Hraun, Ingjaldssandi

Niðjatal Eiríks Tómassonar bónda í Hrauni á Ingjaldssandi

Þetta niðjatal hefur verið mörg ár í vinnslu – og er enn í vinnslu. Reyndar eru niðjatöl í eðli sínu endalaus, þ.e. þau verða aldrei „tilbúin“, því alltaf bætast nýir niðjar við. Þannig verða prentuð niðjatöl úrelt áður en þau koma út. Það eru því ýmsir kostir við að hafa niðjatöl rafræn á netinu.

Niðjatalið er tekið saman í forritinu Espolin, sem enn virðist standa fyrir sínu við vinnslu niðjatala sem þessa þó það hafi ekki verið uppfært síðan fyrir síðustu aldamót.

Þegar ég var kominn nokkuð af stað við þessa vinnu bjóst ég við að niðjar Eiríks Tómassonar yrðu um 2500-3000 manns. Núna (12. júlí 2023) eru niðjarnir orðnir 5292 í gagnasafninu og enn veit ég um börn sem ég hef ekki nánari upplýsingar um, en ég bjóst ekki við að niðjarnir yrðu svona margir þegar ég hóf þetta verk.

Ég vil þakka Oddi Helgasyni ættfræðingi fyrir allnokkrar viðbætur, en hann fór í gegn um talið mitt og bætti við bæði foreldrum maka og niðjum sem ég hafði ekki vitað um. Aðrir sem hafa komið með mjög gagnlegar ábendingar eru Ásgeir Svanbergsson og Reynir Björnsson. Þakka ég þeim kærlega fyrir yfirlesturinn. Ekki má heldur gleyma öllum þeim ættfræðiritum sem ég hef stuðst við. Þar má nefna Arnardalsætt og Vigurætt sem verið hafa mjög drjúgar. Annars hef ég sótt ættingja í mjög mörg ættfræðirit og stéttatöl, sennilega hafa flest útgefin rit sem innihalda ættfræðiupplýsingar eitthvað fram að færa við gerð niðjatals sem þessa að ógleymdum manntölum og Íslendingabók. Ættfræðirit svo sem niðjatöl, sem varla teljast útgefin, en hafa verið gerð vegna ættarmóta eru einnig ómetanleg.

Ýmsir hafa sent mér tölvupóst með leiðréttingum og viðbótum, aðrir hafa hringt og látið mig vita að svo og svo mikið vanti af þeirra nánustu. Margir hafa lofað mér meiru, sumir hafa tekið fljótt við sér og sent mér gögn, frá öðrum hef ég ekki heyrt síðan. Mig langar að þakka öllum sem sent hafa upplýsingar og hvatt mig til dáða. Þá sem skoða þetta niðjatal og sjá að eitthvað vantar eða er rangt vil ég biðja um að senda mér upplýsingar og leiðréttingar, munnlegar sem og í formi niðjatala frá ættarmótum eða að benda mér á aðrar heimildir sem mér hefur yfirsést eða ekki vitað um.

Duglegastir við  uppfærslurnar eru niðjar Þuríðar Eiríksdóttur, sem ég hef verið í mjög góðu sambandi við, sérstaklega þau Snæbjörn Ásgeirsson og Elsu E. Guðjónsson, en þeim tveim vil ég sérstaklega þakka miklar og góðar upplýsingar en þau eru nú bæði látin. Einnig hefur Gunnsteinn Gunnarsson, niðji Kristínar Eiríksdóttur, verið mér mjög hjálplegur um sína nánustu.

Börn Eiríks Tómassonar og Kristínar Nikulásdóttur urðu 13, en af þeim eru tvö sem ekki áttu niðja og tvær áttu niðja sem ekki lifðu lengi.

Ég vil sérstaklega biðja niðja Jóns og Tómasar að hafa samband ef þeir geta bætt við og/eða leiðrétt upplýsingar. Ég hef ekkert heyrt frá þeim.

Nokkuð sem kom mér á óvart þegar ég hóf þetta verk var að Kristín Nikulásdóttir átti systur sem var alnafna hennar og bjó í Otradal. Kristín yngri (kona Eiríks Tómassonar) hafði sent elstu dóttur sína, Sigríði, til systur sinnar og hún hafði síðar gifst frænda sínum, syni Kristínar eldri. Um 1860 voru flest börn Kristínar yngri hjá móðursystur sinni og Finnur Eiríksson, langafi minn, fermdist í Otradalssókn.

Þrjú systkinin, börn Kristínar yngri, áttu frændsystkini sín, börn Kristínar eldri, þau Sigríður (áður nefnd), Tómas og Soffía. Sigríður átti dóttur, sem Kristín hét. Sú varð bústýra föðurbróður síns og átti með honum tvö börn sem bæði dóu ung. Töluverður eltingaleikur hefur verið við þetta fólk um Vestfirði og víðar þar sem niðar Eiríks og Kristínar eru dreifðir um allt land.

Þetta niðjatal hef ég brotið niður í jafnmargar skrár og börnin eru, ein skrá fyrir hvert barn Eiríks og Kristínar. Þetta geri ég til þess að það sé auðveldara að átta sig á niðjatalinu. Skrárnar verða þannig frekar af viðráðanlegri stærð. Niðjatölin eru mjög misstór en niðjatal Þuríðar er stærst. Ég set dagsetningu efst í hverja skrá til að sýna hvenær niðjatalið var gert í upphafi og síðan dagset ég síðustu breytingar til að sýna að enn sé unnið að uppfærslum á niðjatalinu.

Ef einhver tengdur ættinni les þetta og finnur sjálfan sig (með ctrl-F) í niðjatalinu, eða fer í nafnalistann, og getur bætt við eða leiðrétt, endilega hafið samband svo ég geti lagað talið og bætt við það. Ég tala nú ekki um ef einhver ætti niðjatal frá ættarmóti einhvers brots af þessari ætt yrði ég himinlifandi að fá upplýsingar um það – og helst eintak af niðjatalinu sem þannig er til komið.

Það sem mig helst vantar í niðjatalið eru upplýsingar um fæðingarstaði, upplýsingar um sambúðarform (í sambúð, sambúð slitið, giftingardaga, skilnaði) og foreldra maka með fæðingarstöðum og dánardögum, auk sambúðarforms þeirra. Þá vantar örugglega enn eitthvað af niðjum, sérstaklega börnin sem fædd eru á 21. öldinni, en þó hefur ræst úr því.

Tölvupóstfang mitt er eirikur@eirikur.is

Reykjavík 27. apríl 2023.

Eiríkur Þ. Einarsson
Lindasmára 37
201 Kópavogur

sími 863-3154.

English

Eiríkur Tómasson,
f. 12. ágúst 1800 í Mosdal, Önundarfirði,
d. 8. sept. 1849 – drukknaði í lendingu við Sæbólsbakka.
Bóndi í Hrauni á Ingjaldssandi.
[Arn., 2:433.]
– K. 27. okt. 1828,
Kristín Nikulásdóttir,
f. 26. sept. 1807 á Orrahóli, Fellsströnd,
d. 8. nóv. 1876.
For.: Nikulás Sigurðsson,
f. 1769 í maí,
d. 24. des. 1839.
Kom frá Orrahóli á Fellsströnd ásamt konu og dóttur árið 1823.
og k.h. Sigríður Ólafsdóttir,
f. 1768,
d. 27. júní 1847 – 79 ára.
Börn þeirra:
a) Sigríður Eiríksdóttir, f. 4. maí 1829, – 5 niðjar (descendants)
b) Þuríður Eiríksdóttir, f. 4. júní 1830, – 1699 niðjar (descendants)
c) Ingibjörg Eiríksdóttir, f. 10. júní 1831, – 1047 niðjar (descendants)
d) Kristín Eiríksdóttir, f. 4. sept. 1832, – 280 niðjar (descendants)
e) Guðrún Eiríksdóttir, f. 1. jan. 1834, – átti tvö börn sem dóu ung (2 descendants)
f) Tómas Eiríksson, f. 12. ágúst 1836, – 121 niðji (descendants)
g) Guðbjörg Eiríksdóttir, f. 4. okt. 1837, – átti ekki niðja (0 descendants)
h) Jón Eiríksson, f. 3. des. 1839, – 35 niðjar (descendants)
i) Soffía Eiríksdóttir, f. 31. mars 1841, – 525 niðjar (descendants)
j) Finnur Eiríksson, f. 1. des. 1844, – 1304 niðjar (descendants)
k) Lárus Eiríksson, f. 21. apríl 1846, – 1 niðji, dó fjögurra daga gamall (1 descendant, died 4 days old)
l) Jónína Eiríksdóttir, f. 6. nóv. 1847, – hef ekki fundið neina niðja (0 descendants)
m) Ríkey Eiríksdóttir, f. 10. febr. 1850, – 411 niðjar (descendants).

Nafnalisti. Niðjar Eiríks Tómassonar í stafrófsröð og með krækjum.