Patreksfjörður

Patreksfjörður og nágrenni

Guðrún Valdadóttir d. 1754
Guðrún Valdadóttir Patgreksfirði

Í minningu Guðrúnar Valdadóttur sem drekkt var í Mikladalsá árið 1754.

Ó, vei þeim sem með órétt lög
umgangast og þau tíðka mjög,
sannleiknum meta sitt gagn meir.
Svívirðing drottni gjöra þeir.  [H.P.]

Kvenfélagið Sif reisti steininn árið 2007.

Guðrún Valdadóttir var ráðskona hjá Sigurði bónda á Geirseyri, sem þá var ekkjumaður. Með honum átti hún barn, en hafði áður eignast barn sem sagt var barn sonar Sigurðar, en Sigurður hafði gengist við barninu þó á endanum sannaðist að annar maður ætti. Samkvæmt Stóradómi lá dauðarefsing við að falla með feðgum. Sýslumaður sá er stuðlaði að málarekstrinum andaðist á meðan á honum stóð. Nýr sýslumaður kynnti sér málavöxtu og sá að fólkið var saklaust. Reyndi hann með bréfaskiptum við konung að fá uppkveðnum dauðadómi hnekkt án árangurs.

Saga um aftökuna er í bókinni Þjóðsögur og þættir sem Einar Guðmundsson tók saman. Einnig er þessi atburður baksvið bókar Arnaldar Indriðasonar, Sigurverkið, sem kom út árið 2021.

Guðrún Valdadóttir Patreksfirði

Snjóflóð á Patreksfirði 1983
Snjóflóð Patreksfirði
Til minningar um þá er fórust í snjóflóðunum
þann 22. janúar 1983

Valgerður Jónsdóttir
f. 23.1.1906

Sigurbjörg Sigurðardóttir
f. 13.8.1924

Marteinn Ó Pétursson
f. 9.12.1941

Sigrún Guðbandsdóttir
f. 3.12.1976

Snjóflóð

Minnisvarði um franska sjómenn
Franskir sjómenn Patreksfirði

Minnismerki til heiðurs frönsku fiskimönnunum sem um aldir veiddu þorsk við Ísland var afhjúpað á sjómannadaginn, 2. júní 2002, á Patreksfirði. Að því stóðu afkomendur þessara fiskimanna í bæjunum Binic og þar um kring á Bretagne-skaga undir forustu Jean Pols Dumond le Douarec. Myndhöggarinn Patrick Henry Stein hafði með aðstoðarmanni sínum unnið minnismerkið í stein á Patreksfirði. Sendiherra Frakka, M.L. Bardollet, afhjúpaði listaverkið.

Minnismerkið er unnið í tveggja metra háan íslenskan basaltstein og táknar skipsstefni er snýr að sjónum. Listamaðurinn Patrick Henry Stein dvaldi í 10 daga á Patreksfirði og vann það þar með aðstoðarmanni sínum Ciril Michau. Listamaðurinn er þekktur í Frakklandi, hefur þar hlotið ýmis verðlaun auk alþjóðlegra viðurkenninga í Kína, Finnlandi, Kanada og Alaska. Við afhjúpunina lýsti J.P. Dumond hugmyndinni á þá leið að þarna mætti greina stefni á brunandi skipi á öldum er endaði í konumynd, en full segl blöktu að baki. Hluti verksins, aðskilið og hærra, er mastur úr ryðfríum málmi og úr því tengd stög eins og á seglabúnað. Verkið nefndi hann Les Goelettes Blanches, þ.e. Hvítu góletturnar, einkennisskip Íslandsveiðanna, en Jean Pol veitir forustu félagsskap með því nafni, sem stóð fyrir minnismerkinu.

Í upphafi athafnarinnar var í stöðulinn múrað flöskuskeyti með upplýsingum um þá sem að stóðu, lögðu í söfnun fram fé og með nöfnum þeirra 14 frönsku skútusjómanna sem vitað er að hlutu gröf á Patreksfirði og þar í nánd. Af þessu tilefni voru komnir til Patreksfjarðar 18 Frakkar. [Mbl. 20.6.2002]

Farnskir sjómenn Patreksfirði

Sálumessa breskra fiskimanna
Breskir sjómenn Patreksfirði

Minnisvarði um sjósókn breskra sjómanna á Íslandsmiðum og þá sem fórust við Íslandsstrendur var afhjúpaður á Patreksfirði 30 maí 1998. Minnisvarðinn heitir “Sálumessa breskra fiskimanna” og er eftir Jón Sigurpálsson myndlistarmann á Ísafirði. Minnisvarðinn er gefinn af íbúum og borgarstjórnum Aberdeen í Skotlandi og Grimsby og Hull í Englandi.

Sjávarútvegsráðherra Breta Elliot Morley afhjúpaði minnisvarðann, en meðal annarra gesta sem viðstaddir voru afhjúpunina voru James McCulloch sendiherra Breta á Íslandi, fulltrúar borgarstjórna Aberdeen, Grimsby og Hull og ættingjar sjómanna sem drukknuðu við Íslandsstrendur auk manna sem stunduðu sjó við Ísland frá Grimbsy og Hull.

Athöfnin hófst með stuttri helgistund í Patreksfjarðarkirkju. Að henni lokinni lögðu sjávarútvegsráðherra Breta og breski sendiherrann blómsveiga að gröfum breskra sjómanna sem jarðsettir eru í kirkjugarðinum á Patreksfirði. Að því búnu var haldið að minnisvarðanum, þar sem hann var afhjúpaður af sjávarútvegsráðherra Breta. Hann hélt stutta ræðu þar sem hann lýsti ánægju sinni með minnismerkið, og hve vel það túlkaði tengslin milli þjóðanna og nálægð sjómanna við náttúruöflin. Hann benti á að verkið legði áherslu á þá hörðu baráttu stáls og steins, sem á sér stað við skipsstrand. Þar sem minnismerkið hefur krosslögun, undirstrikar það þá trú sem bærist í flestum og kemur kannski hvað sterkust fram þegar maðurinn lendir í lífsháska. James McCulloch, breski sendiherrann, las 23. Davíðssálm og sr. Hannes Björnsson sóknarprestur blessaði minnisvarðann.

Borgarfulltrúar frá Grimsby, Hull, Aberdeen og fleiri aðilar lögðu að því búnu blóm að minnismerkinu. Það voru bæði íslenskir aðilar sem tengjast togaraútgerð Breta við Íslandsmið og eins aðilar sem komu frá Bretlandi gagngert til að verða viðstaddir afhjúpunina. Höfundi verksins voru færðar þakkir fyrir góða og fallega hönnun, og gestgjöfunum voru færðar gjafir og þakkir fyrir hlýlegar móttökur og ánægjulega samverustund. [Mbl. 5.6.1998]

Breskir sjómenn Patreksfirði

Sjómannadagurinn 1995
Minnisvarði um drukknaða Patreksfirði

Þetta minnismerki er reist til heiðurs öllum þeim sem hafa átt og eiga leið um fjörðinn okkar og draga björg í bú.

Þeir sem hurfu
í djúpin
hvíla ekki þar
heldur í
brjóstum
ástvina sinna. 
[Jón úr Vör]

Minnisvarðinn stendur við höfnina á Vatneyri á Patreksfirði

Minnisvarði um drukknaða Patreksfirði

Hólagarður
Hólagarður Patreksfirði

Hólagarður

Garður þessi var unninn af félögum í SVFÍ Unni, Kvenfélaginu Sif og Lionsklúbbi Pareksfjarðar árið 1985 að frumkvæði Hafsteins Davíðssonar rafveitustjóra á Patreksfirði.

Hólagarður Patreksfirði

Björn Halldórsson (1724-1794) í Sauðlauksdal
Sauðlauksdalur

Björn Halldórsson (1724-1794) í Sauðlauksdal

Barðstrendingafélagið gekkst fyrir að minnisvarðinn var reistur á 200. ártíð Sr. Björns, í samvinnu við Vesturbyggð, Héraðsnefnd Barðstrendinga, Búnaðarfélag Íslands, Landgræðslu ríkisins, Garðyrkjufélag Íslands, Prestafélag Íslands.

Minnisvarðinn var reistur árið 1994 og stendur í Arnbjörgu, matjurtagarði Björns í Sauðlauksdal

Sauðlauksdalur

Björgunarafrek við Látrabjarg
Björgunarmenn Hnjótur
Björgunarafrek

Ríkisstjórn Íslands lét reisa þennan minnisvarða 1998 til að minnast afreka íslenskra björgunarmanna við björgun innlendra og erlendra sjómanna úr sjávarháska og til minningar um þá sem ekki varð bjargað. Minnisvarðinn var afhjúpaður af Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra þann 3. október 1998. Varðann gerði Bjarni Jónsson myndhöggvari.

Umhverfis minnisvarðann eru minningarskildir á steinum um skip sem fórust við Látrabjarg og sunnanverða Vestfirði og áhafnir sem bjargað var, öllum eða að hluta. Skipin eru: Óþekkti togarinn (1918) áhöfnin fórst; British Empire (1913) mannbjörg; Groupier (1921) 12 fórust; Euripides (1921) 3 fórust; Jeria (1935) 13 fórust; Dhoon (1947) 3 fórust; Sargon (1948) 11 fórust.

,,Á þessum ströndum mættust líf og dauði og örlög manna af ólíkum þjóðernum fléttuðust saman.

Hugrakkir menn buðu náttúruöflunum byrgin og hættu lífi sínu til að bjarga lífi annarra og aðrir íbúar lögðu sitt af mörkum til að hlynna að skipbrotsmönnum og koma þeim heilum á húfi í faðm ástvina.
Slysavarnarfélag Íslands þakkar Björgunarsveitinni Bræðrabandinu, Rauðasandshreppi.”

Minnisvarðinn er á Hnjóti í Örlygshöfn

Hnjótur
Örlygshöfn

Egill Ólafsson (1925-1999)
Egill Ólafsson Hnjóti

Egill Ólafsson á Hnjóti

Egill á Hnjóti stofnaði Flugminja- og Minjasafn Egils Ólafssonar og stjórnaði þeim til dauðadags. Egill fékk fálkaorðuna árið 1989 fyrir varðveislu menningarverðmæta.

Minisvarðinn stendur við Minjasafnið á Hnjóti


Örlygur Hrappsson
Örlygur Hrappsson

Örlygur Hrappsson hafði með sér kirkjuvið, járnklukku, Plenarium (biblíutextabók) og mold vígða á leið til Íslands. Hann fékk útivist harða. ,,Þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land ….
Þeir tóku land þar sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð.”  (Landnáma.)

Steinninn sem Egill Ólafsson fann að Hnjóti taldi hann vera festarhald Örlygs Hrappssonar. Hugmynd Egils útfærð af Bjarna Jónssyni listmálara. 

Örlygur Hrappsson Hnjóti

Minnisvarðinn er í hlaðinu á Hnjóti í Örlygshöfn.


Flugvél C-117
Flugvél

Flugvél tegund C-117  Skrásetningarnr. 17191

C-117 er herflugvélargerð af þeirri frægu flugvél Douglas DC-3 sem varf fyrst framleidd 1935. Flugvélin hérna var smíðuð árið 1944.

Á 33 ára tímabili í þjónustu flota og landgönguliðs Bandaríkja Norður-Ameríku var henni flogið um meginland Norður-Ameríku, Atlantshaf- og Kyrrahafssvæði, allt frá Suður-Heimskautssvæðinu til norðurhafa. Vélin kom til Íslands 1973. C-117 voru mest notaðar hér til vöru- og fólksflutninga milli stöðvanna í Keflavík og á Stokksnesi Höfn í Hornafirði. Þær áttu þátt í neyðarflutningum frá Vestmannaeyjum í eldgosinu.

Þessi C-117 skrásetn. nr. 17191 lauk þjónustuhlutverki sínu fyrir flotann 29. apríl 1977. Flugtíminn varð meiri en 20.000 klukkustundir.

Minnismerkið var reist 1978 á minningardegi Bandaríkjanna um fallna hermenn til heiðurs þeim mönnum flota- og landgönguliðs Bandaríkjanna Norður-Ameríku sem gegnt hafa herþjónustu á Íslandi.

Flugvél Hnjóti

Egill Árnason (1860-1932) – Jónína Helga Gísladóttir (1862-1930)
Sjöundá
Sjöundá

Síðustu ábúendur til ársins 1921 voru hjónin Egill Árnason og Jónína Helga Gísladóttir.
Gjört 1999 – Afkomendur 

Gunnar Gunnarsson rithöfundur gerði staðinn frægan í bók sinni um morðin á Sjöundá, Svartfugl.

Skiltið er á rústum Sjöundár á Rauðasandi

Sjöundá

Guðmundur B. Ólafsson (1889-1926) – Haraldur Ólafsson (1893-1926)
Guðmundur B. Ólafsson Breiðavík

Til minningar um bræðurna

Guðmund Bjarna Ólafsson, f. 23.12.1889 og
Harald Ólafsson, f. 29.4.1893 frá Breiðavík.
Drukknuðu við Vestmannaeyjar 9.1.1926

Minnisvarðinn stendur í Breiðavík

Guðmundur B. Ólafsson Breiðuvík

Gert 12.4.2025