Álftafjörður – Súðavík
Minnisvarði um Álftfirðinga sem hvíla í votri gröf

Frá aldamótunum 1900 til 2018 fórust tólf bátar frá Súðavík. Þrír af þessum bátum fórust á árunum 1967, 1968 og 1969. Tveir þessara báta fórust með allri áhöfn, með minna en eins árs millibili, en áhöfn eins báts bjargaðist. Frá aldamótunum 1900 til 2018 hafa 43 menn frá Álftafirði farist á sjó, ýmist með skipum frá Súðavík eða öðrum verstöðvum. Á þessum tíma bjuggu að meðaltali færri en 300 manns í Súðavík. Hvert sjóslys var því mikið og þungt áfall fyrir þorpið.
Sigríður Sigurgeirsdóttir, sem missti eiginmann sinn og son þegar Freyja fórst 1967, hafði frumkvæðið að því að reistur yrði minnisvarði í Súðavík um þá sem farist hafa á sjó.
Hönnuður minnisvarðans er Guðmundur Lúðvík Grétarsson og svona skýrir hann verkið:
Minnisvarðinn er hendur sem reyna að halda vatni og ætlað sýna þá nánu tengingu sem er milli sjómanns og náttúruaflana. Hendurnar eru hlutlausar og tákn fyrir manneskjuna, á meðan vatnið er tákn náttúruaflana – hafsins. Þegar sjómenn sigla út á haf, þá leggja þeir líf sitt í hendur náttúruöflunum, eru á valdi náttúrunnar. [Skilti við minnisvarðann]
Minnisvarðinn stendur við Súðavíkurkirkju.

Minningarlundur um fórnarlömb snjóflóðs 1995

Þessi minningarlundur er tileinkaður þeim er fórust í snjóflóðinu í Súðavík 16. janúar 1995.
Eigi stjörnum ofar
á ég þig að finna
meðal bræðra minna
mín þú leitar Guð. S.E.
Minnisvarðinn stendur í rás snjóflóðsins í Súðavík. Minningarsteinar með nöfnum þeirra sem fórust eru í lundinum.

Vestfirskar landnámskonur

Samband vestfirskra kvenna lét reisa þennan minnisvarða árið 1980
til heiðurs vestfirskum landnámskonum

Minnisvarðinn stendur við minni Álftafjarðar við Ísafjarðardjúp
Gert 11.4.2025

