Minnisvarðar á Íslandi
Fyrir nokkrum árum datt mér í hug að taka myndir af þeim minnisvörðum sem ég sá á ferðum mínum um landið sem leiðsögumaður. Ég komst þá að því að þeir voru fleiri og á fleiri stöðum en ég hafði hugmynd um áður. Eftir því sem ég best veit er þetta fyrsta tilraun til að skrásetja alla minnisvarða á landinu. Áður hafa minnisvarðar um horfna og drukknaða verið skráðir og minnisvarðar í einstaka landshluta hafa einnig verið skráðir. Reyndar fann ég aðeins skrá um minnisvarða í Skagafirði, en þó er listi yfir minnisvarða og listaverk á heimasíðum örfárra sveitarfélaga. Ég hef notað þær skrár fyrst og fremst til að finna minnisvarðana en upplýsingar um tilgang þeirra hef ég m.a. fengið úr ritum og heimasíðum og er þá heimildar getið. Ég tek sjálfur allar myndirnar af minnisvörðunum. Á þessum síðum ætla ég að gera tilraun til að skrásetja minnisvarðana og kannski kemur þessi skrá að gagni fyrir einhverja.
Minnisvarðarnir eru margskonar, allt frá styttum sem við sjáum allvíða og til minningarskjalda á klettaveggjum eða á stuðlabergsdröngum eða bara steinum úti í náttúrunni. Listaverk geta verið hvort tveggja í senn, listaverk og minnisvarði, því oft eru listaverk gerð til að minnast atburða eða einstaklinga. Dæmi eru stytturnar af Jóni Sigurðssyni, Jónasi Hallgrímssyni og fleirum sem eru minnisvarðar jafnframt því að vera listaverk og eru þær þá á báðum stöðum sem útilistaverk og minnisvarði. Oft eru listaverk á minnisvörðum, t.d. brjóstmyndir eða vangamyndir og er þá getið listamanns ef vitað er um hann.
Ég flokka minnisvarðana eftir landshlutum þar sem þeir standa og eru þeir mjög misjafnlega margir í hverjum landshluta. Minnisvörðum um fólk raða ég yfirleitt í stafrófsröð.
Minningamörk í kirkjugörðum eru ekki talin hér, en minningarreitir um skipskaða eða hernað, stakir minnisvarðar og minningarreitir um horfna, drukknaða eða þá sem jarðsettir hafa verið utan heimabyggðar sem oft eru í kirkjugörðum eru hafðir með. Þá hef ég stuðst við ritið Stríð, stolt, sorg og sprengja: Brot úr sögu íslenskra áfallaminnismerkja, eftir Ketil Kristinsson, sérstaklega við að finna minnisvarða og minningarreiti og einnig varðandi upplýsingar um nöfn listamanna sem þar kunna að koma við sögu. Hann ritaði einnig grein í Ritið, Tímarit Hugvísindastofnunar, 13. árg. (2013), 1. tbl., s. 166-182, sem heitir Eyrnamörk gleymskunnar og fjallar um minnisvarða og minnismerki. Reyndar er titill þessa tölblaðs Ritsins Af minni og gleymsku og þar eru greinar um minnisvarða (monuments) og minnismerki (memorials) eftir nokkra höfunda.
Til að skoða minnisvarðana eftir landshlutum, smellið þið á landshlutakrækjurnar hér fyrir neðan. Ég er einnig að vinna að lista um fólk sem minnst er með minnisvörðunum.
Minnisvarðarnir koma inn á síðuna smám saman eftir því hvernig mér vinnst verkið, bæði að mynda minnisvarðana og síðan að setja myndirnar hér inn.
Vona ég að þeir sem skoða hafi gagn og gaman að.
Það er nokkuð augljóst að erfitt verður að ná öllum minnisvörðum saman. Sumir eru að hverfa í gras þar sem þeir eru liggjandi ef þeir eru ekki því hærri. Því yrði ég mjög þakklátur þeim sem láta mig vita um minnisvarða sem ekki eru í þessari skrá með því að senda mér póst á póstfangið eirikur@eirikur.is með staðsetningu minnisvarðans.