Ármann Gunnarsson og Helga Sólveig Bjarnadóttir

Mótþróa

Mótþróa (2005)

Við Flæðilæk og vestan við hesthúsahverfið á Æðarodda hjá gömlu akstursleiðinni inn til Akranes, reistu hjónin Ármann Gunnarsson, vélvirki (f. 1937) og Helga Sólveig Bjarnadóttir (f. 1933) verk sitt Mótþróa árið 2005. Þau hjónin hafa löngum verið kennd við Steinsstaði á Akranesi. Bjargið undir verkinu fluttu þau úr landi Steinsstaða og vó það 8-9 tonn. Á bjarginu stendur hringlaga form, um 2 metrar í þvermál, og innan hringsins er mynd af hesti í háreistu tölti sem horfir til fjallsins. Það var Bjarni Þór Bjarnason, Akranesi, sem teiknaði Mótþróa eftir hugmyndum Ármanns sem fór síðan með A4 teikninguna til bróðursonar síns, Runólfs Þórs Sigurðssonar, byggingartæknifræðings á Akranesi, sem setti teikninguna á tölvutækt form og geisladisk. Með diskinn í hönd leitaði Ármann til fyrirtækis eins í Reykjavík sem kallast „Style“ og með nýjustu tækni sem notar háþrýsta vatns- og sandblöndu til skurðarins var hesturinn unninn í ryðfrítt stál. Á Akranesi var það Vélsmiðjan Steðji sem sá um að valsa hringformið, Skaginn hf. sá um glerblásturinn og Ármann sauð síðan verkið saman og kom því fyrir á sínum stað. [Akranes.is]