Haugsnesbardagi

Minnisvarðar í Skagafirði

Upplýsingar um minnisvarða í Skagafirði eru að nokkru leyti teknar úr riti sem tekið var saman af nemendum Varmahlíðarskóla í Skagafirði og heitir Minnisvarðar í Skagafirði og kom út árið 2005. Þar eru upplýsingar um 45 minnisvarða sem nemendur skólans tóku myndir af og rituðu upplýsingar um hvern og einn. Flestir þeirra minnisvarða eru hér.

Minnisvörðum um fólk er raðað í stafrófsröð eftir nöfnum.


Byggð í Óslandshlíð
Óslandshlíð

Steinninn stendur í Hlíðarlundi í Óslandshlíð.

Átthagafélagið Geisli
Lifðu vel, sveitin mín
lánið þér fagni.
Láti þér hamingjan
allt verða að gagni.

Á steininum eru taldir bæir í Óslandshlíð, á einni hlið þeir sem eru í byggð og aðra hlið þeir sem ekki eru lengur í byggð.


Farskólar
Farskólar
Farskólar

 Minnisvarðann afhjúpaði Páll Pétursson ráðherra 31. ágúst 2002. Hann stendur í Hlíðarlundi í Óslandshlíð. [Minnisvarðar í Skagafirði, 2005.]

Farskólar. Menntamálaráðuneytið og Átthagafélag Óslandshlíðar stóðu að gerð þessa varða sumarið 2004 til að minnast og þakka allt hið merka og góða starf sem unnið var á þessum vettvangi.

,, … Á stöku stað fléttaðist saman reglulegt barnaskólahald og farskólahald eins og hér í Óslandshlíð þar sem farskólahald hófst 1903 og lauk árið 1967 eftir að hafa staðið þar hvað lengst allrar farkennslu í landinu.
Fullyrða má að farkennslan markar fyrsta stóra framfarasporið í menntun fyrir alla alþýðu manna. Það er tæpast tilviljun að þessi þáttaskil haldist í hendur við upphaf mesta framfaraskeiðs þjóðarinnar í efnahagslegum skilningi og lokahnykkinn í sjáfstæðisbaráttunni sem í hönd fór.
Saga farkennslu á Íslandi hefur ekki verið skráð með heillegum hætti. Hún skipar hins vegar mikilvægan sess í skólasögunni og alþýðumenntun þjóðarinnar.” [Úr texta á minnisvarða]


Hofsós
Hofsós

Minnisvarðinn stendur við höfnina á Hofsósi.

Drukknaðir Hofsósi

Minnisvarði um drukknaða sjómenn.

Minnisvarðinn er reistur í tilefni af því að 50 ár eru liðin frá því að mótorbáturinn Svanur SK fórst við Hofsós 9. nóvember 1959.
Með honum fórust;
Gísli V. Gíslason
Hafsteinn Friðriksson
Jón Friðriksson

Blessuð sé minning þeirra.


Húsmæðraskóli á Löngumýri
Ingibjög Jóhannsdóttir Skagafjörður

Ingibjörg Jóhannsdóttir sendi minningarstein norður árið 1988 um stofnun Húsmæðraskólans á Löngumýri 1944.

Steinninn stendur í garðinum á Löngumýri


Fallið
Fallið

Fallið
Eftir Heidda Snigil no. 10 (Heiðar Þórarinn Jóhannsson)

Til minningar um fórnarlömb mótorhjólaslysa.
Gefið af Sniglum – Bifhjólasamtökum lýðveldisins í tilefni 100 ára afmælis mótorhjólsins á Íslandi 2005.

Minnisvarðinn stendur í Varmahlíð í Skagafirði

Fallið - Varmahlíð

Flugusteinn
Flugusteinn

Steinn þessi er tekin þar sem áður var Brimnesskógur og er til minningar um hryssuna Flugu, sem er eina hrossið er nafngreint er í fornum heimildum og frá skýrt að flutt var til Íslands. Fluga stökk frá borði í Kolbeinsárósi og týndist í Brimnesskógi en Þórir dúfunef keypti í henni vonina og fann hana síðar og nefndi Flugu. Reyndist Fluga kostagripur, allra hrossa fljótust á skeiði, og hafði sigur í fyrstu kappreiðum er sögur fara af og þreyttar voru suður á Kili, milli Dúfunefsfells og Rjúpnafells. [Texti á steininum]

Steinninn stendur við Vallhólma í Skagafirði


Hóftunga
Hóftunga

Í landi Vindheima eru Vindheimamelar en þar hafa verið haldin mörg hestamót. Fyrir Landsmót hestamanna 1990 var plantað trjálundi. Var hann vígður og gefið nafn af þáverandi forseta, Vigdísi Finnbogadóttur, sem kom norður og setti landsmótið. Í þennan trjálund var settur minnisvarði um komu Vigdísar.
Aðrir sem lagt hafa hönd að verki við þennan skógarlund:
Kaupfélag Skagfirðinga; Sauðárkrókskaupstaður; Skógræktarfélag Íslands; Skógræktarsjóður Skagfirðinga; Bekaert International Trade, Belgia.
[Minnisvarðar í Skagafirði, 2005]

Hóftunga

Minnismerki þetta má finna austan við aðalkeppnisvöllinn á Vindheimamelum og er hann gjöf frá sunnlensku hestamannafélögunum.


Ófeigur
Ófeigur Flugumýri

Til minningar um stóðhestinn Ófeig 882 frá Flugumýri
Fæddur 1974 – dáinn 1999

Hann markaði djúp spor í íslenskri hrossarækt.

Minnisvarðinn er á hlaðinu á Flugumýri í Skagafirði


Stígandi
Stígandi

Stígandi

Reiðhestur Jóns Péturssonar frá Valadal 1911-1931.

Stígandi var undan grárri hryssu á Hofsstöðum árið 1911. Hann var taminn fimm vetra og var rólegur fyrsta árið, en sjö vetra gamall var hann orðinn svo viljugur að hann var aðeins fyrir fullvana reiðmenn. Hann var sjálfráður en þegar ,,saman fór vilji hans og húsbóndans lagði hann fram meiri kosti en flestir hestar samtíða” (Stígandi (1995), bls. 163).

Stígandi var felldur 21 vetrar gamall á Skiphóli og heygður þar. Skiphóll er hóll skammt fyrir norðan Vindheimamela. Hestamannafélagið Stígandi sem stofnað var árið 1945 er nefnt eftir þessum eftirminnilega hvíta hesti. Flestir Skagfirðingar, sem einu sinni höfðu séð hann, geymdu hann í minni sínu löngu eftir að hann var felldur.

Skagafjörður

5. landsmót hestamanna

5. landsmót hestamanna
Hólum í Hjaltadal 15. júlí – 17. júlí 1966.

Minnisvarðinn stendur við skeiðvöllinn á Hólum.


21. landsmót hestamanna

21. landsmót hestamanna
Hólum í Hjaltadal 27. júní – 3. júlí 2016.

Minnisvarðinn stendur við skeiðvöllinn á Hólum.


Sauðkindin
Sauðkindin Skagafirði
Hestur

Sauðkindin

Áður gaf það gæfu mesta
góða reka sauðahjörð.
Fólk með kindur hund og hesta
heldur niður Gönguskörð. 
(J.G.)

Sauðkindin hefur verið samofin landinu og búskaparsögu þjóðarinnar frá upphafi. Einn þáttur þessarar sögu, sem nú er aflagður, er rekstur á fjall að vori og í heimahaga að haustgöngum loknum.Það er komið haust, göngum lokið og réttarstörf afstaðin. Safnið af Nesinu er rekið niður Skörðin gegnum Krókinn og er á leið austur Sandinn. Hann er léttstígur forystusauðurinn, sem rennur á undan síðasta spölinn í heimahagann eftir að hafa notið sumarsins á Skálahnúksdal og Tröllabotnum. Þetta er það sem var, nú aðeins minning þeirra, sem þarna voru þátttakendur.Listaverkið er til að minnast þessa þáttar bænda í Hegranesi.Steinninn er úr Miðmundaborg í landi Hellulands. Verkið er unnið af Einari Gíslasyni.

Lengi fyrna falinn auð
fósturland og saga
. (DS)

Ágúst 2005 [Texti á skildi] Þessir minnisvarðar standa í Vallhólma, Skagafirði


Róðugrund
Róðugrund Skagafirði
Róðugrund Skagafirði

Brandur Kolbeinsson, foringi Ásbirninga, var höggvinn á grundinni við Syðstu-Grund og var þar reistur róðukross til minningar um hann, sem jörðin dró nafn sitt af um tíma og var kölluð Róðugrund. Er sagt að sá kross hafi staðið fram á 16. öld. Sumarið 2009 var reistur annar róðukross til minningar um Ásbirningana sem vörðust og börðust gegn ásóknum annarra til valda í Skagafirði á 13. öld. Krossinn var vígður þann 15. ágúst 2009. Listamaðurinn Jón Adólf Steinólfsson skar róðuna og smíðaði krossinn. Helgi Sigurðsson, torf- og grjóthleðslumeistari, stýrði vörðuhleðslunni, sem er undirstaða krossins. [Kakalaskáli]


Minnisvarði um vegagerð
Vegagerð

Hér störfuðu Jörvi hf og Borgarverk hf
sumarið 1990.
Gæfa fylgi góðfúsum vegfaranda

Steinninn stendur við vegamót Norðurlandsvegar og vegar á Kjálka, skammt frá Silfrastöðum.


Minnisvarði um vegagerð
Vegagerð Öxnadalsheiði

Bundið slitlag
Reykjavík – Akureyri
september 1994

Vegagerðin

Stendur á Öxnadalsheiði 


Örlygsstaðabardagi 1238
Örlygsstaðabardagi

Norska konungsvaldið efldist mjög alla 13. öldina, á valdatíma Hákonar gamla (1217-1263) og gafst góður friður til að styrkja innviði ríkisins og víkka það út. Hákon gerði sér far um að vingast við íslenska höfðinga og gerðust margir hirðmenn hans. Einn þeirra var ungur og metnaðarfullur höfðingi af Sturlungaætt, Sturla Sighvatsson, en ætla má að hann hafi gerst handgenginn konungi í utanferð sinni 1232-1235. Hann hitti Hákon í Túnsbergi 1234 og hefur verið í ráðagerðum þeirra að Sturla kæmi landinu undir konung. Skyldi Sturla reka íslenska höfðinga utan á fund konungs og hefur Hákon væntanlega ætlað að láta þá gefa upp ríki sín. Sturla byrjaði á því að hrekja föðurbóður sinni, Snorra Sturluson, úr landi. Því næst lagði hann til atlögu við Gissur Þorvaldsson af Haukadalsætt. Tókst Sturlu að handsama hann við Apavatn en Gissur slapp fljótlega úr haldi. Gissur myndaði bandalag við höfðingja Skagfirðinga, sem þá var Ásbirningurinn Kolbeinn ungi Arnórsson. Uppgjörið fór fram á Örlygsstöðum 21. ágúst árið 1238 í fjölmennustu orustu sem háð hefur verið í landinu, en Gissur og Kolbeinn höfðu á að skipa yfir 1600 manna liði gegn rúmlega 1200 manna liði þeirra feðga, Sturlu og Sighvats. Sturlungar urðu fyrir miklum hrakförum í orustu þessari en alls féllu 49 menn úr liði þeirra feðga, en 7 úr liði hinna. Meðal hinna föllnu voru þeir feðgar báðir og þrír aðrir synir Sighvats.
Í Sturlunga sögu segir að Sturla hafi búið um sig til varnar í gerði einu ,,það er heitir á Örlygsstöðum. Sauðahús stóð í gerðinu. En garðurinn var lágur svo það var öllu ekki vígi.” Enn má sjá menjar hringlaga gerðis á Örlygsstöðum og tóftir bygginga. Sumarið 2005 fór fram fornleifakönnun á staðnum þegar snið var tekið í gegnum gerðið og þess freistað að greina aldur þess út frá gjóskulögum. Ljóst er að garðurinn er hlaðinn eftir Heklugos árið 1104. Er líklega um menjar býlis að ræða, bæjarhól með vallargarði í kring. Það hefur þá verið komið í eyði er orustan var háð þar á staðnum en þjónað sem beitarhús. Minjarnar voru friðlýstar af þjóðminjaverði árið 1926.

Minnisvarðinn stendur á Örlygsstöðum

Örlygsstaðabardagi

Örlygsstaðabardagi 1238

Fjörbrot þjóðveldis – Örlygsstaðabardagi 21. ágúst 1238


Friðbjörn Þórhallsson (1919-2003)
Friðbjörn Þórhallsson
Friðbjörn Þórhallsson

Minnisvarði um Friðbjörn Þórhallsson (1919-2003) á Hofsósi. Hér lágu sporin hans.
Svanhildur Guðjónsdóttir og fjölskylda.

Minnisvarðinn sem er einnig drykkjarfontur, stendur á bílastæði við hlið sundlaugarinnar á Hofsósi


Friðrik V. Guðmundsson
Friðrik V. Guðmunsson Höfða
Friðrik V. Guðmundsson bóndi á Höfða

Friðrik V . Guðmundsson frá Höfða
f. 13. okt. 1898
Aldarminning
Sæl verður gleymskan undir grasi þíonu H.P.

Friðrik V. Guðmundsson

Minnisvarðinn setndur ofan við bæinn á Höfða á Höfðaströnd.


Gísli Konráðsson (1787-1877)
Gísli Konráðsson
Gísli Konráðsson

Gísli Konráðsson sagnaritari
1787-1877.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 1982 og stendur á hlaðinu í Glaumbæ í Skagafirði


Guðmundur Arason (1161-1237)
Guðmundur Arason

Guðmundur Arason var biskup á Hólum 1203-1237

Minnisvarðinn er eftir Gunnfríði Jónsdóttur og stendur í jaðri skógarlundar fyrir ofan Hóladómkirkju

 

Guðríður Þorbjarnardóttir
Guðríður Þorbjarnardóttir

Guðríður Þorbjarnardóttir

landkönnuður á öndverðri 11 öld og ein víðförlasta kona þeirra tíma með soninn Snorra Þorfinnsson, fyrsta Evrópumanninn fæddan í Ameríku. Hann bjó í Glaumbæ og reisti kirkju þar.

Afsteypa af verki Ásmundar Sveinssonar ,,Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku” frá 1939.

Verkið stendur fyrir kirkjudyrum í Glaumbæ í Skagafirði.

 

Guðrún Sveinsdóttir (1890-1978)
Guðrún Sveinsdóttir

Guðrún Sveinsdóttir Bjarnastaðahlíð
f. 30. maí 1890 – d. 23. október 1978
Guðrún var einn af frumkvöðlum skagfirskrar skógræktar.
Hún starfaði sem barnakennari í Skagafirði um áratuga skeið,
og ásamt skólabörnum vann hún af mikilli atorku að gróðursetningu trjágróðurs.

Hún var ákaflega dugleg og sjálfstæð kona, fæddist einhent en þrátt fyrir fötlun sína
vann hún ötullega að skógræktarmálum, eftir hana liggur mikið ævistarf.
Varmahlíð 8. apríl 2003 – Skógræktarfélag Skagafjarðar.

Minnisvarðinn stendur í elsta hluta skógarins í Varmahlíð, sunnan við Laugarbrekku


Gunnar Ólafsson (1858-1949) – Sigurlaug Magnúsdóttir (1888-1940)
Keflavík Hegranesi
Keflavík Hegranesi
Hér bjuggu hjónin
Gunnar Ólafsson
f. 15.4.1858 – d. 2.2.1949
og Sigurlaug Magnúsdóttir
f. 27.7.1865 – d. 26.6.1938
1888-1940

Reist af niðjum þeirra hjóna í júní 1985

Minnisvarðinn stendur við bæinn Keflavík í Hegranesi, Skagafirði


Hermann Jónasson (1896-1976)
Hermann Jónasson
Hermann Jónasson Skagafirði

Vangamyndin er eftir Sigurjón Ólafsson.
Minnisvarðinn stendur við Syðri-Brekkur í Blönduhlíð, Skagafirði.

Hermann Jónasson forsætisráðherra
fæddur að Syðri-Brekkum 25.12.1896 – látinn 22.01.1976
Sveimhugi jafnan á sóldögum blíðum.
Sæll undir vorloftsins kór.
Leiðsögumaður í moldviðris hríðum
manndóms og átaka stór.
– Karl Kr.

Minnisvarða þennan reistu Framsóknarfélögin í Skagafirði og Framsóknarflokkurinn.


Herselía Sveinsdóttir (1900-1983)
Herselía Sveinsdóttir

Herselía Sveinsdóttir frá Mælifellsá.
Skólastjóri í Lýtingsstaðahreppi 1942-1949 og Steinsstaðaskóla 1949-1965. Minnisvarðinn var reistur af nemendum hennar 2002. Hann stendur rétt ofan við gamla skólahúsið á Steinsstöðum


Hjálmar Jónsson (1796-1875) frá Bólu
Bólu-Hjálmar
Bólu-Hjálmar

Hjálmar Jónsson 1796-1875

Flest ég tætti tals í þætti
til miðnættis kröpin vóð.

Bólu-Hjálmar legsteinn

Bólu-Hjálmar.

Minnisvarðinn stendur í trjálundi við heimreiðina að Bólu í Skagafirði. Lágmyndin og minnisvarðinn er eftir Jónas S. Jakobsson listamann.

Legsteinninn stendur í Miklabæjarkirkjugarði:
Hjálmar Jónsson frá Bólu og
Guðný Ólafsdóttir kona hans


Hrafna Flóki
Hrafna Flóki Fljótum
Hrafna-Flóki

Hönnuður: Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson

Minnisvarða þennan reistu hjónin Herdís Á. Sæmundardóttir og Guðmundur Ragnarsson
árið 2012.

Minnisvarðinn stendur í Flókadal í Fljótum en þar er sagt að Flóki Vilgerðarson hafi numið land er hann kom til Íslands öðru sinni.

Aðrir minnisvarðar um Hrafna-Flóka eru í Flókalundi á Barðaströnd og Hvaleyrarholti í Hafnarfirði.


Ingibjörg Jóhannsdóttir (1905-1995)
Ingibjörg Jóhannsdóttir

Ingibjörg Jóhannsdóttir Löngumýri
f. 1. júní 1905 – d. 9. júní 1995

8. apríl 1933 var Skógræktarfélag Skagafjarðar stofnað að frumkvæði Ingibjargar. Hún var fyrsti formaður þess og vann alla tíð ötullega að gróðurmálum.Eftirfarandi tilvitnun í blaðagrein eftir Ingibjörgu frá 1936 lýsir vel hugsjónum hennar:,,Treystið sjálfum ykkur til þess að gjörast duglegir liðsmenn félagsins. Undir fjölbreyttum skoðunum ykkar er frjór jarðvegur sem getur fóstrað frækorn, sem íslenskar skrautjurtir geta sprottið upp af”.

Varmahlíð 8. apríl 2003.
Skógræktarfélag Skagafjarðar,

Minnisvarðinn stendur í ,,Gamla-Skógi” í Varmahlíð en það er elsti hluti skógræktarinnar fyrir neðan íbúðarhúsið í Laugarbrekku og norðan við Fagrahvol. [Minnisvarðar í Skagafirði]


Ingibjörg Jóhannsdóttir (1905-1995) – Björg Jóhannesdóttir (1899-1995)
Ingibjörg Jóhannsdóttir

Þessi trjálundur er gefinn til minningar um Ingibjörgu Jóhannsdóttur, skólastjóra og
Björgu Jóhannesdóttur, kennara.

Frá nemendum Staðarfellsskóla 1943-44.

Lundurinn var gróðursettur við Löngumýri í Skagafirði [Texti á steininum]


Ingibjörg Jóhannsdóttir (1905-1995) –Björg Jóhannesdóttir (1899-1995)
Ingibjörg Jóhannsdóttir

Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastjóri
Björg Jóhannesdóttir kennari
Með virðingu og þökk
Nemendur Löngumýrarskóla

Ingibjörg fæddist á Löngumýri 1. júní 1905. Hún sótti námskeið í Húsmæðraskólanum í Reykjavík, námskeið í garðyrkju og síðar fór hún í Kennaraskólann. Ingibjörg var skólastjóri á Staðarfelli 1937-1944. Björg Jóhannesdóttir kom að Staðarfelli sem kennari haustið 1940 og eftir það fylgdi hún Ingibjörgu og studdi á allan hátt. Ingibjörg stofnaði húsmæðraskólann á Löngumýri 1944 og var skólastjóri þar til ársins 1967. Björg kenndi allan þann tíma sem Ingibjörg var skólastjóri. [Minnisvarðar i Skagafirði 2005]

Minnisvarðinn stendur í garðinum á Löngumýri, Skagafirði


Ingólfslundur
Ingólfslundur

Til minningar um Ingólf Jónsson bónda Nýlendi 1956-1990
f. 6. 11. 1923 – d. 27.8.1990

Minnisvarðinn stendur á Nýlendi í Deildardal

Ingólfur Jónsson

Jón Arason (1484-1550)
Jón Arason Hólar í Hjaltadal
Jón Arason Hólar í Hjaltadal

Mósaik-verkið í turninum er eftir listamanninn Ferro sem síðar kallaði sig Erro (Guðmundur Guðmundsson)

Turn Hóladómkirkju er minnisvarði um Jón Arason biskup á Hólum 1524-1550.


Jón Ósmann (Jón Magnússon) (1862-1914)
Jón Ósmann
Jón Magnússon

Ferjumannsstarfið var þrotlaust erfiði og vossamt, heilu dagana og jafnvel næturnar líka, einkum á kauptíðum vor og haust, enda völdust til starfsins dugnaðarmenn, sumir nafnkunnir fyrir hreysti. Jón Magnússon frá Utanverðunesi er talinn hafa verið ferjumaður lengst allra á Íslandi, í nær 40 ár, frá unglingsárum til æviloka og nafnkunnastur allra ferjumanna. Hann tók sér nafn af Ósnum og kallaði sig Jón Ósmann, annálað hreystimenni sem segja má að lifað hafi og dáið ferjusiglingunum. Hann mótaðist af starfi sínu, varð sérstæður maður og minnisstæður þeim sem af honum höfðu kynni, þjóðsagnapersóna í lifanda lífi. Hann var ríflega tveggja metra maður á hæð og eftir því þrekvaxinn, tröllaukinn að burðum en barngóður og greiðasamur með afbrigðum. Sú veiðikló sem hann var á sel, fugl og fisk hafði hann iðulega gefið frá sér allann sinn dagsafla að kvöldi. Hann átti vinfengi ýmissa í framvarðarsveit íslenskrar þjóðar sem stefndi að sjálfstæði. Hannesi Hafstein ráðherra fannst mikið til um slíkan mann sem átti sér þá ósk heitsta að Ósinn yrði brúaður, þrátt fyrir að þá myndi hann missa starf sitt. Jón varð viðfangsefni rithöfunda og listamanna, s.s. Jóns Stefánssoar listmálara. Árið 1974 gaf Sýslunefnd Skagafjarðar út bók eftir Kristmund Bjarnason rithöfund á Sjávarborg um líf og starf Jóns. Hún nefndist Jón Ósmann ferjumaður.
Fjaran austan við ós Vestari-Héraðsvatna er afmörkuð klettavegg á annan veg, Vötnunum á hinn. Hana nefndi Jón Furðustrandir. Þar byggði hann skýli og hafðist við  löngum, oft sólarhringum saman, lifði að mestu á því sem náttúran gaf, veiddi sér til matar og hressti sig og vini sína stundum á Skudda úr Brúnku sinni, en þau orð notaði hann yfir drykk sem hann átti í brúnni flösku. Þessar aðstæðu mótuðu manninn að hátterni, viðhorfum og orðfæri. Kannski var Jón Ósmann persónugervingur ferjumannsins en hitt er þó trúlega nær sanni að enginn lifði ferjumannsstarfinu til sömu fullnustu og hann. Hann endaði líf sitt í fljótinu sem hann ferjaði yfir og barðist við í fjóra áratugi. Listaverkið af Jóni Ósmann gerði Ragnhildur Stefánsdóttir og stendur það við Vestari-Ós Héraðsvatna.


Konráð Gíslason (1808-1891)
Konráð Gíslason Skagafjörður
Konráð Gíslason Varmahlíð

Minnisvarðinn stendur við brú yfir Héraðsvötn ekki langt frá Löngumýri.

Konráð Gíslason

Brjóstmynd Konráðs gerði Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson.

Síðasti Fjölnismaðurinn – Fánaberi íslenskrar málhreinsunar – Konráði er eignuð ljóðlína Jónasar í kvæðinu Ísland:
Landið er fagurt og frítt 
og fannhvítir jöklanna tindar.

Eftir honum er höfð þessi einstaka staðhæfing:
Maður á aldrei að fyrigefa neinum neitt.

Rotaryklúbbur Sauðárkróks reisti varðann 4. janúar 2011

Konráð Gíslason (3. júlí 1808 – 4. janúar 1891) var íslenskur málfræðingur og einn Fjölnismanna. Hann var fæddur á Löngumýri í Skagafirði og var elsta barn hjónanna Gísla Konráðssonar sagnaritara og konu hans, Efemíu Benediktsdóttur. Hann fékk einhverja tilsögn hjá séra Jóni Konráðssyni og dóttur hans en naut engrar annarrar skólagöngu, gætti sauða föður síns á vetrum og sat yfir fé á sumrum.

Þegar hann var á átjánda ári fór hann suður til sjóróðra og vann um sumarið við grjóthleðslu á Álftanesi fyrir Hallgrím Scheving, kennara við Bessastaðaskóla, en Gísli faðir hans hafði látið hann prófa kunnáttu Konráðs tveimur árum áður. Brátt fór Hallgrímur að kalla vinnumanninn inn úr grjóthleðslunni og láta hann bera saman íslensk fornrit með sér og las síðan með honum latínu. Svo fór að Hallgrímur tók Konráð upp á sína arma, útvegaði honum ölmusu (skólastyrk) þegar hann hóf nám í Bessastaðaskóla, hafði hann í vinnu hjá sér á sumrin og með skólanum og styrkti hann á ýmsan hátt. Vorið 1831 lauk Konráð námi, sigldi til náms við Kaupmannahafnarháskóla um haustið og kom ekki aftur til Íslands.

Hann hóf nám í lögfræði en fljótlega náði áhugi hans á norrænum fræðum og íslenskri tungu yfirhöndinni. Þeir Jónas Hallgrímsson, Brynjólfur Pétursson og Tómas Sæmundsson voru skólabræður hans úr Bessastaðaskóla og í Höfn og 1834 stofnuðu þeir tímaritið Fjölni og gáfu fyrsta tölublað þess út ári síðar. Konráð vildi laga íslenska stafsetningu að framburði og innleiddi nýja stafsetningu í öðrum árgangi Fjölnis en hugmyndir hans á því sviði náðu aldrei fótfestu og hann hvarf frá henni síðar. Áhrif hans á íslenskt ritmál urðu þó mikil.

Konráð varð styrkþegi Árnasafns 1839 og vann næstu ár að orðabókargerð og rannsóknum á íslensku máli. Hann var brautryðjandi í íslenskri orðabókargerð, samdi meðal annars Danska orðabók (1851) og átti mikinn þátt í íslensk-enskri orðabók sem kennd er við R. Cleasby og Guðbrand Vigfússon. Hann rannsakaði fornmálið og gerði fyrstur grein fyrir muninum á íslensku fornmáli og nútímamáli í ritinu „Um frumparta íslenzkrar túngu í fornöld“ (1846). Þá gaf Konráð út fornrit, meðal annars Njálu (1875-1889) þar sem hann valdi saman texta úr ólíkum handritum eftir því sem honum þótti fara best.

Árið 1846 var honum veitt kennarastaða við Lærða skólann sem hann hafnaði þó stuttu seinna, enda hafði hann þá fengið vilyrði um kennarastöðu í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla. Það embætti fékk hann 1848 og var gerður að prófessor 1853. Hann hélt þeirri stöðu til 1886.

Dönsk unnusta Konráðs dó 1846, skömmu fyrir fyrirhugað brúðkaup þeirra, og tók hann lát hennar mjög nærri sér. Níu árum síðar giftist hann systur hennar og bjuggu þau saman þar til hún lést árið 1877. Hann arfleiddi Árnasafn að eignum sínum og handritum eftir sinn dag. [Wikipedia]


Pálína Konráðsdóttir (1899-1992)
Pálína Konráðsdóttir

Minnisvarðinn stendur við Skarðsá í Sæmundarhlíð

Pálína Konráðsdóttir

Hinn rammi safi rennur frjáls í gegn um rót er stóð í sinni moldu kyr.   J.H.

Til minningar um Pálínu Konráðsdóttur síðasta ábúanda á Skarðsá
f. 6.2.1899 – d. 30.11.1992

Guðmundur Þór Guðmundsson, Miklagarði, hannaði minnisvarðann.

Pálína Konráðsdóttir fæddist á Skarðsá og bjó fyrst með föður sínum. Eftir að hann dó bjó hún þar einsömul þangað til hún þurfti að fara á Dvalarheimili aldraðra á Sauðárkróki vegna heilsubrests og fyrir aldurs sakir.

Hreppsnefnd Staðarhrepps lét reisa minnisvarðann og var hann vígður 10. október 1999 [Minnisvarðar í Skagafirði]


Reynistaðabræður
Reynstaðabræður

Minnisvarðinn stendur í hlaðinu á Reynistað í Skagafirði

Reynistaðabræður
Reynistaðabræður

Minnisvarði um Reynistaðabræður
vígður 26. ágúst 2018
Bygging þessa minnisvarða er tileinkuð 100 ára ártíð foreldra okkar, hjónanna
Guðrúnar Steinsdóttur f. 4.9.1916 og
Sigurðar Jónssonar, f. 4.9.2017 bænda á Reynistað.

Saga Reynistaðabræðra hefur alla tíð fylgt staðnum og ábúendum hér og mun svo vera um ókomin ár.
Núverandi Reynistaðabræður.

Til minningar um Reynistaðabræður:
Einar Halldórsson 11 ára og Bjarna Halldórsson 19 ára  Þeir urðu úti á Kili snemma vetrar 1780 í fjárkaupaferð á Suðurland.


Sigurður Jónasson (1910-1978)
Sigurður Jónsson Varmahlíð í Skagafirði

Sigurður Jónasson skógarvörður á Norðurlandi vestra 1947-1978.
Þakkir fyrir margháttuð störf til eflingar trjá- og skógræktar í umdæminu.

Þegar uppeldi plantna í Varmahlíð hófst á vegum skógræktarnefndar Skagafjarðarsýslu árið 1944 var Sigurður Jónasson ráðinn til að annast það. Fyrstu plönturnar voru afhentar árið 1947 en árið 1950 tók Sigurður við starfi skógarvarðar á Norðurlandi vestra þegar Skógræktin tók við landinu á Reykjarhóli og gróðrarstöðinni. Sigurður gegndi starfinu til dauðadags árið 1978. Hann getur með réttu kallast faðir skógræktar í Skagafirði. Honum tókst að þróa aðferðir í plöntuuppeldi í Varmahlíð og Laugabrekku við mjög erfiðar aðstæður svo að árangur varð smám saman góður. Hann færði hinum mörgu eigendum skógarreita í Skagafirði og Húnavatnssýslum trjáplöntur heim í hlað og leiðbeindi þeim með gróðursetningu. Aðferð hans til þess að hlífa trjáplöntunum við hinum mikla vexti snarrótarpunts var að gróðursetja þétt til að kæfa grasvöxtinn sem kallaði á grisjun skógarins síðar. Vegna þessa uxu upp hinir mörgu trjálundir við sveitabæi á svæðinu sem nú blasa við, auk skóganna á Reykjarhóli og Hólum í Hjaltadal.

Þennan stein reistu Skógrækt ríkisins, Héraðsnefnd Skagfirðinga, Skógræktarfélag Skagfirðinga.

Sigurður Jónasson

Skúli Magnússon (1711-1794)
Skúli Magnússon Skagafjörður

Skúli Magnússon landfógeti
Sýslumaður Skagfirðinga 1737-1750

Skúli var fæddur að Keldunesi í Norður-Þingeyjarsýslu 12. des 1711. Föðurætt Skúla er runnin frá Skagafirði en langafi hans var Skúli Magnússon, prestur í Goðdölum. Skúli Magnússon yngri var sýslumaður Skagfirðinga frá 14. apríl 1737-1750. Merkasta umbótamál sem Skúli beitti sér fyrir á
sýslumannsárum sínum er án efa samþykkt um sumarbeit hrossa en hún var gerð við Vallalaug 13. maí 1739.

Við suðausturhorn gamla torfbæjarins á Stóru-Ökrum er minnisvarði um Skúla Magnússon sem bjó á Stóru-Ökrum þegar hann var sýslumaður í Skagafirði. Enn standa tvær af sex bæjarburstum torfbæjarins sem Skúli byggði upp þegar hann settist að á Stóru-Ökrum. Það var
Sýslunefnd Skagafjarðar sem lét reisa Skúla minnisvarðann sem stendur við Stóru-Akra í Blönduhlíð.

Aðrir minnisvarðar um Skúla eru í Reykjavík og í Skúlagarði í Kelduhverfi, Þing.


Steinn Leó Sveinsson (1886-1957) – Guðrún S. Kristmundsdóttir (1892-1978)
Hraun á Skaga

Minning

Sólin hneig að hafsins brún
húma fór um Skaga.
Sóley gyllti grund og tún
geymum liðna daga

Út við hafið ysta þitt
aldrei kyrrðin dvínar.
Hafðu gamla Hraunið mitt
hjartans þakkir mínar.

Höf. Svanhildur Steinsdóttir

Minnisvarði um hjónin á Hrauni,
Stein Leó Sveinsson, f. 17. janúar 1886 – d. 27. nóvember 1957 og
Guðrúnu S. Kristmundsdóttur, f. 12. október 1892 – d. 24. október 1978.
Þau hófu búskap á Hrauni 1914 og bjuggu þar til æviloka.
Þau eignuðust 12 börn, 11 komust upp og náðu háum aldri.

Minnisvarðinn var afhjúpaður á Niðjamóti Hraunsættarinnar
sem haldið var í Skagaseli 28. júní 2003. Hann stendur við Hraun á Skaga.


Stephan G. Stephansson (1853-1927)
Stephan G. Stephansson

Minnisvarði um Stephan G. Stephansson var reistur á Arnarstapa í Skagafirði árið 1953, í tilefni af aldarafmælis skáldsins. Þann 19. júlí 1953 var minnisvarðinn afhjúpaður að viðstöddu miklu fjölmenni í góðu veðri.

Stephan G. Stephansson

Ríkarður Jónsson myndhöggvari var fengin til að gera hugmyndir um minnisvarðan og hannaði hann og gerði lágmyndir á varðann.

Stephan G. Stephansson

Stephan G. Stephansson
,,Klettafjallaskáldið”
Stefán Guðmundur Stefánsson fæddist árið 1853 á Kirkjuhóli ofan við Víðimýri í Skagafirði og ólst þar upp fram um 1860 er fjölskylda hans fluttist að Syðri-Mælifellsá. Þaðan fluttist hún að Víðimýrarseli árið 1862 og átti heima þar til vors 1870. Þá fóru foreldrar hans byggðum að Mýri í Bárðardal. Stefán var vinnumaður að Mjóadal í sömu sveit uns leið hans lá til Wisconsin í Kanada árið 1873. Þar bjó hann til 1880 er hann fluttist suður í Garðabyggð, í Norður-Dakota í Bandaríkjunum. Árið 1889 settist hann að í Alberta í Kanada og bjó í Íslensdingabyggðinni hjá Markerville vestur við Klettafjöll fram á elliár.
Að loknum vinnudegi bóndans fékkst Stefán við ljóðagerð og önnur ritstörf. Hann orti ætíð á Íslensku og er eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar.

Stephan G. Stephansson ,,Klettafjallaskáldið”

Stefán fæddist þann 3. október árið 1853 á Kirkjuhóli og var skírður Stefán Guðmundur Guðmundsson. Talað er um annan fæðingardag eða jafnvel fæðingarstað í sumum heimildum en það á rætur sínar að rekja til þess að presturinn sem skírði hann í Víðimýrarkirkju fór ekki rétt með í kirkjubókinni. Til fimmtán ára aldurs bjó Stefán í Skagafirði, en fluttist þá í Þingeyjarsýslu og starfaði þar sem vinnumaður. Hann bjó þar allt til þess er hann fluttist til Vesturheims með foreldrum sínum og systur árið 1873, þá að verða tvítugur. Í fimm ár bjó hann í Wisconsinfylki í Bandaríkjunum og kvæntist sama ár og hann flutti þaðan náfrænku sinni, Helgu Sigríði Jónsdóttur. Þau áttu saman átta börn, en sex þeirra komust upp.

Næst bjó Stefán að Görðum í Norður-Dakóta, í tíu ár. Þar lést faðir hans, en Stefán sá fyrir foreldrum sínum á meðan þau lifðu. Árið 1889 fluttist hann síðan til Albertafylkis í Kanada og bjó þar til dauðadags, en Stefán lést þann 9. ágúst árið 1927, næstum 74 ára.

Fyrstu ár Stefáns í Vesturheimi vann hann t.d. við járnbrautalagningu og skógarhögg en hætti því upp úr fertugu og einbeitti sér að búskapnum. Hann afrekaði það sem bóndi að nema land þrisvar og virðist hafa farist það vel úr hendi. Í Wisconsin kallaði Stefán sig Stefán Guðmundsson en í Dakóta var hann skrifaður Stefansson. Þetta leiddi til þess að bréf hans rugluðust við bréf annarra Stefanssona svo Stefán tók upp nafnið Stephan G. Stephansson sem hann varð þekktur undir.

Hús Stefáns og Helgu í Alberta stendur enn á heimilisjörð fjölskyldunnar, skammt frá þorpinu Markerville. Húsið (Stephansson House) hefur verið gert upp og í dag er það sögustaður á vegum Albertafylkis (Alberta Provincial Historic Site). Á sumrin (maí-ágúst) er það opið almenningi.

Stephan G. Stephansson

Komstu, skáld, í Skagafjörð,
þegar lyng er leyst úr klaka-
laut og yfir túnum vaka
börnin glöð við gróðurvörð …

Stephan G. Stephansson

Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót,
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfoss og hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!


Sveinn Guðmundsson (1922-2013)
Sveinn Guðmundsson
Sveinn Guðmundsson

Sveinn Guðmundsson
f. 3. ágúst 1922 – d. 29. maí 2013
Til minningar um einn fremsta hestamann og ræktanda íslenska hestsins.

Sveins Guðmundssonar heiðursborgara á Sauðárkróki er einkum minnst fyrir brautryðjendastarf á sviði hrossaræktar í landinu enda má rekja flest af bestu kynbótahrossum landsins til hans ræktunar. Fyrir störf sín að ræktun íslenska hestsins var Sveinn sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu og Landssamband hestamannafélaga gerði hann að heiðursfélaga fyrir störf sín í þágu íslenska hestsins.

Þá var Sveinn formaður hestamannafélagsins Léttfeta í áratugi og gerður að heiðursfélaga þar eftir að hann lét af störfum en að félagsmálum hestamanna í Skagafirði var Sveinn mikilsvirtur. Þá veitti Rótarýsamtökin Sveini viðurkenningu fyrir störf sín í hrossarækt.

Árið 1997 var Sveinn gerður að heiðursborgara Sauðárkróks en þar bjó hann alla sína ævi, fæddur 3. ágúst 1922, sonur Guðmundar Sveinssonar og Dýrleifar Árnadóttur.

Hestamannafélag Skagfirðinga, Hrossaræktarsamband Skagfirðinga, Sveitarfélagið Skagafjörður.

Minnisvarðinn stendur við skeiðvellina á Hólum í Hjaltadal


Sölvi Helgason (1820-1895)
Sölvi Helgason

Minnisvarðinn sem er eftir Gest Þorgrímsson, stendur við bæinn Lónkot í Sléttuhlíð, Skagafirði.

Sölvi Helgason

,,Ég er djásn og dýrmæti
Drottni sjálfum líkur”.

Sölvi Helgason f. 16. ágúst 1820 á Fjalli í Sléttuhlíð
d. 20. október 1895 á Ystahóli í sömu sveit.

Hann var flakkari, listamaður og heimspekingur á Íslandi á 19. öld. Sölvi missti foreldra sína ungur, var vistaður á mörgum bæjum og fór svo að flakka um landið. Sölvi var dæmdur nokkrum sinnum fyrir flakk, fölsun á reisupassa eða vegabréfi og smáþjófnað. Hann var oft hýddur og var í þrjú ár í fangelsi í Danmörku. Til eru yfir hundrað myndir eftir Sölva og þónokkuð af handritum. [Wikipedia]

Ég sé Sölva Helgason fyrir mér þar sem hann situr á skýjahnoðra yfir Sléttuhlíð í Skagafirði. Augu hans flökta en staðnæmast við minnisvarðan í Lónkoti. Rósin þín og styttan mynna okkur á að einu sinni fyrir löngu var förumaður á Íslandi sem lifði í eigin heimi. Hann reyndi að opna augu samferða fólks síns á sjálfum sér í máli og myndum. Engin skildi hann fyrr en eilífðin hafði sléttað yfir sporin hans.”  -GT.


Zophónías Halldórsson (1845-1908) – Jóhanna Soffía Jónsdóttir (1855-1931)
Zophónías Halldórsson

Minningarlundur um hjónin Zophónías Halldórsson prófast og Jóhönnu Soffíu Jónsdóttur og syni þeirra, Pétur ættfræðing og Pál alþingismann og skólastjóra.

Zophónías Halldórsson

Minnisvarðinn er í skógarlundi á Hólum í Hjaltadal


Þorvarður Spak-Böðvarsson
Þorvarður Spak-Böðvarsson
Þorvaldur Spak-Böðvarsson

Út og niður frá Neðra–Ási, niðri við þjóðveg, er minnisvarði reistur í tilefni 1000 ára afmælis kirkju í Neðra–Ási.

Á Neðra–Ási bjó til forna Þorvaldur Spak–Böðvarsson, sem fyrstur Ís­lend­inga reisti kirkju á bæ sínum, 984. Heitir þar enn Bænhús sem ætla má að kirkjan hafi staðið. Um langan tíma hefur staðið þar fjárhús. Sumarið 1997 var grunnur fjárhússins kannaður og sannaðist þá að þar hefði kirkja staðið áður fyrr. Þorvaldur var ættfaðir Ásbirninga og Ás því elsta ættaróðal þeirra. [Vegahandbókin].

Þorvarður Spak-Böðvarsson
lét gera kirkju á bæ sínum Ási — en kirkja sú var ger sextán vetrum áður kristni var í lög tekin á Íslandi [Kristni-saga]


Víðivallabræður
Víðivallabræður

Dr. Pétur Pétursson, biskup, 1808-1891, Brynjólfur Pétursson, Fjölnismaður, 1810-1851, Jón Pétursson, háyfirdómari, 1812-1896.

Varðann reistu ættingjar í minningu þeirra.

Minnisvarðinn stendur við Víðivelli í Skagafirði


Sauðárkrókur

 Jón S. Nikódemusson (1905-1983)
Sauðárkrókur
Sauðárkrókur

Jón S. Nikódemusson 1905-1983.
Hitaveitustjóri Hitaveitu Sauðárkróks 1953-1973.

Að baki brjóstmyndarinnar af Jóni hefur verið endurgerður og settur upp jarðbor sem Jón smíðaði og notaði við boranir á fyrstu holunum sem virkjaðar voru í mýrunum.

Það var listakonan Ragnhildur Stefánsdóttir í Reykjavík sem gerði brjóstmyndina, en Pétur Bjarnason í Garðabæ steypti hana í brons.


Jónas Kristjánsson (1870-1960)
Jónas Kristjánsson

Jónas Kristjánsson var héraðslæknir í Skagafirði í 27 ár. Hann var hugsjónamaður og á starfsárum sínum þar kom hann að fjölmörgum málum sem til framfara horfðu, meðal annars stofnaði hann Framfarafélag Sauðárkróks og var forseti þess frá árinu 1914 til 1938 er hann flutti úr héraði. Þá stofnaði hann skátafélagið Andvara árið 1922, og árið 1929 var hann frumkvöðull að stofnun Tóbaksbindindisfélags, sem talið er vera hið fyrsta hérlendis, og þó víðar væri leitað.

Jónas var mikill baráttumaður fyrir bættum húsakosti landsmanna, heilbrigðara fæðuvali og lifnaðarháttum og lagði hvarvetna til góð ráð svo þessum markmiðum yrði náð.

Eftir það vann hann að uppbyggingu Heilsuhælis Náttúrulækningafélags Íslands sem opnað var í Hveragerði 1955. [Mbl. 20/6/07]

Minnisvarða þennan reisti NLFI á 70 ára afmæli félagsins 2007.
Varðinn stendur við sjúkrahúsið á Sauðárkróki.

Jónas Kristjánsson
Jónas Kristjánsson

Brjóstmynd Jónasar gerði Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson.

Brautryðjandinn
Jónas Kristjánsson héraðslæknir á Sauðárkróki 1911-1937.
Berum ábyrgð á eigin heilsu.

Annar minnisvarði er um Jónas Kristjánsson í Hveragerði


Frúarstígur
Frúarstígur
Frúarstígur

Konur stóðu fyrir gerð þessarar fyrstu götu á Króknum 1897-1905, Skemmtistíg suður úr bænum sem nefndur var Frúarstígur.
Karlafélög á Króknum gáfu kvennafélögum þennan stein í tilefni
afmælishaldsins árið 1997.

Steinninn var afhjúpaður 19. júní 1997 og stendur á horni Skólastígs og Freyjugötu, sem áður var Frúarstígur og Skemmtistígur.


Náttúrulækningafélag Íslands – NFLÍ
Náttúrulækningafélagið
Náttúrulækningafélagið

Minnisvarða þennan reisti NLFÍ á 70 ára afmæli félgsins árið 2007 og stendur hann við sjúkrahúsið.

Náttúrulækningafélag Íslands – NLFÍ

Stofnað á Hótel Tindastóli, Sauðárkróki 5. júlí 1937.
Tilgangur félgsins er:
Að efla og útbreiða þekkingu á heilbrigðum lifnaðarháttum.
Stofnfélagar Náttúrulækningafélags Íslands,
Sauðárkróki, 6. júlí 1937
Björn Kristjánsson stórkaupmaður, Jónas Kristjánsson læknir, frú Hansína Benediktsdóttir, frú Guðbjörg Jónasdóttir Birkis, frk. Rannveig Jónsdóttir, frú Þórunn Kristj. Elvar, frú Svava Stefánsdóttir Fells, Eyþór Stefánsson verslunarmaður, frú Sigríður Stefánsdóttir, frk. Sigríður Kristjánsdóttir, Valgarð Blöndal póstafgr.maður, Haraldur Júlíusson kaupmaður, frú Jóhanna Blöndal, Jón Sigfússon verslunarmaður, Rannveig Líndal kennslukona.
Í stjórn voru kosnir: Jónas Kristjánsson forseti, Björn Kristjánsson varaforseti, Haraldur Júlíusson ritari, Eyþór Stefánsson gjaldkeri, Valgarð Blöndal. [Skilti]


Sauðá
Sauðá
Sauðá Sauðárkrókur

Hér stóð bærinn Sauðá í Borgarsveit

Þennan minnisvarða reistu afkomendur hjónanna
Christians Hansen og Bjargar Jóhannesdóttur Hansen sem voru hér ábúendur 1882-1940. Stendur við hið gamla bæjarstæði ofan við sjúkrahúsið á Sauðárkróki.


Hannesarskjól
Hannes Pétursson
Hannes Pétursson
Hannes Pétursson
Hannes Pétursson
Hannesarskjól

vígt 30. apríl 2017
,,Ég virði Drangey fyrir mér og allt sviðið austur um, suður um að Mælifellshnjúki og svo vestan megin að Tindastóli; horfi grannt, ef ég skyldi nú líta þennan sjóndeildarhring í hinzta sinn.
Gömul árátta síðan ég fluttist burt.
Veit að sönnu að þessar slóðir búa bak við lukt augu mín.”

Úr bók Hannesar Péturssonar, Jarðlag í tímanum.

Uppsetningu Hannesarskjóls annaðist Sveitarfélagið Skagafjörður.
Verkið naut stuðnings frá Minningarsjóði Kaupfélags Skagfirðinga og Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra.

Hannesarskjól

Hannesarskjól stendur austan við kirkjugarðinn á Nöfunum ofan Sauðárkróksbæjar.