dönsku á meðan hann dvaldi þar. Hann flutti til Íslands og bjó á Skriðuklaustri um tíma en dvölin þar var endaslepp vegna heimstyrjaldarinnar. Gunnar gaf Ríkinu Skriðuklaustur 1948 og bjó Gunnar í Reykjavík eftir það til dauðadags.

Brjóstmyndin er eftir Sigurjón Ólafsson.


Jóhann Magnús Bjarnason (1866-1945)
Jóhann Magnús Bjarnason

Til minningar um skáldið
Jóhann Magnús Bjarnason
f. 24.5.1866 að Meðalnesi í Fellum
d. 8.9.1945 í Elfros, Saskatchewan, Kanada.

 Frá því 1875 og á fyrstu árum þessarar aldar fluttist fjöldi fólks af Fljótsdalshéraði búferlum vestur um til Kanada og Bandaríkjanna. Þessir Vestur-Íslendingar lögðu ætíð mikla rækt við íslenzka tungu og forna menningu ættlands síns í hinum nýju heimkynnum vestan hafs. Þessa fólks og afkomenda þeirra minnumst við hér með sérstakri virðingu.Þjóðhátíðarárið 1974. [Skilti á vörðunni].Minnisvarðinn stendur við Þjóðveginn í landi Meðalness í Fellum.


Jörgen Kjerulf (1793-1831)
Jörgen Kjerulf
Kjerulfar

Ættfaðir íslenskra Kjerulfa
Jörgen Kjerulf (1793-1831) læknir að Brekku í Fljótsdal 1820-1831,
og kona hans Arnbjörg Bjarnadóttir (1790-1873)

Heimsmót Kjerulfa 2002.

Minnisvarðinn stendur við Hrafnkelsstaði í Fljótsdal


Sigfús Sigfússon (1855-1935)
Sigfús Sigfússon
Sigfús Sigfússon

Sigfús Sigfússon þjóðsagnasafnari frá Eyvindará
1855-1935

Sigfús Sigfússon (stundum nefndur Sigfús Sigfússon frá Eyvindará) (21. október 1855 – 6. ágúst 1935) var mikilvirkur þjóðsagnaritari og er þekktastur fyrir verk sitt: Íslenskar þjóðsögur og sagnir sem fyrst var gefið út í 16 bindum á árunum 1922 – 1959 og síðan í tíu bindum á árunum 1981 – 1991. Sigfús þótti mjög afkastamikill þjóðsagnasafnari á sínum tíma og barst hróður hans sem slíks víða.

Sigfús fæddist í Miðhúsum. Hann var sonur hjónanna Sigfúsar Oddssonar og Jóhönnu Þorsteinsdóttur frá Mjóanesi. Sigfús ólst hins vegar upp á Skeggjastöðum í Fellum en dvaldi tíðum á Eyvindará og kenndi sig jafnan við þann bæ. Sigfús lauk námi frá Möðruvallaskóla 1891 og starfaði síðan um hríð sem kennari á Héraði en fluttist síðan til Seyðisfjarðar þar sem hann bjó og starfaði lengst af ævi sinnar. Það einkenndi andlit hans að hann varð blindur á hægri auga og afmyndaðist augað í hvítt vagl eftir að hann varð nærri úti á Fjarðarheiði. Á efri árum flutti Sigfús til Reykjavíkur og síðustu æviárin dvaldi hann á Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund.

Minnisvarði um Sigfús stendur í landi Miðhúsa, á hæð skammt frá vegamótum Eiða- og Seyðisfjarðarvegar. Hann var afhjúpaður 6. ágúst 1985, en þá voru 50 ár frá andláti Sigfúsar. Vangamynd Sigfúsar er gerð eftir frummynd Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara.


Vilhjálmur Sigurbjörnsson (1923-1975)
Vilhjálmur Sigurbjörnsson

Til minningar um Vilhjálm Sigurbjörnsson frá Gilsárteigi sem lést af slysförum 28. okt. 1975.

Deyr fé
deyja frændur
deyr sjáfur hið sama
en orðstýr 
deyr aldrigi
hveim sér góðan getur.

Minnisvarðinn er á Fagradal þar sem Vihjálmur fórst í bílslysi


Eiðar

Þórarinn Sveinsson (1907-1972)
Þórarinn Sveinsson Eiðum

Þórarinn Sveinsson 

Íþróttafrömuður og kennari á Eiðum í 36 ár.

Gefendur: ÚÍA og nemendur hans.

Brjóstmyndin er eftir Ragnhildi Stefánsdóttur (1983).
Minnisvarðinn stendur við Eiðaskóla á Eiðum.


Þórarinn Þórarinsson (1904-1985)
Þórarinn Þórarinsson

Þórarinn Þórarinsson
kennari og skólastjóri á Eiðum 1930-1965.

Frá austfirskum atvinnurekendum sem verið hafa nemendur hans og öðrum vinum. [Skilti]

Þórarinn Þórarinsson, skólastjóri Alþýðuskólans á Eiðum, fæddist 5. júní 1904. Hann var sonur Þórarins Þórarinssonar, prests á Valþjófsstað í Fljótsdal, og Ragnheiðar Jónsdóttur húsfreyju. Fyrri kona Þórarins var Helga Guðríður Björgvinsdóttir sem lést 1937. Seinni kona hans var Sigrún Ingibjörg Sigþórsdóttir og eignuðust þau sjö börn; Ingibjörgu, f. 1941, Þórarin, 1943; Stefán, f. 1947, Sigurð Þór, f. 1948; Ragnheiði Helgu, 1952, Hjörleif, f. 1959 og Halldór, f. 1962.

Þórarinn lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Akureyri og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1924. Hann nam við Háskóla Íslands og lauk embættisprófi í guðfræði 1928. Þórarinn hélt til Marburg í Þýskalandi í framhaldsnám í uppeldisfræði, trúarsálfræði og helgisiðafræði árin 1929-30 og einnig í kennimannlegri guðfræði í Herborn, 1930. Hann dvaldi í Berlín 1936 og kynnti sér æskulýðs- og íþróttastarfsemi. Þá var hann í námsleyfi í danska lýðháskólanum veturinn 1959-60.

Þórarinn hóf kennslustörf við Alþýðuskólann á Eiðum 1930 og var skólastjóri þar 1938-65 og gegndi formennsku í skólanefndum um árabil.

Hann starfaði ötullega að menningarmálum í Héraði og var formaður Menningarsamtaka Héraðsbúa frá stofnun þeirra og um árabil. Þá var hann einn af hvatamönnum byggingar héraðsheimilisins Valaskjálfar, sem vígt var 1966. Valaskjálf tók þá við af Eiðastað. Hann sat sem fulltrúi á Kirkjuþingum og í Kirkjuráði. Þá var hann einnig í stjórn Skógræktarfélags Austurlands og gegndi formennsku þar.

Þórarinn ritaði margar greinar í blöð og tímarit um hugðarefni sín; sagnfræði, menntamál og þjóðmál. Endurminningabókin Horft til liðinna stunda , kom út 1981, er skreytt teikningum höfundar og Þórarins sonar hans.

Hann fluttist til Reykjavíkur 1965 og kenndi við Kvennaskólann í Reykjavík í nokkur ár.

Þórarinn Þórarinsson lést 2. ágúst 1985. [Mbl.]

Brjóstmyndina gerði Ragnar Kjartansson (1977).
Minnisvarðinn stendur við Eiðaskóla á Eiðum.


Hallormsstaðaskógur

Grenitré 1905
Fyrsta grenitrréð i Hallormsstað

Árið 1905 gróðursetti
Christian E. Flensborg
hér í Mörk fyrstu grenitrén á Hallormsstað

Minnisvarði í Hallormsstaðaskógi

Þorsteinn Valdimarsson (1918-1977)
Þorsteinn Valdimarsson Hallormsstað

Þorsteinn Valdimarsson skáld
f. 31.10.1918, d. 7.8.1977

Minnisvarðinn stendur á kletti í Svefnósum þar sem skáldið dvaldi í tjaldi á
stað sem hann kallaði Eldatanga í Hallormsstaðaskógi nokkrar vikur á sumri. [Árb. FÍ 2018].


Breiðdalsvík og Breiðdalur

Selnes
Erlendur Eyjólfsson Breiðdalssvík

Árið 1903 reistu sér bú að Selnesi hjónin Sigríður Árnadóttir og Erlendur Eyjólfsson, Guðni Árnason og Helga Sigurðardóttir ásamt Þóru Árnadóttur, Árna Árnasyni og Jóni Árnasyni.

Hjónin Gísli Guðnason og Ingibjörg Guðmundsdóttir, Oddný Þórunn Erlendsdóttir og Þorgrímur Guðmundsson tóku síðan við búi þar.

Með þökk og virðingu – Afkomendur.

Minnisvarðinn stendur á Selnesi á Breiðdalsvík


Einar Sigurðsson (1539-1626)
Einar í Eydölum

Einar Sigurðsson 1539-1626
Prestur í Heydölum 1590-1626
Skáld
“Nóttin var sú ágæt ein,
í allri veröld ljósið skein.”

Minnisvarðinn stendur í Heydalakirkjugarði


Sigurður Torfason (1834-1883) Sigríður Stefánsdóttir (1833-1883)
Sigurður Torfason
Sigurður Torfason

Til minningar um hjónin
Sigurð Torfason, f. 4.12.1834 og Sigríði Stefánsdóttur f. 5.9.1833
sem brunnu inni að Streitisstekk frá níu börnum 
þann 7. desember 1883.
Blessuð sé minning þeirra.

Minningarsteinn þessi er í Heydalakirkjugarði 

Varða þessi er hlaðin til minningar um hjónin
Sigurð Torfason og Sigríði Stefánsdóttur og afkomendur þeirra.
Sigurður og Sigríður brunnu inni að Streitisstekk í Breiðdal 7. desember 1883 eftir að hafa bjargað börnum sínum sem heima voru.
Hjónin áttu ekki afturkvæmt frá því að reyna að bjarga kúnni úr brennandi bænum.

Blessuð sé minning þeirra.

Sigurður Torfason f. 4.12.1834 – d. 7.12.1883, Sigríður Stefánsdóttir, f. 5.9.1938 – d. 7.12.1883
Kristborg Sigurðardóttir, f. 11.7.1858 – d. 7.4.1915, Rósa Sigurðardóttir, f. 28.10.1859 – d. 18.5.1943, Stefán Sigurðsson, f. 15.5.1860 – d. 4.12.1936, Ingibjörg Sigurðardóttir, f. 7.3.1862 – d. 1.6.1948, Margrét Sigurðardóttir, f. 29.6.1863 – d. 17.1.1901, Brynjólfur Sigurðsson, f. 26.1.1868 – d. 30.9.1953, Magnús Sigurðsson, f. 15.10.1871 – d. 12.1.1955, Sveinn Sigurðsson, f. 3.3.1877 – d. 30.1.1959, Torfi Sigurðsson, f. 23.2.1878 – d. 12.8.1858

Frá afkomendum 23. júní 2012 Breiðdal.

Minnisvarðinn stendur við Streitishvarf.


Fjarðabyggð

Norðfjörður

Í stafni
Í stafni Neskaupstaður

Höggmyndin er reist til minningar um Lúðvík Jósefsson og félaga hans í Neskaupstað. Nánustu samstarfsmenn Lúðvíks heima fyrir voru Bjarni Þórðarson bæjarstjóri og Jóhannes Stefánsson framkvæmdastjóri. Lúðvík fæddist 16. júní 1914 í húsi sem stóð hér við lækinn. Hann átti sæti í bæjarstjórn Neskaupstaðar 1938-1970, var alþingismaður 1942-1979 og sjávarútvegsráðherra tvívegis, 1956-58 og 1971-74 þegar landhelgin var færð út í 12 og síðar 50 mílur. Lúðvík var formaður Alþýðubandalagsins 1977-1980. Hann lést 18. nóvember 1994.


Bjarg
Bjarg Neskaupstað

Hér stóð útvegsbýlið Bjarg.
Þar byggðu og bjuggu Gísli Kristjánsson og Fanny Ingvarsdóttir 1923-1945.

Niðjar reistu bautastein 2003.

Gamla-Bjarg, húsið var byggt 1927.
Minnisvarðinn stendur við Naustahvamm í Neskaupstað


Svalbarð
Svalbarð Neskaupstað

Hér stóð húsið Svalbarð.

Þar bjuggu árin 1927-1992 hjónin Sesselja Jóhannsdóttir, Stefán Guðmundsson og börn þeirra, Helga, Karl, Jóhannes, Garðar, Ólöf, Auðbjörg. Sveinbjörg, Hreinn.

Húsið var byggt 1906 og rifið 1995. Það stóð við Miðstræti 7.

Minnisvarðinn stendur við Miðstræti í Neskaupstað.


Leiði óþekkta sjómannsins
Óþekkti sjómaðurinn Neskaupstað

Leiði óþekkta sjómannsins frá 1942.Reistur af Kvennadeild Slysavarnarfélags Íslands á Norðfirði 1952.

Stendur í Kirkjugarðinum í Neskaupstað.


Minnisvarði um snjóflóð
Snjóflóð - Neskaupstað

Til minningar um þá sem fórust í snjóflóðunum í Neskaupstað þ. 20. des. 1974.

Minnisvarði þessi er gefinn af Verkalýðsfélagi Norðfirðinga.

Stendur í skrúðgarði Norðfirðinga


Minnisvarði um snjóflóð
Snjóflóð - Neskaupstaður
Snjóflóð - Neskaupstað

Minnisvarði um snjóflóð í Neskaupstað

Norðfirðingar hafa í fyrsta sinn eignast stað til að minnast allra sem farist hafa í snjóflóðum í firðinum. Minnisvarðinn sem sýnir 17 bláklukkur var vígður 18. desember 2015 þegar 41 ár var liðið frá mannskæðustu flóðunum. Í þeim lentu 26 manns og 14 lifðu af. Í Norðfirði hafa þrisvar fallið mannskæð snjóflóð 1885, 1974 og 1978. Mannskæðustu flóðin féllu árið 1974.  Þá týndu 12 manns lífi. Minnisvarðinn stendur innan við þéttbýlið þar sem Mánahús stóð áður. Hann  er hluti af minningarreit sem byggður var í tengslum við ofanflóðavarnir í firðinum. Robyn Elísabet Vilhjálmsson, leikskólakennari í Neskaupstað, hannaði minnisvarðann. Hann sýnir 17 blóm úr stáli, eitt fyrir hvert mannslíf. „Þetta eru bláklukkur og sum blóm eru hærri en önnur því sumir voru fullorðið fólk en sumir voru börn. Þau eru saman í skál og sum blóm eru kannski nær hvert öðru sem táknar fjölskyldur eða tengsl milli fólks sem hefur farist,“ segir Robyn. 

Það var Beate Stormo í Kristnesi í Eyjafjarðarsveit, Norðurlandameistari í eldsmíði, sem gerði minnisvarðann úr smíðajárni og örþunnu gulli. Umhverfið er hlaðið úr steini en þar er líka grasflötur og útsýni yfir Norðfjörð. „Þetta á að vera staður sem fólk getur farið á, sest niður og fengið frið og ró,“ segir Robyn. (RUV, 18. des. 2015.)


Ingvar Pálmason (1873-1947)
Ingvar Pálmason

Ingvar Pálmason Ekru, Norðfirði
Alþingismaður Sunnmýlinga 1923-1947.
F. 26. júlí 1873 – d. 23. júní 1947.

Aftan á brjóstmyndinni stendur:
Ingvar Pálmason Alþingismaður. 
Frá nokkrum vinum og samherjum 1944.

Brjóstmyndin eftir Ríkarð Jónsson.

Minnisvarðinn stendur í gamla kirkjugarðinum sem nú er hluti skrúðgarðs Norðfirðinga


Eskifjörður

Átthagaskútan
Átthagaskútan Eskifjörður

Minningareitur um þá sem í fjarlægð hvíla
Átthagaskútan – Vak yfir oss öllum allar stundir og varðveit oss hjá þér.
Í þeirri trú, sem tengir oss þér í lífi og dauða.
Fyrir Jesú Krist. Drottinn minn og frelsara. Amen.

 

Átthagaskútan er táknmynd þess að hver sál ratar heim í sinn átthaga, sama hvar lokaför hennar hefst. Reiturinn sjálfur er sexhyrndur líkt og kirkjubyggingin á Eskifirði. Minningareiturinn er reistur til minningar um þá sem hafa horfið og ekki fundist og þá sem í fjarlægð hvíla. Upphafsmaður af þessari framkvæmd var Ragnar Valgeir Jónsson og voru þeir Þórhallur Þorvaldsson og Jens Garðar Helgason honum til stuðnings. Kristinn Guðmundsson sá um alla hönnun og útfærslu á reitnum ásamt því að hanna og smíða Átthagaskútuna sjálfa. Þessi reitur var að mestu unninn í sjálfboðavinnu og með styrkjum. Öllum þeim sem styrktu þetta verkefni er þakkað hér með.Minningarreiturinn var afhjúpaður og blessaður af sóknarpresti þann 26. september 2010.

 Reiturinn er í Eskifjarðarkirkjugarði.


Minnisvarði um drukknaða sjómenn
Drukknaðir  á Eskifirði

Til minningar um drukknaða sjómenn frá Eskifirði

Minnisvarðinn er eftir Aage Nielsen-Edwin 1980 og var afhjúpaður á sjómannadaginn árið 1981.


Eiríkur Þorláksson (1765-1786)
Eiríkur Þorláksson

Mjóeyri er í jaðri byggðarinnar á Eskifirði. Þar er leiði Eiríks Þorlákssonar, sem fæddur var á Þorgrímsstöðum í Breiðdal árið 1765 en hálshöggvinn 21 árs gamall. Þetta var síðasta aftaka á Austurlandi og með þeim síðustu á Íslandi.
Á Berufjarðarströnd hafði Eiríkur drepið pilt sem hafði verið með honum í gengi þriggja pilta í Breiðdal sem lögðust út og stálu sér til matar á tíma móðuharðindanna þegar hungursneyð var í landinu.
Aftakan fór fram árið 1786, sama ár og Eskifjörður og Reykjavík hlutu kaupstaðarréttindi. Settur upp höggstokkur og hann leiddur í járnum hér út þorpið og hálshöggvinn á Mjóeyri.
Böðullinn var bóndi í Norðfirði, Björn að nafni. Sá átti sjálfur eitthvað sökótt við yfirvaldið en gat unnið sér sakaruppgjöf með því að hálshöggva Eirík. Lýsingar á aftökunni eru óhugnanlegar en sagan segir að höfuðið hafi farið af í sjöunda höggi [vísir.is 15.11.2021.]

Legstaður Eiríks er á Mjóeyri við Eskifjörð.


Kjartan Ísfjörð (1774-1845)
Kjartan Ísfjörð
Kjartan Ísfjörð

Hóf fyrstur Íslendinga verslun á Eskifirði 1802 þar sem síðan heitir Framkaupstaður.

Kjartan Ísfjörð fékk verslunarréttindi á Eskifirði hinn 21. júlí árið 1802 og reisti verslunarhús sín þar sem heitir í Framkaupstað. Hann var eskfirskur sýslumannssonur sem sigldi ungur til Kaupmannahafnar og gerðist þar umsvifamikill á sviði viðskipta um tíma ásamt því að reka verslunina á Eskifirði. Kjartan lést árið 1845 og var grafinn á Hólmum í Reyðarfirði. Að hátíðarsamkomu lokinni verður afhjúpaður minnisvarði um Kjartan Ísfjörð utan við svonefnt Framkaupstaðarhús. Minnisvarðinn er gerður eftir hugmynd Tryggva Ólafssonar myndlistarmanns.

Minnisvarðinn stendur við Framkaupstaðarhúsið á Eskifirði. 


Richard Long (1783-1837)
Richard Long

Minnisvarða þennan um Richard Long (1783-1837) verslunarstjóra í Reyðarfjarðarkaupstað og Eskifirði, ættföður Longættar á Íslandi, og um ættmæðurnar Þórunni Þorleifsdóttur (1774-1834) og Kristínu Þórarindóttur (1780-1853) reisti Félag niðja Richards Long á haustjafndægrum 23. september 2019.Richard fæddist í Belby við Howden í Yorkshire í Englandi, ólst upp unglingsárin í Lemvig á Jótlandi í Danmörku, kom til starfa á Austfjörðum árið 1805 og bjó þar til æviloka. 
Um Richard, Þórunni og Kristínu er fjallað í ritinu Longætt, útg. 1998.

Minnisvarðinn stendur á Eskifirði


Reyðarfjörður

Minnisvarði um drukknaða
Drukknaðir Reyðarfirði

Til minningar um drukknaða sjómenn frá Reyðarfirði.
Blessuð sé minning þeirra.
Drukknaðir frá 1907:
Á minnisvarðanum eru 12 minningarskildir um jafnmargra menn.

Minnisvarðinn stendur við Reyðarfjarðarkirkju.


Þorsteinn Jónsson (1889-1976)
Þorsteinn Jónsson Reyðarfirði

Þorsteinn Jónsson kaupfélagsstjóri 1916-1961

Minnisvarðinn stendur við Hermes, bústað kaupfélagsstjórans á Reyðarfirði.

Brjóstmyndin er merkt OM 1983 – veit ekki hver það er


Fáskrúðsfjörður

Franskur grafreitur
Franskur grafreitur Fáskrúðsfirði

Hér hvíla 49 franskir fiskimenn, 30 nöfn eru letruð á minnisvarðann en 19 eru óþekktir. 

Þau héldu beint á hafsins svið,
eitt hundrað skip, er vorið leið,
svo óralangt á Íslandsmið,
hvar ólgusær og vindur beið.

(Harmar 1925) A, Chantel: Les Goelettes “Regrettes” 1925.
Texti á minnisvarða á íslensku og frönsku.

Minnisvarðinn stendur í hlíðinni rétt utan við byggðina á Fáskrúðsfirði neðan vegar. 


Bergur Hallgrímsson (1929-1968)
Bergur Hallgrímsson

Hærra, hraðar lengra
Bergur Hallgrímsson 4.10.29 – 20.6.98
Síldarsaltandi og útgerðarmaður á Fáskrúðsfirði 1962-1993. [Texti á minnisvarða]

Minnisvarðinn stendur við aðalgötuna á Fáskrúðsfirði


Carl Andreas Tulinius (1864-1901)
Carl Andreas Tulinius

Carl Andreas Tulinius,
f. 14.4.1864 
d. 18.7.1901.
Finnskur konsúll

Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi
því táradöggvar falla stundum skjótt
og vinir berast burt á tímans straumi
og blómin fölna á einni hjelunótt.
  [Jónas Hallgrímsson}

Vinir reistu steininn sem stendur við aðalgötuna á Fáskrúðsfirði.


Jean Charcot
Jean Charcot

Í minningu skipstapa dr. Charcot

Eftir Einar Jónsson myndhöggvara.

Gjöf frá Ríkisstjórn Íslands

Stendur á Fáskrúðsfirði

Aðrir minnisvarðar um Jean Charcot eru í Straumfirði á Mýrum og við Öskju, hús Háskóla Íslands í Reykjavík.


Einar Sigurðsson (1897-1984) 
Einar í Odda

Rex NS 3 – er byggður af Einari Sigurðssyni skipasmiði í Odda árið 1963.

Báturinn er settur hér upp til minningar um tréskipasmíði á Fáskrúðsfirði og handverk Einars í Odda. [Texti á skildi]

Báturinn stendur við veginn inn í kauptúnið.


Þorleifur K. Kristmundsson (1925-2000) – Þórhildur Gísladóttir (1925-2008)
Þorleifur K. Kristmundsson Kolfreyjustaður
Þorleifur K.Kristmundsson

Prestshjónin á Kolfreyjustað 1. júní 1955 – 31. ágúst 1994.Séra Þorleifur Kjartan Kristmundsson  f.12. júní 1925  d. 4. júní 2000Frú Þórhildur Gísladóttir, f. 12. september 1925  d. 8. apríl 2008.Blessuð sú minning er lifir um farsæl störf þeirra.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Kolfreyjustað


Í minningu Fáskrúðsfirðinga
Minnisvarði um drukknaða Fáskrúðsfirði

Í minningu Fáskrúðsfirðinga
sem drukknað hafa eða látist í sjóslysum.

Blessuð sé minning þeirra.

Guð mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig. (V. Mós.)

Stendur við Fáskrúðsfjarðarkirkju


Stöðvarfjörður

Carl J. Guðmundsson (1861-1923) – Petra A. Jónsdóttir (1866-1929)
Carl J. Guðmundsson

Minnisvarði um frumkvöðla verslunar

100 ára afmæli verslunar á Stöðvarfirði
Carl J. Guðmundsson 17. apríl 1861 – 14. sept. 1923
Petra A. Jónsdóttir 23. apríl 1866 – 18. okt.1929

Minnisvarði um frumkvöðla verslunar á Stöðvarfirði
afhjúpaður 20. júlí 1996

Stendur við gamla félagsheimilið á Stöðvarfirði


Guttormur Vigfússon (1845-1937) – Málfríður Anna Jónsdóttir (1852-1874)
Guttormur Vigfússon Stövarfjörður

Niðjamót 14.-16. ágúst 1992
Séra Guttormur Vigfússon Síðast prestur í Stöð 1888-1925
f. 23.4.1845 d. 25.6.1937
Málfríður Anna Jónsdóttir
f. 22.8.1852 d. 5.12.1874
Friðrika Þórhildur Sigurðardóttir
f. 1.11.1859 d. 5.2.1945

Minningargjöf til kirkjunnar á Stöðvarfirði frá afkomendum þeirra.

Minnisvarðinn stendur við kirkjuna á Stöðvarfirði


Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir (1922-2012)
Petra

Steinasafn Petru var til þegar ferðamenn komu og vildu skoða safnið. Hún tók á móti þeim með sinni alkunnu hógværð. Smám saman urðu ferðamennirnir fleiri og opnaði hún þá heimili sitt og stofnaði jafnframt Steinasafn Petru. Það voru góðra stundir sem leiðsögumenn og bílstjórar áttu í eldhúsinu hjá Petru við létt spjall, kaffsopa og kökur.

Listaverkið er eftir Grétar Reynisson og stendur í Steinasafni Petru á Stöðvarfirði


Djúpivogur – Álftafjörður

Aðalheiður Gísladóttir (1917-1947)
Aðalheiður Gísladóttir
Aðalheiður Gísladóttir

Aðalheiðarlundur

Aðalheiður Gísladóttir, fædd 31. ágúst 1917 var eina barn hjónanna Gísla Guðmundssonar símstöðvarstjóra og Ingibjargar Eyjólfsdóttur frá Hrauni á Djúpavogi. Aðalheiður lést langt fyrir aldur fram þann 4. apríl 1947.Í minningu Aðalheiðar gáfu foreldrar hennar tré þau er standa í lundi þessum.Blessuð sé minning hennar.

Aðalheiðarlundur með minnisvarðanum er í Hálsaskógi, skógrækt Djúpavogsbúa


Eysteinn Jónsson (1906-1993)
Eysteinn Jónsson Djúpiv
ogur

Eysteinn Jónsson
ráðherra
f. 13. nóv. 1906 á Djúpavogi
d. 11. ásgúst 1993.

Myndina gerði Ríkarður Jónsson

Minnisvarðinn er á Djúpavogi

Eysteinn lauk Samvinnuskólaprófi árið 1927 og nam við Pitman´s College í Lundúnum sumarið 1929. Hann stundaði sjómennsku og verslunarstörf á Djúpavogi, Stöðvarfirði og Siglufirði frá 1922 til 1925. Að loknu námi í Samvinnuskólanum 1927 starfaði hann í Stjórnarráðinu til 1930. Tuttugu og fjögurra ára að aldri varð Eysteinn skattstjóri í Reykjavík og formaður niðurjöfnunarnefndar útsvara, en þeirri stöðu gengdi hann til 1934.

Árið 1933 var Eysteinn Jónsson kosinn til Alþingis sem þingmaður S-Múlasýslu, aðeins 26 ára að aldri. Eysteinn gegndi þingmennsku óslitið til 1974, frá 1959 sem fyrsti þingmaður Austurlandskjördæmis. Hann varð fjármálaráðherra 1934, yngstur allra, 27 ára gegndi því embætti til 1939 og síðar frá 1950 til 1958. Eysteinn var viðskiptaráðherra frá 1939 til 1942 og síðar menntamálaráðherra frá 1947 til 1949. Forseti sameinaðs Alþingis var hann 1971 til 1974. Eysteinn var ritari Framsóknarflokksins í 28 ár eða frá 1934 til 1962. Hann var formaður þingflokks framsóknarmanna árið 1934 og árin 1943 til 1969 samfellt. Eysteinn var formaður Framsóknarflokksins frá 1962 til 1968. Hann var kosinn í skilnaðarnefnd og stjórnarskrárnefnd á Alþingi 1944 og starfaði í íslensk-danskri samninganefnd um ýmis málefni sambandsslitanna 1945 til 1946. Eysteinn átti auk þess sæti í fjölmörgum milliþinganefndum á meðan hann sat á þingi, meðal annars sem formaður nefndar um landnýtingar- og landgræðsluáætlun til minningar um ellefu aldar byggð í landinu 1974.

Eysteinn átti sæti í Norðurlandaráði frá 1968 til 1971 og var formaður menningarmálanefndar þess frá 1969 til 1971. Eysteinn gegndi formennsku í Náttúruverndarráði frá 1972 til 1978, sat í Þingvallanefnd frá 1968 til 1974 og var formaður hennar frá 1971.

Þá var Eysteinn framkvæmdastjóri Prentsmiðjunnar Eddu hf. frá 1943 til 1946. Var í blaðstjórn Tímans áratugum saman, til 1979. Hann sat í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga frá 1944 til 1978 og var formaður stjórnar þess frá 1975 til 1978 og varaformaður þar á undan. Eysteinn var einn af stofnendum Kaupfélags Reykjavíkur 1931 og í stjórn þess þar til félagið sameinaðist KRON 1934. Hann tók sæti í stjórn Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur við stofnun þess 1932 og sat í henni til 1934.

Eftir Eystein liggur fjöldi smárita og ritgerða ásamt óprentuðum handritum sem fjalla einkum um stjórnmál, útivistarmál, landnýtingarmál og náttúruvernd en þessir málaflokkar voru Eysteini hugstæðir.

Ævisaga í þremur bindum, skráð af Vilhjálmi Hjálmarssyni, kom út á árunum 1983 til 1985.

Fyrir störf sín að félagsmálum og stjórnmálum, íþróttum, útivist og náttúruvernd hlaut Eysteinn ýmsar viðurkenningar. Þar má helst nefna: Heiðursfélagi í SÍS, Sambands ungra Framsóknarmanna og Framsóknarfélags Reykjavíkur. Eysteinn hlaut heiðursmerki Ferðafélags Íslands, Íþróttaráðs Reykjavíkur og Skíðasambands Íslands.

Eysteinn var mikill áhugamaður um útivist og náttúruvernd. Hann stundaði skíðaíþróttina fram á seinni ár og fór reglulega í gönguferðir fram til hins síðasta.

Eysteinn Jónsson ráðherra andaðist í Reykjavík 11. ágúst 1993.

Eysteinn kvæntist Sólveigu Eyjólfsdóttur 20. febrúar 1932 og varð þeim sex barna auðið, en þau eru:
Sigríður fædd 1933, Eyjólfur fæddur 1935, Jón fæddur 1937, Þorbergur fæddur 1940, Ólöf Steinunn fædd 1947 og Finnur fæddur 1952. [djupivogur.is]


Hans Jónatan (1784-1827)
Hans Jónatan
Hans Jónatan

Frelsi

Listaverk eftir Sigurð Guðmundsson gert til minningar um Hans Jónatan, leysingja frá Karibahafi af afrískum uppruna sem braut af sér hlekki ánauðar og varð að virtum verslunarmanni á Djúpavogi.
Fæddur 12. apríl 1784 á Constitution Hill á Jómfrúreyjunni St. Croix.
Dáinn 1827 í Borgargarði á Djúpavogi.

10. júlí 2021 Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afhjúpaði verkið.

Verkið stendur við Löngubúð á Djúpavogi


Erling Jóhannes Ólafsson (1950-1967)
Erling Jóhannes Ólafsson
Erling Jóhanns Ólafsson

Til minningar um Erling Jóhannes Ólafsson frá Tjörn á Vatnsnesi í Húnaþingi vestra.
f. 20.4.1950, d. 12.8.1967

Hann lést í vinnuslysi á þessum stað.

Minnisvarðinn stendur við Löngubúð.


Hans Jónatan (1784-1827)
Hans Jónatan

Hér í Hálskirkjugarði hvíla hjónin
Hans Jónatan, f. 12.4.1784, d. 18.12.1827,
Katrín Antoníusdóttir, f. 1798, d. 7.8.1969.
Blessuð sé minning þeirra.

Minnisvarðinn stendur í Hálskirkjugarði


Jón Þórarinsson (1842-1909) – Ólöf Finnsdóttir (1865-1957)
Jón Þórarinsson

Jón Þórarinsson og Ólöf Finnsdóttir
Þessi minningamörk eru í kirkjugarðinum á Hálsi í Hamarsfirði. Þar er aflagður kirkjugarður, en þessir legsteinar vöktu áhuga, en þetta eru foreldrar Finns Jónssonar listmálara og Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara sem gerði lágmyndirnar.


Kristnitakan 1000
Síðu-Hallur

“Gissur og Hjalti báru upp erindi sín en það gerðist af því að þar nefndi annar maður af öðrum og sögðust hvorir úr lögum við aðra, hinir kristnu menn og hinir heiðnu. Þá báðu hinir kristnu menn Hall á Síðu að hann skyldi lög þeirra upp að segja, þau eru kristni skyldu fylgja, en hann leystist því undan við þá að hann keypti að (samdi við) Þorgeiri lögsögumanni að hann skyldi upp segja, en hann var þá enn heiðinn.” Ari Þorgilsson: Íslendingabók.

Þessi varði er reistur af prófastsdæmunum milli Langaness og Jökulsár á Sólheimasandi í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. [Texti á minnisvarðanum]

Minnisvarðinn sendur við Þvottá í Álftafirði.


Lón

Úlfljótur
Úlfljótur

Úlfljótur bjó að Bæ í Lóni

Reist 1985

Minnisvarðinn stendur í Lóni.

Úlfljótur var landnámsmaður og bjó að Bæ í Lóni. Hann var sendur utan til að kynna sér lög og reglur. Hann samdi ásamt öðrum fyrstu lög Þjóðveldisins og varð fyrstur lögsögumaður á Íslandi, reyndar fyrir stofnun Alþingis, en Hrafn Hængsson var fyrsti lögsögumaður eftir stofnun Alþingis. [Wikipedia]


Halldór Ásgrímsson (1947-2015)
Halldór Ásgrímsson

Minnisvarði reistur í september 2017.

Halldór Ásgrímsson

Minnisvarðinn er í Lóni.

Halldór Ásgrímsson
Alþingismaður og ráðherra
F. 8.9. 1947  d. 18.5.2015

Með þakklæti og virðingu, vinir og vandamenn

Andvaka haf, í ómi glitrandi stranda,
aleinn ég dvel í sjörnuhöll minna dauma
og lifi að nýju þinn ljóma og róm í anda. – 
Mín léttustu spor eru grafin í þína sanda.
[Einar Benediktsson]

Á bekknum stendur:
Til minningar um Halldór Ásgrímsson.

“Það var hans yndi og iðjulag
að enda þreyttur sérhvern dag.”

Samvinnuskólapróf 1965. Löggiltur endurskoðandi 1970. Framhaldsnám við verslunarháskólana í Björgvin og Kaupmannahöfn 1971–1973.

Lektor við viðskiptadeild Háskóla Íslands 1973–1975. Skipaður 26. maí 1983 sjávarútvegsráðherra, skipaður jafnframt 16. október 1985 samstarfsráðherra Norðurlanda, lausn 28. apríl 1987, en gegndi störfum til 8. júlí. Skipaður 8. júlí 1987 sjávarútvegsráðherra, lausn 17. september 1988, en gegndi störfum til 28. september. Skipaður 28. september 1988 sjávarútvegs-, dóms- og kirkjumálaráðherra, lausn 10. september 1989. Skipaður á ný sama dag sjávarútvegsráðherra, lausn 23. apríl 1991, en gegndi störfum til 30. apríl. Skipaður 23. apríl 1995 utanríkisráðherra og jafnframt samstarfsráðherra Norðurlanda, lausn 28. maí 1999. Fór jafnframt með landbúnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið 11.-28. maí 1999. Skipaður 28. maí 1999 utanríkisráðherra, lausn 23. maí 2003. Fór jafnframt með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið frá 23. janúar til 6. febrúar og 9.-26. febrúar 2001 í forföllum Ingibjargar Pálmadóttur. Skipaður 23. maí 2003 utanríkisráðherra, lausn 15. september 2004. Skipaður á ný sama dag forsætisráðherra; jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands síðan 27. september 2005, lausn 15. júní 2006.

Varaformaður Framsóknarflokksins 1980–1994, formaður hans 1994–2006. Í bankaráði Seðlabanka Íslands 1976–1983, formaður 1980–1983. Formaður hóps miðjuflokkanna í Norðurlandaráði 1993–1995.

Alþingismaður Austurlands 1974–1978 og 1979–2003, alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis norður 2003–2006 (Framsóknarflokkur).

Varaþingmaður Austurlands nóvember–desember 1978.

Sjávarútvegsráðherra 1983–1991 og samstarfsráðherra um norræn málefni 1985–1987, dóms- og kirkjumálaráðherra 1988–1989, samstarfsráðherra Norðurlanda 1995–1999, utanríkisráðherra 1995–2004, forsætisráðherra 2004–2006.

Sjávarútvegsnefnd 1991–1994, efnahags- og viðskiptanefnd 1991–1994 (formaður 1993–1994), utanríkismálanefnd 1994–1995, sérnefnd um stjórnarskrármál 1994–1995.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs 1977–1978, 1980–1983 og 1991–1995 (formaður 1982–1983 og 1993–1995), Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins 1976. [Alþ.]

Halldór Ásgrímsson
Halldór Ásgrímsson