Æviágrip

Árni Johnsen fæddist í Vestmannaeyjum 1. mars 1944 og ólst þar upp.
Hann tók kennarapróf KÍ 1966, var kennari í Vestmannaeyjum 1964–1965 og í Reykjavík 1966–1967. Starfsmaður Surtseyjarfélagsins með aðsetur í Surtsey sumar og haust 1966 og 1967. Blaðamaður við Morgunblaðið 1967–1991. Dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið og við Sjónvarpið frá stofnun þess.
Árni hefur unnið að margs konar félagsmálum í Vestmannaeyjum og víðar. Var formaður tóbaksvarnanefndar 1984–1988. Í stjórn Grænlandssjóðs 1987–2001, í flugráði 1987–2001, í Vestnorræna þingmannaráðinu 1991–2001, formaður þess um tíma. Í stjórn Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi, NAPA, um árabil. Formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins 1988–2001 og formaður stjórnar Sjóminjasafns Íslands 1989–1992.
Hann var alþingismaður Suðurlands 1983–1987, 1991–2001 og Suðurkjördæmis 2007–2013 (Sjálfstæðisflokkur), varaþingmaður Suðurlands febrúar–mars 1988, nóvember 1989, mars–apríl 1990, janúar–febrúar 1991 (Sjálfstæðisflokkur), í fjárlaganefnd 1991–2001, samgöngunefnd 1991–2001 og 2007–2011 (formaður 1999–2001), menntamálanefnd 1991–2001, félagsmálanefnd 2007, félags- og tryggingamálanefnd 2007–2009, umhverfis- og samgöngunefnd 2011–2013. hann var í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins 1994–2001 og 2007–2013 (formaður 1996–2001).
Árni hefur skráð viðtalsbækur og bækur um gamanmál alþingismanna, skrifað hundruð greina í Morgunblaðið og önnur blöð, einnig samið svítu, sönglög og sungið og spilað eigin lög og annarra á hljómplötur. [Althingi.is]
Árni hefur gert nokkur listaverk en hér eru aðeins brot af þeim.

Edda GK 25
Edda GK 25

Dáð (2003)

Önnur myndin er tekin sumarið 2018, en sú síðari 2022. Einhverra hluta vegna hefur þótt nauðsynlegt að endurnýja þetta verk.

Sunnudag 16. nóvember 2003 verða liðin 50 ár frá því að síldveiðiskipið Edda GK 25 fórst í aftakaverðri hér út á Grundarfirði. Sjómannadagsráð Grundarfjarðar hefur að undanförnu undirbúið uppsetningu minnisvarða um þetta hræðilega slys. Ráðið leitaði til Árna Johnsen um gerð minnisvarðans sem reistur verður við Grundarfjarðarhöfn. Þessa atbuðar verður minnst við athöfn í Grundarfjarðarkirkju kl. 14:00. Að athöfn lokinni verður minnisvarðinn DÁÐ afhjúpaður af þeim Óskari Vigfússyni og Þórdísi Gunnarsdóttur. Von er á ættingjum áhafnarmeðlima Eddunnar af þessu tilefni og vonast sjómannadagsráð til að sem flestir Grundfirðingar sjái sér fært að taka þátt í þessari athöfn. [Grundarfjordur.is]. Minnisvarðinn er einnig um hetjudáð sjómanna.

Edda GK 25 var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Einar Þorgilsson & Co h/f í Hafnarfirði. Eik. 184 brl. 378 ha. Ruston díesel vél. 17 nóvember árið 1953, þegar skipið var statt 300 metra frá bryggju í Grundarfirði, lagðist það á hliðina og sökk síðan. 15 af 17 skipverjum komust á kjöl. 11 af þeim björguðust yfir í annan nótabátinn og barst hann að landi eftir mikla hrakninga skammt frá bænum Suðurbár í Grundarfirði. Var mönnunum síðan hjálpað heim að bænum. En áður en þangað var komið höfðu þrír skipverjar látist af vosbúð, tveir í nótabátnum og síðan einn eftir að í land var komið. Það urðu því 9 manns af 17 manna áhöfn sem fórust. Í febrúar 1954 var skipið kjölrétt og dregið upp í fjöru og þétt þar. Síðar var skipið dregið til Reykjavíkur og endurbyggt þar. Skipið var selt 1954-55, Fróða h/f í Ytri Njarðvík, hét Fróði GK 480. Frá 17 febrúar hét skipið Sigurkarfi GK 480, sömu eigendur. Talið ónýtt og tekið af skrá 5 nóvember árið 1970. Skipið var að lokum brennt í ágúst árið 1972. [123.is]

Valkostir - Árni Johnsen

Valkostir (2004)

Gjöf höfundarins, Árna Johnsen, í framhaldi af sýningu hans á Ljósanótt 2004, Grjótið í Grundarfirði.

Efniviðinn í sýninguna sótti Árni að mestu í fjöruna undan Krossnesbjargi í Grundarfirði. Gegnheilt stál, efni í öxla, notar hann til að tengja grjót í grjót. Í þessu verki tók Árni mót af höndum sínum sem síðan voru steyptar í kopar í Málmsteypunni Hellu en þær eru burðarásinn í verkinu. Höfuðmarkmið Árna eru einfaldleikinn með ákveðinni skírskotun og ímyndunarafli sem getur talað til gesta og gangandi. Verkið stendur við Íþróttaakademíuna, Krossmóa 58. [Reykjansbaer.is]

Listaverk Árna Johnsen

Árið 2004 voru nokkur verk Árna til sýnis á bryggjunni á Stokkseyri. Nokkur þeirra sjást á þessari mynd.

Listaverk - Árni Johnsen
Listaverk - Árni Johnsen

Nokkur verk rakst ég á heima hjá Árna í Vestmannaeyjum þegar ég ók þar fram hjá. Ég veit ekki hvort þau eru fullgerð eða ekki. Ég læt tvö af þeim fljóta með.