Vigur

Minnisvarðar á Vestfjörðum

Súðavík Ísafjörður Hnífsdalur BolungarvíkSúgandafjörðurÖnundarfjörður DýrafjörðurArnarfjörður Patreksfjörður Barðaströnd

Vestfirðir

Barnaskólinn á Látrum í Aðalvík
Aðalvík

Barnaskólinn á Látrum 1899-1999

Hér stóð Barnaskólinn á Látrum. Guðmundur Sigurðsson og fleiri stofnuðu framfarafélagið Æskuna árið 1898. Haustið 1899 gaf félagið hreppnum skuldlaust skólahús því allt efni og vinna var gefin. Pálmi Jónsson í Reykjavík gaf allan við í grind hússins. Smiður var Friðfinnur Kjærnested, sem gaf vinnu sína. Heimangönguskóli hófst 1899 og stóð til ársins 1946. Við skólann störfuðu lærðir kennarar. Guðmundur Sigurðsson var kennari og kenndi fyrstu árin. [Texti á skildi].

Minnisvarðinn stendur á Látrum í Aðalvík.


Sigurður Bjarnason frá Vigur (1915-2012)
Sigurður Bjarnason frá Vigur

Sigurður Bjarnason frá Vigur
Alþingismaður Norður-Ísfirðinga 1942-1959, Vestfirðinga 1963-1970.

Stúdentspróf MA 1936. Lögfræðipróf HÍ 1941. Framhaldsnám í Cambridge í Englandi 1945.

Blaðamaður og ritstjóri í Reykjavík 1941–1969. Skip. 1970 sendiherra í Danmörku, Írlandi og Tyrklandi og 1973 sendiherra í Kína. Skipaður 1976 sendiherra í Englandi, Hollandi og Nígeríu. Starfaði í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík 1982–1985, var sendiherra á Kýpur frá 1983 og í Túnis og Indlandi frá 1984 með aðsetur í Reykjavík.

Forseti bæjarstjórnar Ísafjarðar 1946–1950. Stjórnarformaður menningarsjóðs blaðamanna 1946–1962. Skipaður 1947 í undirbúningsnefnd löggjafar um þjóðleikhús. Í útvarpsráði 1947–1970, formaður þess 1959. Skipaður 1951 í endurskoðunarnefnd laga um skipun prestakalla og endurskoðunarnefnd íþróttalaga. Í Norðurlandaráði 1953–1959 og 1963–1970, formaður Íslandsdeildar og einn af forsetum ráðsins 1953–1956, 1958–1959 og 1963–1970. Kosinn 1956 í milliliðagróðanefnd. Formaður Blaðamannafélags Íslands 1957–1958 og formaður Norræna blaðamannasambandsins sömu ár. Í Þingvallanefnd 1957–1970 og í úthlutunarnefnd atvinnuaukningarfjár 1959–1960. Í úthlutunarnefnd listamannalauna 1961–1966. Í stjórn Atvinnubótasjóðs, síðar Atvinnujöfnunarsjóðs 1962–1970. Skip. 1962 í nefnd til að gera tillögur um framtíðarskipan ferðamála á Íslandi og 1966 í endurskoðunarnefnd hafnalaga. Kosinn 1966 í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis. Skipaður 1968 í endurskoðunarnefnd laga um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1960–1962. Formaður Norræna félagsins 1965–1970.

Alþingismaður Norður-Ísfirðinga 1942–1959, alþingismaður Vestfirðinga 1963–1970 (Sjálfstæðisflokkurinn).

Varaþingmaður Vestfirðinga febrúar— júní og desember 1960, janúar–febrúar og febrúar 1961, mars–apríl 1962 og febrúar–mars 1963, landskjörinn varaþingmaður (Vestfirðinga) október–nóvember 1962, apríl 1963.

Forseti neðri deildar 1949–1956 og 1963–1970. 2. varaforseti neðri deildar 1946–1949, 1. varaforseti efri deildar 1959.

Ritstjóri: Vesturland (1942–1959). Morgunblaðið (1947–1969). Stefnir (1950–1954). Ísafold og Vörður (1953–1968). [Alþ.]

Reist af vinum við Ísafjarðardjúp. Minnisvarðinn stendur í Vigur. Höfundur Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari.


Sigvaldi Kaldalóns (1881-1946)
Sigvaldi Kaldalóns Kaldalóni

Sigvaldi Kaldalóns (Stefánsson) (13. janúar 1881- 28. júlí 1946) var íslenskt tónskáld og læknir.
Sigvaldi nam læknisfræði við Læknaskólann í Reykjavík og hélt að því loknu í framhaldsnám til Kaupmannahafnar. Þar kynnti hann sér danska og erlenda tónlist. Í Kaupmannahöfn kynntist hann einnig verðandi eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen. Þegar heim kom starfaði hann vetrarlangt sem læknir á Hólmavík en fékk síðan veitingu fyrir læknishéraði við Inn-Djúpið og bústað á Ármúla í Nauteyrarhreppi nálægt Kaldalóni vorið 1911. Hann hreifst mjög af náttúrunni þar í kring og tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns árið 1916. Frostaveturinn mikla 1917-18 veiktist Sigvaldi af taugaveiki og náði sér aldrei fyllilega eftir það. Hann fluttist frá Ármúla 1921. Hann dvaldist á Vífilstaðahæli og fór síðan utan til Kaupmannahafnar á heilsuhæli. Þegar honum hafði batnað sótti hann um Flateyjarhérað árið 1926 og var veitt það. Þar samdi hann lagið við ljóð Eggerts Ólafssonar, Ísland ögrum skorið og þar söng Eggert Stefánsson óperusöngvari, bróðir hans það fyrst opinberlega. Í Flatey var hann þar til hann fluttist í Keflavíkurhérað. Sigvaldi var læknir við héraðslæknisembættið í Keflavík árin 1929-45, búsettur í Grindavík. Dvöl hans þar hefur verið líkt við ..menningarlega vígslu” í héraðinu. Þar dvöldu löngum hjá honum eða í návist hans þjóðkunnir listamenn eins og Gunnlaugur Scheving, Halldór Laxness, Ríkarður Jónsson, Steinn Steinarr o.fl.

Sigvaldi Kaldalóns var yfirleitt mjög hógvær í garð laga sinna en um Ísland ögrum skorið, sem er eitt þekktasta lag hans, sagði hann þó að það ætti e.t.v. eftir að verða þjóðsöngur Íslands. Meðal annara þekktustu laga hans sem allir landsmenn þekkja má nefna: Ave maria, Fjallið eina, Hamraborgin, Kirkjan ómar öll, Nóttin var sú ágæt ein, Á Sprengisandi, Suðurnesjamenn, Svanasöngur á heiði. [Wikipedia]

Minnisvarði um Sigvalda er við Menningarmiðstöð Grindavíkur en Sigvaldi bjó og starfaði í Grindavík í 16 ár frá 1929 -1945. Einnig eru minnisvarðar um Sigvalda í Reykjavík og í Flatey. Hann er eitthvert ástsælasta tónskáld Íslendinga.

Ég leit í anda liðna tíð.
Minnisvarði um Sigvalda S. Kaldalóns eftir Pál Guðmundsson Húsafelli (1990).

Sigvaldi Kaldalóns Kaldalóni
Sigvaldi Kaldalóns Kaldalóni

Minnisvarðinn stendur í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp. Aðrir minnisvarðar um Sigvalda Kaldalóns eru í Reykjavík, Flatey á Breiðafirði og í Grindavík.


Sumarliði Brandsson (1881-1920)
Sumarliði Brandsson
Slys við Núpinn

Að kvöldi 17. desember 1920, í byl og náttmyrkri,
féll Sumarliði Brandsson landpóstur hér fram af Núpnum
ásamt hesti sínum Sörla.
Daginn eftir fannst lík hans niðri í fjöru ásamt hræi hestsins.
Snjóflóð féll þá í fjörunni á fjóra leitarmenn
og hreif þá, ásamt líki Sumarliða og hræi hestsins, á haf út.

 Þrír leitarmenn drukknuðu:
Guðmundur Helgi Jósefsson, Bjarni Halldór Bjarnason og Pétur Pétursson.
Lík þeirra fundust, en lík Sumarliða aldrei.

Blessuð sé minning þeirra.

Sumarliði Brandsson

Á myndinni er Bragi Hannibalsson sem var hvatamaður að því að minningarplata var sett á steina ofan við Stofuhlíð á Bjarnarnúpi (Vébjarnarnúpi) þar sem slysið varð. (Árbók FÍ 2017, bls. 231.)

Myndir: Bragi Hannibalsson


Kristín Hálfdánardóttir 1896-1951 – Sveinbjörn Rögnvaldsson 1886-1975
Uppsalir í Seyðisfirði vestra

Hér á Uppsölum bjuggu heiðurshjónin
Kristín Hálfdánardóttir
f. 22.11.1896 – d. 2.1.1951
Sveinbjörn Rögnvaldsson
f. 15.9.1896 – d. 28.3.1975

Blessuð sé minning þeirra.

Minnisvarðinn stendur við bæjarstæði Uppsala í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi

Uppsalir í Seyðísfiri vestra

Gert 12.4.2025