Minnisvarðar í Garðabæ
Alfred Wegener
Landrekskenningin
Alfred Wegener setti landrekskenningu sína fram á árunum 1908-1912. Hann hafði veitt því eftirtekt að strendur meginlanda, einkum Afríku og Suður-Ameríku, falla býsna vel hvor að annarri. Hið sama átti við um jarðmyndanir og plöntu- og dýrasteingervinga á aðskildum meginlöndum.
Wegener dró þá ályktun að upphaflega hefðu öll löndin myndað eitt meginland, Pangeu. Hann hélt því jafnframt fram að á miðlífsöld, fyrir um það bil 200 milljónum ára, hefði Pangea byrjað að klofna, fyrst í tvo meginlandsfleka og síðar í fleiri og væru þeir á stöðugri hreyfingu, sums staðar hver frá öðrum, annars staðar hver að öðrum.
Samtímamenn Wegeners höfnuðu landrekskenningunni enda var fátt sem renndi stoðum undir hana í upphafi. það var ekki fyrr en um 1960 að hún fékk byr undir báða vængi. Það gerðist í kjölfar þess að breskum jarðeðlisfræðingum tókst að túlka rákamynstur sem fram kom við segulmælingar á Reykjaneshrygg. Síðan þá hafa fjölmargar niðurstöður mælinga á jarðskorpunni staðfest kenningu Wegeners enn frekar þannig að nú nýtur hún almennrar viðurkenningar.
Landrekskenningin
Stöpul þennan reisti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener (1880-1930) í aprílmánuði 1930 ásamt fleiri stöplum með það fyrir augum að færa sönnur á landrekskenninguna sem hann setti fram á árunum 1908-1912. Landrekskenningunni var fálega tekið í upphafi. Nú nýtur landrekskenning Wegeners almennrar viðurkenningar. Alfred Wegener varð úti í rannsóknarleiðangri á Grænlandi 1930.
(Texti á skiltum á minnisvarðanum, sem er á Arnarnesi í Garðabæ).
Urriðavöllur
Lundur þessi er gróðursettur
í tilefni af Landsmóti Oddfellowa 1994
Minnisvarðinn stendur á Urriðavell í Urriðavatnsdölum
Urriðavöllur
Oddfellowar á Íslandi létu gera þessa plötu til heiðurs þeim Oddfellowum sem gáfu
Oddfellowreglunni á Íslandi jörðina Urriðavatn.
Platan er fest á stein á Urriðavelli. golfvellinum í Urriðavatnsdölum
Vífilsstaðaspítali
Vífilsstaðir (áður Vífilsstaðaspítali) var berklahæli og hjúkrunarheimili í Garðabæ sem tók formlega til starfa 5. september 1910. Starfsemi Vífilsstaða snerist um þjónustu við berklasjúklinga þar til hælinu var breytt í spítala fyrir sjúklinga með öndunarfærasjúkdóma á vegum LSH árið 1973. Árið 1976 tók til starfa meðferðarstofnun fyrir áfengissjúklinga á vegum Kleppsspítala í sérhúsnæði á Vífilsstöðum.
Öll starfsemi hins opinbera lagðist af árið 2002 en þá tók Hrafnista við húsnæðinu og rak þar öldrunarheimili fyrir um 50 manns til 20. ágústs 2010. Vífilsstaðir eru í eigu ríkisins og eru í umsjá fasteignaumsýslu þess.
Upprunalega byggði Vífill bæinn Vífilsstaði eftir að Ingólfur Arnarson, landnámsmaður Íslands, hafði veitt honum frelsi fyrir fund á öndvegissúlum sínum tveim sem hann hafði varpað frá borði og hugðist byggja sér bæ þar sem þær ráku á land. Vífilsfell er einnig kennt við hann.
Guðmundur Björnsson þáverandi héraðslæknir í Reykjavík safnaði saman liði til að reisa fullkomið heilsuhæli fyrir berklasjúklinga á Íslandi. Þann 13. nóvember 1906 var stofnfundur svokallaðs Heilsuhælisfélags sem Oddfellowreglan var í forystu fyrir og innan tveggja ára frá félagsstofnun hófst frekari undirbúningur verkefnisins og var ákveðið að byggja hælið á Vífilsstöðum. Sumarið 1909 var hafist handa og ákváðu menn að hugsa stórt, hælið átti að verða stærsta sjúkrastofnun Íslands. Það tók aðeins 18 mánuði að byggja húsið og 5. september 1910 tók hælið til starfa með rúm fyrir 80 sjúklinga. Húsið var fullbúið öllum tækjum og húsgögnum. Síðar var svo hælið stækkað og sjúkrarúmum fjölgað, þegar mest var voru um 200 sjúklingar á hælinu.
Þann 1. september 1910 var spítali fyrir berklasjúklinga byggður á Vífilsstöðum sem Rögnvaldur Ólafsson teiknaði. Eftir að berklasjúklingum fór fækkandi árið 1973 var byrjað að taka á móti öllum öndunarfærasjúklingum. Þar var einnig stórt kúabú, sem lagt var niður árið 1974. Sérstök meðferðardeild fyrir áfengissjúklinga sem tilheyrði Kleppsspítala var stofnuð þar árið 1976. Þeirri deild var lokað 2002.
Rekstur hjúkrunarheimilis fyrir aldraða hófst í byrjun árs 2004 að endurinnréttingu á húsinu loknu. Telst aðstaðan með þvi nútímalegra sem gerist. Hrafnista annast rekstur Vífilsstaða og leigir húsið af ríkinu. Níu af hverjum tíu heimilismanna koma beint af öldrunardeildum LSH, en 10% heimilismanna eru teknir inn samkvæmt hefðbundnum inntökureglum.
Þar starfar prestur sem sinnir sálgæslu og trúarlegri þjónustu við heimilismenn, aðstandendur og starfsfólk. [Wikipedia – að mestu].
Minnisvarðinn stendur framan við Vívilsstaði
Hausastaðaskóli
Hausastaðaskóli 1792-1812
Jörðin Hausastaðir liggur á sjávarbakkanum yst eða vestast í Garðahreppi, þar sem Álftanesið hefur sig út í flóann. Þar er aflíðandi land mót suðri, lágur ás til norðurs, og inn til norðausturs hæðardrög og holt, en til vesturs opinn flóinn, og sér suður um ströndina allt til Garðskaga. Þar var útræði.
Þessi staður var valinn fyrir hinn fyrsta heimavistarbarnaskóla á landinu, sem jafnframt var um skeið eini starfandi barnaskóli landsins.
Árið 1793 var byggt skólahús á Hausastöðum. Það var timburhús, 15 álnir á lengd og 8 álnir á breidd, í 7 stafgólfum. Skólastjóri var Þorvaldur Böðvarsson, sálmaskáld og kunnur merkismaður frá Mosfelli í Mosfellsdal.
Þessu fyrsta barnaskólahúsi landsins er svo lýst við úttekt árið 1806, að það sé “afþiljað umhverfis í hvolf og gólf með fjalagólf yfir allt, svo nær sem grjótlögðu stykki fyrir framan skorsteininn. Langs eftir er húsið gegnum þiljað með skilrúmi, afdeilt í 4 værelsi fyrir utan kokkhús með lítilfjörlegu spísskamersi. Fyrir þesum værelsum eru 8 hurðir á járnum, fyrir 2mur skrár tvílæstar, fyrir 2 einlæstar og 2mur lítt nýtar. Fyrir forstofu þiljarðri er vænghurð á hjörum með klínku; fyrir útidyrum hurð á járnum með stórri skrá einlæstri. Á húsinu eru 8 gluggar með 6 rúðum hver.”
Þá er því ennfremur lýst, að í “sængurkamersinu sé innþiljuð lokrekkja með lagföstum hillum umhverfis. Í dagkennslustofunni er kakalofn, sem gengur út til kokkhússins, þar hjá opinn bókaskápur með 4 hillum.” Úr forstofu lá stigi upp á loft. Kennslustofur voru niðri, en uppi á lofti voru svefnkamers. Á loftinu voru 3 gluggar með 4 rúðum hver.
Séra Þorvaldur stjórnaði skólanum í 12 ár eða til ársins 1804. Á þessu tímabili höfðu 26 börn verið í skólanum. Af þeim 12, sem fyrst voru tekin í skólann, hafði eitt farið úr skóla eftir vottorði landlæknis og úrskurði stiptamtmanns. Einn drengur og ein telpa höfðu verið öll þessi 12 ár í skólanum, og voru nú útskrifuð sem sjálfbjarga og vel vinnufær ungmenni, tvær telpur voru í 11 ár, drengur og telpa í 9 ár, drengur og telpa í 8 ár, einn drengur í 6 ár, en einn drengur vék úr skóla eftir eitt ár. Einn piltur, sem kominn var yfir brottfararaldur, hélt áfram að vinna á vegum skólans.
Börnin, sem þangað voru send, voru snauðust af hinum snauðu, – það voru börnin úr hópi þeirra, sem sveitarstjórnirnar seldu lægstbjóðanda á uppboði sveitarómaga, – það voru vonarpeningar þjóðfélagsins. Þau, sem verið höfðu á flækingi, eignuðust nú heimili og áttu vinum að fagna.
Sumarið 1812 voru áhöld skólans og innanstokksmunir seldir á uppboði, og hljóp það allt á rúma 24 rd. Skólinn hafði starfað í 18 ár, hinn eini barnaskóli landsins á þeirri tíð, og þar af einn vetur hinn eini starfandi skóli í landinu.
Börnin, sem verið höfðu í skólanum, voru send hvert á sína sveit, og heitið meðlagi með þeim úr Thorkelliisjóði. [Lengri útgáfa á Ferlir.is]
Minnisvarðinn stendur við Hausastaði á Álftanesi og var reistur 18.10.1978