Framnes - Eyjafjörður


Minnisvarðar í Eyjafirði

Engidalur
Minnisvarði um snjóflóð Engidalur við Siglufjörð
Engidalur

Síðustu ábúendur frá 1908
Garibaldi Einarsson, f. 1.6. 1864 – d. 1.8.1918
Margrét Petrína Pétursdóttir, f. 3.12.1867.

Í apríl 1919 féll snjóflóð á bæinn og fórust þar
Margrét Petrína Pétursdóttir, f. 3.12.1867
Pétur Garibaldason f. 30.8.1891
Sigríður Pálína Garibaldadóttir, f. 6.8.1897
Málfríður Anna Garibaldadóttir, f. 6.10.1899
Gísli Gottskálksson, f. 7.7.1890
Halldóra Guðmundsdóttir, f. 7.11.1842
Kristólína Kristinsdóttir, f. 4.10.1912.

Niðjar Margrétar og Garibalda reistu steininn 1989.

Steinninn stendur neðan Engidals við þjóðveginn.

Snjóflóðin í Engidal við Siglufjörð

Sauðárkot
Sauðárkot

Síðustu ábúendur hér í Sauðárkoti þar til bærinn brann 1905 og lagðist í eyði, voru Jórunn Magnúsdóttir, fædd 9.8.1881, dáin 29.12.1969 og Símon J. Jónsson, fæddur 28.7.1875, dáinn 14.6.1963.

Minnisvarða þennan reistu afkomendur þeirra hjóna árið 1987. [Texti á skildi].

Sauðárkot

Minnisvarði um horfna á Stóra-Árskógssandi
Minnisvarði um horfna Árskógssandi

Friður Guðs fylgi þeim sem farnir eru.
Minningin lifir

Minnisvarði í kirkjugarði Stóra-Árskógs


Davíð Stefánsson frá Fagraskógi (1895-1964)
Davíð Stefánsson

Davíð Stefánsson
fæddur 21. janúar 1895
dáinn 1. mas 1964.

Brennið þið vitar
lýsið hverjum landa
sem leitar heim
– og þráir höfn.

Brjóstmyndina gerði Ríkarður Jónsson en Severin Jacobsen gerði bronsafsteypuna.
Minnisvarðinn, sem stendur í Fagraskógi var afhjúpaður 18. júlí 1973


Eyvindur Jónsson (1678-1746)
Karlsá

Hér við naustin á Karlsá var mikil skipa- og bátasmíðastöð á 18. öld. Stærst og frægast var haffært skip með hollensku lagi. Yfirsmiður og eigandi var Eyvindur Jónsson duggusmiður, f. 1678, d. 1746. Duggan fórst við land í ofviðri 1717.

Meðan íslenskt flýtur far
og fornar sagnir geymast
afrek Duggu-Eyvindar
aldrei munu gleymast.

Minnisvarðinn stendur við Karlsá á Upsaströnd.


Hrærekur á Kálfsskinni
Hrærekur á Kálfskinni

Hér er talið að Hrærekur konungur Dagsson frá Heiðmörk í Noregi sé grafinn. Dáinn að Kálfsskinni um 1022.

Steininn reisti Lionsklúbburinn Hrærekur árið 1976.

Hrærekur á Kálfskinni

Jón Arason (1484-1550)
Jón Arason

Jón Arason var biskup á Hólum frá 1524 þar til hann var líflátinn í Skálholti 1550.
Listaverkið er eftir Gunnfríði Jónsdóttur.

Verkið stendur við Munkaþverárkirkju í Eyjafirði


Jónas Hallgrímsson (1807-1845)
Jónas Hallgrímsson

Brjóstmynd Jónasar gerði Kristinn E. Hrafnsson.

Minnisvarðinn stendur í Jónasarlundi við þjóðveg 1 í Öxnadal á móts við Hraun. Hann var afhjúpaður þann 28. júní 1997 af Halldóri Blöndal. [Dagur-Tíminn, 1/7/1997]

Jónas Hallgrímsson

Ungur var eg og ungir
austan um land á hausti
laufvindar blésu ljúfir,
lék eg mér þá að stráum.

Það er svo bágt að standa í stað og mönnunum munar
annaðhvurt afturábak ellegar nokkuð á leið.


Björg Einarsdóttir (1716-1784) – Látra-Björg
Látra-Björg

Vestan blika
kúfnum kalda
Kaldbak hleður

Sunnan kvika
utan alda
austan veður.

Björg Einarsdóttir skáldkona er talin fædd í Stærra-Árskógi á Árskógsströnd en fór með foreldrum sínum Margréti Björnsdóttur og Einari Sæmundssyni að Látrum á Látraströnd árið 1722. Foreldrarnir fluttu þaðan aftur þremur árum síðar en Björg varð eftir þá 9 ára. Á Látrum átti hún að líkindum heima fram um miðjan aldur og var því kennd við þann bæ. Á seinni hluta ævinnar gerðist hún förukona og flakkaði milli sveita. Hún lést á vergangi í Svarfaðardal í Móðuharðindunum 1784 og var jarðsett að Upsum.
Björg var alla tíð einhleyp. Hún var kona stórskorin og mikil vexti og þótti karlmannsígildi til allra verka. Hún sótti sjó frá Látrum á sínum yngri árum og kvað um sjósókn og um átök hafsins. Vísur Látra-Bjargar eru margar hverjar sérkennilegar, kraftmiklar og stundum kaldhæðnar. Snúast þær oftast um daglegt líf og baráttu manna við náttúruöflin. Eftir hana liggur fjöldi vísna um sveitir (t.d. Fnjóskadal, Fjörður, Melrakkasléttu o.fl.) þar sem hún ber lof á sumar en last á aðrar. Meðal þekktustu vísna Látra-Bjargar eru Fagurt er í Fjörðum þá frelsarinn gefur veður blítt. [Wikipedia].

Minnisvarðinn er eftir Sigurð Guðmundsson, myndhöggvara og var afhjúpaður árið 2016. Hann stendur í Stærra-Árskógi, Árskógsströnd.

Annar minnisvarði um Látra-Björgu er á Grenivík.


Arthur Kavhan Round, Henry James Talbot, Keith Garrett,
Reginald Albert Hopkins
Erlendir flugmenn

In memory of
Flying Officer Arthur Kavhan Round, RAF
Pilot Officer Henry James Talbot, RAF
Flight Sergeant Keith Garrett, RAF
Flight Sergeant Reginald Albert Hopkins, RAF
who tragically died when their Fairy Battle aircraft P-2330 of 98 Sqn.
crashed near Akureyri, Iceland on the 26th May 1941.
This memorial was erected by members of RAF Mountain Rescue Service
during the recovery of the aircraft in August 2000.

Minnisvarðinn stendur á flugvellinum á Melgerðismelum í Eyjafirði.


Arthur Grant Wagstaff (1959-2015)
Arthur G Wagstaff
Arthur Grant Wagstaff,
August 3rd 1959 – August 9th 2015

Myndir af flugmanni
eftir Gary Cloud Stoker

Flugið er frelsið í hreinustu myndum
að fylgja eftir skýjum sem dansa með vindum. Að svífa og vagga, með stýrinu vinna
og vaxandi gleðina innra með finna. Frá vanda á jörðu sér vinda á flug
er vorið með hlýjunni fangar þinn hug. Og lenda svo aftur er líður á nóttu
laus við þær raunir, sem að þér sóttu.
 Ef mín endalok koma meðan á flugi ég er
á myrkri nóttu eða degi, hvert sem mig ber.

 Enga skalt vorkun né meðaumkun veita,
vitandi það að ég myndi engu breyta.
 Því dauðinn á endanum heimta mun alla
og frá fæðingu heyri ég flugið kalla.

Þýðing: Viljálmur B. Bragason

Ljóðið er einnig á ensku á minnisvarðanum sem stendur á flugvellinum á Melgerðismelum í Eyjafirði


Erlendur Árnason (1972-1990)
Erlendur Árnason
Erlendur Árnason
f. 26.5.1972 – d. 22.12.1990

Verð ég varfleygur
er vinir þverra.

Minnisvarðinn stendur á flugvellinum á Melgerðismelum í Eyjafirði


Minnisvarði um þá sem fjarri hvíla
Minnisvarði um drukkknaða Grímsey

Minning um ástvini sem hvíla fjarri okkur,

Drottinn elskar, Drottinn vakir
daga og nætur yfir þér
– Hvíl í friði

Minnisvarðinn er í Miðhúsakirkjugarði í Grímsey

Miðhúsakirkjugarður Grímsey

Daniel Willard Fiske (1831-1904)

Minnisvarðinn stendur við höfnina í Grímsey

Fiskehátíð er haldin í Grímsey 11. nóvember á hverju ári til að minnast afmælis Daniel Willard Fiske (1831-1904) sem steig þó aldrei fæti sínum á land í Grímsey.
Fiske var bandarískur prófessor við Cornell Háskóla í New York fylki í Bandaríkjunum. Hann lærði íslensku þegar hann var í námi í Danmörku 1849 og safnaði öllu íslensku efni sem til var á prenti auk ljósmynda af Íslandi. Stórt safn íslenskra bóka og ljósmynda er nú varðveitt í Cornell.
Fiske sigldi hringinn í kringum landið 1879. Þá sá hann Grímsey tilsýndar og heillaðist af dugnaði og menningaráhuga íbúanna. Grímseyingar voru góðir skákmenn og þar sem Fiske var mikill áhugamaður um skák komst hann í bréfasamband við tvo menn í Grímsey. Þar með hófst vináttusamband hans við Grímseyinga sem varði meðan hann lifði.
Árið 1901 færði Fiske Grímseyingum stórt bókasafn sem hann nefndi Eyjarbókasafnið. Það er nú varðveitt í bókasafni skólans í upprunalegum bókaskápum. Í erfðaskrá sinni ánafnaði hann Grímseyingum veglegan peningasjóð, Grímseyjarsjóð Willard Fiske, til að endurbæta húsakostinn og bæta mannlíf í eyjunni. Í þakklætisskyni voru nokkrir drengir skírðir eftir honum.

Minnismerkið um Willard Fiske er eftir Gunnar Árnason myndhöggvara og gefið af Kiwanisaklúbbnum Grími. Það var afhjúpað 11. nóvember 1998.

Daniel Willard Fiske
f. 11.11.1831
d. 17.9.1904

Willard Fiske í röðulrúnum
réði sérhvern staf
Ærinn hlut af auði sínum
Eyjarbúum gaf.

Willard Fiske Grímsey

Minning hans skal ávallt eiga
æðsta sæti hér,
meðan ægir örmum vefur
okkar litla sker.
Höf.: Hreiðar E. Geirdal


Brúin og vegpresturinn
Heimskautsbaugur Grímsey

Brúin og vegpresturinn

Heimskautsbaugurinn í Grímsey.
Þessi heimskautsbaugur er við flugvöllinn í Grímsey og er heimsóttur af nánast öllum sem heimsækja Grímsey.

Orbis et globus Grímsey

Hringur og kúla
Orbis et Globus

Orbis et Globus

Heimskautsbaugur. Á mörgum stöðum er valið að staðsetja tákn um heimskautsbauginn við 66°33’N. Á Grímsey er táknið “Brúin og vegpresturinn” við 66°33,3’N, rétt norðan við gistiheimilið Bása sem er við flugstöðina og nýja táknið (2017) Hringur og kúla / Orbis et Globus við norðurenda eyjarinnar við 66°33,916’N.

Myndin í mijunni er af verki sem heitir Hringur og kúla (Orbis et globus) og var endanlega staðsett á heimskautsbaugnum í Grímsey. Á þessari mynd er verkið ekki á endanlegum stað, heldur þar sem það var skilið eftir þegar það var flutt í eyjuna 2017. Verkið er eftir Kristinn E. Hrafnsson og Studio Granda.


Siglufjörður

Lífsbjörg
Siglufjörður

Minnisvarði um drukknaða sjómenn frá Siglufirði
Afhjúpaður 5. júní 1988
Minnisvarðann gerði Ragnar Kjartansson


Ágúst Gíslason (1897-1985) – Gústi guðsmaður
Gústi guðsmaður

Ágúst Gíslason 1897-1985 sjómaður og kristniboði.
Hann var alþýðuhetja og mikill mannvinur sem gaf allt sitt aflafé til fátækra barna víða um heim. Gústi lifði eftir orðum Krists: Sælla er að gefa en þiggja. 

Gústi gerði út bátinn Sigurvin SI 16 í kompaníi við Guð almáttugan. Báturinn er nú á Síldarminjasafninu á Siglufirði.
Minnisvarðinn, sem Ragnheiður Stefánsdóttir, myndhöggvari gerði, strendur á Ráðhústorginu á Siglufirði þar sem Gústi var vanur að predika.

Gústi guðsmaður

Bjarni Þorsteinsson 1861-1938
Bjarni Þorsteinsson
Bjarni Þorsteinsson 1861-1938
prestur, þjóðlagasafnari, heiðursborgari Siglufjarðar

Við lok þjóðlaga­hátíðar á Sigluf­irði árið 2013 var vígður minn­is­varði um séra Bjarna Þor­steins­son, tón­skáld og heiðurs­borg­ara Siglu­fjarðar. Um leið var vígt svo­nefnt Bjarna­torg, skreytt ís­lensku stuðlabergi. Minn­is­varðinn stend­ur fyr­ir fram­an Siglu­fjarðar­kirkju.

Minn­is­varðann  gerði listakonan Ragnhildur Stefánsdóttir, en torgið hannaði Fanney Hauksdóttir arkitekt, Steinverkið gerði Þór Sigmundsson steinsmiður. Minnisvarðinn og Bjarna­torgið voru af­hjúpuð af gef­end­um verk­anna. Þeir eru Arnold Bjarna­son, afa­barn séra Bjarna, sem gaf mynda­stytt­una, og Sigl­f­irðing­ur­inn Páll Samú­els­son sem gaf efni og vinnu við torgið.

Meðal gesta við at­höfn­ina voru Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, for­sæt­is- og þjóðmenn­ing­ar­ráðherra, tengda­son­ur Páls Samú­els­son­ar, gef­anda Bjarna­torgs, og Sigl­f­irðing­ur­inn Ill­ugi Gunn­ars­son, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Við at­höfn­ina lék Sig­urður Hlöðvers­son, formaður sókn­ar­nefnd­ar, lagið Blessuð sértu sveit­in mín á trom­pet úr kirkjut­urni Siglu­fjarðar­kirkju. Síðar verður lagið Ég vil elska mitt land sungið af viðstödd­um en bæði lög­in eru eft­ir séra Bjarna.

Séra Vig­fús Þór Árna­son, fyrr­ver­andi sókn­ar­prest­ur Sigl­f­irðinga, flutti ávarp um Bjarna og áhrif hans á ís­lenska menn­ingu. Séra Sig­urður Ægis­son, sókn­ar­prest­ur Sigl­f­irðinga, bless­aði mann­virk­in. [Mbl. 5.7.2013]

Bjarni Þorsteinsson
Bjarni Þorsteinsson
Minningamörk á leiði sr. Bjarna Þorsteinssonar og konu hans Sigríðar Lárusdóttur í Hvanneyrarkirkjugarði

Hafliði Guðmundsson 1852-1917
Hafliði Guðmundsson
Lensmann
Hafliði Guðmundsson 1852-1917
Reist av norske venner 1922

Minnisvarðinn er í miðbæ Siglufjarðar. Hann er sennilega einn elsti minnisvarðinn á landinu.


Jóhann Þorvaldsson (1909-1999)
Jóhann Þorvaldsson
Jóhann Þorvaldsson
f. 16.5.1909 á Tungufelli í Svarfaðardal,
d. 9.10.1999 á Siglufirði.

,,Að gefast upp kom aldrei til greina”.

Jóhann lauk kennaraprófi árið 1932 og var kennari einn vetur í Ólafsvík og á Suðureyri við Súgandafjörð næstu fimm. Hann var kennari við Barnaskóla Siglufjarðar frá árinu 1938 til ársins 1973 og skólastjóri frá 1973-1979. Hann var skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar frá 1945-1973.
Jóhann var forstöðumaður Gesta- og sjómannaheimilis Siglufjarðar sem stúkan Framsókn rak á árunum 1941-1960.
Hann var ritstjóri Regins, blaðs templara um árabil. Jóhann starfaði mikið í góðtemplarareglunni og var heiðursfélagi Stórstúku Íslands. Hann var gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrós nr. 68 og æðstitemplar stúkunnar Framsókn nr. 187.
Jóhann starfaði lengi að skógrækt í Siglufirði og var formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar til 1987. Hann var heiðursfélagi Skógræktarfélags Siglufjarðar og Skógræktarfélags Íslands og hann var sæmdur fálkaorðunni fyrir kennslu og skógrækt.
Hann tók einnig virkan þátt í öðrum félagsmálum og stjórnmálum á Siglufirði, sat í bæjarstjórn, var formaður stjórnar Kaupfélags Siglufjarðar í mörg ár og var m.a. ritstjóri Einherja, blaðs framsóknarmanna í Siglufirði í fjórtán ár.
Jóhann var einn af stofnendum Félags eldri borgara í Siglufirði og fyrsti formaður þess. [Mbl. 16.okt.1999]

Minnisvarðinn stendur í skógræktinni í Siglufirði

Jóhann Þorvaldsson

Steingrímur Magnússon (1918-1987)
Steingrímur Magnússon

Steingrímur Magnússon frá Hlíð
f. 3. 10.1918 – d. 7.6.1987
Verkstjóri við Síldarverksmiðjur ríkisins í 50 ár.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Siglufirði

Steingrímur Magnússon

Samúel Ólafsson (1887-1935) – Einarsína Pálsdóttir (1891-1941)
Páll Árnason (1859-1925) – Anna Einarsdóttir (1861-1946)
Siglufjarðarkirkja

Kirkjutröppur
Kirkjutröppurnar eru gjöf frá Siglfirðingnum Páli Samúelssyni, fjölskyldu hans og systkinum. Þær eru gefnar til minningar um foreldra þeirra, Einarsínu Pálsdóttur og Samúel Ólafsson og ömmu þeirra og afa Önnu Einarsdóttur og Pál Árnason.

Torgið framan við kirkjuna með styttu af sr. Bjarna Þorsteinssyni er einnig gjöf Páls Samúelssonar og fjölskyldu.

Samúel Ólafsson

Síldarstúlkan
Síldarstúlkan

Síldarstúlkan eftir Arthur Ragnarsson.

Þetta minnismerki er gert til heiðurs síldarstúlkunni og minnir á mikilvægan þátt hennar í síldarævintýrinu mikla sem setti svip sinn á efnahag þjóðarinnar frá byrjun 20. aldarinnar og í næstum 70 ár. Verðmæti síldarafurða var þá að jafnaði um 25% af útflutningstekjum Íslendinga og lengst af var Siglufjörður fremstur í flokki síldarbæjanna.
Síldarstúlkan, hvort sem hún var unglingur eða fullorðin kona, var tilbúin þegar drekkhlaðin skipin sigldu inn fjörðinn og hún stóð við vinnu sína nótt og dag, hausskar, saltaði og lagði síld í tunnurnar uns törninni lauk og allur síldarfarmurinn var kominn í salt og dýrmæt afurð þar með sköpuð fyrir markaði í Evrópulöndum og Bandaríkjunum.
Síldarstúlkan fékk greitt fyrir þær tunnur sem hún saltaði og tekjurnar voru því háðar afköstum hennar og afla hvers sumars en síldarvinnan gaf konum tækifæri til aukins sjálfstæðis með eigin tekjum og um leið varð síldarstúlkan mikilvægur hlekkur í síldarævintýrinu.
Konur komu víða að af landinu til að salta síld á Siglufirði. Þær bjuggu þröngt í síldarbrökkunum sem voru við hverja söltunarstöð. Áætlað er að allt að eitt þúsund heimakonur og aðkomustúlkur hafi unnið á síldarplönunum þegar best lét en þá voru yfir 20 söltunarstöðvar á Siglufirði.
Silfur hafsins, síldin, varð í höndum síldarstúlkunnar að gulli Íslands.

Minnisvarðinn stendur á síldarplani fyrir framan Síldarminjasafnið á Siglufirði. Hann var reistur 29. júlí 2023.

Síldarstúlkan

Ólafsfjörður

Minnisvarði um drukknaða
Ólafsfjörður

Minnisvarði um drukknaða

Minnisvarði drukknaðra sjómanna á Ólafsfirði 
Drottinn gefi dánum ró, hinum líkn sem lifa.

Lágmyndin á minnisvarðanum er eftir Ríkarð Jónsson

Ólafsfjörður

Minnisvarði
Minnisvarði Ólafsfirði

Minnisvarði

Sjá, ég hef rist þig í lófa mína.  
Jesaja, 49.16a

Þessi minnisvarði stendur í kirkjugarðinum í Ólafsfirði.

“Markmiðið er ekki að losna algjörlega við áhyggjur heldur að hafa góða kjölfestu og rétta stefna. Þá bíta ekki áhyggjurnar á mann og setja mann ekki úr skorðum í lífinu. Áhyggjurnar verða viðráðanlegar ef við erum viss um það að bjargið sem líf okkar hvílir á hreyfist ekki.” [kirkjan.is]


Norrænt samstarf
Norrænt samstarf Ólafsfjörður

Detta ankera är en gåva från Olafsfordurs vänorter i Norden
– Borre i Norge – Hilleröd i Danmark – Karlskrona i Sverige – Lovisa i Finland –
Det är en symbol för trygghet, säkerhet och vänskap.
(Síðasta línan ólæsileg) Reist 1991? og stendur í mynni Ólafsfjarðar


Héðinsfjörður

Halldóra Björnsdóttir ( 1866-1942) – Sigurður Guðmundsson (1868-1954)
Héðinsfjörður

Til minningar um Halldóru Guðrúnu Björnsdóttur, 1866-1942 og Sigurð Guðmundsson, 1868-1954 sem voru til heimilis að Vík 1886-1898, en ábúendur að Grundarkoti 1898-1903 og að Vatnsenda 1903-1930.

Afkomendur reistu þennan minnisvarða 26. júní 2010.
Minnisvarðinn stendur í Héðinsfirði


Ólína Einarsdóttir (1904-1976) – Þorvaldur Sigurðsson (1899-1981)
Ólína Einarsdóttir
Héðinsfirði

Til minningar um síðustu ábúendur á Vatnsenda (1923-1949), Ólínu Einarsdóttur f. 18.12.1904 – d. 22.11.1976 og Þorvald Sigurðsson f. 27.04.1899 – d 17.06.1981.
Steinhúsið á Vatnsenda byggðu þau árið 1936. Það eyðilagðist í snjóflóði  17. janúar 2004.

Blessuð sé minning þeirra.

Vatnsendi Héðinsfirði

Dalvík – Svarfaðardalur

Árni Steinar Jóhannsson 1953-2015
Árni Steinar Jóhannesson
Dalvík

Minningarreitur um Árna Steinar Jóhannsson landslagsarkitekt, 1953-2015
Reist 2016 af SAMGUS – RARIK – Dalvíkurbyggð

Árni Steinar Jóhannesson
Dalvík
Árni Steinar Jóhannsson

Minnismerki um drukknaða
Dalvík
Minnismerki um drukknaða sjómenn frá Dalvík og Svarfaðardal

Það er eins og Ísland bendi
yfir vík og fjörð:
sjómannslíf í herrans hendi
helgast fósturjörð. 
 

Minnisvarðinn er eftir Jónas S. Jakobsson og stendur í kirkjugarðinum á Dalvík

Dalvík

Minning um  líf
Minning um líf

Minnisvarðinn er í kirkjugarðinum við Dalvíkurkirkju


Til minningar um sjómenn frá Dalvík sem fórust 9. apríl 1963
Um drukknaða - Dalvík

Með Vali EA 110:
Gunnar Stefánsson
Sigvaldi Stefánsson

Með Hafþóri EA 102:
Tómas Pétursson
Bjartmar Baldvinsson
Jóhann Helgason
Óli A. Jónsson
Sólberg Jóhannsson


Vélbátaútgerð á Dalvík
Vélbátaútgerð Dalvík

Vélbátaútgerð hófst á Dalvík þann 15. júní árið 1906 þegar bræðurnir Friðleifur og Jóhann Jóhannssynir frá Háagerði lentu hér báti sínum Viktori

Minnisvarðinn stendur í fjörunni rétt norðan Dalvíkur

Vélbátaútgerð - Dalvík

Arnarholt
Þorsteinn Svörfuður
Svarfaðardalur
Arnarholt

Hér voru legstaðir Grundarmanna í heiðnum sið.

Reist 1974 í minningu Þorsteins Svarfaðar og annarra frumbyggja dalsins.

Minnisvarðinn stendur á Arnarholtsvelli, golfvelli Dalvíkinga í Svarfaðardal.


Séra Friðrik Friðriksson (1868-1961)
Friðrik Friðriksson
Svarfaðardalur

Séra Friðrik Friðriksson æskulýðsleiðtogi og stofnandi KFUM og KFUK fæddist hér að Hálsi í Svarfaðardal 25. maí 1868. Hann lézt í Reykjavík 9. mars 1961. 

Ó kallaðu á æskuna, kærleikans andi,
að koma nú skjótt
til Jesú, að frelsist hér lýður í landi
og lifni við drótt …  
(Fr. Friðriksson) 

Lágmyndina gerði Jónas S. Jakobsson myndhöggvari.
Minnisvarðann reistu nokkrir áhugamenn til minningar um sr. Friðrik Friðriksson árið 1995.

Minnisvarðinn stendur við Háls í Svarfaðardal

Sr. Friðrik Friðriksson
Friðrik Friðriksson
Svarfaðardalur
Sr. Friðrik Friðriksson

Guðmundur Arason (1161-1237)
Guðmundur Arason
Svarfaðardalur
Guðmundar steinn hins Góða.
Guðmundur Arason (Góði)
Prestur á Völlum 1190-1197
Biskup á Hólum 1201-1237
Hér má drekka vígt vatn og styrkja minningarsjóð Guðmundar Góða.

Steinninn stendur við bæinn Velli í Svarfaðardal.

Hugrún

Helgað vatnið ætlað þér
bætir sál og sinni
sá er þurstur drekki hér
Laun af getu þinni.

Guðmund góða gleðja má
draum hans áfram yrkja
helgað vatn drekkið þá,
nokkrar krónur styrkja.

Guðmund góða heitið á
blessun munuð njóta.
Hans heilagleika gleðjið þá.
Kærleik mikinn hljóta.

Hann blessar Velli vatn og dýr
hann hjálpar þeim sem biðja.
Mundu að bænin þín sé skýr.
Hann þurfandi mun styðja.

Höfundur: Bjarni Ólafsson.

Hugrún
Jón Arason - Svarfaðardalur

Eiríkur Hjartarson (1885-1981)
Eiríkur Hjartarson
Hánefsstaðaskógur

Upphafsmaður skógræktar að Hánefsstöðum var Eiríkur Hjartarson rafmagnsverkfræðingur en hann keypti jörðina um 1940 og hóf skógrækt 1946. Eiríkur var fæddur árið 1885 að Uppsölum og ólst þar upp. Uppsalir eru hér beint fyrir ofan Hánefsstaði nær fjallinu.

Gróðursetning hófst af krafti árið 1946 og mætti Eiríkur að minnsta kosti næstu tíu árin á hverju vori með fullhlaðna jeppakerru af trjáplöntum norður í Svarfaðardal. Í dagbókum lýsir hann þessum ferðum sem ekki voru allar auðveldar. Með Eiríki voru jafnan Valgerður kona hans, Hjörtur sonur þeirra og Una systir Eiríks. Höfðu þau til afnota efstu hæðina að Hánefsstöðum. Ýmsir nágrannar voru fengnir til að gróðursetja og halda við girðingum. Eiríkur útbjó tjörn nyrst í skóginum og sleppti þar silungum sem svo dóu á frosthörðum vetri er tjörnin botnfraus.

Árið 1965 ánafnaði Eiríkur Skógræktarfélagi Eyfirðinga jörðina Hánefsstaði ásamt skógarreitnum. Jörðin var í eigu SE fram yfir 1980 en var þá seld að undanskildum reitnum og andvirði varið til að byggja upp og þróa plöntuframleiðslu. Eiríkur lést árið 1981 og reisti fjölskyldan minnisvarða um hann hér í reitnum árið 1998. Minnisvarðann gerðir Ragnar Kjartansson myndhöggvari.

SE tók við umhirðu reitsins árið 1965 og hafði þá um nokkurt skeið séð um útplöntun. Reiturinn var endurgirtur árið 1992 en á árunum í kringum 1980 var átak gert í að grisja reitinn og planta inn í eyður. Miklu hafði verið plantað af skógarfuru sem féll að mestu í lúsafaraldri.

Árið 1999 var gerður samningur við Dalvíkurbyggð um að Hánefsstaðaskógur yrði útivistarsvæði Dalvíkinga og Svarfdælinga. Í því fólst að komið yrði upp snyrtingum, leiktækjum, grillaðstöðu auk göngustíga. Samningurinn var til 20 ára og sér SE um skipulag og yfirumsjón framkvæmda en Dalvíkurbyggð greiðir kostnað við þær.
[Texti á vefsíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga]

Um Eirík Hjartarson hefur annar minnisvarði verið reistur í Laugadal í Reykjavík, en þá jörð eignaðist hann og ræktaði skóg. Hann seldi Reykjavíkurborg Laugardalinn þar sem nú er Grasagarðurinn í Reykjavík.


Rósa Þorsteinsdóttir (1856-1928) – Jón Stefánsson (1859-1935)
Nýibær Dalvík

Í minningu hjónanna í Nýjabæ
Rósu Þorsteinsdóttur, f. 12.7.1856, d. 29.3.1928 og
Jóns Stefánssonar, f. 21.8.1859, d.18.3.1935
frumbyggja Dalvíkur, en hér hófu þau búsetu á vordögum 1887.

…allt, sem grær, ber merki fornra minja.
Hvert moldarfræ er vöxtur tveggja kynja.
Og sami réttur er þeim báðum borinn.
Frá barnsins vöggu liggja ævisporin,
að myrkri gröf, sem eilíft vakir yfir.
Við yrkjum sömu jörð – og stofninn lifir.

Jón Stefánsson Nýjabæ Dalvík
Nýibær
Rósa Þorsteinsdóttir Nýjabæ Dalvík

Höggmyndir á varðanum eru eftir Jónas S. Jakobsson. Minnisvarðann reistu niðjar þeirra, sumarið 1983 við Nýjabæ á Dalvík.


Hörgársveit

Jón Sveinsson (1857-1944) Nonni 
Jón Sveinsson Nonni
Hörgárdal
Pater Jón Sveinsson Nonni
fæddur á Möðruvöllum 16. nóvember 1857
dáinn í Köln 16. október 1944.

Minnisvarðinn stendur á Möðruvöllum í Hörgárdal

Nonni - Hörgárdal

Annar minnisvarði um Nonna er á Akureyri


Akureyri

Caroline Rest
Caroline Rest
Akureyri
Carolina Rest
Akureyri
George Herman Ferdinand Schrader f. 1858 – d. 1915. – Caroline Rest

Skjöldurinn er á minnisvarða við  kirkjutröppurnar á Akureyri þar sem gistihúsið Caroline Rest stóð.

Í júlí 1912 kom til Akureyrar þýskættaður Bandaríkjamaður að nafni George Herman Ferdinand Schrader f. 1858 – d. 1915.
Næstu þrjú árin dvaldi hann í kaupstaðnum, vann góðverk og menntaði bæjarbúa. Á Akureyri kynntist Schrader íslenska hestinum sem honum fannst illa farið með og af vankunnáttu. Hann ákvað að bæta úr og sótti um leyfi til að reisa hesthús með fáeinum stíum – sem verður að vera í miðbænum, áréttaði Schrader, til að koma sveitamönnum að gagni. Hinn 16. desember 1913 var húsið opnað fyrir gesti og gangandi. 
Ári síðar var það stækkað og rúmaði þá 130 hross og 30 næturgesti. Húsið reisti Schrader til minningar um móður sína og nefndi eftir henni, Caroline Rest eða Hvíldarheimili Karólínu. Í mars 1915 gaf Schrader Akureyrarbæ hvíldarheimilið með þeim skilyrðum að þar yrði aldrei annað en gististaður fyrir menn og hesta.
,,Látið yður umhugað um annað, meira og hærra en að græða fé” kenndi Schrader Akureyringum og lét ekki sitja við orðin tóm.
Hestamannafélagið Léttir, stofnað 5. nóvember 1928 minnist 85 ára afmælis síns. Af því tilefni vottar félagið George H.F. Schrader, velgjörðarmanni hestsins okkar og mannvini, virðingu og þökk með því að reisa honum þennan minnisvarða á lóð Caroline Rest, nú þegar 100 ár eru liðin frá því að þetta merka hús var byggt. [Skjöldur]


Golfvöllur á Akureyri
Golfvöllur á Akureyri

Á þessum stað var fyrst leikið golf á Akureyri, en hér var fyrsti golfvöllur Golfklúbbs Akureyrar á árunum 1935-1945.

Golfklúbbur Akureyrar þakkar Slippstöðinni á Akureyri margvíslegan stuðning í áraraðir.
Skjöldur þessi var afhjúpaður á 50 ára afmæli Golfklúbbs Akureyrar árið 1985.

Minnisvarðinn stendur við Hjalteyrargötu skammt frá Slippstöðinni 

Golfvöllur á Akueyri

Glerárbrú
Glerárbrú Akureyri
Göngubrú yfir Glerá

Stíflan, sem er grunnurinn undir brúnni er fyrsta mannvirki Rafveitu Akureyrar og hluti af Glerárstöð, sem var fyrsta virkjun rafveitunnar.
Stíflan var byggð árið 1921, stöðvarhúsið 1922 og virkjunin tekin í notkun það ár.
Verkið var undirbúið af sænska verkfræðifyrirtækinu ,,Billie & Wijkmark” og framkvæmdum stjórnað af sænska verkfræðingnum Olof Sandell. Eftir að framkvæmdum lauk tók fyrsti rafveitustjórinn á Akureyri, Knud Otterstedt, við stjórn virkjunarinnar. Hún var starfrækt fram til ársins 1960. Rafveita Akureyrar lét hanna göngubrúna og lagði fram þriðjung kostnaðar við byggingu hennar, í tilefni af 75 ára afmæli sínu árið 1997.
Akureyrarbær lét smíða brúna árið 1998. Hönnuðir voru Arkitektastofan í Grófargili og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen. Verktaki var Sæstál á Dalvík. [Skilti]

Glerárbrú Akureyri
Glerárvirkjun Akureyri
Glerárstífla Akureyri
Glerárstífla 1968

Minnisvarði um horfna
Horfnir sjómenn Akureyri
Minnisvarði um týnda og drukknaða sjómenn

Jesús sagði: ,,Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi”.

Minnisvarðinn, sem var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1989, stendur við Glerárkirkju á Akureyri. Minnisvarðinn er gefinn af sjómönnum og útgerðarmönnum. Lengi hafði staðið til að koma upp slíkum minnisvarða á Akureyri, en segja má að skriður hafi komist á framkvæmdina þegar ungur maður fórst af loðnubát frá Akureyri nokkrum árum fyrr.

Minnisvarðinn er hannaður og smíðaður af starfsmönnum Steinsmiðju S. Helgasonar í Reykjavík. Hann tekur í útliti og uppbyggingu nokkurt mið af Glerárkirkju og Súlum og er hinn fallegasti gripur. [DV 14. júní 1989].


Oddfellowreglan á Íslandi
Oddfellowreglan Akureyri
Oddfellowreglan á Íslandi 
100 ára 1997

Minnisvarðinn stendur við Oddfellowhúsið á Akueyri


Ármann Dalmannsson (1894-1978)
Ármann Dalmannsson Akureyri
Í minningu Ármanns Dalmannssonar
skógarvarðar sem hóf hér [í Kjarnaskógi] skógrækt árið 1947.

Ármann Dalmannsson fæddist 12. september 1894 í Fíflholtum, Hraunhreppi, Mýrum vestra. Hann lauk prófi frá búnaðarskólanum á Hvanneyri 1918 og frá íþróttaskóla í Danmörku 1925. Hann starfaði við kennslu í fyrstu og búnaðarráðsgjöf þar til hann gerðist framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga árið 1948. Hann stafaði þar við skógrækt í Kjarnaskógi og víðar fram undir sjötugt.

Ármann Dalmannsson var litríkur persónuleiki sem setti svip á umhverfi sitt. Hann fékkst við skáldskap frá unga aldri og gaf út tvær ljóðabækur, Ljóð af lausum blöðum og Fræ. Á efri árum, þegar fór að hægjast um, fór hann að setja saman vísnagátur sem fyrst voru notaðar í fjölskylduboðum en urðu það vinsælar að gefin voru út fimm lítil hefti á árunum 1974-1979.

Minnisvarðinn stendur í Kjarnaskógi

Ármann Dalmannsson Akureyri

Brynjólfur Sveinsson (1898-1982)
Brynjólfur Sveinsson Akureyri
Minning um Brynjólf Sveinsson kennara við Menntaskólann á Akureyri 1927-1970.

Frá dætrum og tengdasyni.

Brynjólfur Sveinsson kenndi íslensku, stærðfræði, eðlisfræði og landafræði við Menntaskólann á Akureyri 1927-1970. Er hann þekktastur fyrir kennlu Egils sögu.

Minnisvarðinn stendur á lóð Menntaskólans

Brynjólfur Sveinsson Akureyri

Elísabet Geirmundsdóttir (1915-1959)
Elísabet Geirmundsdóttir Akureyri
Útþrá
Til minningar um ,,Listakonuna í fjörunni”, Elísabetu Geirmundsdóttur frá fjölskyldu og velunnurum.

Listaverkið Útþrá er frá árinu 1951 og er eftirgerð af frummynd og stækkun.
Verkið var gefið Akureyrarbæ 2016.

Verkið stendur í gömlu fjörunni fyrir framan Minjasafn Akureyrar.


Friðbjörn Steinsson (1838-1918)
Friðbjörn Steinsson Akureyri
Friðbjörn Steinsson 1838 – 1918
Stofnandi st. Ísafoldar nr. 1, 1884.

Húsið hýsir nú leikfangasafn sem er hluti Minjasafnsins á Akureyri.

Minnisvarðinn stendur við Friðbjarnarhús, Aðalstræti 58 á Akureyri.

Friðbjarnarhús Akureyri

Gunnar Konráðsson (1920-2004)
Nunni Konn Akureyri
Gunnar Konráðsson 1920-2004

Gjöf til GA frá afkomendum Nunna Konn í tilefni aldarafmælis hans 26. júní 2020.

Drykkjarfonturinn stendur á golfvelli Golfklúbbs Akureyrar á Akureyri


Sigurður Guðmundsson (1878-1949) – Halldóra Ólafsdóttir (1892-1968)
Sigurður Guðmundsson
Akureyri

Sigurður Guðmundsson
skólameistari 
1878-1949

Halldóra Ólafsdóttir Akureyri

Halldóra Ólafsdóttir
skólameistarafrú
1892-1968

Sigurður Guðmundsson var skólameistari Menntaskólans á Akureyri árin 1921-1947.

Minnisvarðarnir eru eftir Ásmund Sveinsson og  standa framan við Menntaskólann á Akureyri, gamla skólann.


Hermann Stefánsson (1904-1983) Þórhildur Steingrímsdóttir (1908-2002)
Hermann Stefánsson
Hermann Stefánsson 1904-1983 – Þórhildur Steingrímsdóttir 1908-2002
Brautryðjendur í íþróttum og menningu.

Skalk þó glaðr
með góðan vilja
ok óhryggr 
heljar bíða.
 
[Úr Sonatorreki]

Hermann Stefánsson var íþrótta- og söngkennari við Menntaskólann á Akureyri 1929-1974.

Minnisvarðinn stendur við íþróttahús (Fjósið) Menntaskólans á Akureyri.
Lágmyndina gerði Ragnhildur Stefánsdóttir myndhöggvari.

Hermann Stefánsson og Þórhildur Steingrímdóttir
Akureyri

Jón Rögnvaldsson (1895-1972)
Jón Rögnvaldsson Akureyri
Jón Rögnvaldsson, f. 18.6.1895 – d. 10.8.1972.

Mikilhæfur leiðtogi á sviði skrúðgarðyrkju og skógræktar.

Jón Rögnvaldsson var fæddur í Grjótárgerði í Fnjóskadal árið 1895. Hann fluttist átta ára gamall að Fífilgerði í Öngulsstaðahreppi og bjó þar lengst af ævinnar. Var hann jafnan kenndur við bæinn. Jón var kvæntur Körlu Þorsteinsdóttur og áttu þau fjögur börn. Hann fluttist til Akureyrar árið 1957 og lést þar árið 1972.

Árið 1910 fór Jón á garðyrkjunámskeið í Gróðrarstöðinni á Akureyri. Jón lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Akureyrar árið 1917 og var þar lærisveinn Stefáns Stefánssonar grasafræðings. Jón hóf nám við Menntaskólann í Reykjavík árið 1918 en veiktist af spönsku veikinni og hætti námi. Árið 1920 fór Jón til Kanada og dvaldist þar í fimm ár. Þar vann hann ýmis störf, meðal annars við skógræktarstöðina Indian Head í Manitoba og lauk garðyrkjuprófi frá landbúnaðarskólanum í Winnipeg.

Heimkominn 1925 rak Jón garðyrkjustöð, fyrst heima í Fífilgerði en síðar lengst af við Brekkugötu 7 á Akureyri. Garðyrkjustöðin nefndist Flóra og hana rak Jón ásamt Kristjáni bróður sínum.

Jón var eldheitur hugsjónarmaður, frumherji í skógrækt, garðyrkju, grasafræði og landslagsarkitektúr. Á öllum þessum sviðum gustaði af Jóni og kom hann að stofnum margra skógarreita. Jón var hvatamaður að stofnun fyrsta skógræktarfélags á Íslandi, Skógræktarfélagi Eyfirðinga og var fyrsti formaður félagsins. Hann var lengi garðyrkjuráðunautur Akureyrarkaupstaðar og forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri frá 1954 til 1970. Kom hann þar á fót fyrsta grasagarði á Íslandi og þeim nyrsta í Evrópu. Áður hafði Jón komið upp plöntusafni heima hjá sér sem varð grunnur grasagarðsins.

Jón gerði árið 1959 uppdrátt af skjólbeltaneti í Kaupangssveit. Tveimur árum síðar kynnti Jón skjólbeltaáætlun sína og hvatti menn til dáða. Er hér sennilega um að ræða fyrstu skjólbeltaáætlun sem gerð hefur verið á Íslandi.

Jón stóð að stofnun margra skógarreita Skógræktarfélags Eyfirðinga og skipulagi annarra reita s.s. reitsins við Freyjulund, við Kristneshæli, og Húsmæðraskólann á Laugalandi. Árið 1937 gaf hann út bókina Skrúðgarðar sem í áratugi var eina íslenska handbókin um þetta efni.

Jón var heiðursfélagi í Garðyrkjufélagi Íslands, og Skógræktarfélagi Eyfirðinga. Hann var sæmdur fálkaorðunni árið 1963. Samkvæmt tillögu Skógræktarfélagsins var Arboretum Akureyri stofnað í Bæjarbrekkunum á Akureyri með hátíðlegri athöfn í Gróðrarstöðinni 18. júní 1983 á afmælisdegi Jóns og honum til heiðurs. Reist var brjóstmynd af Jóni í Lystigarðinum á 100 ára ártíð hans og tók Skógræktarfélagið þátt í því. [Wikipedia]

Brjóstmynd gerð af Helga Gíslasyni, var afhjúpuð 18.6.1995 og stendur í Lystigarðinum á Akureyri

Jón Rögnvaldsson

Jón Sveinsson Nonni (1857-1944)
Jón Sveinsson Nonni
Jón Sveinsson Nonni 
Íslenskur Jesúítaprestur og höfundur Nonnabókanna.

Íslensk listakona, Nína Sæmundsson (1892-1965) gerði þessa styttu 1958.

Zontaklúbbur Akureyrar lét reisa styttuna við Nonnahús honum til heiðurs.

Nonni fæddist á Möðruvöllum í Hörgárdal þann 16. nóvember 1857. Foreldrar hans voru Sigríður Jónsdóttir (1826-1910) frá Reykjahlíð við Mývatn og Sveinn Þórarinsson (1821-1869), skrifari hjá Pétri amtmanni Hafstein. Sigríður og Sveinn eignuðust átta börn en þrjú þeirra létust haustið 1860 af völdum barnaveiki. Þau börn sem upp komust voru Björg (Bogga) (1854-1882), Jón (Nonni) (1857-1944), Sigríður Guðlaug (1858-1916), Friðrik (1864-1943) og Ármann (Manni) (1861-1885). Fyrir hjónaband hafði Sigríður eignast dóttur sem hét Kristín (1852-1949).

Árið 1865 fluttist Nonni með fjölskyldu sinni til Akureyrar þar sem fjölskyldan settist að í svokölluðu Pálshúsi. Sveinn lést 1869 úr sullaveiki. Stóð þá ekkjan ein uppi með börn sín því búið var tekið til gjaldþrotaskipta eftir lát Sveins. Fór svo að hún varð að láta öll börnin sín frá sér nema Ármann (Manna). Sigríður flutti síðar til Kanada og giftist þar aftur.

Árið 1870 bauðst franskur aðalsmaður til að kosta tvo íslenska drengi til náms. Annar þessara drengja var Nonni. Í lok ágústmánaðar 1870 hélt Nonni af landi brott. Vegna styrjaldar sem þá geisaði í Evrópu komst hann ekki strax til Frakklands heldur dvaldi hann í eitt ár í Danmörku og þar tók hann kaþólska trú. Kominn til Frakklands settist Nonni í latínuskólann í Amiens. Nokkrum árum síðar kom Manni bróðir hans einnig til Frakklands og nam við sama skóla. Manni lést árið 1885, aðeins 23 ára, úr berklum. Hann var þá við nám í Belgíu.

Nonni lauk námi við latínuskólann 1878 og gekk þá í jesúítaregluna. Hann var við háskólanám í Frakklandi, Belgíu og Hollandi. Þær greinar sem hann lagði stund á voru bókmenntir, heimspeki og guðfræði. Eftir nám gerðist Nonni kennari við kaþólskan menntaskóla í Ordrup í Danmörku. Árin 1888-1892 dvaldi hann í Englandi við guðfræðinám og þar tók hann prestvígslu. Eftir Englandsárin sneri Nonni aftur til Danmerkur og kenndi þar við sama skóla og áður.

Árið 1912 hætti Nonni kennslu og fluttist frá Danmörku. Næstu árin bjó hann meðal annars í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi og helgaði líf sitt uppfrá þessu ritstörfum.

Nonni ferðaðist víða og hélt fyrirlestra. Oftast fjallaði hann um Ísland og þá sérstaklega Eyjafjörðinn. Árið 1936 hélt Nonni í heimsreisu og dvaldi meðal annars í Japan í eitt og hálft ár. Árið 1939 settist hann að í Valkenburg í Hollandi en vegna stríðsátaka hraktist hann til Þýskalands 1942.

Nonni lést 16. október 1944 í loftvarnarbyrgi undir St. Franziskus-spítalanum í Köln. Hann var grafinn í Melatenkirkjugarðinum í Köln.

Legsteinn Jóns Sveinssonar.

Nonni kom aðeins tvisvar sinnum til Íslands eftir brottförina 1870. Fyrra skiptið var 1894 en seinna skiptið var 1930 þegar ríkisstjórn Íslands bauð honum að koma á Alþingishátíðina. Í þeirri ferð var hann gerður að heiðursborgara Akureyrar. [Wikipedia]

Á aldarafmæli Nonna þann 16. nóvember 1957 opnaði Zontaklúbbur Akureyrar safn til minningar um hann. Safnið er til húsa í gamla Pálshúsinu þar sem Nonni bjó hluta úr æsku sinni og nefnist húsið nú Nonnahús.

Nonni

Annar minnisvarði um Nonna er á Möðruvöllum í Hörgárdal.


Kristján Níels Júlíus Jónsson – Káinn (1859-1936)
Káinn Akureyri
Káinn
Kristján Níels Júlíus Jónsson 
Fæddur á Akureyri 7. apríl 1859
Dáinn í Mountain, Norður-Dakota 25, október 1936.

Miðvikudaginn 25. október 2017, sem er dánardagur skáldsins Kristjáns Níelsar Júlíusar Jónssonar eða KÁINS, var minnismerki um hann vígt í innbænum á Akureyri, skammt sunnan Minjasafnsins á Akureyri.
,,Icelandic Roots, The Icelandic Communities Association of NE North-Dakota og aðrir velunnarar Káins vestan hafs létu gera afsteypu af lágmynd sem prýðir minnismerki um skáldið í Norður-Dakota og færðu Akureyringum að gjöf. Lágmyndin hefur verið felld í stuðlabergsdranga sem myndar nýja minnismerkið.” [kaffid.is]

Káinn

Kæra foldin, kennd við snjó,
hvað ég feginn yrði,
mætti holdið hvíla í ró
heima í Eyjafirði.


Matthías Jochumsson (1835-1920)
Matthías Jochumsson
Varða þennan reistu Akureyrar-búar skáldinu Matthíasi Jochumssyni á áttræðisafmæli hans 11. nóvember 1915.

Matthías Jochumsson (11. nóvember 1835 – 18. nóvember 1920) var skáld og orti marga sálma auk ljóða. Hann fæddist á bænum Skógum sem stóð um 100 metra frá sjó í austurhlíðum Þorskafjarðar undir Vaðalfjöllum. Átti hann heima í Skógum til 11 ára aldurs hjá foreldrum sínum. Matthías stundaði síðan ýmis störf, aðallega sjómennsku og sveitavinnu, en einnig verslunarstörf í Flatey. Hann var síðar prestur, starf sem hann gegndi mestan hluta ævi sinnar. Matthías var nokkuð hverflyndur í trúarskoðunum sínum, en hann var greinilega hallur undir únítarisma.

Í Latínuskólann fór hann 24 ára gamall. Eftir Matthías liggja mörg ritverk og kvæði, t.d. leikritið Skugga-Sveinn og hann samdi ljóðið Lofsöngur sem síðar var tekið upp sem þjóðsöngur Íslands. Hann var ritstjóri Þjóðólfs um tíma og síðari hluta ævi sinnar bjó hann í Sigurhæðum á Akureyri, en húsið lét hann reisa sjálfur. Áður var hann prestur í Odda á Rangárvöllum og um tíma bjó hann í Móum á Kjalarnesi.
Skógum í Þorskafirði er minnismerki um Matthías, lágmynd eftir Helga Gíslason og bautasteinn úr stuðlabergi úr Vaðalfjöllum.
Að Sigurhæðum á Akureyri er safn helgað minningu hans. Brjóstmynd styttunnar í Lystigarðinum á Akureyri er eftir Ríkarð Jónsson.

Matthías þýddi Friðþjófssögu og Sögur herlæknisins á íslensku.

Ævisaga hans, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, Upp á Sigurhæðir kom út haustið 2006.

Matthías Jochumsson
Matthías Jochumsson

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir
Darraðarljóð frá elstu þjóðum,
heiftareim og ástar-bríma
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vigðum geymir í sjóði.
MJ


Margrethe Schiöth (1871-1962)
Margrethe Schiöth
Margrethe Schiöth
Hún gerði garðinn frægan.

Jónas S. Jakobsson gerði brjóstmyndina en varðinn var afhjúpaður 1951 og stendur í Lystigarðinum á Akureyri

Verkið var afhjúpað á áttræðisafmæli frú Schiöth, hinn 31. júlí 1951. Margrethe, Friis að föðurnafni, var frá bænum Vejen á Jótlandi en fluttist til Akureyrar árið 1899 og giftist skömmu síðar bakarameistaranum Axel Schiöth. Margrethe er vafalaust fyrsta konan á Akureyri sem lét sér til hugar koma að gróðursetja sumarblóm á bersvæði. Hún var í áratugi forsvarsmaður Lystigarðsins eða þangað til 1. október 1953 þegar hún hætti sem formaður stjórnar Lystigarðsfélagsins og Akureyrarbær tók við garðinum. Árið 1941 var Margrethe gerð að heiðursborgara Akureyrar en hún andaðist 20. júní 1962.

Margarete Schiöth Akureyri

Páll Briem (1856-1904)
Páll Briem Akureyri

Páll Briem 
f. 19. október 1856 – d. 17. desember 1904

Alþingismaður Snæfellinga 1887–1892. Kosinn alþingismaður Akureyrar 1904, en dó áður en þing kom saman. [Alþ.]

Minnisvarðinn stendur við gömlu gróðarstöðina á Akureyri

Hann var fulltrúi hjá yfirréttarmálaflutningsmanni í Kaupmannahöfn 1884–1885. Hlaut 1885 styrk úr landssjóði til rannsókna á íslenskum lögum og vann að þeim í Reykjavík og Kaupmannahöfn 1885–1886. Sýslumaður í Dalasýslu 1886–1887, sat að Staðarfelli. Málaflutningsmaður við landsyfirréttinn 1887–1890. Sýslumaður í Rangárvallasýslu 1890–1894, sat fyrst í Odda, en síðan í Árbæ í Holtum. Skipaður frá 12. september 1894 amtmaður í norður- og austuramtinu, fluttist þá til Akureyrar, lausn með biðlaunum 1. ágúst 1904, er amtmannsembættin voru lögð niður. Varð þá bankastjóri við Íslandsbanka og fluttist til Reykjavíkur.

Skrifstofustjóri Alþingis 1885. Bæjarfulltrúi á Akureyri 1897–1900 og 1903–1904. Hvatamaður að stofnun Ræktunarfélags Norðurlands og formaður þess 1903–1904. Samdi frumvarp til stofnlaga um Búnaðarfélag Íslands. Sat á Búnaðarþingi 1901. Yfirskoðunarmaður landsreikninganna 1887 og 1889. Skipaður 1901 formaður milliþinganefndar í fátækramálum.

Alþingismaður Snæfellinga 1887–1892. Kosinn alþingismaður Akureyrar 1904, en dó áður en þing kom saman. [Alþ.]


Páll Steindór Steindórsson (1966-2013) Pétur Róbert Tryggvason (1977-2013)
Akureyri

Til minningar um
Pál Steindór Steindórsson, f. 3. des. 1966 og Pétur Róbert Tryggvason f. 14. nóv. 1977 sem fórust með sjúkraflugvélinni TF-MYX þann 5. ágúst 2013.

Minningar um dáðadrengi munu ætíð lifa.

Minnisvarðinn stendur á svæði Bílaklúbbs Akureyrar þar sem flugvélin fórst.

Flugmenn Akureyri

Sigurður Sigurðsson (1871-1940)
Sigurður Sigurðsson Akureyri
Sigurður Sigurðsson
f. 5. ágúst 1871 – d. 1. júlí 1940

Minnisvarðinn er eftir Ríkarð Jónsson og stendur við gömlu gróðarstöðina á Akureyri.

Sigurður stofnaði Trjáræktarstöð á Akureyri 1899. Skólastjóri búnaðarskólans á Hólum 1902-1919, var í stjórn ræktunarfélags Norðurlands (sem hann stofnaði) 1903-19, framkvæmdastjóri frá stofnun til 1910, formaður Búnaðarfélags Íslands 1919-23, Búnaðarmálastjóri 1923-35. [Ísl. æviskrár]


Stefán Stefánsson skólameistari (1863–1921)
Stefán Stefánsson skólameistari
Stefán Jóhann Stefánsson,

skólameistari Menntaskólans á Akureyri, fæddist á Heiði í Gönguskörðum hinn 1.8. 1863. Foreldrar hans voru Stefán Stefánsson, bóndi á Heiði, og k.h., Guðrún Sigurðardóttir húsfreyja, frá Heiði.
Börn Stefáns og k.h., Steinunnar Frímannsdóttur frá Helgavatni, voru Valtýr, ritstjóri Morgunblaðsins, faðir Helgu leikkonu og Huldu, fyrrv. blaðakonu, og Hulda skólastjóri, móðir Guðrúnar Jónsdóttur arkitekts.
Stefán lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1884 og las náttúrufræði við Háskólann í Kaupmannahöfn 1884-87.
Stefán var kennari við Gagnfræðaskólann á Möðruvöllum og síðan Gagnfræðaskólann á Akureyri 1887-1908 og skólameistari Menntaskólans frá 1908.
Stefán var alþm. Skagfirðinga 1900-1908 og síðan konungkjörinn alþm. 1908-1916. Hann sat í dönsk-íslensku milliþinganefndinni um sambandsmálið 1907 sem leiddi til „Uppkastsins“ fræga og sögulegra alþingiskosninga 1908, og var amtsráðsmaður og bæjarfulltrúi á Akureyri 1906-1918.
Stefán ferðaðist mikið um landið við gróðurrannsóknir. Hann sat í stjórn ýmissa fyrirtækja og var aðalhvatamaður að stofnun Náttúrufræðifélags Íslands og Náttúrugripasafnsins.
Stefán lést 20. janúar 1921.

Minnisvarðinn stendur í Stefánslundi við Menntaskólann á Akureyri og er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara. Sigurjón vann búk undir portrettmynd sína af Stefáni frá 1933 (LSÓ 216).
Minnisvarði frá vinum og afkomendum Stefáns, afhjúpaður í Stefánslundi við Menntaskólann á Akureyri 1950.


Vilhjálmur Stefánsson (1879-1962)
Vilhjálmur Stefánsson
Vilhjálmur Stefánsson (3. nóvember 1879 – 26. ágúst 1962)

Hann var landkönnuður og mannfræðingur af íslenskum ættum. Hann fæddist í Gimli í Manitobafylki í Kanada og var við nám í N-Dakóta og Iowa og lauk námi í mannfræði frá Harvard-háskóla og kenndi þar einnig um tíma.
Áhugi Vilhjálms á Norðurheimskautssvæðinu var mjög mikill og var hann einna fyrstur til að rannsaka menningu og líf Inúíta að nokkru ráði. Fyrir þær sakir var hann einn best þekkti landkönnuður síns tíma. Eftir hann liggja margar bækur og rit og eru skrif hans enn í dag uppspretta fróðleiks um líf á norðurslóðum.
Hann ferðaðist í mörg ár um norðursvæði Kanada og stóð meðal annars fyrir leiðangri á skipinu Karluk norður gegnum Beringssund inn í hinn frosnu hafsvæði norðurpólsins. Sú ferð endaði illa og var tilefni nokkurrar gagnrýni á Vilhjálm.

Vilhjálmur Stefánsson

Minningaplatan er fest á klettavegg við Háskólann á Akureyri.


Minnisvarði um félaga Bílaklúbbs Akureyrar
Bifreiðaíþróttir - flugslys

Minnisvarðar um flugslys og félaga Bílaklúbbs Akureyrar

Bifreiðaíþróttir
Bifreiðaíþróttir

Núna eru okkur allir vegir færir.
Til minningar um látna félaga Bílaklúbbs Akureyrar.
Reist af félögum Bílaklúbbs Akureyrar 5.8.2016.
Minnisvarðinn stendur á svæði Bílaklúbbs Akureyrar


Hrísey

Jörundur Jónsson (1826-1888) – Hákarla-Jörundur
Hákarla-Jörundur Hrísey

Jörundur Jónsson (1826-1888) – Hákarla-Jörundur

Jörundur Jónsson fór sem fátækur unglingur að heiman frá Kleifum í Ólafsfirði árið 1843 eftir að móðir hans dó af barnsförum nokkru áður. Um árabil var hann smali og vinnumaður á ýmsum bæjum á austurströnd Eyjafjarðar þar sem honum tókst að lokum að brjótast úr hlekkjum fátæktar og vinnumennsku og verða sjálfstæður útvegsbóndi. Hann efnaðist og árið 1862 settist hann að á Syðstabæ í Hrísey með fjölskyldu sinni. Þar hélt velgengni hans áfram og Jörundur gat sér orð fyrir að vera einn fengsælasti hákarlaveiðimaður landsins, áræðinn og farsæll skipstjóri. Viðurnefni hans, Hákarla-Jörundur, segir meira en mörg orð. Þeir sem á annað borð þekkja til Jörundar kannast fyrst og fremst við hann sem útgerðarmann. Færri vita að á árunum 1865 til 1888 rak hann eitt af stærstu sauðfjárbúum í Eyjafirði. Af rekstri sínum til sjós og lands komst hann í hóp efnuðustu manna í landinu um sína daga en hann lést árið 1888, þá rétt að verða 62 ára.
Jörundur eignaðist 17 börn með konum sínum, Svanhildi Jónasdóttur og Margréti Guðmundsdóttur. Af þeim komust 10 til fullorðinsára og afkomendur hans eru fjölmargir, margt þjóðþekkt fólk.

Brjóstmynd Jörundar gerði Ríkarður Jónsson mydhöggvari árið 1957 og stendur hún við Syðstabæ í Hrísey.


Björg Einarsdóttir – Látra-Björg (1716-1785)
Látra-Björg
Látra-Björg 1716-1785

Orgar brim á björgum,
bresta ölduhestar,
stapar standa tæpir,
seinar margir veina.
Þoka úr þessu rýkur
þjóð ei spáir góðu.
Halda sumir höldar
hríð á eftir ríði.

Minnisvarðinn stendur við höfnina á Grenivík.

Annar minnisvarði um Látra-Björgu stendur í Stærra-Árskógi í Eyjafirði.

Látra-Björg

Minnisvarði um horfna
Minnisvarði um horfna - Grenivík

Þú heldur frá hafsins auðnum
á himinsins gullnu lendur.
Þar fagna þér frændur og vinir
og faðmur guðs opinnstendur.
En allra sem heitast þér unna
og einmana bíða í skugga
og berjast við beiskan harminn,
við biðjum drottin að hugga.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Grenivík.