Grímur Marinó Steindórsson (1933-2019)

Um Grím Marinó Steindórsson

Grímur Marinó Steindórsson listamaður fæddist 25. maí 1933 í Vestmannaeyjum. Hann lést 5. júní 2019.
Hann stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni og sótti nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Grímur var lærður járnsmiður og vann við þá iðn sína, og lagði stund á höggmynda og málaralist. Hann sótti sjóinn frá unga aldri, átti og gerði út trillu.

Listaverk Gríms Marinós eru víða um land, meðal annars Súlurnar á Hörgaeyrargarði í Eyjum, skútan við höfnina í Stykkishólmi, Beðið í von á Hellissandi, Vor við Fjölbrautaskólann á Húsavík og Friður, verðlaunaverkið um fund þeirra Gorbatsjov og Reagan í Reykjavík. Þá var verk hans Landpóstar vígt með athöfn við Staðarskála í Hrútafirði að viðstöddu fjölmenni, Jötnar fyrir utan Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Í Kópavogi er Freyjublómið við Boðaþing.
Grímur Marinó myndskreytti einnig bækur.
Grímur Marinó tók tvisvar þátt í listasamkeppni og fékk jafnoft viðurkenningu fyrir verk sín. Hann fékk önnur verðlaun í samkeppni Listahátíðar um merki hátíðarinnar 1988 og sama ár fékk hann fyrstu verðlaun í samkeppni ferðamálanefndar Reykjavíkur um minjagrip í tilefni af leiðtogafundinum sem haldinn var í Reykjavík.
Grímur Marinó hélt fjölda sýninga, bæði einn og með öðrum, einkasýningar m.a. í Stöðlakoti, í Eyjum, Lions-heimilinu í Kópavogi, Safnahúsi Borgarfjarðar, Áhaldahúsi Kópavogs, Listasafni Kópavogs, Bókasafni Kópavogs, Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, safnaðarheimilinu Borgum, FÍM-salnum auk fjölda samsýninga, m.a. í Alþjóðlegri bóka- og listamessu í Sviss, Kongens Have, Skulpturbiennalen, Kaupmannahöfn, Nyborg í Danmörku, Kjarvalsstöðum, Gallerí Langbrók.
Árið 1992 hélt hann mikla sýningu í Perlunni í Reykjavík, með verkum úr stáli og grjóti. Hrafn Andrés Harðarson frændi Gríms orti ljóð við verkin og voru þau birt á veggjum. Gunnar Reynir Sveinsson tónskáld samdi tónlist við verkin og ljóðin.
Grímur stóð fyrir annarri sýningu í Perlunni og í bæði skiptin var boðið upp á tónlist Gunnars Reynis, m.a. verkið Málmgrímur og söngvasveigar hans við ljóð Hrafns Andrésar, Hlér og Tónmyndaljóð, og einnig gáfu þeir þremenningar út bók með heitinu Tónmyndaljóð, bæði á íslensku og ensku.
Á alheimsráðstefnu World Renewable Energy í Flórens átti að heiðra þá þjóð, sem mest hefur lagt af mörkum til að breyta innviðum sínum í sjálfbæra orkugjafa. Verðlaunagripurinn var listaverk eftir Grím Marinó Steindórsson, sem hannaði sérstakan táknrænan grip; skip sem siglir fullum seglum vindorku, með sólargeisla yfir hraunmola í skál á þilfari, tákn jarðvarma og vatnsafls. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti orkumálaráðherra Kýpur verðlaunagripinn í glæsilegum hallarkynnum Palazzo Pitti.
Grímur bjó í Kópavogi um áratugaskeið, var útnefndur bæjarlistamaður Kópavogs.
Verk hans eru í opinberri eigu víða um land. [Heimaslóð]


Útilistaverk Gríms Marinó Steindórssonar.

Það skal tekið fram að þetta er sennilega ekki tæmandi listi yfir útilistaverk Gríms Marinó, einungis þau sem ég hef fundið og fengið veður af.

Upphaf
Grímur Marinó
Upphaf 

Minnismerki um stofnun Ungmennafélagsins Breiðabliks í Kópavogi. Með þessu verki fylgdi flott drápa um upphafsmennina og afrek þeirra eftir Hrafn A. Harðarson.

Þetta verk eftir Grím Marinó stendur á íþróttasvæði Breiðabliks í Kópavogi


Kópur
Kópur - Grímur Marinó
Kópur (1998)

Verkið stendur á Kópavogstúni


Jónar
Jónar - Grímur Marinó
Jónar

Þetta verk stóð við Álalind í Kópavogi en er ekki þar lengur. Veit ekki hvað varð af því.


Mótun
Mótun - Grímur Marinó
Mótun (1994)

Verkið stendur við Smiðjuveg í Kópavogi


Grímur Marinó

Veit ekki hvað þetta verk heitir, en það stendur í anddyri Sundlaugar Kópavogs.


Minnisvarði um Ólaf Kárason
Ólafur Kárason Kópavogur
Grímur Marinó
Minnisvarði um Ólaf Kárason

Hjá lygnri móðu í geislaslóð
við græna kofann
hann sá hvar hún stóð hið fríða fljóð
fráhneppt að ofan.
    Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
    víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma.

Á hann leit hún æskuteitu
auga forðum
það var kvöld í sveit og hún kvaddi hann veit ég kærleiksorðum.
    Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
    víst skaltu öllum veraldar sorgum  gleyma.

Inst í hjarta augað bjarta
og orðið góða
hann geymir sem skart uns grafarhúm svart
mun gestum bjóða.
    Mitt er þitt og hjá mér áttu heima
    víst skaltu öllum veraldar sorgum gleyma.
H.K.L.

Verkið stendur við Smiðjuveg í Kópavogi


Freyjublóm
Freyjublóm - Grímur Marinó
Freyjublóm

Verkið stendur á hringtorgi í Boðaþingi í Kópavogi.


Opinberun
Opinberun - Grímur Marinó
Opinberun

15.300.000 fyrir Kristsburð

Saga jarðar
Tími
Umbreyting 
Mótun
Opinberun

Verkið stendur á horni Melabrautar og Brekkutraðar í Kópavogi


Aflamark 2000
Aflamark - Grímur Marinó
Aflamark 2000

Verkið stendur við höfnina í Kópavogi í heldur óhrjálegu umhverfi


Askur Yggdrasils
Askur Yggdrasils - Grímur Marinó
Askur Yggdrasils (1999)

Verkið stendur við nýbyggingarsvæði í hafnarhverfinu í vesturbæ Kópavogs


Grímur Marinó

Þetta verk stendur við Sjóminjasafnið í Reykjavík.


Dropinn holar steininn
Dropinn holar steininn - Grímur Marinó
Dropinn holar steininn (1994)

Verkið er gert fyrir Tandur hf í október 1994.
Verkið stendur við höfuðstöðvar fyrirtækisins í Reykjavík


Jötnar
Jötnar - Grímur Marinó
Jötnar (2000)

Verkið stendur við Fjarðakaup á horni Hafnarfjarðarvegar/Keflavíkurvegar í Hafnarfirði.

Þegar þetta verk var afhjúpaö var það gert með þyrlu sem hífði klæðið af sem huldi verkið


Sólstafur
Sólstafur - Grímur Marinó
Sólstafur (1994)

Í skjóli nokkurra trjáa stendur verk Gríms Marinós Steindórssonar eilítið falið á bak við runna við Sólvang, dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði. Lýrískur titill verksins kallast á við minjagrip sem Grímur vann í tilefni af sögulegum leiðtogafundi Gorbatsjovs og Reagans í Höfða í Reykjavík árið 1986. Þá var áletrunin á gripnum svohljóðandi: „Sólin rís upp frá bjargbrún og sólstafir falla á upphafsdag. Friðardúfur flögra létt til himna á vit hins ókomna.“ Endurspeglast þessi ljóðræna jafnframt í verkinu, sem er stílhreint og formfagurt, enda þótt efni þess sé kalt stálið. Dregur listamaðurinn þannig með natni sinni fram hið fínlega í efninu, svo sjá má bæði jafnvægi og stíganda á hinum lóðrétta ás verksins, frá stöpli þess til hinnar rúnuðu málmkúlu, sjálfrar kringlu sólarinnar, sem trónir á toppi þess. Verkið var á meðal vegg- og höggmynda listamannsins á sýningu hans, Vorkomu, í Gerðarsafni árið 1995. [utilistaverk.hafnarborg.is]

Verkið stendur við Sólvang, Dvalarheimili aldraðra í Hafnarfirði


Harpa
Harpa - Grímur Marinó
Harpa - Grímur Marinó
Harpa (1999)

Hér má sjá listaverkið Hörpu, í Skansfjöru þar sem hún gegndi um tíma hlutverki innsiglingarvita. Eftir að verkið hafði lotið í lægra haldi fyrir ágangi sjávar og vinda var því bjargað í hús. Á Hörpunni eru tæki til veðurmælinga og ýmis tákn gæfu og heilla til sæfarenda. Uppistaðan í verkinu er fjögra laufa smári og í gegnum hann ganga rör eða pípur og súla en listamaðurinn hugsaði sér að vindurinn gæti spilað stef sín á pípurnar eins og nokkurs konar orgel. Á súluna eru rituð þrenn spakmæli: ,,Vant er að sigla milli skers og báru“, ,,Gott er heilu fari heim að sigla“ og ,,Sefur logn á boða baki“.Harpan var upphaflega merki Daga lita og tóna, menningarhátíðar Listvinafélagsins sem haldin var í Akóges um hvítasunnuhelgina 1999 en Grímur Marinó var listamaður þeirrar hátíðar. [Helga Hallbergsdóttir

Myndin til hægri sýnir verkið á nýjum stað, undir Löngu í Vestmannaeyjum


Súlukast
Súlukast - Grímur Marinó
Súlukast

Verkið stendur á enda Hörgeyrargarðs í Vestmannaeyjum


Hagfeldi
Hagfeldi - Grímur Marinó
Hagfeldi (1997-8)

Verkið stendur við Höllina í Vestmannaeyjum


Fálki
Fálki - Grímur Marinó
Fálki (1994)
Tákn frelsis og frjálsrar hugsunar

Verkið stendur í Djúpadal í Vestmannaeyjum, skammt frá Flugstöðinni


Upphaf friðar – Friður – Peace – Mir
Friður - Grímur Marinó
Upphaf friðar - Grímur Marinó
Upphaf friðar 

Dagana 11. og 12. október 1986 var haldinn fundur þjóðhöfðingja stórveldanna tveggja, Bandaríkja Norður-Ameríku og Sovétríkjanna, að Höfða í Reykjavík.
Þessi fundur þeirra Mikhails Gorbatsjovs og Ronalds Reagans var upphafið að að lokum kalda stríðsins: Þjóðir fengu frelsi, tjáskipti urðu frjáls og einstaklingar fengu loks ráðið högum sínum.
Lýðræði er nú víðar viðurkennt sem grundvöllur stjórnskipunar en áður og milljónir manna fögnuðu nýfengnu frelsi og auknu lýðræði. (Texti á ensku, íslensku og rússnesku).

Efnt var til samkeppni um listaverk þegar Ronald Reagan og Mikhail Gorbachov komu hingað til lands til fundar og vann Grímur Marinó þá samkeppni með þessu verki.

Annað verkið stendur við Flugstöðina í Vestmannaeyjum og hitt við Byggðasafnið á Skógum,


Gjálfur
Gjálfur - Grímur Marinó
Gjálfur

Verkið stendur við Byggðasafnið á Skógum


Sigurfari
Sigurfari - Grímur Marinó
Sigurfari - Grímur Marinó
Sigurfari (2001)

Eins og sjá má af myndinni til hægri (neðri) sem tekin er árið 2006, hefur verkið lotið í lægra haldi væntanlega fyrir veðri og vindum og vantar töluvert á það núna miðað við upphaflega gerð.

Verkið stendur við Byggðasafnið á Skógum


Gnýr
Gnýr - Grímur Marinó
Gnýr (2001)

Verkið er í eigu tryggingafélagsins Sjóvá og stendur við Garðabraut 2 á Akranesi


Vor
Vorkoma - Grímur Marinó
Vor 

Verkið er í Þorlákshöfn


Grímur Marinó

Hef ekki nafnið á þessu verki, en það stendur í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi


Á heimleið
Stykkishólmur
Á heimleið (1994)

Listaverk í minningu sjómanna gert af Grími Marinó Steindórssyni.

Verkið stendur við höfnina í Stykkishólmi. Það var afhjúpað af Vigdísi Finnbogadóttur forseta á Sjómannadaginn 1994. 

Kirkja er okkur ströndin
og hafið og fjallið,
guðspjall dagsins 
vanmáttur mannsins
í lífi og dauða.
Jón úr Vör

Við afhjúpunina, sem fram fór í blíðskaparveðri, var frumflutt tónverk eftir Þórð G. Halldórsson, við ljóð eftir Emilíu Guðmundsdóttur úr bókinni Ljóðblik. Þá bók myndskreytti Grímur Marinó. (Mbl.).


Beðið í von
Beðið í von - Grímur Marinó
Beðið í von (2000)

Verkið stendur á Hellissandi


Minnisvarði um landpósta
Landpóstar - Grímur Marinó
Minnisvarði um landpósta (1992)

Minnisvarðinn um landpóstana er unninn af Grími Marinó Steindórssyni myndhöggvara. Verkið er stálsúla, um 3,5 metrar á hæð, og greinist í þrjár burstir að ofan. Á súlunni er lágmynd af manni á hesti, sem teymir töskuhest. Frumkvæði að gerð minnisvarðans áttu þeir Staðarbræður Magnús og Eiríkur Gíslasynir. [Mbl. 13/5/1993]

Verkið var afhjúpað árið 1993 við Staðarskála í Hrútafirði, en var flutt að áningarstað N1 í Hrútafirði þegar vegurinn um Hrútafjörð var fluttur.

Landpóstar - Grímur Marinó

Vorkoma
Vorkoma - Grímur Marinó
Vorkoma (1995)

Verkið stendur við Fjólbrautaskólann á Húsavík


Fjötrar
Fjötrar - Grímur Marinó
Fjötrar

Þetta verk er á Raufarhöfn


Þórshöfn - Grímur Marinó

Þetta verk er á endanum á hafnargarðinum á Þórshöfn. Hef ekki nafnið á því.


Fjalir
Grímur Marinó
Fjalir (1997)

Verkið stendur sammt frá Land hóteli í Landsveit.