Útilistaverk á Suðurlandi

Vestmannaeyjar

Áki Gräns
Ási í Bæ

Ási í Bæ var skáld, veiðimaður, tónlistarmaður og einn af fremstu listamönnum Vestmannaeyja. Bæjarinn Ástgeir Kristinn Ólafsson, eins og Litlubæingar eru kallaðir, fæddist í Eyjum 27. febrúar 1914 og lést 1. maí 1985.Höggmyndina gerði Áki Gräns listmálari og myndhöggvari að beiðni Árna Johnsen. Ísfélagið annaðist uppsteypu verksins í kopar og frágang. Verkið stendur við höfnina í Vestmannaeyjum.

Ásmundur Sveinsson
Tröllkerlingin

eftir Ásmund Sveinsson myndhöggvara.Eyjaberg fiskverkunarstöð, Fiskiðjan hf, Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum hf, Ísfélag Vestmannaeyja hf, Vinnslustöðin hfgáfu Vestmannaeyingum verkið 1975

Verkið stendur á Stakkagerðistúni  framan við Ráðhúsið 

 

Einar Jónsson
Fæðing Psyche (1915-27)

Listaverk eftir Einar Jónsson

Heiti verksins má rekja til forngrískrar goðsagnar um stúlkuna Psyche, persónugerving mannssálarinnar, sem bygging verksins hverfist um. Í flötunum fjórum eru persónugervingar höfuðskepnanna, jarðarinnar í vinstra horni neðst þar sem myndhöggvari með stuðlaberg sér að baki heggur mynd stúlkunnar úr berginu, loftsins í mynd mannveru sem kemur eins og andblær inn á sviðið efst til vinstri, eldsins sem tekur á móti mannssálinni efst í hægra horni og vekur kærleikann með kossi og vatnsins sem leitar inn á sviðið neðst til hægri og strýkur nýskapnaðinn mjúklega.

Stendur við Vesturveg

 

Alda aldanna

eftir Einar Jónsson myndhöggvara.Eyjaberg fiskverkunarstöð, Fiskiðjan hf, Fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum hf, Ísfélag Vestmannaeyja hf, Vinnslustöðin hfgáfu Vestmannaeyingum verkið 1975 Verkið stendur á torgi mlli Landakirkju og kirkjugarðsins

Steinmaðurinn

Eftir Birgi Eggertsson

Stóð á Eiðinu, en var fluttur út á Nýjahraun og þaðan í safnið við Höfðaból

 

Birgir Eggertsson
Steinmaður (?)

Eftir Birgi Eggertsson

Stendur í Gaujulundi

 

Gerður Helgadóttir
Í minningu foreldra minna

Listaverk eftir Gerði Helgadóttur
Verkið er jafnframt minnisvarði um Einar Sigurðsson.

Stendur á Skansinum sunnan við hafnargarðinn

 

Friðarmerki
“Upphaf friðar”

“Dagana 11. og 12. október 1986 var haldinn fundur þjóðhöfðingja stórveldanna tveggja, Bandaríkja Norður-Ameríku og Sovétríkjanna, að Höfða í Reykjavík.
Þessi fundur þeirra Mikhails Gorbatsjovs og Ronalds Regans var upphafið að lokum kalda stríðsins: Þjóðir fengu frelsi, tjáskipðti urðu frjáls og einstaklingur fengu loks ráðið högum sínum. Lýðræði er nú víðar viðurkennt sem grundvöllur stjórnskipunar en áður og milljóniur manna fögnuðu nýfengnu frelsi og aukni lýðræði.”

Listaverkið er eftir Grím Marinó Steindórsson og stendur á flugvellinum í Vestmannaeyjum

 

Grímur Marinó
Harpa

Þetta listaverk þjónaði um tíma sem innsiglingamerki í Vestmannaeyjahöfn, en hefur verið fjarlægt úr innsiglingunni og komið fyrir undir Löngu.

Á Hörpunni eru tæki til veðurmælinga og ýmis tákn gæfu og heilla til sæfarenda. Uppistaðan í verkinu er fögurra laufa smári og í gegnum hann ganga rör eða pípur og súla en listamaðurinn hugsaði sér að vindurinn gæti spilaði stef sín á pípurnar eins og nokkurs konar orgel. Á súlurnar eru rituð þrenn spakmæli: ,,Vant er að sigla milli skers og báru”, ,,Gott er heilu fari heim að sigla” og ,,Sefur logn á boða baki”.

Harpan var upphaflega merki Daga lita og tóna, menningarhátíðar Listvinafélæagsins sem haldin var í Akóges um hvítasunnuhelgina 1999, en Grímur Marinó var listamaður þeirrar hátíðar. [Texti eftir Helgu Hallbergsdóttur].

Verkið er eftir Grím Marinó Steindórsson

Grímur Marinó
Súlukast

Listaverkið stendur á enda Hörgeirargarðs og er eftir Grím Marinó Steindórsson

Grímur Marinó
Fálki

Verkið stendur í Djúpadal við Flugstöðina og er eftir Grím Marinó Steindórsson

Grímur Marinó
Hagfeldi

Listaverk eftir Grím Marinó Steindórsson.

Verkið stendur ofan við Löngulág, við Höllina.

 

Sjómaðurinn

Listaverkið er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal.

Verkið er jafnframt minnisvarði um hrapaða og drukknaða í Eyjum

Verkið stendur fyrir framan Landakirkju

 

Guðmundur frá Miðdal
Stúlka með löngu

Listaverk eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal

Verkið stendur við Landlyst á Skansinum

 

Kjartan Mogensen
Eldkúlur í gíg

Listaverk eftir Kjartan Mogensen.

Verkið stendur niður við höfn, neðst á Heiðarvegi

Auróra

Auróra – eins og morgungyðjan (1996)
Þetta verk stendur austur á Heimaey, ekki langt frá Urðavitanum.
Verkið heitir Auróra eins og morgungyðjan, enda snýr hún ásjónu sinni til austurs.
Eyjamaðurinn Kristinn Viðar Pálsson (Kiddi á heflinum) gerði Auróru úr sex steinum úr Pelagusfjöru árið 1996.

Kristinn Viðar Pálsson
Nafnlaust

Listaverk líklega eftir Kristinn Viðar Pálsson.

Verkið stendur í efnisnámu í nýja hrauninu.

 

Kristinn Viðar Pálsson
Óður til hafsins

Verk eftir Kristinn Viðar Pálsson

Verkið stendur í efnisnámu í nýja hrauninu.

 

Lesandi drengur

Listaverk eftir Magnús Á. Árnason.

Verkið stendur í kirkjugarðinum í Vestmannaeyjum og er til minningar um Sigurbjörn Sveinsson, rithöfund barnanna.

 

Páll á Húsafelli
Samspil vatns og steins

Högglistaverkið ,,Samspil vatns og steins” eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli er ásamt umgjörð þess gjöf til bæjarbúa í tilefni þess að 35 ár eru liðin frá stofnun Vatnsveitu Vestmannaeyja árið 1966 og að vatnsleyðsla var lögð til eyja árið 1968.

Afhent við athöfn 7. júlí 2001. Bæjarveitur Vestmannaeyja.

Stendur á Stakkagerðistúni

 

Páll á Húsafelli
Drykkjarskál

Eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli.
Hefur sennilega komið um leið og verkið ,,Samspil vatns og steins”

Stendur á Stakkagerðistúni

 

Tyrkja-Gudda
Tyrkja-Gudda

Guðríður Símonardóttir – Tyrkja-Gudda
Listaverk eftir Ragnhildi Stefánsdóttur.
Verkið er einnig minnisvarði um Tyrkjaránið og Guðríði Símonardóttur

Stendur á Stakkagerðistúni

 

Bjargfugl

Listaverk eftir Ragnhildi Stefánsdóttur. Verkið vængbrotnaði eftir ,,viðureign” við snjómoksturstæki.

Verkið stendur við Hraunbúðir.

 

Steinunn Þórarinsdóttir
Nálægð

Maður og náttúra.

Listaverk eftir Steinunni Þórarinsdóttur.

Verkið stendur i garðinum hjá Magnúsi Kristinssyni á Skólavegi 7

 

Steiunn Þórarinsdóttir
Gróska

Maður, jörð og skuggi trés. 

Listaverk eftir Steinunni Þórarinsdóttur (2008).

Verkið stendur í garðinum hjá Magnúsi Kristinssyni á Skólavegi 7

 

Örn Þorsteinsson
Steinflaugin

Örn Þorsteinsson vann Steinflaugina í gabbró fyrir Flugmálastjórn í tilefni af endurvígslu stækkaðrar flugstöðvar í Vestmannaeyjum 21.01.2000. Verkið má sjá inni í biðsal flugstöðvarinnar.

 

Síminn

Hef ekki upplýsingar um höfund verksins.
Verkið stendur á Eiðinu og er minnisvarði um komu símans til Vestmannaeyja 1906.

Búkolla
Sagan af Búkollu

Veit ekkert meira um verkið.
Stendur við Safnahúsið

Hraun og menn 1999

Hraun og menn er verkefni sem farið var af stað með árið 1998 er 25 ár voru liðin frá gosi en komst ekki í framkvæmd fyrr en ári síðar. Hugmyndin kom frá Árna Johnsen alþingismanni en sambærilegt verkefni hafði verið unnið í Quaqortoq á Grænlandi 1993 og 1994 undir nafninu Sten og Menneske. Hér var um að ræða
samstarfsverkefni Þróunarfélags Vestmannaeyja, Vestmannaeyjabæjar, einkaaðila og myndlistarmanna á Norðurlöndum en alls komu 24 listamenn að verkefninu.

Meginhugmyndin var að efla menningarlegt samstarf myndlistarmanna á Norðurlöndum og þá einkum þeirra sem vinna úr hugmyndum tengdum landi og hafi. Verkin átti að gera í nánum tengslum við náttúru og umhverfi Eyjanna, efla nýjar hugmyndir og opna hug listamanna og almennings gagnvart myndlist og myndsköpun.

Verkefnið hófst í júlímánuði 1999 og síðustu verkin voru afhent í október sama ár. Efniviðurinn var að mestu leyti valinn í náttúru Eyjanna nema fimm stórir gabbrósteinar sem fluttir voru frá Hornafirði. Grjótið var flutt á Stakkagerðistúnið, þar sem flestir listamannanna unnu verk sín fyrir augum almennings. Sumir komu með hugmyndir að verkum með sér en aðrir létu umhverfið blása sér þær í brjóst. Höggmyndunum var síðan komið fyrir á mismunandi stöðum á Heimaey í samráði við listamennina.

Þessi texti og texti við myndirnar er eftir Helgu Hallbergsdóttur.

Örn Þorsteinsson
11 sögur

Listamaðurinn kveðst eiga alveg einstaklega skemmtilegar minningar frá þessu verkefni, sem jafnframt var fyrsta för hans til Eyja. Hann hafði áður unnið í granít og grástein en aldrei í gabbró, sem hann taldi alveg einstaklega skemmtilegt grjót. Á kvöldin las hann Eyjasögur um menn og dýr sem síðan settu spor sín í verkið, sem er gríðarstórt.

Stranding

“Stranding” heitir verkið sem hér er á mynd. Það er eitt af þeim ómerktu og er eftir danska listamanninn Claus Örntoft og stendur í Klaufinni. Það minnir einna helst á risavaxið sæskrýmsli sem synt hefur í land og mænir á vegfaranda. Steinninn er basaltgrjót sem listamaðurinn fann í Klaufinni. Orku steinsins sagði haan hafa sprottið fram í formi eins konar auga furðuveru sem fylgist með innan frá. Gaman er að fylgjast með hvernig hafið hefur snúið þessari furðuveru í gegnum árin og minnir okkur enn og aftur enn og aftur á mátt hafsins sem gefur og tekur.

Sólsteinn
Sólsteinn – Steinn Salomóns

Verkið gerði Buuti Pedersen frá Quaqortoq á Grænlandi.  Sólsteinninn er gerður úr nýju hraungrjóti úr Eldfellinu. Listamanninum fannst steinninn strax tala til sín, heill og fagur og minnti helst á hjarta. Í hjartað mótaði hún sólina og þar í kring þrjár fígúrur sem allar eru táknrænar fyrir lífið. Á meðan hún vann verkið frétti hún andlát fögurra ára drengs sem hét Salomon. Steinninn varð því eins konar minningarsteinn Salomons.

Buuti Pedersen valdi  verki sínu stað við sundlaugina, þar sem henni fannst svo gott að hvíla lúin bein á meðan á verkefninu stóð.

 

Líflína
Líflínan
Líflínan

Líflínan – verkið eftir K. Stemström og B. Tieaho er eitt af verkunum úr “Hrauni og mönnum”.
Líflínan á enga raunverulega byrjun eða endi. Hún er samsett úr mismunandi hraungrjóti, stóru og smáu, fínlegu og stórgerðu í beinni línu og í bugðum en heldur samt áfram eins og lífið sjálft og myndar þannig stærri heild. Höfundarnir eru Kicki Stenström (sænsk) og Barbara Tieaho (finnsk) og er það á grasbala vestan við Eldfell.
Auk þess að hafa numið höggmyndalist í Svíþjóð vann Stenström við myndsálgreiningu barna í Stokkhólmi.Líflínan er á grasbala ofan við Eldheima

Fuglsvængur
Fuglsvængir

Fuglsvængir eftir
finnsku listakonuna Minnu Tervo er á Töglum, vestur af Breiðabakka. Verkið
samanstendur af tveimur steinum sem listakonan fann á Breiðabakka og hafa nú
fengið nýtt hlutverk eftir að hún fór um þá höndum. Hún taldi steinana falla
vel inn í umhverfið og leyfði þeim að halda mynd sinni og lögun svo til
óbreyttri. Staðsetning verksins við sjávarbrún er mikilvæg því fuglsvængir geta
borið mann út á sjóinn og hvert sem maður vill.

 

Hvalur í öldu
Hvalur í öldu

Hvalur i öldu eftir Elizæus Nuka Lyberth.
Eitt af útilistaverkunum í “Hrauni og mönnum” er Hvalur í öldu. Verkið er úr vestmanneysku hraungrjóti. Hvalur varð fyrir valinu, því honum fannst hann tengja Grænland við Ísland. Hann olíubar síðan hvalinn sjálfan svo hann hefði dekkri lit en steinninn. Sá litur hefur nú máðst af listaverkinu. Valdi hann stað fyrir verkið framan við Fiska- og náttúrugripasafnið v/Heiðarveg en sómir sér nú vel meðal mjaldranna í Sea Life við höfnina og stendur þar við endann á sérstaklega fallegri grjóthleðslu.

Hlekkur
Veiðarfæralás

Veiðarfæralás eftir Poul Bækhoj.
Er eitt af verkunum úr “Hrauni og mönnum”, og samanstendur af tveimur steinum sem eru við Ægisdyr (ex Kaffi Kró). Listamaðurinn er Daninn Poul Bækhoj og ákvað hann strax að verk hans skyldi tengjast lífinu á staðnum og fólkinu í Eyjum. Hann hélt beint niður að höfn og fann þar í svörtum sandinum gamlan, ryðgaðan og slitinn veiðarfæralás, sennilega úr snurvoð segja sumir. Fornið heillaði hann strax og honum fannst lásinn vera táknrænn fyrir Eyjar, útgerðina og sjóinn. Hann valdi tvo steina. Í annan, aðfluttan gabbróstein frá Höfn, mótaði hann mynd af veiðarfæralásnum.Í hinn, hraungrjót frá gosinu 1973, gerði hann nokkurs konar spegilmynd eða negatívu af lásnum.

 

Steinmaður
Steinmaðurinn

Steinmaðurinn við enda Strandvegar, skammt frá Spröngunni, er eftir grænlensku listakonuna Marianne Jessen. Verkið mótaði listakonan í hraungrjót úr Eldfellshrauni. Myndefnið, sterklegt andlit umkringt hári, sagði hún að hefði eins og brotist út úr berginu.

 

Þeir stóru og sá litli
Steinmaðurinn
Þeir stóru og sá litli

Þeir stóru og sá litli eru í Hlíðarbrekkum. Verkið er eftir norska listamanninn Helge Röed, sem er með sterkar rætur í landslagslist og þá fyrst og fremst málaralist. Listamanninum gekk illa að fá hugmynd að verki. Fjöllin trufluðu, allt umhverfið var listaverk og honum fannst litlu við að bæta. Grjót sem fallið hafði úr Hánni niður í Hlíðarbrekkur heillaði mjög. Hann skynjaði  ákveðna leikræna kyrrð yfir öllu svæðinu en um leið nokkurs konar óöryggi og spennu. Hann taldi grjótið ekki hafa fallið tilvilunarkennt heldur fylgdu þeir ákveðnu mynstri. Hann dreymdi draum þar sem hann sá 16 steina svífa eins og biðukollur niður hlíðina. Síðastur kom sá minnsti. Hann tók því til við að raða grjóti í samræmi við drauminn.

Verkið sjálft samanstendur af 16 steinum sem listamaðurinn raðaði upp og kallast á við alla hina sem fallið hafa niður í grasi grónu hlíðina. Lítill steinn ákvarðar miðju verksins og er sá eini sem er brimsorfinn. Hér er því manngerð náttúra í bland við þá hefðbundnu, þar sem regla og óreiða kallast á.

 

Spírall
Spírall

Stendur á horni Strandvegar og Garðavegar er eftir dönsku listakonuna Lone Larsen. Verkið er
gert úr hraungrjóti, basalti, sem listakonan fann við rætur Heimakletts. Steininn taldi hún búa yfir orku og lék sér með spíralformið, sem hún magnaði upp með því að lita það rautt á  steininum. Hún notaði líka spíralformið, tákn hinnar eilífu hringiðu lífsins, til að skapa heildarsamspil verksins og umhverfisins.

 

Capital and temple

er á horni Flata og Strandvegar. Verkið er gert af Finnanum Bobi Richford Ekholm og er úr hraungrjóti. Fljótlega eftir komuna til Eyja vakti stórt hús í finnsku fánalitunum, blátt og hvítt, áhuga  listamannsins. Honum fannst húsið líkjast mest hofi og fann verki sínu því stað gegnt því. Hann heillaðist strax af einu hraungrjótinu sem honum fannst allt að því yfirnáttúrulegt. Listamaðurinn taldi að liggjandi á hlið gæti steinninn allt eins verið úr rústum frá korintutímabilinu. En þetta var steinn með hrauntilfinningu og það eina sem listamaðurinn vildi sýna voru tvö laufblöð og flatan toppinn. Hann hugsaði sér húsið og steininn sem eina heild, þar sem húsið væri eins og hof en steinninn eins og hluti af rústum, sem alltaf hefðu verið til staðar.

 

Hús guðanna

við Stafkirkuna á Skansinum er eftir Danann Niels Christian Frandsen. Listamaðurinn kom til Eyja með ákveðnar frumhugmyndir í farteskinu sem hann sótti til Eddukvæðanna. Til verksins, sem byggir á fjórum meginhugmyndum, valdi hann gabbróstein frá Höfn í Hornafirði. Sjálft verkið felur í sér lögun axarblaðs, tákn sigurs, styrks og hugprýði. Mynd Óðins, guðs visku, herkænsku og skáldskapar, snýr í norður. Gegnt honum er Freyja, dóttir sjávarguðsins Njarðar, gyðja ástar og frjósemi. Við hlið hennar er Askur Yggdrasils, veraldatréð, sem teygir anga sína um veröld alla.

 

Eyra

á Eiðinu gerði norska listakonan Marit Benthe Norheim. Hugmyndina af verkinu fékk hún eftir að hún hafði valið staðinn. Verkið samanstendur af tveimur fjörusteinum. Steininn í Eyrað fann hún í Viðlagaföru í Eyjum. Hann var þéttur í sér en hafði mótast og mýkst í sjónum. Hinn steinninn var á Eiðinu og er miklu gljúpari í sér. Hann setti hún aftan við Eyrað eins og sæti á móti útsýninu. Aðeins með því að að hlusta á fuglana, ölduniðinn og vindinn er hægt að njóta útsýnisins að fullu. Við framkvæmdir á Eiðinu var Eyranu komið fyrir í geymslu bæjarins en sætishlutinn virðist glataður. 

Árið 2000 gerði Marit Benthe Norheim skírnarfont sem er í Stafkirkjunni á Skansinum. Fontinn vann hún úr um 400 kg basaltsteini sem sóttur var í Eldfellshraun í Vestmannaeyjum.

 

Steinlystigarður
Steinlystigarður

Steinlystigarður finnsku listakonunnar Barböru Tieaho er uppi á Nýjahrauni á hægri hönd þegar komið er upp tréstigann frá Kirkjuvegi. Listamaðurinn fær hugmyndir sínar oftast frá náttúrunni, sem hún skynjaði mjög sterkt á Heimaey og þá fyrst og fremst hraunið. Henni fannst mjög erfitt að velja sér stein en mundi þá eftir draumi um japanskan steinagarð. Hún valdi því mismunandi steina og gaf þeim nýja þýðingu án þess að þeir misstu upprunalegan tilgang sem hluti af náttúru Vestmannaeyja.
Hún hjó litlar vatnsskálar í þrjá hraunsteina í minningu þeirra tíma þegar regnvatnið var eina vatnið sem íbúarnir gátu drukkið. Þann hluta nefndi hún smárann. Í annan stein markaði hún steinlauf sem tákn um endurnýjun náttúrunnar og þá íbúa sem sneru aftur heim til eyjunnar sinnar eftir hamfararnir.

Barbara Tieaho gerði einnig Líflínuna vestan við Eldfellið ásamt Kicki Stenström

 

Sæti í hrauni
Sæti í hraungrjót

Höfundur er Olaf Manske.

Stendur við Strandveginn.

Freymóður Þorsteinsson
Freymóður

Eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli

Vegglistaverk