Jökulgil

Minnisvarðar í Skaftafellssýslum


Vík, Mýrdalur og nágrenni

Einar Ólafur Sveinsson (1899-1984)
Einar Ólafur Sveinsson

Til minningar um Einar Ólaf Sveinsson, bókmenntafræðing
f. á Höfðabrekku 12.12.1899, d. í Reykjavík 18.4.1984
Steinninn reistur 12.12.1999.

Steinninn stendur utan við hótelið á Höfðabrekku í Mýrdal


Jakob og Sigurður Björnssynir
Jakob og Sigurður Björnssynir

Til minningar um bræðurna Jakob og Sigurð Björnssyni
sem drukknuðu við ströndina í Vík 26. maí 1910 ásamt 
Jóni Brynjólfssyni, Jóni Jónssyni og Skúla Unasyni.
,,Alfaðir ræður”

Jakob og Sigurður Björnssynir

Bekkurinn stendur í Víkurfjöru.


Norræn ungbændaráðstefna
Ungbændaráðstefna

haldin að Höfðabrekku 15.-19. maí 1996
Þökkum góðar móttökur
UMFÍ – NSU

Minnisvarðinn stendur við Höfðabekku í Mýrdal


Deildarárskóli 1904-1959
Deildarárskóli

Þökkum margar góðar og glaðar stundir. – Nemendur. 

Deildarárskóli var starfræktur frá 1904 til 1959 að hann var sameinaður skólanum á Ketilsstöðum. Skólahúsið var flutt á Höfðabrekkuafrétt þar sem það er enn notað sem leitarmannaskáli.

Minnisvarðinn, sem var afhjúpaður árið 2005, er í Deildarárgili í landi Skammadalshóls í Mýrdal, þar sem skólinn stóð. Hann er gerður úr stuðlabergssteinum sem áletruð plata er fest á. Gamlir nemendur skólans söfnuðu fyrir gerð hans.  

Deildarárskóli

Þýskur minnisvarði

Til minningar um þá sjómenn á þýskum fiskveiðiskipum sem létu lífið við Íslandsstrendur.
Minnisvarðinn, sem er 7 tonna granítgrjót var tekinn í Moorausmoor í Þýskalandi og var afhjúpaður í fjörunni í Vík í Mýrdal árið 2002.

Þýskur minnisvarði

Kirkjubæjarklaustur

Slysaalda
Slysaalda

Fjórir menn á leið til sjóróðra

Haustið 1868 bjóst Þorlákur [í Gröf í Skaftártungu] til sjórróðra að venju og hugðist fara Fjallabaksveg. Með honum réðust til ferðar þrír menn aðrir, og voru þeir þessir: Jón Runólfsson, vinnumaður í Gröf, 32 ára, ókvæntur, mikill maður vexti og afrendur að afli. Árni Jónsson, er lengi bjó að Skálmarbæ í Álftaveri, en hafði verið kaupamaður í Hlíð um sumarið. Hann var 52 ára og talinn heilsuveill. Loks var Davíð Jónsson, 17 ára unglingur frá Leiðvelli í Meðallandi, og er sagt, að áður en hann færi að heiman, hafi hann skipt barnagullum sínum milli systkina sinna með þeim ummælum, að hann myndi ekki vitja þeirra aftur.

Þorlákur var sjálfur 44 ára og talinn fullhraustur maður og reyndur að harðfengi. Það er sagt, að kvöldið áður en förin var ráðin, hafi allir þessi menn hitzt að Eiríks í Hlíð, og var þar þá fyrir fleira manna. Hægviðri var á, en meðan þeir töfðu, hlóð niður mikilli fönn og hugðu menn uggvænlega horfa um ferðalag þeirra Þorláks. En hann brosti við og kvaðist eigi mundu láta slíkt aftra ferðum sínum. Féll svo talið niður.

Sunnudaginn 11. október, hálfum mánuði fyrir vetur, lögðu þeir félagar upp árla morguns. Ætluðu þeir að ná í Hvanngil um daginn og komast þangað í björtu, því að tungl var á síðasta kvartili og kvöldin dimm. Fjóra hesta höfðu þeir í ferðinni og flutning á sumum, ef ekki öllum.

Þennan morgun er talið, að kalsarigning hafi verið í byggð í Skaftártungu, en krapaslitringur til fjalla og vindur suðlægur. Héldu þeir félagar nú frá Gröf, sem leið liggur upp Skaftártungu, en komu við í Búlandsseli, næsta bæ við fjallið. “ […]

Skammt vestur frá Brennivínskvísl verður ávöl hæð á sandinum, allmikil. Nær hún allt upp að hlíðum Torfajökuls og veitir vötnum vestur og austur til Hólmsár og Markarfljóts. Nefnist hún Skiptingaralda, því Rangæingar skipta þar í leitir í fjallgöngum. Af öldunni eru tólf kílómetrar eða rúmlega tveggja stunda lestagangur vestur í Hvanngil og um tvær leiðir að velja. Liggur önnur beint vestur sandinn, og er stefnt á einstakt fell, er Stóra-Súla heitir, unz komið er á móts við Hvanngil. Þá er beygt norður Emstruá, upp að sælukofanum. Hin leiðin liggur norðan við sandinn, með hlíðum Torfajökul, yfir Kaldaklof og hæðirnar vestur þaðan, unz komið er í Hvannagilsbotn, og er þá skammt að fara suður að kofanum. Þessi leið er lengri en hin og mislendari, en þó er hún tíðast farin nú.

Hin var aftur fjölfarnari áður fyrr, þegar ferðazt var með þungar klyfjar, því að hún er skemmri og miklum mun greiðfærari, ef sandurinn er þurr. En villugjarnt er þar í dimmviðrum, því kennileiti eru engin á auðri sandsléttunni.

Þegar komið var á Skiptingaröldu, sneri Sæmundur við, og skildust þar leiðir að þessu sinni, eins og oft áður og síðan. Veður var nú tekið að vaxa og harðna, og gekk að með dimmum éljum, en þó ratljóst vel milli.

Þeir Þorlákur og félagar hans héldu áfram vestur af, og er eigi kunnugt, hvora leiðina þeir tóku, hina syðri eða nyrðri, en haft var það eftir Þorláki, “að honum væru báðar leiðir jafnkunnar”. Og þarna hverfa þeir sýnum í sortann og hina miklu óvissu.

Í Skaftártungu var það ekki talið efunarmál, að þeir Þorlákur hefðu náð í Hvanngil á sunnudagskvöldið, og líklegt þótti að þeir hefðu komizt vestur af á mánudag eða þriðjudag, því þá daga var sæmilegt veður austur þar. En jafnvel þó að þeir hefðu ekki haft sig áfram, átti þeim að vera óhætt í sæluhúsinu. Enginn var því uggandi að marki um ferðir þeirra, enda vissu menn Þorlák vanan í ferðalögum, úrræðagóðan og kunnugan öllum leiðum. [2]

Vestanfjalls, á Rangárvöllum og Landi, var útsynningsveður á sunnudaginn, með krapahryðjum, en um kvöldið eða næstu nótt gekk til norðurs. Næstu 3-4 daga var landnorðanhvassviðri með hreytingsfjúki og sandbyl, og sá lítt til lofts eða fjalla, en þó var lengi í minnum haft, hve ljótur hann var á austurfjöllin þau dægur, og svo var veðrið mikið að baggar þeyttust af skógarlest, sem var á ferð á Rangárvöllum.

Leið svo fram á veturinn að ekkert fréttist af hvernig ferð þeirra Þorláks og félaga hafði gengið. Þegar maður úr Skaftártungu fór vestur á Rangárvelli kom í ljós að hvergi höfðu félagarnir fjórir komið þar. Var strax ákveðið að leita þeirra og fóru Rangæingar upp að vestan og Skaftártungumenn að austan. Leituðu hvorir sín megin að Hvanngili en hvergi sást tangur né tetur af mönnunum né neinu sem þeir voru með í ferðinni. Ekki sást neitt sem benti til að þeir hefðu komist í sæluhúsið í Hvanngili.

Þegar á leið leitina fannst þó ein hryssa, dauð og allslaus. Síðar fundust slitur af tveimur hestum sem, af beisli og reiðtygjum að merkja, voru úr leiðangrinum. Voru þá fundnir hestarnir, utan einn, en engin fundust líkin þrátt fyrir mikla leit á hverju sumri. Hestarnir fundust við stóra sandöldu og leit út fyrir að þeir hefðu verið bundnir og festar reiðingsdýnur á bak þeirra til að veita þeim skjól. Þóttust menn nú vita að sand hefði skafið yfir líkin og fóru margir menn þangað upp eftir með skóflur og grófu skurði í sandölduna.[3]

Tíu árum eftir hvarf Þorláks og félaga voru tveir menn frá Rangárvöllum sendir að leita kinda á Mælifellssandi. Var það óvenjulegt því vel sést yfir sandinn og óþarfi að ganga þarna ef ekki sést til kinda. Félagarnir höfðu ekki gengið lengi á sandinum er þá bar að öldu nokkurri suður frá Kaldaklofi. Var þar eitthvert umrót og voru þar fundin líkin fjögur. Tvö þeirra lágu saman og brekán breitt yfir, töldu menn það leifar Árna og unga piltsins Davíðs. Hafa þeir sennilega látist fyrst og hinir veitt þeim þennan umbúnað. Um þremur föðmum norðar lá lík sem talið var af Þorláki. Hann hafði verið í vesti með silfurhnöppum og mátti greina það á staðnum. Aðeins vestar lá fjórða líkið. Var talið víst að þar væri Jón Runólfsson því það voru fótólar spenntar um leggina en það var háttur Jóns. Rangæingar fundu líkin og var afráðið að koma þeim til byggða. Tókst þá ekki betur til en svo að menn settu öll beinin í einn haug. Sárnaði Skaftfellingum það mikið en ekki varð við gert. Voru mennirnir jarðaðir í einni kistu í Ásakirkjugarði. [Skaftártunga]

Minningarskjöldur er um þetta slys á svokallaðri Slysaöldu þar sem leyfar fjórmenninganna fundust.


Jón Steingrímsson (1728-1791)
Jón Steingrímsson

Kapella sr. Jóns Steingrímssonar er reist til minningar um séra Jón Steingrímsson, sem var prestur í Kirkjubæjarklaustursprestakalli 1778 til dauðadags 1791 og kom mest við sögu í Skaftáreldum árið 1783, þegar Lakagígar gusu og hraun og aska ógnaði héraðinu, en gos þetta var upphaf Móðurharðinda, sem svo hafa verið nefnd. Þá stóð kirkjan hér í gamla kirkjugarðinum og var það í henni sem séra Jón söng eldmessuna hinn 20. júlí 1783 (Þorláksmessa á sumri). Meðan á messunni stóð stöðvaðist hraunið rétt vestan við Systrastapa, og má þar enn líta Eldmessutanga. Um aldamótin 1800 tók sandur að eyða hér gróðri og landi og flæmdi byggðina vestur með fjallinu. Vegna þessa var kirkjan tekin ofan og ný kirkja reist að Prestsbakka. Hún var vígð á sumardaginn fyrsta árið 1859, sem þá bar upp á skírdag. Sú kirkja stendur enn. Hér á Kirkjubæjarklaustri er talinn einn elsti kirkjustaður á Íslandi, en sagnir herma að papar hafi reist hér kirkju, áður en norrænir menn námu land, en þeir nefndu staðinn Kirkjubæ. Hér var nunnuklaustur, af Benediktsreglu, frá árinu 1186 til siðaskipta.

Bygging kapellunar hófst árið 1969 og var hún vígð á Þjóðhátíð Vestur-Skaftfellinga hinn 17. júní 1974. Kapellan er byggð fyrir samskotafé. Hundrað bændur í Skaftafellssýslu gáfu henni haustlamb í 6 ár, en auk þess hefur fjöldi fólks gefið henni peningagjafir og til áheita hefur hún reynst mjög vel. Berast henni stöðugt áheit og gjafir. Ríkissjóður og ýmsar stofnanir styrktu einnig byggingu hennar.
Arkitektar voru Helgi og Vilhjálmur Hjálmarssynir. Í kirkjugarðinum, við kórgafl kirkjurústanna er legsteinn séra Jóns Steingrímssonar og konu hans Þórunnar Hannesdóttur.


Öræfi

Þórbergur Þórðarson (1889-1974) – Steinþór Þórðarson (1892-1981) – Benedikt Þórðarson (1894-1968)
Bræðurnir frá Hala Suðursveit
Til minningar um bræðurna Þórberg, Steinþór og Benedikt Þórðarsyni frá Hala.

,,En kannski finnst steini ekki lengra að standa í þúsund ár í fjallshlíð en okkur að standa þar í þúsund sekúndur.” Þórbergur Þórðarson: Steinarnir tala.

Minnisvarðinn stendur ofan við Hala í Suðursveit.


Þórunn Gísladóttir og Filippus Stefánsson
Þórunn - Filippus

Til heiðurs Þórunni Gísladóttur ljósmóður og grasakonu og
Filippusi Stefánssyni bónda og silfursmið
sem hér bjuggu 1868 – 1897

Þórunn - Filippus

Varðinn stendur við Kálfafellskot í Öræfum.


Eiður flugvirkjans
Flugvirkinn

Ég sver það við drengskap minn, að halda í helgum heiðri þeim réttindum og ábyrgð er ég hlaut við móttöku flugvirkjaskírteinis míns.

Vitandi að öryggi og líf annarra er komið undir kunnáttu minni og dómgreind, skal ég aldrei vísvitandi stofna öðrum í hættu, sem ég vil ekki koma mér sjálfum í eða mínum nánustu.

Ég heiti því að taka aldrei að mér eða samþykkja verk sem ég hef ekki fullkomna þekkingu á; ekki skal ég heldur láta nokkurn réttinda né réttindalausan yfirmann minn hafa áhrif á mig í þá átt að viðurkenna flugvél eða tæki, sem flughæf gegn minni betri vitund.

Ég mun ekki láta þvinga mig til að taka ákvörðun sem er gegn minni samvisku né gegn þeim lögum og reglum sem framleiðandi fer fram á. Ekki þiggja peningamútur eða annan persónulegan ávinning, né lýsa flugvél eða tæki flughæft, ef ég er í einhverfjum vafa um að svo sé eftir að hafa framkvæmt sjáfur skoðun, eða ef ég er í vafa um hæfileika annars, sem hefur starfað við verkið.

Mér er fullkomnlega ljós sú mikla ábyrgð, sem mér er færð í hendur, sem flugvirki, til þess að lýsa flugvél og tæki flughæf. Þess vegna mun ég í engu víkja frá þessu heiti.

Eiður flugvirkjans

Þessi minnisvarði er austan við Hala í Suðursveit.


Ásgrímur Halldórsson (1925-1996)
Ásgrímur Halldórsson
Ásgrímur Halldórsson 1925-1996

Ásgrímur Halldórssaon fædist í Bakkagerði, Borgarfirði eystra 7. febrúar 192 og lést 28. mars 1996.
Ásgrímur nam við Héraðsskólann á Laugum og Samvinnuskólann í Reykjavík. Hann starfaði í kaupfélaginu á Vopnafirði 1943-1953 þar sem faðir hans var kaupfélagsstjóri. Hann flutti á Höfn í Hornafirði 1953 og var þar kaupfélagsstjóri til 1975. Hann stjónaði einnig útgerðarfyrirtækinu Borgey og Fiskimjösverksmiðu Hafnar áður en hann stofnaði útgerðina Skinney árið 1968 og rak umfangsmikla útgerð og fiskvinnslu á Höfn. Ásgrímur var framkvæmdastjóri Skinneyjar frá upphafi og starfaði við fyrirtækið til dauðadags. Hann tók ríkan þátt í félagsmálum og var í hreppsnefnd fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var um tíma framkvæmdastjóri Skipatrygginga Austfjarða og átti sæti í stjórn Lífeyrissjóðs Austurlands. Hann var formaður stjórnar Skógræktarfélags A-Skaftfellinga og tók ríkan þátt í skógræktarmálum. Hann var gerður að heiðursborgara Hafnar árið 1995.

Frumkvöðull og velgjörðarmaður skógræktar í Haukafelli.

Skógræktarfélag Austur-Skaftafellssýslu

Ásgrímur Halldórsson

Minnisvarðinn stgendur í skógrækt Hafnarbúa í við Haukafell


Þorgerður
Þorgerður Sandfell Öræfi

Þorgerður nam allt Ingólfshöfðahverfi og bjó að Sandfelli.

Sandfell í Öræfum er landnámsjörð. Þar bjó fyrst Þorgerður, ekkja Ásbjarnar Heyangurs-Bjarnasonar, að sögn Landnámabókar. Er Þorgerður kom út helgaði hún sér land, ein kvenna. Í Landnámu segir: ,,En það var mælt að kona skyldi eigi víðara nema land en leiða mætti kvígu tvævetra várlangan dag sólsetra í millim, hálfstalið naut og haft vel. Því leiddi Þorgerður kvígu sína undan Tóptafelli skammt frá Kvíá suðr ok í Kiðjaleit hjá Jökulsfelli fyrir vestan. Þorgerður nam því land um allt Ingólfshöfðahverfi á millim Kvíár ok Jökulsár (Skeiðarár) ok bjó at Sandfelli”.

Hin tvö gos Öræfajökuls eftir að land byggðist, 1362 og 1727, léku Sandfell hart enda komu meginhlaupin báðum megin jarðarinnar. Í því síðara náði gossprungan niður í Sandfellsfjall og sjást þar enn greinilega ummerki gossins þegar snjór er minnstur á haustin. Þá kom mikið hlaup fram úr Grænafjallsgljúfrinu, og er þetta stórsteinótta og að nokkru mosagróna landssvæði sem tekur við af Fjallsáraurunum kallað Hlaupið. Fyrir austan það er er gljúfur og kemur Stórilækur þar fram úr. Í þennan læk kom talsvert hlaup og eyddust tvær hjáleigur sem þar stóðu. Standa nú stærðar björg fast við, þar sem húsastafnarnir voru. Enn er gróiðurlítið þar sem hlaupið fór um. [Texti á skilti]

Sandfell Öræfum

Minnisvarðinn stendur við Sandfell í Öræfum


Sandfellskirkja í Öræfum
Sandfell í Öræfum
Hér stóð Sandfellskirkja til 1914

Fyrir 1362 var hálfkirkja í Sandfelli en höfuðkirkja á Rauðalæk. Þá hét byggðin Litlahérað. Eftir gosið var svæðið nefnt Öræfi og þegar það fór að byggjast upp að nýju, tók kirkjan í Sandfelli við hlutverki Rauðalækjarkirkju. Kirkjan í Sandfellli var rifin 1914 og varð þá Hofskirkja sóknarkirkja Öræfinga, en prestssetrið var í Sandfelli til 1931. Síðast var jarðar í Sandfellskirkjugarði 1950.
Sennilega hefur bærinn í Sandfelli alltaf staðið á þeim stað sem Þorgerður valdi sér við upphaf byggðarinnar, en bærinn var endurreistur nokkrum sinnum en rifinn að lokum árið 1974. Síðast presturinn sem, bjó í Sandfelli var séra Eiríkur Helgason, en hann flutti að Bjarnarnesi árið 1931. Síðustu ábúendur í Sandfelli voru Runólfur Jónsson og Katrín Jónsdóttir, en þau fluttu til Reykjavíkur 1945. [Texti á skilti]

Sandfellí Öræfum

Stendur í Sandfelli í Öræfum.


Jón Eiríksson (1728-1787)
Jón Eiríksson

Ein varir manndyggð og lifir

Jón Eiríksson konferensráð
fæddur á Skálafelli 31. ágúst 1728
dáinn í Kaupmannahöfn 9. mars 1787.

Jón Eiríksson fæddist á Skálafelli í Suðursveit og stundaði nám í Skálholtsskóla en þar hafði Ludvig Harboe biskup mikið dálæti á honum. Jón fór síðar með honum til Kaupmannahafnar og þaðan til foreldra biskups í Slésvík. Árið 1746 fór Jón aftur með honum til Kaupmannahafnar og þaðan til Niðaróss þar sem Harboe tók við biskupsembætti. Jón settist þar í skóla og var þar til 1748. Þá fór hann til náms í Kaupmannahafnarháskóla, og þar fékk hann svokallað Regéns og er þess getið að hann hafi þá nálega verið búinn að týna niður íslensku. Íslendingar álösuðu honum fyrir það og mun hann því hafa reynt að lesa allt sem hann komst yfir á íslensku og fengið aðgang að handritasafni Árna Magnússonar á bókasal háskólans. Hann tók lærdómspróf 1749.

Árið 1750 bað jústitsráð Bolle Willum Luxdorph Harboe biskup að útvega sér íslenskan stúdent sem gæti komið sér niður í hinni gömlu tungu Norðurlanda og benti hann á Jón. Fyrir áeggjan Luxdorph hóf Jón að læra lög og fékk opinbert skírteini í lögvísi 22. ágúst 1758. Árið 1759 fékk hann prófessorstöðu við Háskólann í Sórey og var þar í 12 ár. Hann varð félagi í hinu konunglega norska vísindafélagi 1769, en árið 1771 var hann kallaður til starfa í hinu nýstofnaða norska kammeri og mun það hafa verið að undirlagi Moltkes greifa. Síðar fluttist Jón með honum inn í Tollkammerið. Árið 1772 varð Jón félagi í Árnamagnæanisku Fornfræðanefndinni, og Etatsráð í Rentukammerinu árið 1777.

Jón varð forseti í Hinu íslenska Lærdómslistafélagi árið 1779. Hann fékk konferensráðsnafnbót árið 1781 og varð um svipað leyti bókavörður við konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn.

Árið 1785 var hann í nefnd sem átti að gera uppástungur um bætt ástand á Íslandi, verslunarfrelsi og sölu á eignum Skálholtsstóls og Skálholtsskóla og flutning biskupsdæmisins til Reykjavíkur, og árið eftir, 1786, var hann í nefnd sem athugaði kjör bænda í Danmörku.

Jón var vinur biskupanna Finns Jónssonar og Hannesar Finnssonar og landfógetans Skúla Magnússonar.

Jón yfirkeyrði sig á vinnu og framdi að síðustu sjálfsmorð með því að stökkva af Löngubrú milli Kaupmannahafnar og Amager og drukknaði. [Wikipedia].

 Minnisvarðinn stendur við Skálafell í Öræfum og er eftir Sigurjón Ólafsson


Ingólfshöfði
Ingólfshöfði

,,Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði”

Ingólfur Arnarson (stundum nefndur Björnólfsson) er jafnan talinn fyrsti landnámsmaður Íslands. Hann kom fyrst til Íslands ásamt systur sinni Helgu Arnardóttur og fóstbróður sínum og mági, Hjörleifi Hróðmarssyni, til landkönnunar í kringum 867. Þeir komu svo til að nema land á Íslandi í kringum 870, þó hefð sé að miða við 874. Ingólfur hafði verið gerður útlægur frá heimkynnum sínum í Dalsfirði í Firðafylki í Noregi og ákvað því að flytja til Íslands.

Ingólfur er sagður hafa haft vetursetu í Ingólfshöfða sinn fyrsta vetur á Íslandi.

Sagan segir að hann hafi kastað öndvegissúlum sínum fyrir borð áður en hann kom að landi og svarið að setjast að þar sem þær kæmu að landi, vegna þess að þar myndu goðin vilja að hann byggi. Hann sendi svo þræla sína Karla og Vífil til að leita þeirra, og fundu þeir þær við Arnarhvol í Reykjavík. Sú leit tók 3 ár. Ingólfur settist að í Reykjavík en landnám hans náði á milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Kona Ingólfs var Hallveig Fróðadóttir og áttu þau saman soninn, Þorstein. [Wikipedia]

Minnisvarðinn var afhjúpaður af Sigurði Björnssyni í Kvískerjum árið 1974, en hann átti hugmyndina. Minnisvarðinn er gerður úr stuðlabergssúlu frá Hrepphólum og stendur í Ingólfshöfða.


Minnisvarði um vegagerð
Vegagerð

Bundið slitlag
Reykjavík – Höfn
Nóvember 2001

Minnisvarðinn stendur á áningarstað ekki langt frá Hala í Suðursveit


Brúin yfir Gýgjukvísl
Skeiðarðársandur

Skammt er að minnast þeirra hamfara sem áttu sér stað á Skeiðarársandi þegar gos varð í Vatnajökli árið 1996, svonefnt Gjálpargos. Þann 5. nóvember það ár geystist gríðarlegur vatnsflaumur undan jöklinum svo að vestasti hluti brúarinnar yfir Skeiðará lét undan og brúin yfir Gígjukvísl eyðilagðist með öllu. Strax var ráðist í endurbyggingu brúnna og var vegasambandi komið á aftur aðeins 22 dögum eftir að hlaupið hófst. Endurbyggingu vegarins var þó ekki að fullu lokið fyrr en sumarið eftir. Vegagerðin ákvað í kjölfarið að gera áningastað með upplýsingaskilti og minnismerki um þessa atburði í hæfilegri fjarlægð frá nýju brúnni. Björn Kristleifsson arkitekt var fenginn til að hanna áningastaðinn í samráði við starfsmenn Vegagerðarinnar. Það varð úr að brúarbitar með ummerkjum flóðsins voru notaðir í minnismerkið.

Minnismerkið er staðsett tæpa tvo kílómetra frá eystri enda Skeiðarárbrúar, skammt frá þjóðgarðinum í Skaftafelli. Staðurinn er vel áberandi ferðamönnum enda rétt við þjóðveginn.


Höfn, Hornafjörður

Minnisvarði um sjómenn og sjósókn í Hornafirði og á Austfjörðum
Minnisvarði um sjómenn Hornafirði
Minnisvarði um sjómenn og sjósókn í Hornafirði og á Austfjörðum

Minnisvarðinn er eftir Helga Gíslason, myndhöggvara

Minnisvarðinn stendur á Óslandshæð á Höfn í Hornafirði


Bjarnarneskirkja 1911-1973
Bjarnarneskirkja
Bjarnarneskirkja 1911-1973

Minnisvarðinn sendur á grunni kirkunnar frá 1911 sem var rifin 1973.

Bjarnarneskirkja

Eric Nelson
Flug Hornafirði
Eric Nelson (Erik H. Nelson) flaug fyrstur til Íslands 2. ágúst 1924

FMI 2. ágúst 1954.

Á Óslandshæðinni á Höfn blasir við látlaus steindrangur. Minnisvarði um merkan atburð. Áletrun á minnisvarðanum er eftirfarandi: „Erik H. Nelson flaug fyrstur til Íslands 2. ágúst 1924.“

Það voru Bandaríkjamenn sem stofnuðu til heimsflugsins. Gert var ráð fyrir að flugvélarnar flygju yfir 22 þjóðlönd. Flugvélarnar fjórar, sem nefndust Seattle, Chicago, New Orleans og Boston, lögðu af stað frá Seattle í Bandaríkjunum þann 6. apríl 1924. Vélarnar voru af gerðinni Douglas, 12 metra langar með 16 metra vænghaf og vógu rúm fjögur tonn fulllestaðar, segir í heimildum. Fyrst var flogið í átt til Alaska. Þar henti forystuflugvélina „Seattle“ mikið óhapp. Hún rakst á fjall og fórst, en flugmennirnir björguðust.

Hinar þrjár vélarnar héldu förinni áfram. Eftir að hafa flogið um Japan, Kína, Indland og meginland Evrópu komu þær til Bretlands í endaðan júlí. Að morgni 2.ágúst lögðu þær af stað til Íslands. Skammt frá Orkneyjum skall þoka yfir og treystu tveir flugmannanna sér ekki til að halda áfram og sneru við. Þriðja vélin „New Orleans“, sem Svíinn Erik H. Nelson, stýrði, hélt áfram og lenti heilu og höldnu á Hornafirði eftir 8 ½ klst flug. Auk flugmannsins var flugvélstjóri, John Harding jr.

Á Hornafirði var mikill viðbúnaður. Fyrri part sumars kom einn af umsjónarmönnum hnattflugsins, C.E. Crumrine, liðsforingi úr bandaríska flughernum, til Hafnar til að annast undirbúning lendingar þar. Björn Eymundsson, lóðs Hornfirðinga var fenginn til að mæla út lendingarsvæðið, sem var Mikleyjaráll rétt utan við sjóhúsin í Mikley. Á húsið var málað með stórum stöfum „Welcome-Hornafjörður“. Í bók Önnu Þórhallsdóttur, „Brautryðjendur á Hornafirði“, sem út kom árið 1972, birtir hún útvarpserindi, sem hún flutti í árslok 1969 og segir þar á eftirminnilegan hátt frá þessum atburði.

Árið 1954, þegar 30 ár voru liðin, var atburðarins minnst. Flugfélag Íslands bauð Erik H. Nelson til Íslands undir forystu flugmálastjóra, Agnars Kofoed-Hansen og Jóns Eyþórssonar, veðurfræðings. Þann 2. ágúst 1954 var haldið til Hornafjarðar og með í för var Ingólfur Jónsson, samgönguráðherra. Flugmálastjórn hafði látið reisa minnismerki um atburðinn 1924 og var það afhjúpað við flugvöllinn á Melatanga við hátíðlega athöfn. Þessi minnisvarði er nú á Óslandshæðinni eins og vitnað er til hér í byrjun.

Í ágúst 1994, þegar sjötíu ár voru liðin frá heimsfluginu, hafði Bæjarstjórn Hornafjarðar forgöngu um að afhjúpað var listaverk við Árnanesflugvöll í tilefni afmælisins. Verkið er eftir Pétur Sigurbjörnsson, vélsmið á Höfn, en stækkað í Vélsmiðju Hornafjarðar.

Flugvélarnar tvær, sem sneru við til Orkneyja 2. ágúst héldu áfram för sinni næsta dag. Önnur þeirra, „Boston“, neyddist til að nauðlenda á sjónum, en áhöfninni var bjargað af breskum togara, en hin vélin „Chicago“ náði til Hornafjarðar. Þann 5. ágúst 1924 héldu vélarnar tvær áfram flugi sínu til Reykjavíkur. Heimsfluginu lauk svo þann 28. september 1924 á sama stað og það hófst, þ.e. í Seattle í Bandaríkjunum. Í Nova Scotia bættist þriðja vélin „Boston II“ í hópinn og voru vélarnar því þrjár sem luku fluginu í Seattle. Í Magnusson´s Park í Seattle hefur verið reist minnismerki um atburðinn.

Framangreint er hér rifjað upp í tilefni þess, að á næsta ári -2. ágúst 2024-er ein öld liðin frá heimsfluginu.

Vart leikur neinn vafi á því hve merkur atburður þetta var fyrir samgöngur í heiminum. Þetta var líka upphaf þess samgöngumáta Íslendinga og erlendra ferðamanna, sem mest er notaður í samskiptum Íslands við umheiminn. Ekki þarf heldur að fara í grafgötur með hve mikilvægar flugsamgöngur hafa verið fyrir Hornafjörð ekki síst áður en samgöngur á landi komust í það horf sem varð við opnun hringvegarins árið 1974.

Vonandi hafa forystufólk Sveitarfélagsins Hornafjarðar ásamt samgönguyfirvöldum á Íslandi frumkvæði að því að þessa merka atburðar verði minnst með viðeigandi hætti á aldarafmæli heimsflugsins árið 2024.

-Hermann Hansson (birtist í Eystrahorni 6. mars 2023.)

Flug Höfn Hornafirði

Minnisvarðinn er á Óslandshæð, Höfn í Hornafirði


Heimsflugið 1924
Heimsflugið 1924
Heimsflugið 1924

Eric Nelson (Erik H. Nelson) flaug fyrstur til Íslands 2. ágúst 1924.

Höfundur verksins Pétur Sigurbjörnsson (1909-1982)
Verkið stækkað í Vélsmiðju Hornafjarðar
Afhjúpað árið 1994

þegar 70 ár voru liðin frá atburðinum.

Heimsflugið 1924

Verkið stendur við flugvöllinn á Höfn í Hornafirði


Ingibjörg Friðgeirsdóttir (1874-1934) – Þórhallur Daníelsson (1873-1961)
Ingibjörg Friðgeirsdóttir
Ingibjörg Friðgeirsdóttir og Þórhallur Daníelsson

kaupmaður og útgerðarmaður á Höfn, Hornafirði 
Brjóstmynd Þórhalls gerði Ríkarður Jónsson en brjóstmynd Ingibjargar gerði Sigrún Guðmundsdóttir.

Minnisvarðinn stendur við Hótel Höfn á Hornafirði


Í minningu látinna ástvina í fjarlægð
Minningarreitur
Í minningu látinna ástvina í fjarlægð

Ég hef augu mín til fjallanna.
Hvaðan kemur mér hjálp?
Hjálp mín kemur frá Drottni,
skapara himins og jarðar.
[Davíðssálmur 121:1-2]

Þú ljós sem ávallt lýsa vildir mér 
þú logar enn,
í gegnum bárur, brim og voðasker.
Nú birrtir senn.
Og ég finn aftur andans fögru dyr
og engla þá sem barn ég þekkti fyrr.   [Matthías Jochumsson]

Höfn Hornafirði
Höfn, Hornafirði

Minningarskildir eru umhverfis minnisvarðann um þá sem í fjarlægð eru.
Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Höfn.