Minnisvarðar á Reykjanesi

Reykjanes, Reykjanesbær, Suðurnesjabær

Árni Vigfús Árnason (1942-1991)
Árni Vigfús Árnason
Minningarreitur um Árna Vigfús Árnason
gildismeistara sem lést í bílslysi 16.10.1991.

Blessuð sé minning hans!
St. Georgsgildið í Keflavík.

Árni Vigfús Árnason

Minnisvarðinn stendur austan við Reykjanesbrautina, rétt sunnan Vogaafleggjara.


Guðmundur Kr. Guðmundsson (1897-1946) skipstjóri
Guðmundur Kr. Guðmundsson
Til minningar um Guðmund Kr. Guðmundsson, skipstjóra, f. 14. janúar 1897
og þá sem með honum fórust 9. febrúar 1946.

Pál Sigurðsson, f. 29. okt. 1915,
Ólaf Guðmundsson, f. 12. nóv. 1925,
Kristinn Ragnarsson, f. 23. okt. 1924,
Marías Þorsteinsson, f. 25. mars 1906.
Blessuð sé minning þeirra.

Guðmundur Kr. Guðmundsson

Geir frá Keflavík ferst.
Síðastliðinn föstudag fóru Keflavíkurbátar almennt á sjó, og var veðurspá góð, en þó sneru þrír bátar aftur. Í birtingu fór að hvessa og um hádegi á laugardag var komið fárvirðri.
Um kl. 4 á laugardag fóru fyrstu bátarnir að koma að landi og um miðnætti voru allir Keflavíkurbátar komnir að nema v.b. Geir.
Strax morguninn eftir var hafin leit úr flugvél en hún reyndist árangurslaus, en fyrri hluta sunnudags bárust fregnir af Miðnesi að farið væri að reka brak, sem reyndist vera úr v.b. Geir.
Fimm menn voru á bátnum, Eigandi hans og skipstjóri var Guðmundur Kr. Guðmundsson, 49 ára, alþekktur afla- og dugnaðarmaður, hann lætur eftir sig konu og tvo uppkomna syni og unga fósturdóttur. Vélstjóri var Páll Sigurðsson, 30 ára, kvæntur og átti tvö börn. Aðrir skipverjar voru Kristinn Ragnarsson 21 árs, kvæntur en barnlaus, Ólafur Guðmundsson 20 ára, ókvæntur og Marías Þorsteinsson frá Ísafirði, 39 ára og ókvæntur.

V.b. Geir var 22 smálestir að stærð, smíðaður í Reykjavík 1938 og var mjög traustur bátur. [Mbl. 12. febr. 1946]

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.


Hallgrímur Pétursson (1614-1674)
Hallgrímur Pétursson

Hallgrímur Pétursson
Prestur og sálmaskáld, hann var þekktastur fyrir Passíusálmana.

Hallgrímur fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd, en ólst upp á Hólum. Hann fór til iðnnáms til Danmerkur og Þýskalands um 1630. Hann lærði járnsmíði og steinsmíði en kom síðar til Kaupmannahafnar og stundaði þar nám í Frúarskóla. Í Kaupmannahöfn kynntist hann Guðríði Símonardóttur sem kom til Kaupmannahafnar ásamt fleirum sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627. Þau felldu hugi saman og komu til Íslands 1637 og settust þau að á Bolafæti í Njarðvík (sjá næsta minnisvarða).
Hallgrímur varð prestur í Hvalsnesi árið 1644 og bjó þar til 1651 og líkaði Hallgrími þunglega vistin þar. Honum fæddist dóttir þar, Steinunni, en hún dó ung og varð föður sínum mikill harmdauði. Hallgrímur gerði legstein yfir gröf Steinunnar og er steinninn nú í Hvalsneskirkju. Lengi vel var steinninn týndur en fannst um miðja 20. öld í kirkjustéttinni á Hvalsnesi. 
Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar líkaði honum visitin vel og þar bjó hann og þjónaði til dauðadags. Í Saurbæ orti hann Passíusálmana og aðra sálma sem enn eru sungnir.

Steinunn Hallgrímsdóttir

Minnisvarðann, sem er við Hvalsneskirkju, gerði Páll Guðmundsson á Húsafelli.


Bolafótur
Hallgrímur Pétursson Keflavík
Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Upp, upp mín sál og allt mitt geð
upp mitt hjarta og rómur með.
Hugur og tunga hjálpi til
herrans pínu ég minnast vil.

Svo hljóðar upphaf Passíusálma Hallgríms Péturssonar, eins mesta sálmaskálds allra tíma á Íslandi. Ævi skáldsins var viðburðarrík, hann ólst upp á biskupssetrinu á Hólum en rúmlega tvítugur var hann við nám í Kaupmannahöfn þegar hópur Íslendinga kom þangað frá Alsírborg. Hann var hluti hóps sem sjóræningjar höfðu rænt í Tyrkjaráninu um áratug fyrr og selt í ánauð til Norður-Afríku.

Í hópnum var Guðríður Símonardóttir og tókust með þeim heitar ástir. Vorið 1637 birtust þau í Keflavík og var hún þá langt gengin með fyrsta barn þeirra, Eyjólf. Framundan var ótrúlega erfiður tími fyrir þetta langt að komna par. Hér á þessu túni hefur kotbýlið Bolafótur verið, þar sem þau hjón bjuggu um einhvern tíma á fyrstu búskaparárum  sínum.

Á Suðurnesjum bjuggu þau líklega í um 14 ár. Hallgrímur vann við það sem til féll, m.a. fyrir kaupmenn í Keflavík og við sjósókn. Þrátt fyrir mikla erfiðleika kom náungakærleikurinn þeim til hjálpar. Grímur Bergsson í Njarðvík, lagði á sig að aðstoða þau með því að borga sektargjöld vegna þess að barnið þeirra fæddist utan hjónabands.

Hallgrímur gerðist prestur á Hvalsnesi. Hagurinn vænkaðist en þó var harmurinn ekki langt undan. Dóttir þeirra, Steinunn dó aðeins nokkra ára gömul. Á Hvalsnesi er legsteinn hennar sem talið er að Hallgrímur hafi sjálfur gert og er hann einn mesti dýrgripur í eigu kirkna á Suðurnesjum.

Prestsembættið á Hvalsnesi var upphaf á farsælum ferli Hallgríms í prestastétt en lengst þjónaði hann í Saurbæjarkirkju á Hvalfjarðarströnd. Þar samdi hann Passíusálmana. Um miðjan aldur veiktist Hallgrímur af holdsveiki eða líkþrá og dó árið 1674 sextugur að aldri en Guðríður lifði mann sinn og lést í hárri elli árið 1682. [Skilti]

Minnisvarðinn stendur við höfnina í Njarðvík þar sem álitið að býlið Bolafótur hafi staðið.


Hafsteinn Guðmundsson (1923-2012)
Hafsteinn Guðmundsson Keflavík

Hafsteinn Guðmundsson
1.10.1923 – 29.4.2012

Hafsteinn var hvalreki fyrir æskulýðs- og íþróttastarf í Keflavík. Hann var aðalhvatamaður þess að Íþróttabandalag Keflavíkur var stofnað árið 1956 og gegndi formennsku þess frá upphafi til 1975. Hann var spilandi þjálfari Keflavíkurliðsins á árunum 1958-1960. Í formannstíð Hafsteins var ÍBK fjórum sinnum Íslandsmeistari á mesta blómaskeiði knattspyrnunnar í Keflavík, fyrst 1964 og síðan 1969, 1971 og 1973 og ÍBK var einnig bikarmeistari 1975. 
Hafsteinn er með réttu nefndur faðir knattspyrnunnar í Keflavík. Hann var formaður Ungmennafélags Keflavíkur 1978-1981, sat í stjórn KSÍ og var landsliðseinvaldur 1969-1973.

Hafsteinn var sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu, heiðurskrossi ÍSÍ, heiðurskrossi KSÍ, gullmerki ÍBK, heiðursgullmerki Keflavíkur, gullmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur og hann var heiðursfélagi UMFK.

Þetta minnismerki var reist með stuðningi Íslandsmeistara Keflavíkur 1964, 1969, 1971 og 1973 og bikarmeistara 1975.

Nöfn 36 leikmanna eru á skildinum.

Einnig styrktu þessir aðilar verkið,
Reykjanesbær, Kaupfélag Suðurnesja, KSÍ, Samfylkingin, K. Steinarsson, Steinar Sigtryggsson, Knattspyrnudeild Keflavíkur.

Minnisvarðinn stendur á knattspyrnuvellinum í Keflavík

Hermann Guðmundsson
Hermann Guðmundsson
Fótbolti - Hermann Guðmundsson

Helgi S. Jónsson (1910-1982)
Helgi S. Jónsson Keflavík
Helgi S. Jónsson,
f. 21. ág. 1910, d. 18. des. 1982.

Minnisvarði reistur honum til heiðurs af samherjum og vinum.

Helgi S. Jónsson var fæddur 1910 í Hattardal í Álftafirði en flutti til Keflavíkur árið 1935 og stóð í fylkingarbrjósti ótrúlega margra félaga og málefna sem hann sinnti af miklum dugnaði og trúmennsku. Helgi var oft í fararbroddi, kveikti eldinn en fól hann svo öðrum er nýjar hugmyndir kölluðu hann til annarra verka. Hann var fjölhæfur listamaður, leikari, listmálari, myndskeri, vel ritfær og mjög mælskur. [Listasafn Reykjanesbæjar]

Minnisvarðinn stendur við Skátaheimilið í Keflavík.

Helgi S. Jónsson

Hólmfastur Guðmundsson (1647-1698)
Minning  Hólmfastur Guðmundsson  Hólmfastskoti,
fæddur 1647 – dæmdur 1698.

Hólmfastur var dæmdur á einokunartímabilinu fyrir það að selja í Keflavík þrjár löngur, tíu ýsur og tvö sundmagabönd, sem Hafnarfjarðarkaupmaður, Knútur Storm, hafði ekki viljað veita viðtöku. 
Hann var dæmdur í átta marka sekt, en hlíft við þrælkun fyrir bænastað dómsmanna.
Þegar í ljós kom, að hann átti ekkert upp í sektina, nema gamalt og ónýtt bátsskrifli, var refsingunni breytt í sextán vandarhögg.
Var Hólmfastur færður í tóft eina og hendur hans bundnar við tré, er lagt hafði verið um þvera tóftina, og hann síðan hýddur í viðurvist Knúts kaupmanns og Mullers amtmanns.
Þjóðinni ofbauð þessi málsmeðferð, en í kjölfarið var einokuninni aflétt.

Minnisvarðinn stendur við Innri-Njarðvíkurkirkju.

Hólmfastur Guðmundsson

Jón Þorkelsson Thorchillius (1697-1759)
Jón Þorkelsson Thorchillius

Jón Þorkelsson Thorchillius
skólameistari í Skálholti
1697-1759.
1959

Jón Þorkelsson (1697 – 5. maí 1759), sem nefndi sig Thorcillius eða Thorchillius, var skólameistari í Skálholti á 18. öld, helsti menntafrömuður Íslendinga á sínum tíma og líklega fyrsti boðberi upplýsingarstefnunnar á Íslandi.

Jón var fæddur í Innri-Njarðvík í Vatnsleysustrandarhreppi, einkasonur Þorkels Jónssonar bónda og lögréttumanns þar og konu hans, Ljótunnar Sigurðardóttur. Hann nam við Skálholtsskóla og fór síðan í Kaupmannahafnarháskóla. Jón varð skólameistari í Skálholti 1728. Hann þótti strangur kennari en var vel að sér og mjög áhugasamur um bætta menntun. Hann var líka óánægður með aðbúnað og mataræði skólasveina og átti í útistöðum við Jón Árnason biskup, bæði um það og um kennslutilhögun.

Jón Thorcillius lagði meðal annars til að settur yrði á stofn sérstakur prestaskóli og þegar séra Jón Halldórsson í Hítardal lést haustið 1736 vildi Jón fá Hítardal og koma þar á prestaskóla. Ekki fékkst það samþykkt og sagði Jón þá af sér skólameistaraembætti og hélt til Kaupmannahafnar til að reyna að fá stjórnvöld til að gera umbætur í menntamálum Íslendinga. Hann taldi að kirkjustjórn á Íslandi væri betur borgið ef biskuparnir væru danskir eða norskir. Honum varð á endanum ágengt með erindi sitt og varð úr að Jón og danski presturinn Ludvig Harboe voru sendir til Íslands til að kanna fræðslumál og menntunarástand þjóðarinnar og gera tillögur um úrbætur.

Jón og Harboe ferðuðust um allt landið og könnuðu meðal annars lestrarkunnáttu og menntun barna í hverri sveit, athuguðu kunnáttu presta, bókaeign og margt fleira. Fyrst í stað virðist samstarf þeirra hafa verið stirt því þeir voru ólíkir menn, Jón var strangur og harður en Harboe þótti mildur og alúðlegur og aflaði sér fljótt vinsælda, en samvinna þeirra varð þó mjög góð er frá leið. Þeir luku störfum sínum sumarið 1745 og héldu þá til Danmerkur og settu fram margar tillögur um úrbætur. Sumar þeirra komust fljótt í framkvæmd, aðrar ekki.

Jón settist að í Kaupmannahöfn og bjó þar til æviloka 1759. Hann var vel stæður en var ókvæntur og barnlaus og átti enga nána ættingja á lífi. Skömmu fyrir andlát sitt gerði hann erfðaskrá þar sem kveðið var á um að allar eigur hans skyldu renna til stofnunar skóla þar sem fátækustu börn í Kjalarnesþingi hlytu kristilegt uppeldi með húsnæði, klæðum og fæði uns þau gætu unnið fyrir sér sjálf. Ekki varð af því strax en stofnaður var sjóður, Thorcilli-sjóðurinn (eða Thorkelli-sjóðurinn), og árið 1792 var loks reistur barnaskóli á Hausastöðum á Álftanesi á kostnað sjóðsins og var það annar fyrsti barnaskóli á Íslandi. Allt fram á 20. öld fengu börn við barnaskóla Reykjavíkur styrk úr Thorkellisjóðnum til náms.

Minnisvarði um Jón, gerður af Ríkarði Jónssyni myndhöggvara, var reistur í Innri-Njarðvík 1965.

Jón Þorkelsson Thorchillius

Jón H. Jörundsson
Jón H. Jörundsson

Stuðlabergsslysið er sjóslys sem varð að kvöldi 17. febrúar eða aðfaranótt 18. febrúar 1962. Síldarbátur frá Seyðisfirði Stuðlaberg NS 102 með 11 manna áhöfn fórst þá út af Stafnesi að talið er og rak brak úr bátnum á fjörur milli Garðskaga og Sandgerðis. Meðal þess sem rak á land var bjarghringur með nafni bátsins sem fannst hjá Þóroddstöðum. Stuðlaberg var á síldveiðum fyrir Suðurlandi. Síðast heyrðist í bátnum þar sem hann var staddur út af Selvogi á leið til Keflavíkur til löndunar og voru mörg skip á þeirri siglingaleið. Stuðlaberg kom hins vegar aldrei til Keflavíkur og var talið þar að báturinn hefði haldið til Hafnarfjarðar þar sem hann hafði áður landað. Vegna þessa varð bátsins ekki saknað fyrr en 21. febrúar er Slysavarnafélagi Íslands var gert viðvart. Eins og áður segir rak talsvert brak úr bátnum á fjörur milli Hafna og Garðskaga og fannst lík eins skipverja rekið undan bænum Fuglavík. Stuðlaberg NS 102 var 152 lesta stálbátur sem gerður var út frá Suðurnesjum. [Wikipedia]

Til minningar um
Jón H. Jörundsson, f. 21. mars 1929,
Pétur Þorfinnsson f. 20. mars 1931,
Kristján Jörundsson, f. 9. nóv. 1927,
Karl G. Jónsson, f. 7. ágúst 1933,
Birgi Guðmundsson, f. 19. maí 1922,
Guðmund Ólason, f. 5. ágúst 1923,
Gunnar L. Hávarðarson, f. 5. júlí 1944,
Ingimund Sigmarsson, f. 23. maí 1930,
Kristmund Benjamínsson, f. 16. sept. 1929,
Stefán Elíasson, f. 8. júní 1922,
Örn S. Ólafsson f. 12. febr. 1940
Fórust með mb. Stuðlabergi, 17. febr. 1962.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík.


Ólafur B. Ólafsson (1945-1999)
Ólafur B. Ólafsson Keflavík

Til minningar um
Ólaf B. Ólafsson f. 10.7.1945 – d. 19.12.1999

Gefið af eiginkonu hans str. Hildi Guðmundsdóttur

Ólafur B. Ólafsson Keflavík

Minnisvarðinn stendur við Oddfellowhúsið í Keflavík.


Ólafur Jónsson (1853-1920) – Einar Ólafsson (1877-1925)
Ólafur Jónsson
Til minningar um
Ólaf Jónsson (stóra) frá Kotvogi í Höfnum f. 19.10.1853, d. 31.12.1920.

Makar: Sólveig Einarsdóttir Kötluhóli Leiru og Ingibjörg Tómasdóttir Naustakoti Hvalsnesi.

Einar Ólafsson frá Klapparkoti Miðneshreppi f. 8.9.1877 d. 30.7.1925.
Maki: Ágústa Jónsdóttir Réttarholti Skagaströnd.

Blessuð sé minning þeirra.

Minnisvarðinn stendur í Útskálakirkjugarði 


Ólafur Thors (1892-1964)
Ólafur Thors

Ólafur Thors 
19.1.1892 – 31.12.1964

Forsætisráðherra
Formaður Sjálfstæðisflokksins

Alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu og Reykjaneskjördæmis 1926-1964

Eftirfarandi aðilar stóðu að fegrun svæðis og lýsingu á styttu Ólafs Thors í október 2001:
Sjálfstæðisfélögin í Reykjanesbæ, Sparisjóðurinn í Keflavík, Hitaveita Suðurnesja, IAV hf., Saltver, Nesprýði, Áki Gräns og niðjar Ólafs Thors.

Styttan er eftir Áka Gränz og stendur á opnu svæði í Keflavík.

Annar minnisvarði um Ólaf Thors stendur framan við Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í Reykjavík.

Ólafur Thors Keflavík

Sigurður B. Sivertsen (1808-1887)
Sigurður B. Sivertsen
Sigurður B. Sivertsen
Sóknarprestur á Útskálum f. 2.11.1808 – d. 24.5.1887.

Stofnandi Gerðaskóla 1872.

Sveitarstoð og styrkur 
stöðugt reyndist hann
landiog lýð til heilla
lífsstarf fagurt vann.

Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði), var prestur á Útskálum.

Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809-1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra.

Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út. [Wikipedia]

Árið 1988 samþykkti hreppsnefnd Gerðahrepps að reisa minnisvarða af séra Sigurði Brynjólfssyni Sívertsen í þakklætisskyni fyrir öll hans góðu verk í þágu Garðmanna. Minnisvarðinn stendur við Gerðaskóla.

Sigurður B. Sivertsen Garði
Sigurður B. Sivertsen Garði

Sveinbjörn Egilsson (1791-1852)
Sveinbjörn Egilsson
Sveinbjörn Egilsson
Fyrsti rektor Lærða skólans, ljóðaþýðandi og skáld.
F. 24. febr. 1791 í Innri-Njarðvík – d. 17. ágúst 1852,

Tveggja alda minning 1991.

Sveinbjörn Egilsson (f. 24. febrúar 1791 í Innri-Njarðvík í Gullbringusýslu á Íslandi – d. 17. ágúst 1852) var íslenskur guðfræðingur, kennari, þýðandi og skáld. Hann er einna best þekktur sem fyrsti rektor Menntaskólans í Reykjavík (sem þá hét Lærði skólinn) og sem þýðandi Hómers-kviðu.

Faðir hans, Egill Sveinbjarnarson, var lítið þekktur en þó efnaður bóndi. Sveinbjörn var í fóstri hjá Magnúsi Stephensen og hlaut menntun sína frá ýmsum aðilum. Hann gekk aldrei í latínuskóla, en þess í stað brautskráðist hann úr heimaskóla Árna Helgasonar 1810. Hann komst ekki í háskóla strax vegna ófriðar, en hóf 1814 guðfræðinám við Hafnarháskóla, sem hann lauk árið 1819. Við komu sína aftur til Íslands fékk hann kennarastöðu við Bessastaðaskóla, en þegar skólinn flutti til Reykjavíkur var hann gerður rektor. Hann var því fyrsti rektor Lærða skólans í Reykjavík. Aðalkennslugrein hans var forngríska. Sveinbjörn var giftur Helgu Gröndal, dóttur Benedikts Gröndals eldra, yfirréttardómara.

Á meðan hann gegndi kennara- og rektorsembætti vann hann mikið að ýmiss konar þýðingum, oft fyrir skólann (t.d. skólaþýðingu á Menón eftir Platón), en einnig á öðrum vettvangi. Frægastar eru sennilega þýðingar hans á kviðum Hómers, Ilíonskviðu og Ódysseifskviðu. Fyrir Fornfræðafélagið, sem hann var stofnfélagi að, þýddi hann Íslendingasögurnar á latínu (Scripta historica Islandorum). Hann tók saman orðabók yfir íslenskt skáldamál Lexicon poeticum antiquæ linguæ septentrionalis sem varð grundvallar-uppsláttarrit fyrir allar framtíðarrannsóknir á fornum íslenskum kveðskap síðar meir. Hann þýddi einnig Snorra-Eddu á latínu og gaf út með frumtexta og vísnaskýringum. Hann samdi að auki nokkuð af ljóðum, meðal annars sálminn Heims um ból og tvo aðra sálma í sálmabókinni. Þegar hann dó var hann enn að vinna að þýðingu Ilíonskviðu í bundnu máli, en sonur hans, Benedikt Gröndal yngri, lauk við verkið.

Veturinn 1849-50 gerðist í Lærða skólanum atburður sá, sem kallaðist Pereat. Forsagan var sú Sveinbjörn vildi þröngva skólapilta að ganga í bindindisfélag skólans. Þeir gengu þó flestir fljótlega úr félaginu, en við það reiddist Sveinbjörn mjög og flutti þeim harða skammarræðu 17. janúar 1850. Skólapiltar brugðust við með því að heimsækja rektor og hrópa pereat, sem er latneskt afhróp og þýðir niður með hann! Sveinbjörn fór þá til Kaupmannahafnar að leita liðsinnis danskra skólayfirvalda, sem kváðust styðja hann. Hann lét þó af störfum 1851 og lést rúmu ári síðar. [Wikipedia]

Minnisvarðinn stendur við Innri-Njarðvíkurkirkju

Sveinbjörn Egilsson
Sveinbjörn Egilsson

Valgerður Halldórsdóttir (1929-2000) – Kristján Sigurðsson (1924-1997)

Valgerður Halldórsdóttir  - Kristján Sigurðsson Keflavík
Til minningar um hjónin Valgerði Halldórsdóttur og Kristján Sigurðsson yfirlækni 1971-1992.

18.11.2004
Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. 

Valgerður var ætíð virkur þátttakandi í félagsmálum og lét sér annt um hag annarra. Hún var einn af stofnendum Lionessuklúbbs Keflavíkur, starfaði mjög lengi í kvenfélagahreyfingunni og var fyrsti formaður Styrktarfélags Sjúkrahúss Keflavíkurhéraðs, nú Styrktarfélags Sjúkrahúss Suðurnesja. Einnig tók hún virkan þátt í félagsskap burtfluttra Patreksfirðinga.

Kristján lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Ísafjarðar. Hann las svo samfara vinnu utanskóla við máladeild Menntaskólans í Reykjavík og varð stúdent þaðan árið 1946. Hann lagði eftir það stund á læknisfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan læknaprófi árið 1954 og hlaut almennt lækningaleyfi árið 1956. Frá 1956­/58 var hann læknir á Hvammstanga (6 mán.) og í Blönduóshéraði. Kristján hélt síðan til Svíþjóðar og stundaði framhaldsnám í skurðlækningum árin 1958 til 1961. Eftir heimkomu varð hann héraðslæknir í Patreksfjarðarhéraði frá 1961­-1966, en þá var einungis einn læknir þar. Hann starfaði síðan við Landspítalann árin 1966­-1971, lengst af við handlækningadeild spítalans. Árið 1971 var hann ráðinn yfirlæknir við Sjúkrahúsið í Keflavík og starfaði þar, þangað til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1992. Kristján var alla sína starfsævi virkur félagi í Lionshreyfingunni. Hann hafði yndi af söng og var einn af stofnendum Karlakórs Patreksfjarðar. Einnig var hann um langt skeið félagi í Stangaveiðifélagi Keflavíkur.

Kristján Sigurðsson

17. júní flaggstöngin
!7. júní Keflavík
17. júní flaggstöngin í Keflavík

Á fyrsta ári lýðveldisins var ákveðið að gera myndarlega fánastöng í Skrúðgarði Keflavíkur til minningar um lýðveldistökuna 17. júní 1944.

Séra Eiríkur Brynjólfsson á Útskálum vígði svo flaggstöng á þjóðhátíðardaginn 1945 sem síðan var lengd og settur undir hana hærri fótstallur. Nú er heildarlengd stangarinnar með fótstalli um 17,5 metrar. Hönnuður fótstallsins var Helgi S. Jónsson og Sævar Helgason gerði landvættirnar eftir teikningum Helga. Framan á miðjum stöplinum sem snýr að Suðurgötu eru stafirnir 17. júní 1944 og á þeirri hlið sem snýr inn í garðinn er lágmynd af Jóni Sigurðssyni, gerð af Ríkarði Jónssyni. Á hverju horni eru súlur sem gnæfa upp fyrir stöpulinn og eiga að minna okkur á festu og óbilandi hugrekki þjóðarinnar og einnig tákna þær keflin sem staðurinn Keflavík heitir eftir. Út frá hverjum stöpli rísa svo landvættir Íslands.

Umhverfis stöpulinn er steypt blómaker sem táknar fósturjörðina og þar skal plantað hreinblárri íslenskri fjólu með umgjörð úr hreinhvítum lágum kantblómum; tákn hreinleikans og bláhvíta íslenska fánans í upphafi aldarinnar. Á þessa stöng skal þjóðfáninn dreginn að húni 17. júní ár hvert og ekki við önnur tækifæri. Þessi regla hefur þó verið brotin í þrjú skipti, eða þegar forsetar lýðveldisins hafa komið í opinbera heimsókn til Keflavíkur. [Reykjanesbær]

Á steinsúlunum tveim er skrá yfir þá sem hafa dregið fánann að húni á 17. júní í Keflavík.

Jón Sigurðsson
17. júní Keflavík
17. júní

Hvorki fugl né fiskur
Hvorki fugl né fiskur
Heiðurslistamenn Reykjanesbæjar

Erlingur Jónsson var fyrstur til að fá útnefninguna Listamaður Keflavíkur og var það árið 1991.

Af því tilefni var ákveðið að reisa listaverk á stöpli í miðbæ Keflavíkur, þar sem ígreipt skyldu nöfn þeirra sem valdir eru listamenn bæjarins á hverju kjörtímabili. Listaverkið var svo sett upp sumarið 1992 í skrúðgarði Keflavíkur. Hugleiðing höfundar að verkinu er:

,,Þrívíð hugleiðing til heiðurs listafólki Keflavíkur. “
,,Áttvís á tvennar álfustrendur,
einbýl, jafnvíg á báðar hendur,
situr hún hafsins höfuðmið.” 
— Einar Benediktsson – Sóley —

,,Listafólk Keflavíkur hvorki sitji né standi stjarft í viðjum vanans, heldur leiti sem víðast jákvæðra fanga.”

Verkið stendur í Skrúðgarðinum í Keflavík við Sólvallagötu og er eftir Erling Jónsson.


Minnisvarði horfinna
Horfnir í Keflavík
Minnisvarði horfinna
Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gjörir.
Filippi 4:13.

Á hliðarsúlunum eru minningarskildir um horfna.

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Keflavík


Paradís
Paradís
Paradís

Minningareitur um látna Lionsfélaga.
Árið 1984 hófu Lionsmenn í Njarðvík að gróðursetja tré í Paradís.

Lionsklúbbur Njarðvíkur

Paradís

Lionsklúbbur Keflavíkur
Lionsklúbbur Keflavíkur
Lionsklúbbur Keflavíkur
stofnaður 7. apríl 1956

reisti þennan stein til minningar um látna félaga sína.

Við leggjum lið.

Lagt niður maí 2024.

Lionsklúbbur Keflavíkur

Stendur við Aðalgötu í Keflavik


Minningarskildir í Hafnarstræti í Keflavík

Hljómar 1963 – 2003
Hljómar 2003
Hljómar 1963-2003

Þeir komu bítlabænum á kortið.

Hljómar 1963-2003
40 ára hljómlistarafmæli.

Afhjúpað á Ljósanótt 2003.


Gullaldarlið 1964 – 1973
Gullaldarliðið
Gullaldarlið 1964-1973

Knattspyrnulið Keflavíkur 1064-1973

Plattinn var afhjúpaður á Ljósanótt 2004.


Clint Eastwood
Clint Eastwood 2005
Academy-Award Winner
Clint Eastwood

Flags of our Fathers
Movie filmed in Town of Reykjanes summer 2005.

Afhjúpað á Ljósanótt 2005.


Vilhjálmur og Ellý
Vilhjálmur og Ellý 2007

Dægurlagasystkinin
Vilhjálmur Vilhjálmsson (1945-1978) og Ellý Vilhjálmsdóttir (1935-1995)

Skjöldurinn var afhjúpaður á Ljósanótt 2006.


Guðrún Bjarnadóttir
Guðrún Bjarnadóttir 2006
Alheimsfegurðardrottningin
Guðrún Bjarnadóttir

Miss International 1963

Afhjúpað á Ljósanótt 2006.


Gunnar Eyjólfsson
Gunnar Eyjólfsson 2007

100 ára afmæli skátahreyfingarinnar
Skátafélagið Heiðarbúar 70 ára

Gunnar Eyjólfsson
stórleikari og skátahöfðingi

Afhjúpað á Ljósanótt 2007.


Sparisjóðurinn í Keflavík
Sparisjóðurinn 2007

Virk þátttaka í menningu, mannlífi og atvinnulífi Suðurnesja í 100 ár.

Sparisjóðurinn í Keflavík

Afhjúpað framan við húsnæði Sparisjóðsins á Ljósanótt 2007


Keflavíkurstöðin
Keflavíkurstöðin 2009

Söguspor til heiðurs öllum þeim sem störfuðu hjá Varnarliðinu

Keflavíkurstöðin

Áhrif á mannlíf og menningu

Afhjúpað á Ljósanótt 2009


Sjóslys í Stokkavör
Minnisvarði um slys

Til minningar um þá sem fórust 
í lendingu við Stokkavör 6. apríl 1930

Stefán Jóhannesson 35 ára
Skafti Guðmundsson 25 ára
Guðjón Sigurðsson 25 ára
Júlíus Hannesson 19 ára

Minnisvarðinn stendur við smábátahöfnina í Grófinni í Keflavík


Skjöldur
Skjöldur
Hér stóð samkomuhúsið
Skjöldur, byggt 1906
Eyddist í eldsvoða 30. desember 1935.

Í bruna þessum og af völdum hans fórust 10 manns fjölmargir hlutu meiri og minni brunasár.

Minnisvarðinn stendur gegnt Keflavíkurkirkju, þar sem samkomuhúsið Skjöldur stóð.

Skjöldur

Til minningar um drukknaða sjómenn
Drukknaðir í Njarðvík
Til minningar um drukknaða sjómenn

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum í Innri-Njarðvík. Það eru einnig minningarsteinar með nöfnum þeirra sem hafa farist í seinni tíð.

Minnisvarðinn var reistur árið 1990.


F-4E Phantom II
Herflugvél Keflaví´k
Síðasta Phantom F-4E sem staðsett var á Íslandi.

Þessi orrustuþota af gerðinni F-4E Phantom II ber merki 57. orrustuflugsveitar bandaríska flughersins, ,,Svörtu Riddaranna í Keflavík” til merkis um árangursríkt hlutverk flugbækistöðvarinnar og annarra liðssveita bandaríska varnarliðsins í kalda stríðinu. Flugvirkjanemar í Flugakademíu Keilis sjá um viðhald hennar.


Garður

Eggert Gíslason (1927-2015)
Eggert Gíslason Garði
Hann gerði Garðinn frægann
Eggert Gíslason skipstjóri

Eggert fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði. Foreldrar hans voru Gísli Árni Eggertsson skipstjóri og Hrefna Þorsteinsdóttir kona hans.
Eggert lauk fullnaðarprófi frá Gerðaskóla 1940 og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949.
Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964. Aflakóngur árið 1952 á Víði GK-510. Varð aflakóngur 1957 á Víði II og margfaldur aflakóngur í heimaverstöð og á landsvísu árin 1955-1959.
Eggert var frumkvöðull í notkun ýmissa tækninýjunga. Hann notaði dýptarmæli til að finna síldina og kastaði síðan nótinni eftir skrúfuvatninu. Þá varð Eggert fyrstur íslenskra skipstjóra til að ná verulegum árangri í notkun ASDIC-fiskileiktartækis, en með asdicinu var hið fullkomna fiskileitartæki komið til sögunnar. Þá var Eggert í hópi frumherja við notkun kraftblakka á síldveiðum.

Minnisvarðinn stendur við Byggðasafnið í Garði við Reykjanesvita


Magnús Magnússon (1915-1994)
Magnús Magnússon Bræðraborg

29. ágúst 2005

Til minningar um Magnús Magnússon Bræðraborg.
f. 29. ágúst 1915 – d. 26. 4. 1994.

Garður þessi er gefinn bæjarfélaginu Garði á 90 ára árstíð Magnúsar sem var mikill áhugamaður um ræktun og umhverfi.

Gefendur eru: Unnur Björk Gísladóttir og afkomendur þeirra hjóna.


Magnús Magnússon Bræðaborg


Minnisvarði til minningar um drukknaða sjómenn
Útskálakirkjugarður
Útskálakirkjugarður
Leiði óþekkta sjómannsins í Útskálakirkjugarði

Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör í Garðahreppi.
Lík þetta var þannig á sig komið að það var með öllu óþekkjanlegt.
Við kistulagningu atvikaðist það svo að ekki náðist til prests, en Þorlákur Benediktsson í Akurhúsum flutti þar hugnæma bæn.
Var líkið svo jarðsett í Útskálakirkjugarði og hefur leiði þess síðan verið leiði hins óþekkta sjómanns.
Þessi frásögn birtist í jólablaði Faxa árið 1960.


Þormóðsslysið 1943
Þormóðsslysið
Þormóðsslysið 18. febrúar 1943

Vélskipið Þormóður BA 291 frá Bíldudal fórst við Garðskaga 18. febrúar 1943 eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Með skipinu fórst þrjátíu og einn, tuttugu og fjórir farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn.

Skipverjar á Þormóði BA 291:

Gísli Guðmundsson, skipstjóri
Bárður Bjarnason, stýrimaður
Lárus Ágústsson, 1. vélstjóri
Jóhann Kr. Guðmundsson, 2. vélstjóri
Gunnlaugur Jóhannsson, matsveinn
Björn Pétursson, háseti
Ólafur Ögmundsson, háseti.

Farþegar úr Dalahreppi:

Benedikta Jensdóttir
Guðbjörg Elíasdóttir

Farþegar frá Patreksfirði:

Séra Þorsteinn Kristjánsson
Þórður Þorsteinsson

Farþegi frá Hvammstanga:

Guðmundur Pétursson

Farþegar frá Bíldudal

Ágúst Sigurðsson
Jakobína Pálsdóttir
Áslaug Jensdóttir
Bjarni Pétursson
Fjóla Ásgeirsdóttir
Gísli Kristjánsson
Séra Jón Jakobsson
Jón Þ. Jónsson
Karl Eiríksson
Kristján Guðmundsson
Indíana Jónsdóttir
Loftur Jónsson
Málfríður Jónsdóttir
Óskar Jónsson
Salóme Kristjánsdóttir
Þorkell Jónsson
Sigríður Eyjólfsdóttir
Bjarni 7 ára sonur Sigríðar og Þorkels
Þorvaldur Friðfinnsson

Þormóðsslysið

Minnisvarðinn er á Garðskaga, skammt frá vitanum og var afhjúpaður árið 2023.
Annar minnisvarði um Þormóðsslysið er á Bíldudal


Sandgerði

Jón Forseti RE 108
Jón forseti RE 108
28. febrúar 1928 strandaði togarinn Jón Forseti RE 108.

Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð sem er beint framunan Stafnesvita.
15 manns fórust og 10 menn björguðust við illan leik.
Strandið varð til þess að flýta stofnun Slysavarnafélags Íslands.
23. júní sama ár var Slysavarnasveitin Sigurvon stofnuð í Sandgerði og er hún elsa sveit innan SVFÍ.
Jón Forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.

Blessuð sé minning þeirra sem fórust í þessu slysi.

Minnisvarðinn stendur skammt frá Stafnesvita og var upphaflega afhjúpaður árið 2009. Við minnisvarðann eru 15 stórir steinar sem tákna þá 15 sem fórust við strandið.

Jón forseti

Skipinu á minnisvarðanum var stolið en nýr settur upp árið 2017. [RUV]


Minnisvarði um drukknaða sjómenn
Horfnir sjómenn Hvalnesi
Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll.
Þegar hendir sorg við sjóinn
syrgir tregar þjóðin öll.  J. Magnússon

Minnisvarðinn var reistur á Sjómannadaginn 1999  og stendur í Hvalsneskirkjugarði.
Varðinn er verk systkinanna Írisar Jónsdóttur og Þorsteins Jónssonar og var reistur að frumkvæði Axels Arndal Vilhjálmssonar, formanns sjómannadagsráðs Sandgerðis.

Minnisvarðinn stendur í Hvalsneskirkjugarði.


Álög – Minnisvarði um drukknaða
Horfnir sjómenn Sandgerði
Álög

Minnisvarði um drukknaða í Sandgerði. 
Minnisvarðinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1986 í tilefni af 100 ára afmæli Miðneshrepps. 
Þrjár rústfríar öldur tákna að hafið sé eilíft, en maðurinn er úr pottstáli og ryðgar, sem táknar að maðurinn sé forgengilegur.

Minnisvarðinn stendur við innaksturinn í Sandgerði


Grímsvarða
Grímsvarða
Grímsvarða endurreist 2014

Til minningar um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Vörðurnar voru tvær.

Grímsvarða við Sandgerðisveg hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hvergi sást til ljósa. [Vf]


Vatnsleysuströnd

Kúagerði
Kúagerði

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugamanna um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna, bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega.
Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði sem hlóð mannvirkið. [Ferlir.is]

Varðan stendur við Vatnsleysuvík í Kúagerði


Vogar

Íslands Hrafnistumenn
Horfnir sjómenn Vogar

Íslands Hrafnistumenn

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn selgprúði knörr,
eftir selgskipið vélknúin skreið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt –
eins og ætlunarverkið,
er sjómannsins beið.
 — Örn Arnarson

Verkið gerði Erlingur Jónsson 2009. [Texti á skildi].


Jón Daníelsson (1771-1865)
Jón Daníelsson Vogum
Aflraunasteinn 450 kg

Til minningar um Jón Daníelsson frá Stóru-Vogum f. 21. mars 1771 – d. 16.11.1865.
Sæmdur Dannebrogsorðunni 1848.

Hér var Egils afl og áræði
fræknleiki Gunnars, framsýn i Njáls
hyggni Snorra, lagvirkni Þórðar
Áskels friðsemi, ígrundum Mána.

Steinninn stendur nálægt höfninni í Vogum.

Sjá grein á Ferlir.is


Grindavík

Ingibjörg Jónsdóttir (1879-1969)
Ingibjörg Jónsdóttir Grindavík
Grindvíkingar reistu minnisvarðann til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur skólastjóra fyrir félags- og menningarstörf 1879-1969.

Ingibjargarstígur er til heiðurs Ingibjörgu Jónsdóttur, eins stofnanda og síðar formanns Kvenfélags Grindavíkur til áratuga og brautryðjanda í skógrækt í Grindavík. Hún hafði forgöngu um að tré yrðu gróðursett norðan við Þorbjörn. Hún gerði það eftir sextugsafmæli sitt en þá stofnuðu kvenfélagskonur í Grindavík sjóð henni til heiðurs og mátti hún ráðstafa honum að vild. Skógrækt varð fyrir valinu. Fyrstu trjáplönturnar gróðursetti Ingibjörg 29. maí 1957. Af því tilefni fór Ingbjörg með eftirfarandi erindi úr kvæði eftir Jónas Hallgrímsson:

,,Veit þá enginn að eyjan hvíta
á sér enn vor ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista
hlýða réttu, góðs að bíða?
Fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna.
Skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa, en þessu trúið!”

Ingibjörg Jónsdóttir - Grindavík

,,Voru 1200 plöntur gróðursettar næstu daga; birki, greni og bergfura. Margir unnu að þessari fyrstu gróðursetningu, konur karlar og börn” segir meðal annars í Sögu Grindavíkur. Ingibjörg nefndi skóginn Selskóg, en gamlar seltóftir voru á svæðinu. Síðan þá hefur skógurinn vaxið og dafnað enda hafa skólabörn sett þar niður trjáplöntur í gegnum árin. Nú er þar myndarlegur skógur og fallegt útivistarsvæði. Í Selskógi er minnisvarði um Ingibjörgu. [Texti á skilti í Selskógi]


Oddur V. Gíslason (1836-1911)
Oddur V. Gíslason
Oddur V. Gíslason
Fæddur 8.4.1936

Kvæntist Önnu Vilhjálmsdóttur úr Kotvogi í Höfnum 31.12.1870.
Lauk embættisprófi í guðfræði 1860.

Fyrst prestur að Lundi í Borgarfirði 1875-1878.
Sóknarprestur að Stað í Grindavík og Höfnum 1878-1894.
Fluttist þá til Vesturheims og andaðist þar 10.1.1911.
Hann var hugsjóna- og framkvæmdamaður, brautryðjandi um slysavarnir á Íslandi. 
Lagði grunninn að barnafræðslunni í Grindavík árið 1889. [Texti á minnisvarðanum].

Minnismerkið er reist af söfnuðunum í Grindavík og Höfnum ásamt ættingjum og
Slysavarnarfélagi Íslands árið 1990. 

Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík og er eftir Gest Þorgrímsson (1990).


Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)
Sigvaldi Kaldalóns
Sigvaldi Kaldalóns, læknir og tónskáld
f. 13.1.1881 – d. 28.7.1946.

Bjó og starfaði í Grindavík 1929-1945 og samdi þar mörg sín þekktustu sönglög

Sigvaldi Kaldalóns

Minnisvarðinn stendur við Kvennó, Kvenfélagshúsið í Grindavík.
Aðrir minnisvarðar um Sigvalda Kaldalóns eru í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp, í Reykjavík og í Flatey á Breiðafirði.


Minnisvarði um týnda menn
Minnisvarði um týnda Grindavík

,,Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað, muni geta gert oss viðskilja við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú drottni vorum. Róm 8:38-39.” 

Á minnisvarðann eru festir skildir með nöfnum þeirra sem týnst hafa.
Minnisvarðann reistu samtök sjómanna og útvegsmanna í Grindavík á Sjómannadaginn 10. júní 1990 og stendur hann í kirkjugarðinum á Stað. 
[Letrað á minnisvarðann].


Minnisvarði um drukknaða
Um drukknaða
Vonin

Minnisvarði um drukknaða menn í Grindavík.

,,Í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera”.  Jes 30.15.

Um drukknaða Grindavík

Vonin er listaverk sem stendur á háum stalli í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík. Ragnar Kjartansson (1923-1988), myndhöggvari og leirlistamaður, vann listaverkið fyrir kvenfélag Grindavíkur og var það steypt í brons í London 1979.

Kvenfélagið í Grindavík hóf söfnun fyrir verkinu 1952 en tilefni hennar var hörmulegt sjóslys það ár þegar bátur fórst með fimm mönnum við Hópsnes. Ragnar lagði fram þrjár tillögur að listaverkinu á sínum tíma og voru þær sýndar í Félagsheimilinu Festi á sjómannadaginn 1977. Ein þeirra var valin og það er sú sem styttan sýnir. Grindvíkingar voru mjög ánægðir með verkið.

Listaverkið er helgað minningu drukknaðra í Grindavík.

Verk Ragnars er kröftugt og reisulegt. Það talar mjög skýrt til þess er virðir það fyrir sér. Yfir því er kyrrð og festa, þolgæði og æðruleysi. Tregafull andlit en þó er vonin enn til staðar því horft er fram. Sjómannskona einbeitt og alvörufull á svip með barn í fangi og annað sér við hlið. Hún horfir til hafs og við hægri hlið hennar er bjarghringur sem hún heldur um. Stúlkubarnið í fangi móðurinnar horfir öruggum augum til himins en drengurinn starir fram harmi lostinn og heldur á vænum fiski í vinstri hönd.

Vonin hefur ekki látið undan.

Í þolinmæði og trausti liggur styrkur Grindvíkinga. [Hreinn S. Hákonarson, Kirkjubladid.is]

Minnisvarðinn er eftir Ragnar Kjartansson og gerður árin 1978-79 og stendur í Járngerðarstaðahverfi í Grindavík.


Tyrkjaránið
Tyrkjaránið

Árásin á Grindavík

Í júní mánuði á því herrans árið 1627 lá dönsk kaupmannsdugga í höfn í Grindavík og verslun var í fullum gangi. Bar þá svo við að óvænt birtist þar annað skip, sýnu stærra. Af því komu í heimsókn í dugguna menn sem mæltu á þýska tungu og sögðust vera menn Danakonungs og í birgðaleit. Ekki brást kaupmaður vel við því og fóru þeir þýðversku aftur til skips síns.
Nokkrir Grindvíkingar réru út í hið stærra skipið fyrir forvitni sakir en þegar um borð kom blasti við hópur manna, klæddir litskrúðugum fötum, þeldökkir flestir og gráir fyrir járnum.
Heimamönnum varð fljótt ljóst að Hund-Tyrkinn frá Afríkuströndum var kominn og það ekki í neinni kurteisisheimsókn. Aðkomumenn sendu bát að duggunni og létu þar greipar sópa áður en þeir héldu í land og fóru um plássið eins og logi yfir akur.
Á bænum Járngerðarstöðum beið húsfreyjan með öðrum milli vonar og ótta eftir heimsókn sjóræningjanna Sumir heimamanna földu eigur sínar eða leituðu í fylgsni en húsfreyjan beið þess sem verða vildi. Vágestirnir rændu bæinn og hófu svo að reka fólkið til strandar. Húsfreyja sýndi mikinn mótþróa en var tekin og borin af stað. Bræður hennar þrír reyndu að koma henni til hjálpar en þeim var öllum misþyrmt illa. 
Erlendu hrottarnir héldu svo til skips með bæði ránsfeng sinn og fólk það sem þeir höfðu hertekið. Tveimur mönnum var snúið aftur til lands fyrir aldurs sakir en 15 manna hópur var hrakinn niður í lestar skipsins.
Að því búnu hugðust illmennin halda burt en sáu þá til ferða annars danks kaupfars. Þeir sýndu á ný klækindi sín með því að draga að húni danska hornveifu sem þeir höfðu rænt í landi.
Þannig ginntu þeir skipið til sín og reyndist þeim auðvelt að hremma þessa nýju bráð, bæði farm og áhöfn.
Grindvíkingar urðu illa fyrir barðinu á þessum ránsmönnum en komu þó skilaboðum til annarra byggðarlaga sem reyndu af veikum mætti að búa sig undir komu vágestanna. Þeir fundir fóru ýmislega en sú saga verður ekki rakin hér frekar.
Í Grindavík hefur síðan gengið sú munnmælasaga að þar sem ræningjarnir og heimamenn börðust og blóð þeirra blandast hafi sprottið upp þyrnijurt. Þessa jurt má enn þann dag í dag finna á þrem stöðum í Grindavík.

Matthías Kristensen tók saman á grundvelli bókar Jóns Helasonar um Tyrkjaránið, sem Setberg gaf út 1963.

Þessi steindi gluggi stendur við hlið Grindavíkurkirkju.


Kolbeinn Grímsson (1927-2006)
Kolbeinn Grímsson
Kolbeinn Grímsson
1927-2006
Ertu að fá hann?


Við Hlíðarvatn í Selvogi hafa menn löngum veitt silung á stöng. Einn af þessum veiðimönnum var Kolbeinn Grímsson. Hann veiddi gjarnan á flugu, sem hann hnýtti sjálfur og kallaði peacock, á veiðistað sem kallaður er Innranef við norðurströnd Hlíðarvatns.

Sagan segir að ef einhver var við veiðar á veiðistaðnum á Innranefi þá settist Kolbeinn á stein við ströndina og ávarpaði veiðimanninn: ,,Eru að fá’an?”
Þegar veiðimaðurinn gafst upp á veiðum á þessum stað hnýtti Kolbeinn fluguna peacock á tauminn og hóf veiðar og leið ekki á löngu þangað til fiskurinn tók.

Á þessum steini er nú skjöldur með nafni Kolbeins og áletruninni Ertu að fá hann?

Kolbeinn Grímsson lést árið 2006. Stefán Hjaltested lét gera minningarskjöld
um Kolbein. Skildinum var komið fyrir á Innranefi og snýr hann út að Urðarvík.

Kolbeinn Grímsson

B24 – Liberator – Hot Stuff
Hot Stuff við Grindavíkurveg

Bandaríska B-24 Liberator –  sprengjuflugvélin Hot Stuff, var fyrst flugvéla 8. flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari. Áhöfnin fékk fyrirmæli um að snúa flugvélinni heim til Bandaríkjanna vorið 1943 þar sem fara skyldi sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.
Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprengjudeildar, að fá far með Robert ,,Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Methodistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprengjuflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.
Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgni 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Skotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar komið var upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu. Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og splundraðist.
Við slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið. [Skilti]

Minnisvarði þessi er reistur í minningu bandarískra hermanna sem fórust með B-24 Liberator – sprengjuflugvélinni Hot Stuff í Fagradalsfjalli 3. maí 1943

Lt. General Frank Maxwell Andrews 
Commander of the European Theatre of Operations

Capt. Robert H. Shannon –  Pilot
Lt.Gen. Frank M. Andrews – Copilot
Capt. James E. Gott – Navigator
Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator
Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief
Sgt. Paul H. McQueen – Gunner

Passengers – Farþegar:
Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains
Brig.Gen. Charles H. Barth – Andrews Chief of Staff
Col. Morrow Krum – Andrews Aide
Col., Frank L. Miller – U.S. Army Chief of Chaplains
Lt. Col. Fred A. Chapman – Andrews Aide
Maj. Theodore Totman – Andrews Secretary
Maj. Robert H. Humphrey – U.S. Army Chaplain
Capt. Joseph T. Johnson – Andrews Aide

Surviving Crewmember:
Sgt. George A. Eisel – Tail Gunner.

Dedicated May 3, 2018
Through their effort, an idea became reality.
Þorsteinn Marteinsson – Keflavík, Iceland
Ólafur Marteinsson – Reykjavik, Iceland
James C. Lux – Austin, Texas, U.S.A.

Minnisvarðinn var upphaflega reistur við Grindavíkurveg, en var síðar færður og stendur nú í hlíðinni við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

Hot Stuff við Grindavíkurveg
Hot stuff

Gert 29. okt. 2024