Snæfellsjökull

Minnisvarðar á Snæfellsnesi og í Dölum


Snæfellsnes

Vatnaleið 2001
Vatnaleið
Vatnaleið á Snæfellsnesi

Vígsla 2. nóvember 2001
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra

Vatnaleið

SS Wigry
Wigry

Til minningar um pólskt skip SS ,,Wigry” sem sökk út af Hjörsey 15. janúar 1942 og áhöfn þess. 25 menn fórust og 2 björguðust og bar þá flesta að landi hér fyrir framan.
Með þökk til Kristjáns Kristjánssonar bónda á Syðra Skógarnesi.
Samtök Pólverja á Íslandi reistu þennan minnisvarða í tilefni af því að 75 ár eru liðin frá harmleiknum. 16.1.2017. [Texti á skildi].

,,Wigry var pólskt flutningaskip sem var á leið frá Hafnarfirði til Bandaríkjanna. Aðalfarmur skipsins var fiskur. Þann dag sem Wigry lagði frá Hafnarfjarðarhöfn var stormur, mjög hvasst og lítið skyggni, innan við 100 metrar.

Allt gekk þó samkvæmt áætlun þar til einn af gufukötlum Wigra sprakk. Við sprenginguna slösuðust nokkrir skipverjanna. Við sprenginguna og það að skipið hafi misst einn gufuketil þá hafði skipið ekki nægt vélarafl til að halda í við veðrið.

Skipið rak þar til það strandaði. Samkvæmt fyrstu heimildum þá var talið að skipið hefði strandað undan strönd Skógarness á Snæfellsnesi. Það er ekki rétt. Skipið strandaði á skeri við Hjörsey á Mýrum.

Þegar Wigry strandaði náðu nokkrir skipverjar að losa björgunarbátanna. Þrír skipverjar neituðu þó að fara um borð í björgunarbátanna, og því miður þá drukknuðu þeir er Wigry sökk til botns.

Eins og fyrr sagði var veðrið afar slæmt og ekki bætti úr að komið myrkur. Ekki tókst að koma björgunarbátunum í land, svo skipverjarnir biðu um borð í þeim eftir betra veðri. En í veðurofsanum ultu björgunarbátarnir og nokkrir menn til viðbótar drukknuðu. Þeir menn sem höfðu slasast í ketilsprengingunni drukknuðu líka.

Fimm skipverjar náðu þó að halda sér upp í kili björgunarbátsins, en eftir því sem tímanum leið misstu þeir tökin, einn af öðrum þar til aðeins þrír urðu eftir á kilinum.

Þeir reyndu svo að synda í land, en aðeins tveimur tókst að komast lifandi í land. Annar þeirra missti meðvitundi en öðrum þeirra komast á sveitabæ til að kalla eftir hjálp.

Minnisvarði um pólska skipið SS Wigry fórst út af Hjörsey. Hér er mynd af minnisvarðanum sem reistur var árið 2017 en það vantar skjöldinn, sem á honum var. Hann var í viðgerð hjá Halla sem á sumarhús rétt við minnisvarðann og ég fékk að mynda skjöldinn í skemmunni há honum. Skjöldurinn er hér fyrir neðan og fer upp aftur þegar hreinsun og viðgerð lýkur.

SS Wigry
Wigry

Minnisvarðinn stendur út við sjó á Syðra-Skógarnesi en hinn er í Fossvogskirkjugarði.


Ari fróði Þorgilsson (1058-1148) 
Ari fróði
Ari fróði
Ari fróði

En hvatki er missagt er í fræðum þessum þá er skylt að hafa það heldur er sannara reynist.

Ari prestur hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði, bæði forna og nýja.  [Snorri Sturluson].

Minnisvarðinn var afhjúpaður sumarið 1981. Hann stendur á Staðarstað á Snæfellsnesi.


Guðmundur Bergþórsson (1657-1705)
Guðmundur Bergþórsson

Með þessum minnisvarða er minnst þeirra alþýðuskálda sem með rímnakveðskap sínum studdu drjúgt að áhuga almennings á skáldskap og fróðleik. Guðmundur Bergþórsson er góður fulltrúi þessa hóps sem mikilvirkasta rímnaskáld sinnar tíðar, en eftir hann hafa varðveist í handritum þrettán rímnaflokkar, auk þess sem vitað er af tveimur sem hafa glatast. Hann orti einnig fjölda kvæða um margvísleg efni svo sem Heimspekingaskóla og Vinarspegil.

Telja má ótrúlegt hvað Guðmundi hefur tekist þrátt fyrir mikla fötlun, ævi hans er um margt raunasaga en um leið saga mikilla sigra. Hann var aðeins fjögurra ára þegar hann veiktist með þeim afleiðingum að síðan var hann lamaður að mestu leyti neðan við háls og mjög krepptur. Segja má að einu líkamspartar hans sem voru heilir væru höfuðið og vinstri hönd upp að olnboga. Þrátt fyrir fötlunina og vegna gáfna sinna og fróðleiksfýsnar, tókst honum á unga aldri að læra að lesa og skrifa og síðan að afla sér ýmislegs fróðleiks. Guðmundur var oft fenginn til að kenna börnum og hafði lífsviðurværi sitt af því ásamt kveðskapnum og uppskriftum sem hann tók að sér fyrir aðra. Hann bjó mikinn hluta ævinnar á Snæfellsnesi, lengst hér á Arnarstapa.

Guðmundur varð þekkt skáld á sinni tíð og vinsældir hans sjást af því að rímur hans og kvæði hafa varðveist í fjölda handrita. Þó eru aðeins einar rímur hans varðveittar í eiginhandarriti, en það eru Olgeirs rímur danska sem hann orti 23 ára gamall. Annað merki um að Guðmundur varð fljótt þekktur eru þær þjóðsögur sem um hann hafa myndast, en auk þess að fjalla um ástæður fyrir fötlun hans og tilraunir til lækninga, skipa þær honum meðal kraftaskálda og kunnáttumanna, og bera þannig vott um virðingu samtíðarmanna hans. Ein sagan eignar til dæmis Jóni Vídalín þessa vísu um Guðmund:

Heiðarlegur hjörva grér
hlaðinn mennt og sóma 

yfir hann ég ekkert ber
utan hempu tóma. 

Guðmundar er hér minnst sem manns sem sem hóf sig upp yfir líkamlega fötlun sína með mörgum andans sigrum. Því ætti jafnframt að líta á minnisvarðann sem hvatningu til þeirra sem búa við erfiðleika vegna fötlunar og sem áminningu til hinna sem betur standa.

Minnisvarðinn er eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli og stendur á Arnarstapa og reistur árið 2011 af Kvæðamannafélaginu Iðunni og Öryrkjabandalagi Íslands. [Texti á upplýsingaskilti við minnisvarðann].


Hellissandur – Rif

Björnssteinn
Björn Þorleifsson
Björn Þorleifsson hirðstjóri

Björnssteinn sem hér stendur er kenndur við Björn ríka Þorleifsson hirðstjóra frá Skarði á Skarðsströnd. Björn var hirðstjóri Danakonungs og jafnframt einn af auðugustu mönnum, Íslands á þeim tíma.
Þannig var að konungur hafði afturkallað öll leyfi Englendinga til til verslunarreksturs á Íslandi árið 1464 en hafði veitt þeim leyfi til að versla m.a. í Rifi en þeir voru þar með töluverð umsvif og söltuðu m.a. fisk á veturna sem þeir sóttu síðan á skipum þegar voraði.
Englendinga undu þessu illa og lentu í illdeilum við hirðstjóra konungs. Björn hirðstjóri reið haustið 1467 út í Rif og ætlaði hann að banna Englendingum að versla þar, en þegar þangað kom sló í bardaga þar sem Björn var veginn ásamt sjö af hans mönnum. Lík Björns var síðan höggvið í hluta. Þjóðsagan segir að enn megi greina axarfarið á steininum.
Kona Björns hét Ólöf ríka Loftsdóttir og er henni voru færðar fréttirnar af drápi Björns sagði hún þessi fleigu orð ,,ekki skal gráta Björn bónda heldur safna liði“. Safnaði hún liði og fór út í Rif og leysti m.a. Þorleif son sinn úr haldi með miklu silfri. Lík Björns flutti hún síðan inn að Helgafelli þar sem hann var jarðsettur.
Síðar sigldi Ólöf ríka á fund Danakonungs og kærði drápið á Birni. Konungur tók henni vel og lét í hefndarskyni gera upptæk ensk skip í Eyrarsundi. Út frá þessum atburðum sem gerðust í Rifi varð svo stríð milli Englendinga og Dana sem varði í fimm ár og kallað er ,,fimm ára stríðið” og komst ekki friður á fyrr en 1474 en sá friðarsamningur var gerður í Utrecht í Hollandi. [Skilti]


Friðþjófur B. Guðmundsson (1904-1987) 
Halldóra G. Kristleifsdóttir (1912-1999)
Rif

Minnisvarði um Friðþjóf B. Guðmundsson (1904-1987) útvegsbónda og
Halldóru G. Kristleifsdóttur (1912-1999), húsmóður. 

Þau voru útvegsbændur á Rifi, en Friðþjófur gerði út frá Krossavík og gekk hann frá Rifi í Krossavík. Halldóra stjórnaði búinu á meðan Friðþjófur stundaði sjóinn.

Friðþjófur Guðmundsson

Minnisvarðinn var reistur á aldarafmæli Friðþjófs 27.10.2004 og er við heimili hjónanna á Rifi á Snæfellsnesi.


Eggert Ólafsson (1726-1768) – Ingibjörg Guðmundsdóttir (1733-1768)
Eggert Ólafsson
Eggert Ólafsson
Minnisvarði um Eggert Ólafsson 1726-1768 og Ingibjörgu Guðmundsdóttur 1733-1768 frá Ingjaldshóli.

Eggert Ólafsson fæddist í Svefneyjum á Breiðafirði 1.12. 1726, sonur Ólafs Gunnlaugssonar bónda og Ragnhildar Sigurðardóttur húsfreyju.

Eggert lærði hjá móðurbróður sínum, Sigurði presti í Flatey, og var í fóstri hjá öðrum móðurbróður, Guðmundi, sýslumanni á Ingjaldshóli.

Eggert lauk stúdentsprófi í Skálholti, stundaði nám í heimspeki og náttúrufræði við Hafnarháskóla, þótti frábær námsmaður, las m.a. forn, þjóðleg fræði, málfræði, lögfræði og búfræði, var lærður í latínu og grísku og talaði dönsku, sænsku, ensku, þýsku og frönsku.

Á árunum 1752-57 fóru Eggert og Bjarni Pálsson, síðar landlæknir, rannsóknarferð um Ísland. Afraksturinn er Ferðabók Eggerts og Bjarna Pálssonar sem Eggert samdi á dönsku og að mestu leyti einn. Ritið er viðamikil lýsing á náttúru landsins og gæðum, og greinargerð um íslenskt þjóðlíf og landshagi.

Eggert var skipaður varalögmaður sunnan og austan 1767. Hann lét þá byggja upp jörð sína, Hofsstaði í Eyjahreppi, og ákvað að setjast þar að. Sama haust kvæntist hann Ingibjörgu, dóttur Guðmundar, móðurbróður síns. Þau héldu veglega brúðkaupsveislu að fornum sið í Reykholti, og dvöldu um veturinn í Sauðlauksdal hjá séra Birni Halldórssyni, mági Eggerts. Um vorið héldu þau áleiðis að Hofsstöðum en fórust í aftakaveðri á Breiðafirði. Má segja að þjóðin öll hafi syrgt Eggert enda mikils af honum vænst.

Eggert var framfarasinni og upplýsingarmaður en jafnframt þjóðernissinnaður. Hann trúði á land, þjóð og framtíð og því mikilvægur fyrirrennari Baldvins Einarssonar og Fjölnismanna sem höfðu hann í ýmsu að fyrirmynd.

Af skáldskap Eggerts er Búnaðarbálkur hans þekktastur sem ber fyrst og fremst að skoða sem boðskap í bundnu máli. Hins vegar hafa aðrir ort um hann fögur ljóð, s.s. Matthías Jochumsson, Matthías Johannessen og Jónas Hallgrímsson.

Á stein Eggerts er letrað:
Ísland ögrum skorið
eg vil nefna þig

Á stein Ingibjargar er letrað:
Þú heyrir ennþá harmaljóð
sem hljóma frá kaldri Skor

Eggert Ólafsson
Eggert Ólafsson

Minnisvarðinn er eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli og stendur við Ingjaldshólskirkju


Kristjón Jónsson (1897-1983)
Kristján Jónsson Hellissandur

Steinn þessi er reistur til minningar um Kristjón Jónsson sjómann frá Gilsbakka, Hellissandi en hann hefði orðið 100 ára 2. janúar 1997.
Hann hóf hér skógræktarstarf árið 1950 af mikilli þrautsegju.
Reistur 1997. 

Kristjón Jónsson Hellissandur

Steinnin stendur í skógræktinni í Tröð, Hellissandi


Elínborg Þorbjarnardóttir (1860-1947)
Elínborg Þorbjarnardóttir
Elínborg Þorbjarnardóttir, f. 9.3.1860 – d. 4.8.1947
Húsfreyja á Gufuskálum 1898-1946

Úr bæn Elínborgar:
Þú hinn voldugi herra hafs og lands, Drottinn alsherjar
blessa þú hafið og ströndina fyrir Gufuskálalandi,
svo enginn, sem héðan leitar á sjóinn, verði fyrir grandi,
né neinn sá er leitar hér lands af sjónum farist.
— Þín blessun hvíli yfir hverjum kima og hverjum tanga
landsins yfir hafinu og þeim, sem á jöðinni búa, nú og
framvegis, meðan land er byggt.
[Skiltið]

S.L.V.D. kvenna Helga Bárðardóttir
á Sjómannadaginn 1986

Elínborg Þorbjarnardóttir
Elínborg Þorbjarnardóttir

Minnisvarðinn stendur í Gufuskálavör


Ólafsvík

Eliníus Jónsson (1878-1966)
Eleníus Jónsson

Til minningar um Eliníus Jónsson
bátaformann og síðar kaupfélagsstjóra í Ólafsvík.

f. 1878  d. 1966.

Er utan á húsi kaupfélgsins í Ólafsvík


Ottó A. Árnason (1908-1977)
Ottó A. Árnason

Ottó A. Árnason
Nýjabæ, Ólafsvík  f. 4.8.1908 – d. 6.9.1977.
Skáld og menningarfrömuður 
U.M.F. Víkingur – verkalýðsfélagið – taflfélagið – sundkennsla – bíósýningar – stúkan.

Því kallinn við fossinn er klettur eða steinn
sem standa mun um aldir stoltur og einn.   O.A.Á.

Minnisvarðinn er gerður af Páli Guðmundssyni á Húsafelli og efniviðurinner steinn sem tekinn var á Jökulhálsi. Minnisvarðinn var afhjúpaður og afhentur haustið 2004. Hann stendur við Gilið í Ólafsvík.


Minning um ástvini í fjarlægð
Minning um ástvini í fjarlægð

“Því að yður er ætlað fyrirheitið.
Börnum yðar og öllum þeim,
sem í fjarlægð eru.
Öllum þeim, sem Drottinn 
Guð vor kallar til sín”
.
(Post 2:39).

Listaverk um horfna var afhjúpað á Sjómannadaginn árið 2004 og er það eftir Sigurð Guðmundsson.

Ólafsvík

Minnisvarðinn stendur við kirkjugarðinn í Ólafsvík.


Minnisvarði um drukknaða sjómenn
Ólafsvík

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Á minnisvarðanum eru skildir með nöfnum sjómanna sem farist hafa með bátum sínum. 
Bátarnir eru Bervík SH 43 (5); Svanborg SH 404 (3); Sæborg SH 377 (1); Framtíðin (3).

Styttan og sjómannagarðurinn eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal 1961.

Sjómannagarðurinn í miðbæ Ólafsvíkur.


Grundarfjörður

Sýn
Grundarfjörður
Sýn

Minnisvarði um líf og störf sjómanna í Eyrarsveit.
Forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir afhjúpaði listaverkið á sjómannadaginn árið 1989.

Grundarfjörður

Minnisvarðinn/listaverkið er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og stendur við kirkjuna í Grundarfirði.


Dáð
Edda GK 25
Edda GK 25
Edda GK 25

Næst komandi sunnudag 16. nóvember [2003] verða liðin 50 ár frá því að síldveiðiskipið Edda GK 25 fórst í aftakaverðri hér út á Grundarfirði. Sjómannadagsráð Grundarfjarðar hefur að undanförnu undirbúið uppsetningu minnisvarða um þetta hræðilega slys. Ráðið leitaði til Árna Johnsen um gerð minnisvarðans sem reistur verður við Grundarfjarðarhöfn.

Þessa atbuðar verður minnst við athöfn í Grundarfjarðarkirkju kl. 14:00. Þar munu Tryggvi Gunnarsson og Þórdís Gunnarsdóttir verða heiðruð. Að athöfn lokinni verður minnisvarðinn DÁÐ afhjúpaður af þeim Óskari Vigfússyni og Þórdísi Gunnarsdóttur. Von er á ættingjum áhafnarmeðlima Eddunnar af þessu tilefni og vonast sjómannadagsráð til að sem flestir Grundfirðingar sjái sér fært að taka þátt í þessari athöfn. [Grundarfjarðarbær].

Minnisvarðinn stendur við höfnina í Grundarfirði.

Eins og sjá má hefur minnisvarðanum verið breytt lítillega. Myndin til vinstri er tekin í september 2018 en myndin til hægri var tekin í júlí 2022.


Franskir sjómenn á Grundarfirði
Grundarfjörður

Minnisvarði um franska sjómenn í Grundarfirði: Pecheurs d’Islande.

Grundarfjörður

,,Árið 1859 reistu Frakkar hús á Grundarkampi …” [Upplýsingaskilti].

Minnisvarðinn stendur á Grundarkampi þar sem Grundarfjarðarkaupstaður var áður.


Stykkishólmur

Minnisvarði um drukknaða
Drukknaðir - Stykkishólmur
Á heimleið (1994)

,,Kirkja er okkur ströndin
og hafið og fjallið,
guðspjall dagsinsvanmáttur mannsins
í lífi og dauða. 
 [Jón úr Vör]”

Listaverk í minningu sjómanna gert af Grími Marinó Steindórssyni.

Verkið stendur við höfnina í Stykkishólmi. Það var afhjúpað af Vigdísi Finnbogadóttur forseta á Sjómannadaginn 1994. 

Við afhjúpunina, sem fram fór í blíðskaparveðri, var frumflutt tónverk eftir Þórð G. Halldórsson, við ljóð eftir Emilíu Guðmundsdóttur úr bókinni Ljóðblik. Þá bók myndskreytti Grímur Marinó. (Mbl.).


Sjómaðurinn
Sjómaðurinn

Til minningar um áhafnarmeðlimi mótorbátsins Blika sem fórst með allri áhöfn í óveðri 28. janúar 1924.

Sigvaldi Valentínusson, skipstjóri; Þorvarður HelgasonKristján BjarnasonHannes Gíslason; Guðjón Þ. GuðlaugssonKristinn Sigurðsson; Guðmundur Stefánsson.
Blessuð sé minning þeirra. [Texti á skilti

Verkið er eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli og stendur við höfnina í Stykkishólmi.

Sjómaðurinn - Stykkishólmur

Árni Thorlacius (1802-1891)
Árni Thorlacius
Klakkur

Minnisvarðinn er gerður af Helga Gíslasyni myndhöggvara, og stendur við höfnina í Stykkishólmi.

Minnisvarðinn var afhjúpaður árið 1989 og ber nafnið Klakkur.

Árni Thorlacius kaupmaður í Stykkishólmi, fæddur 1802, dáinn 1891.
Hans er minnst fyrir að hefja veðurathuganir í Stykkishólmi 1845.
Það eru elstu samfelldu veðurathuganir á Íslandi. 

Árni Thorlacius
Árni Thorlacius

Vignir Jónasson (1971-2024)
Vignir Jónasson

Vignir Jónasson var frá Stykkishólmi og mikill hestamaður.
Hann bjó lengst af í Svíþjóð með fjölskyldu sinni. Hann lést af slysförum árið 2024.

Vignir Jónasson
Vignir Jónasson

Minnisvarðinn stendur við hesthúsin í Stykkishólmi.


Dalir

Búðardalur
Búðardalur

Dalasýsla 
eitt sveitarfélag frá 11. júní 2006,

Dalasýsla hefur um aldir staðið saman af 8-9 hreppum:
Hörðudalshreppi, Miðdalahreppi, Haukadalshreppi, Laxárdalshreppi, Hvammssveitarhreppi, Fellsstrandarhreppi, Klofningshreppi, Skarðsstrandarhreppi og Saurbæjarhreppi.

Árið 1986 sameinuðust Klofningsheppur að Klofningi Fellsstrandarhreppi og Klofningshreppur utan Klofnings Skarðsstrandarhreppi.
Árið 1994 varð Dalabyggð til sem sveitarfélag við sameiningu allra hreppa í Dalasýslu utan Saurbæjarhrepps.
Skógarstrandarhreppur sameinaðist síðan Dalabyggð 1988.
Saurbæjarhreppur sameinaðist Dalabyggð 2006 og varð þá Dalasýsla eitt sveitarfélag.

Íbúar í Dalasýslu 1910 voru 2292 en 717 í júní 2006. [Skilti]


Krosshólar
Krosshólar

Krosshólar, kletta­borg, Kross­hóla­borg og önn­ur kletta­hæð sunn­ar. Þar seg­ir Land­náma að Auð­ur djúpúðga léti reisa krossa og færi þang­að til bæna­halds. Stein­kross var reist­­ur á borg­inni 1965. Niðj­ar Auð­ar höfðu helgi mikla á hól­un­um.
Fyrsti bær henn­ar, Auð­ar­tótt­ir, er skammt það­­an.

Á steinkrossinum stendur:
Auðr djúpúðga bjó í Hvammi.
Hún hafði bænahald sitt á Krosshólum.
Þar lét hon reisa krossa því at hon var skírð ok vel trúuð.


Snorri Sturluson (1178-1241)
Snorri Sturluson Hvammi

Minnisvarði um Snorra Sturluson í Hvammi í Dölum.

Minnisvarðinn er gjöf Borgfirðinga til Dalamanna og afhjúpaði Vigdís Finnbogadóttir minnisvarðann þann 27. apríl 1986.

Minnisvarðinn stendur fyrir kirkjudyrum í Hvammi.


Bjarni Jónsson frá Vogi (1863-1925)
Bjarni frá Vogi Fellsströnd

Minningarlundur Bjarna Jónssonar frá Vogi 
f. 13.10.1863 – d. 18.7.1925 

Giftu mestur, göfgi hæstur,
goðorðsmaður dýrrar snilli.
Bjarni er og Bjarni verður
Bjarna skilar alda milli. Stefán frá Hvítadal.

Lágmyndin eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal.
Minnisvarðinn stendur í trjálundi við Vog á Fellsströnd.

Bjarni frá Vogi Fellsströnd

Jóhannes úr Kötlum (1899-1972)
Jóhannes úr Kötlum Búðardal

Brjóstmynd skáldsins er eftir Guðmund Elíasson myndhöggvara.

Jóhanns úr Kötlum Búðardal

Ég hylli hreystina og þorið.
Ég hylli æskuna og vorið.
Ég hylli allt það sem vex og vakir
og vinnur óskipt að málum.
Ég hylli glaður hinn öra eld
í ungum, leitandi sálum.

Minnisvarðinn var afhjúpaður á afmælisdegi skáldsins, 4. nóvember 1990 og stendur í Búðardal


Jón frá Ljárskógum (1914-1945)
Jón frá Ljárskógum

Jón Jónsson söngvari og skáld frá Ljárskógum
fæddur 28.3.1949
dáinn 7.10.1945

Lífsins fyrstu fögru helgidóma
fann ég hér í ríki söngs og hljóma.

MA kvartettinn stofnaður 1932 starfaði með miklum glæsibrag til ársins 1942.

Minning þín lifir

Í Ljárskógum fæddist Jón Jónsson (1914–45), skáld og söngvari í M.A. kvartettnum. Jón lést úr berklum á Vífilsstöðum aðeins 31 árs gamall.

Jón frá Ljárskógum

Minnisvarði um Jón var reistur vestan við veginn í landi Ljárskóga.


Leifur Eiríksson
Leifufr heppni Haukadal

Minnisvarði um Leif heppna Eiríksson.

Verkið er eftir Nínu Sæmundsson og stendur við Eiríksstaði í Haukadal, afhjúpað árið 2000 í tilefni af 1000 ára afmæli landafundanna.


Kirkja í Búðardal á Skarðsströnd
Búðardalskirkjugarður
Búðardalur

Á myndinni eru tveir minnisvarðar í kirkjugarðinum, sá minni er um kirkjuna sem þar stóð til 1849 en hinn stærri er með nöfnum höfðinga sem grafnir eru í kirkjugarðinum. Nöfnin á steininum eru: Magnús Ketilsson (1732-1803) og k.h. Ragnhildur Eggertsdóttir (1740-1793), Friðrik Eggerz (1802 -1894) og k.h. Arndís Pétursdóttir (1824-1864), Eggert Jónsson (1775-1846) og k.h. Guðrún Magnúsdóttir (1777-1843).

Búðardalskirkjugarður

,,Hér stóð kirkja og kirkjugarður um aldir.
Kirkja í Búðardal á Skarðströnd er nefnd í kirknaskrá Páls biskups frá því um 1200.
Búðardalskirkja var lögð niður með konungsbréfi 14. september 1849.
Í Búðardalskirkjugarði mun síðast hafa verið jarðsett árið 1914.” [Skilti]

Búðardalskirkjugarður

Minnisvarðarnir standa í kirkjugarði Búðardalskirkju í Búðardal á Skarðsströnd


Minnisvarði um skáldin þrjú, Sturla Þórðarson (1214-1284), Stefán frá Hvítadal (1887-1933), Steinn Steinar (1908-1958)
Stefán frá Hvítadal

Sögufélag Dalamanna lét reisa þennan minnisvarða um skáldin þrjú, Sturla Þórðarson, Stefán frá Hvítadal og Stein Steinar og var hann afhjúpaður þann 23. ágúst 2008.

Hönnuður verksins var Jón Sigurpálsson, safnvörður og listamaður á Ísafirði.

Ari Jóhannesson og Kristinn sonur hans hlóðu umgjörðina um planið og fjölmargir aðilar veittu verkefninu mikilsverðan stuðning. 

Sögufélagið þakkar öllum aðilum sitt framlag.

Sturla Þórðarson (1214-1284)
Sturla var fæddur 1214, launsonur Þórðar á Stað á Ölduhrygg, sonar Sturlu í Hvammi. Hann bjó á ýmsum stöðum í Dölum og víðar en lengst á Staðarhóli eða um fjóra áratugi. Hann tók virkan þátt í deilum Sturlungaaldar en var þó sjálfur í friðsamara lagi. Flugumýrarbrenna 1253 var í brúðkaupi Ingibjargar dóttur Sturlu og Halls sonar Gissurar Þorvaldssonar.
Sturla var lögsögumaður 1251 og lögmaður 1272-1282, átti hlut að samningu Járnsíðu 1271, fyrstu lögbókar Íslendinga eftir að þeir gerðust þegnar Noregskonungs. Hann var sæmdur riddaranafnbót af Magnúsi konungi lagabæti árið 1277. Hann andaðist í Fagurey á Breiðafirði 1284.
Sturla er þekktastur sem sagnaritari. Frá hans hendi er elsta varðveitt heil gerð Landnámabókar. Líklegt er að hann sé einnig höfundur Kristni sögu. Hann samdi einnig sögu Hákonar konungs Hákonarsonar og Magnúsar konungs lagabætis. Sumir hafa viljað eigna honum frumgerð Grettis sögu. Höfuðrit hans er þó Íslendingasaga sem er kjarninn í safnritinu Sturlunga sögu og í reynd saga 13. aldar á Íslandi. Merkilegt þykir hversu lítt hlutdrægur Sturla er í umfjöllun sinni þótt honum séu málin oft skyld.
Sturla var einnig lipurt ljóðskáld en helstu varðveitt kvæði hans eru um konungana Hákon og Magnús. Sturla og Ólafur bróðir hans hvítaskáld voru síðustu íslensku hirðskáldin. [Skilti]

Stefán frá Hvítadal (1887-1933)
Stefán fra Hvítadal var Sigurðsson og fæddist á Hólmavík 11. október 1887. Hann fluttist 15 ára með fósturforeldrum sínum suður að Hvítadal í Saurbæ og dvaldist þar næstu árin. Haustið 1912 sigldi hann til Noregs, dvaldist þar í þrjú ár og kynnti sér norskar bókmenntir. Hann veiktist 1914 af berklum og dvaldist á heilsuhælum þar til hann kom heim til Íslands 1916.
Árið 1918 kom fyrsta ljóðabók Stefáns út, Söngvar förumannsins, sem vakti mikla athygli, enda má segja að sú bók hafi markað tímamót í íslenskum bókmenntum. Hann segir skilið við arfleifð hinna stórvirku skálda 19. aldar. Öll ljóð bókarinnar eiga upptök í tilfinningalífi skáldsins, þau eru laus við sögulega fortíð, átthaga, þjóðerni, staðbundnar náttúrulýsingar eða mannlýsingar. Þar ríkir nútíðin ein í hjarta skáldsins sjálfs. Hann yrkir ýmist um ástir, svani og sól eða myrkur, dapurleika og dauða, en er ætíð hinn ungi förumaður sem ferðast einn gegnum gleði, sorgir og ástir.
Önnur bók Stefáns var Óður einyrkjans 1921, en hann gaf alls út 5 ljóðabækur. Stefán tók katólska trú á síðari árum og orti mörg trúarljóð, en þekktast mun vera sálmurinn Kirkjan ómar öll, sem oft er flutt við fagurt lag Sigvalda Kaldalóns.
Næstu bækur voru Heilög kirkja 1924, Helsingjar 1927 og loks Anno Domini 1930 um Alþingishátíðina sama ár. Sú bók kom út 1933, sama ár og Stefán dó, og þar er hann reyndar orðinn sögulega sinnaður.
Stefán kvæntist árið 1919, Sigríði Jónsdóttur frá Ballará og eignuðust þau tíu börn. Stefán var góður hestamaður og kemur víða fram hjá honum að á erfiðum stundum væri fátt betra en að leggja á góðan hest og leita út í náttúruna. Þá var Kolbakur hans, sá afburða gæðingur, bestur til að létta honum stundirnar. Stefán bjó í Bessatungu síðustu tíu árin. Hann andaðist 7. mars 1933 og var jarðsettur á Kirkjubóli. [Skilti]

Steinn Steinar (1908-1958)
Steinn hét fullu nafni Aðalsteinn Kristmundsson. Hann fæddist á Laugalandi við Ísafjarðardjúp 13. október 1908, en fluttist á öðru ári með móður sinni suður í Saurbæ og ólst þar upp, fyrst í Bessatungu en frá 6 ára aldri í Miklagarði þar sem hann átti góða vist hjá Kristínu Tómasdóttur fóstru sinni, Steingrími syni hennar og Steinunni konu hans.
Á unglingsárum var Steinn í vist á ýmsum bæjum og kallaður Alli. Um fermingu var hann til heimilis á Hvoli og haustið 1925, þegar hann fór í skóla á Núpi í Dýrafirði var hann á Tindum í Geiradal. Hann var aðeins einn vetur í Núpsskóla og var það eina skólagangan sem honum hlotnaðist eftir að barnaskóla lauk. 
Næstu árin var hann á ýmsum stöðum, bæði í Saurbæ og annars staðar, og stundaði ýmsa erfiðisvinnu. Hann þoldi hana illa sökum vanmáttar í vinstri hendi, sem hann hlaut af völdum lömunarveiki innan við tvítugt. Um tvítugt flyst hann til Reykjavíkur.
Hugur hans beindist snemma til skáldskapar, jafnvel strax á barnsaldri, þótt hann síðar teldi sig ekkert hafa ort fyrr en á þrítugsaldri.
Fyrstu kvæði Steins birtust árið 1931 og næstu árin birtast mörg ljóða hans í blöðum og tímaritum. Skömmu fyrir jól 1934 kemur fyrsta ljóðabók hans Þar rauður loginn brann og vakti strax nokkra athygli. Önnur bók Steins, Ljóð kom út 1937 og síðan hver af annarri, Spor í sandi 1940, Ferð án fyrirheits. Ljóð 1934-1954.
Steinn naut skáldastyrks frá 1936 og létti það mjög undir með honum, hann gat farið til útlanda og kynnst erlendum menningarstraumum, bæði á Norðurlöndum og í Suður-Evrópu. Steinn unni mjög bernskuheimkynnum sínum og má segja að fáir hafi lýst þeim á feguri hátt en hann bæði í ljóðum og lausu máli. Öllum ber saman um snilld Steins og áhrifamátt en eru ósammála um í hverju ljóðagaldur hans sé fólginn. Menn nefna ýmist háð, fyndni, ádeilu, djúphygli, tómhyggju eða tæra fegurð. Hann er tvímælalaust eitt vinsælasta skáld 20. aldar og í fáa er oftar vitnað.
Kona Steins var Ásthildur Björnsdóttir, sem reyndist honum einstakur lífsförunautur allt til enda. Steinn dó á hvítasunnudag, 25. maí 1958, tæplega fimmtugur. [Skilti]


Magnús Jónsson (1835-1922)
Magnús Jónsson Tjaldanesi
Magnús Jónsson í Tjaldanesi

Til minningar um Magnús Jónsson í Tjaldanesi (1835-1922), bónda, hreppstjóra og fræðimann.
,,Einn af sögufróðustu og mikilvirkustu sagnaskrifurum Íslands á síðari hluta 19. aldar og fram á 20. öld.”
Mathew James Driscoll.

Skessuhorn 18. maí 2022:

Síðastliðinn laugardag var afhjúpaður minnisvarði um Magnús Jónsson bónda og fræðimann í Tjaldanesi, en 17. maí voru liðin eitt hundrað ár frá andláti hans. Dagurinn var bjartur og rúmlega 50 manns komin saman til að minnast Magnúsar, en hann á nú 599 afkomendur á lífi og stóðu þeir að því að reisa minnisvarðann. Helstu hvatamenn að því að minnast Magnúsar með þessum hætti voru þeir Magnús Ólafur Jónsson (1921 – 2010) frá Stykkishólmi og Matthew James Driscoll, prófessor. Magnús Jónsson (1835- 1922) var bóndi í Tjaldanesi 1867 – 1909, hreppstjóri og fræðimaður. Hann skrifaði upp ótal handrit, en við afhjúpun minnisvarðans kom fram að hann hafi líklega skrifað einar 80 þúsund blaðsíður um ævina. Við skriftirnar notaði hann álftafjaðrir. Á handrit.is er að finna ljósrit af fjörutíu og þremur bókum Magnúsar. Auk þess er vitað um þrjár óskráðar bækur í einkaeign. Kona Magnúsar var Ólöf Guðlaugsdóttir (1829 –1904), einnig merk kona, en hún var ljósmóðir og kunni sitthvað fyrir sér í grasalækningum. Minnisvarðinn, er stuðlaberg úr Tjaldaneshlíð og stendur við Skarðstrandarveg, vestan við afleggjarann að Tjaldanesi. Þaðan er útsýni frábært, bæði fögur fjallasýn og til sjávar, þar sem Breiðafjörðurinn opnast mót vestri. Hönnuður minnisvarðans er Birgir Jóakimsson og um uppsetningu annaðist Ari Jóhannesson. Við athöfnina á laugardaginn flutti Kristjón Sigurðsson ávarp um Magnús, Ólöf Salmon Guðmundsdóttir sagði frá Ólöfu og Boga Kristín Kristinsdóttir, yngsta langafabarn Magnúsar, afhjúpaði minninvarðann. Að því loknu var kaffisamsæti í Tjarnarlundi.

Magnús Jónsson Tjaldanesi

Minnisvarðinn sem var reistur árið 2023, stendur við Tjaldanes í Saurbæ, Dalasýslu


Torfi Bjarnason (1838-1915) – Guðlaug Sakaríasdóttir (1835-1937)
Torfi Bjarnason - Ólafsdal

Torfi Bjarnason – Guðlaug Sakaríasdóttir Ólafsdal
Akrar voru frjóir og aldingarðar
gladdist arður í grænum sverði.
  [EG.ÓL]

Ólafsdalsskólinn var fyrsti bændaskóli á Íslandi og tilgangur með stofnun hans að kenna bændum verklega og bóklega jarðrækt. Húnvetningar höfðu haft hug á að stofna til þessa sérstaklega fyrirmyndarbú og fá Torfa til forustu þess. Í því skyni sigldi Torfi til Skotlands til að læra jarðyrkju fyrstur íslendinga og hafði Torfi meðferðis til bakabúfræðiþekkingu frá Skotlandi. Ólafsdalsskóli var settur á stofn fyrir sakir áhrifa strauma erlendis frá, en með stofnun hans var formgerð þekking Torfa og fleiri sem þá störfuðu víða um land sem farandbúfræðingar.

Skólinn var settur i fyrsta sinn 1. júní 1880 þegar fimm ungir menn hófu þar nám. Var námsárið frá vori til vors og námstíminn tvö ár. Voru nemendur ráðnir til ársvistar í senn með áskilnaði um skipulagt jarðræktarnám. Áhersla í námi var á kennslu í notkun hestaverkfæra við jarðræktarstörf og heyskap og komu nemendur jafnframt að smíði á eigin verkfærum. Bókleg kennsla var í reikningi, efnafræði, grasa- og jarðræktarfræði, hagfræði og teikningu, húsdýrafræði og eðlisfræði. Nemendur gengu jafnt til allra verka sem og undirbúnings fyrirlestra kennarans.

Torfi Bjarnason Ólafsdal

Minnisvarðinn er gerður af Ríkarði Jónssyni og stendur neðan við bæinn í Ólafsdal. Ljóðlínur eru eftir Eggert Ólafsson.


Lagað og bætt við 16. sept. 2024.