Vestfirðir – Ísafjörður – Hnífsdalur – Bolungarvík – Súgandafjörður
Skipalestin QP-13

Til minningar um sjómenn úr skipalestinni QP-13 sem fórst við Íslandsstrendur 5. júlí 1942.
Til minningar um þá nærri 240 karla, konur og börn sem fórust norður af Straumnesi 5. júlí 1942 í mesta sjóslysi við Íslandsstrendur er 19 skip úr skipalestinni QP-13 á leið frá Murmansk í Rússlandi til Hvalfjarðar villtust af leið í slæmu veðri og litlu skyggni og sigldu inn í tundurduflabelti sem lagt hafði verið til varnar þýskum herskipum.
Skipin sem fórust voru breska herskipið HMS Niger og flutningaskipin Heffron, Hybert, Massmar, og John Randolph frá Bandaríkjunum og Rodina frá Rússlandi. Bandaríska flutningaskipið Exterminator laskaðist en náði til hafnar í Hvalfirði af eigin rammleik. Flök skipanna liggja á rúmlega 70 m dýpi um 53 km héðan.
Slysið markaði jafnframt eitt mesta björgunarafrek Íslandssögunnar er 260 manns var bjargað úr sjónum við mjög erfiðar og hættulegar aðstæður um borð í fylgdarskipin St. Elstan, Lady Madelaine og Roselys. Áhöfn franska herskipsins Roselys vann það einstæða afrek að bjarga 179 manns.
Motorbáturinn Vébjörn ÍS-14 sem lá inni á Aðalvík hélt einnig til aðstoðar á slysstað þrátt fyrir mikla hættu en fann engan á lífi.
Minnisvarðinn stendur í Neðstakaupstað á Ísafirði



Réttarholtskirkjugarður í Engidal

Minningarreitur í Réttarholtskirkjugarði í Engidal, Ísafirði
,,Það er gríðarlega mikilvægt fyrir aðstandendur að eiga einhvern stað til
að koma á og minnast ástvina sinna og geta lagt þar blóm eða kveikt á
kerti. Áður var þetta þannig að margir lögðu leið sína að styttu nokkurri
við eina af aðalgötum bæjarins, en hún hafði verið reist til minningar
um sjómenn, og var fólk gjarna að leggja þar blóm og annað til að
minnast ástvina sinna. Slíkur staður, við fjölfarna götu, hentar þó ekki
í þessum tilgangi og hefur nýi minningarreiturinn uppfyllt þessa þörf á
nýjan og betri hátt.” (Magnús Erlingsson sóknarprestur) [Ketill Kristinsson]
Minning um látna ástvini sem í fjarlægð hvíla

Snjóflóðin í Hnífsdal 1910

Til minningar um þau sem fórust í snjóflóðinu í Hnífsdal 18.2.1910.
Nöfn þeirra 18 sem fórust eru letruð á steininn í forgrunni.
Á legsteininum stendur:
Hjer hvíla jarðneskar leyfar 18 þeirra er líf ljetu í snjóflóðinu mikla í Hnífsdal 18.2.1910.
Steinarnir eru í Ísafjarðarkirkjugarði.

Upphaf vélbátaútgerðar á Íslandi

Harpa hafsins
Reist til minningar um upphaf vélbátaútgerðar á Íslandi, sem hófst við Ísafjarðardjúp á bátnum Stanley í nóvember 1902. Forgöngu um þetta fyrsta skref í nýrri atvinnusögu Íslendinga hafði.
Árni Gíslason, formaður
ásamt Sophusi J. Nielsen verzlunarstjóra
og
J.H. Jessen vélsmið.
Verkið stendur við Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði og er eftir Svanhildi Sigurðardóttur.

Minnisvarði um horfna sjómenn

Minnisvarði ísfirskra sjómanna 1974
Til heiðurs þeim sem horfnir eru
Til heilla þeim sem halda á miðin
Minnisvarðinn sem er eftir Ragnar Kjartansson stendur á Eyrartúni á Ísafirði

Málningarvöruverslun Guðmundar E. Sæmundssonar

Málningarvöruverslun Guðmundar E. Sæmundssonar
Guðmundur Elías Sæmundsson smiður og málari hóf verslunarrekstur að Tangagötu 17 eftir að hann fékk verslunarleyfi í október 1920 og stofnaði fyrstu málningarvöruverslunina á Ísafirði.
Árið 1954 flutti verslunin í húsnæði sem Guðmundur og synir hans byggðu að Aðalstræti 17-19.
Málningarvöruverslunin starfaði lengst af undir nafninu G.E. Sæmundsson og synir.
Verslunin starfaði til ársins 2006.
Skjöldur þessi var afhjúpaður í júlí 2022.

Bókaverslun Jónasar

Jónas Tómasson tónskáld og bóksali hóf verslunarrekstur að aðalstræti 26A eftir að hann fékk verslunarleyfi þann 20. ágúst 1920.

Karlinna G. Jóhannesdóttir (1896-1979) og Jón Jónsson (1890-1979)

Jónsgarður
23. mars 1922
Í minningu hjónanna
Karlinnu G. Jóhannesdóttur
og Jóns Jónssonar
17. júní 1992
Jón Jónsson klæðskeri var helsti frumkvöðullinn að því að brotinn var til ræktunar hlíðarbútur upp af Torfnesi árið 1922. Það var lengi helsti gróðurreitur Ísfirðinga þar sem ýmis nýstárleg blóm og tré uxu og döfnuðu. Á 70 ára afmæli garðsins var afhjúpaður minnisvarði í garðinum um Jón og konu hans, Karlinnu Jóhannesdóttur.
Þegar Jón stofnaði Blóma- og trjáræktunarfélag Ísfirðinga ásamt nokkrum öðrum í mars 1922 var enginn gróðurreitur til á Ísafirði utan gras- og kartöflugarðar og rifsberjarunnar í garði Þorvaldar Jónssonar læknis sem mörgum þótti heldur undarlegt fyrirbæri. Litlu munaði að bæjarstjórn fengist ekki til að láta landið af hendi undir garðinn og má nokkuð ráða af umsögnum bæjarstjórnarmanna um hug þeirra til blóma- og trjáræktar. Einn sagðist ekki vilja láta lóðir bæjarins undir annað en hús og nóg væri fyrir af arfanum. Afráðið var þó að fara að ráðum annars bæjarstjórnarmanns sem sagði: Mér finnst réttara að leigja drengjunum þetta land. Þeir munu áreiðanlega ekki gera þar nein spjöll, en von er til að þeir skili meiri gróðri en nú prýðir það, þegar þeir gefast upp á þessum unggæðingshætti.”
Margir lögðu á næstu árum hönd á plóginn við að bylta landinu og koma á skipulagðri ræktun undir handleiðslu Jóns og í framhaldinu fór fólk að rækta tré og aðrar jurtir í görðum sínum.
Það var sonardóttir Jóns og Karlinnu, Edda Björk Sigurðardóttir, sem afhjúpaði minnisvarðann við athöfn í garðinum á 17. júní 1992. Í tilefni þess tilkynnti Smári Haraldsson bæjarstjóri að garðinum hefði verið gefnið nafnið Jónsgarður.
Minnisvarðann gerði Jón Sigurpálsson myndlistarmaður á Ísafirði. [Mbl. 7.7.1992]
Ásgeir Ásgeirsson (1852-1902)

Som Disse Runer
Meislet Ind
Staar Virket Dit
i Folkets Sind
Á. Ásgeirsson 1852-1902
Ja Nye 50 Aar
Du Faar Saa Vist
Som Bautaen Her
Paa Klippen Staar
Bautasteinn þessi stendur nú í Neðstakaupstað á Ísafirði. Hann var reistur árið 1902 á Uppsalaeyri í Seyðisfirði og stóð þar til 1976, en þá var hann fluttur á núverandi stað í Neðstakaupstað. Þessi minnisvarði er því einn af elstu minnisvörðum á Íslandi.
Hannes Hafstein (1861-1922)

Hannes Hafstein
4. desember 1861 – 13. desember 1922
Sýslumaður Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði 1896-1904
Þingmaður Ísfirðinga 1900-1901
Fyrsti ráðherra Íslands 1. febrúar 1904 – 31. mars 1909 og 25. júlí 1912 – 21. júlí 1914.
Haf eilífa þökk fyrir störf þín í þágu Íslands.
Minnisvarðinn var afhjúpaður 17. janúar 2004.
Hannes Hafstein var skipaður sýslumaður Ísafjarðarsýslu 1895 en kom til Ísafjarðar 1896. Þá keypti hann hús það er nú er Mánagata 1, en var kallað Fischershús á þeim tíma. Þar bjó hann öll sín sýslumannsár á Ísafirði og var þar með skrifstofu sína. Þetta hús stendur enn, en töluvert breytt. Á lóð þess var minningarskjöldur afhjúpaður þann 17. janúar 2004 um Hannes Hafstein sýslumann á Ísafirði og fyrsta ráðherra Íslands. [Mbl. 19/1/2004]
Minnisvarðinn stendur við Mánagötu 1 á Ísafirði

Margrét G. Jónsdóttir (1872-1963), Jón Auðun Jónsson (1878-1953)

Listaverk þetta, Úr álögum, eftir Einar Jónsson
gef ég Ísfirðingum í minningu foreldra minna, Margrétar G. Jónsdóttur og Jóns Auðuns Jónssonar alþingismanns.
Jón Auðuns.

Verkið stendur neðan við Menntaskólann á Ísafirði.
Ragnar H. Ragnar (1896-1987)

Kuml
Minnisvarði um Ragnar H. Ragnar, skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar. Frumkvæði að verkinu höfðu Pétur Kr. Hafstein, Jón Páll Halldórsson og Kristján Haraldsson.
Verkið var afhjúpað árið 1988 og stendur á Spítalatúninu. Höfundur verksins er Jón Sigurpálsson myndhöggvari
Hnífsdalur
Minnisvarði um drukknaða sjómenn í Hnífsdal

Minnisvarði um drukknaða sjómenn í Hnífsdal reistur árið 1974.
,,Í hafinu hafið þér þrenging,
en verið þér hughraustir
ég hef sigrað heiminn.” Jóh. 16:33.
Slysavarnardeildin Hnífsdal. [Texti á skilti]
Verkið er eftir Sigurlinna Pétursson.
Heimild: [Ketill Kristinsson: Stríð, stolt, sorg og sprengja].
Minnisvarðinn stendur í kirkjugarðinum i Hnífsdal

Bolungarvík
Skipalestin QP-13

Til minningar um þá nærri 240 karla, konur og börn sem fórust norður af Straumnesi 5. júlí 1942 í mesta sjóslysi við Íslandsstrendur er 19 skip úr skipalestinni QP-13 á leið frá Murmansk í Rússlandi til Hvalfjarðar villtust af leið í slæmu veðri og litlu skyggni og sigldu inn í tundurduflabelti sem lagt hafði verið til varnar þýskum herskipum.
Skipin sem fórust voru breska herskipið HMS Niger og flutningaskipin Heffron, Hybert, Massmar, og John Randolph frá Bandaríkjunum og Rodina frá Rússlandi. Bandaríska flutningaskipið Exterminator laskaðist en náði til hafnar í Hvalfirði af eigin rammleik. Flök skipanna liggja á rúmlega 70 m dýpi um 53 km héðan.
Slysið markaði jafnframt eitt mesta björgunarafrek Íslandssögunnar er 260 manns var bjargað úr sjónum við mjög erfiðar og hættulegar aðstæður um borð í fylgdarskipin St. Elstan, Lady Madelaine og Roselys. Áhöfn franska herskipsins Roselys vann það einstæða afrek að bjarga 179 manns.
Motorbáturinn Vébjörn ÍS-14 sem lá inni á Aðalvík hélt einnig til aðstoðar á slysstað þrátt fyrir mikla hættu en fann engan á lífi.

Óshlíð

Minnisvarði í Óshlíð við Bolungarvík
Góður Guð verndi vegfarendur
Minnisvarðinn stendur Bolungarvíkurmegin Óshlíðar

Í minningu ástvina

Í minningu ástvina
Hlustaðu á ljósið
Hlustaðu á ljósið
sem logar kyrrlátt í brjóstinu
hvernig sem viðrar
Rödd þess er mjúklega björt
og bylgjast um þig
í mjúkri þögn.
Og því verður að hlusta vandlega
Einungis þögn nemur þögn
og þá fyrst andar ljósið
lifandi birtu. Njörður P. Njarðvík.
Minnisvarði um ástvini sem farist hafa af slysförum var afhjúpaður við Skarfasker í Hnífsdal á laugardaginn 25. september 2010. Afhjúpun hans var liður í dagskrá vegna opnunar Bolungarvíkurganga en ráðist var í uppsetningu minnisvarðans að tillögu Albertu Gullveigar Guðbjartsdóttur, þáverandi formanns Nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði. „Ég lagði þetta til sem fulltrúi unga fólksins þegar slegið var í gegn í göngunum. Mjög vel var tekið í tillöguna og allir sem komu að þessu sýndu mikinn samhug og voru mjög hjálpsamir við að láta þetta verða að veruleika,“ segir Alberta.
Fjöldi manns var saman kominn er minnisvarðinn var afhjúpaður með viðhöfn. Þrjár ungar stúlkur úr MÍ sungu Sofðu unga ástin mín og Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar fór með ávarp. Að því loknu afhjúpaði Alberta minnisvarðann og fór með ljóðið sem letrað er á hann en það er Hlustaðu á ljósið eftir Njörð P. Njarðvík. Þá lagði Daði Már Guðmundarson, núverandi formaður NMÍ, blómsveig við varðann. Séra Magnús Erlingsson sóknarprestur á Ísafirði blessaði varðann. Jón Sigurpálsson listamaður á Ísafirði hannaði minnisvarðann. [Bæjarins besta]
Minnisvarðinn stendur við Skarfasker, við gangamunna Bolungarvíkurganga

Minningarreitur um horfna, drukknaða og látna ástvini í fjarlægð

Minningarreitur um horfna, drukknaða og látna ástvini í fjarlægð
Sá sem eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna. H.P.
Minningarsteinar um horfna eru umhverfis listaverkið sem gefið var til minningar um Guðfinn Einarsson.
Gefendur María K. Haraldsdóttir og börn.
Minningarreitur í kirkjugarðinum á Grundarhóli í Bolungarvík. Listaverkið er eftir Elísabetu Haraldsdóttur.

Guðmundur Pétursson, Ólafur Pétursson, Runólfur Hjálmarsson, Óskar Halldórsson

Þakklát minning um skipverja af m/b Baldur er fórst 30.1.1941
Guðmund Pétursson, Ólaf Pétursson, Runólf Hjálmarsson, Óskar Halldórsson.
Þegar öflugir ungir falla
sem sígi í ægi sól á dagmálum.
Blómsveigur er lagður að þessum minnisvarða sem er annar af tveimur í kirkjugarðinum helgaður drukknuðum og þeim sem horfið hafa. Minnisvarðinn var afhjúpaður af afkomendum þeirra látnu árið 1942 og er í Grundarhólskirkjugarði.

Einar Guðfinnsson (1898-1985) – Elísabet Hjaltadóttir (1900-1981)

Grjóthlað
,,Ég erfði ekki fé, ég erfði dyggðir” sagði Einar Guðfinnsson, sem hóf atvinnurekstur sinn í Bolungarvík 1. nóvember 1924. Einar var helsti athafnamaður staðarins á sinni tíð.
Einar fæddist að Litlabæ í Skötufirði 17. maí 1898 og lést í Bolungarvík 29. október 1985. Eiginkona Einars, Elísabet Hjaltadóttir, fæddist í Bolungarvík 11. apríl 1900 og lést þar 5. nóvember 1981.
Auk umsvifamikils atvinnureksturs, tóku Elísabet og Einar virkan þátt í sveitarstjórnar-, félags- og menningarmálum og höfðu forystu um margvísleg framfaramál í byggðarlaginu á mótunarskeiði þess.
Bæjarstjórn Bolungarvíkur ákvað að heiðra minningu Einars og Elísabetar með því að reisa þeim minnisvarða á aldarafmæli Einars, 17. maí 1998.
Lágmynd af þeim hjónum er gerð af Ríkey Ingimundardóttur myndlistarkonu.
Jón Sigurpálsson myndlistarmaður hannaði minnisvarðann ,,GRJÓTHLAД sem hlaðinn er úr grjóti frá æskustöðvum Einars í Skötufirði. [Texti á skilti].
Minnisvarðinn stendur við aðalgötuna í Bolungarvík

Pétur Oddsson (1862-1931) – Guðný Bjarnadóttir (1861-1922)

Pétur Oddsson og Guðný Bjarnadóttir
Þau voru mannvinir í fararbroddi á nýrri öld.
Sparisjóður Bolungarvíkur lét reisa fyrsta sparisjóðsstjóranum og konu hans þennan minnisvarða árið 1990.
Lágmyndin virðist gerð af Ríkey Ingimundardóttur.
Minnisvarðinn stendur við Sparisjóð Bolungarvíkur.


Suðureyri – Súgandafjörður
Magnús Hj. Magnússon (1873-1916)


Skáldið á Þröm
Magnús Hj. Magnússon 1873-1916
Magnús var fæddur að Tröð í Súðavíkurhreppi, en uppalinn í Önundarfirði. Hann var þreklítill og heilsuveill í æsku, en bráðgjör að gáfum, húslestrarfær 6 vetra og byrjaður að búa til vísur. Hann las hverja bók, sem hann náði í og safnaði sér þannig ýmsum fróðleik. Rímum og alþýðukveðskap varð hann snemma handgenginn og tók jafnframt að stunda skáldskap og vísnagjörð, siðar fleiri ritstörf, og hélt dagbók í mörg ár.
Magnús unni ritstörfum og lagði kapp á þau, að hætti fræðimanna fyrri tíma. Þau voru honum hvíld frá erfiði, skemmtun í tómstundum, fróun í sjúkdómi og armæðu. Hann ritaði því og las þegar hann komst höndunum undir „sér til hugarhægðar en hvorki sér til lofs né frægðar”. Hann hélt sér lítt á lofti; bældi örbyrgð og lasleiki hann niður, enda var honum allt yfirlæti fjarri skapi.
Magnús bjó með Guðrúnu Önnu Magnúsdóttur en gat ekki gifst henni þar sem hann hafði þegið sveitarstyrk og þurfti að greiða hann upp til að mega ganga í hjónaband. Það tókst honum aldrei og voru þau í óvígðri sambúð til æviloka og áttu saman sex börn en aðeins tvö komust á legg. Magnús stundaði barnakennslu öðru hverju. Árið 1910 var hann dæmdur í eins árs fangelsi fyrir nauðgun, en hann hafði misnotað stúlkubarn sem var nemandi hans, og sat hann dóminn af sér í fangelsinu í Reykjavík.
Magnús var helsta fyrirmyndin að Ólafi Kárasyni Ljósvíkingi í Heimsljósi eftir Halldór Laxness, sem nýtti sér dagbækur Magnúsar. Árið 1956 gaf Gunnar M. Magnúss út ævisögu Magnúsar og kallaði hana Skáldið á Þröm. Og árið 1998 komu dagbækur Magnúsar út undir heitinu Kraftbirtingarhljómur guðdómsins. [Wikipedia]
Minnisvarðinn stendur í hlíðinni ofan við bæinn

Ólafur Þ. Þórðarson 1940-1998

,,Dýrasta lausnin í menntakerfi nokkurrar þjóðar er að taka svo vitlausa ákvörðun að það eigi að fara eftir efnum og ástæðum hverjir halda áfram skólanámi.”
Ólafur Þ. Þórðarson alþingismaður
Reist í minningu
Ólafs Þ. Þórðarsonar
skólastjóra og alþingismanns frá Stað.
Hann var Vestfirðingur
eins og þeir gerast bestir.
Ólafur Þ. Þórðarson
Héraðsskólapróf Núpi 1957. Búfræðipróf Hvanneyri 1960. Kennarapróf KÍ 1970.
Skólastjóri Barnaskólans á Suðureyri 1970–1978. Skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti 1978–1995 (í leyfi frá 1980).
Oddviti Suðureyrarhrepps 1974–1978. Formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga 1974–1978. Í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 1981–1993. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1982. Í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðar Byggðastofnunar 1983–1995. Sat þing Alþjóðaþingmannasambandsins 1987–1994.
Alþingismaður Vestfirðinga 1979–1995 (Framsóknarflokkur).
Varaþingmaður Vestfirðinga apríl 1972, febrúar og október 1975, nóvember–desember 1976, febrúar og desember 1977, apríl 1978, október 1996, apríl 1997, apríl–maí 1997 og febrúar 1998.
2. varaforseti sameinaðs þings 1983–1987. [Alþ.]
Minnisvarðinn stendur við kirkjuna á Stað í Súgandafirði og er eftir Árna Johnsen alþingismann.


Gert 11.4.2025