Vorferð MA-1970 í maí 2022

Kæru félagar!

Í göngunni á sunnudaginn var kom upp hugmynd um að halda vorhátíð á þessu ári þar eð ekkert hefur orðið af þorrablóti (út af dálitlu). Allir sem voru á Sigló í fyrravor muna áeggjunarorð Finnboga heitins um að nú væri ekki lengur fært að halda bara hátíðir á fimm ára fresti, aldur okkar og heilsa leyfðu ekki lengur slíkt. Þetta sannaði hann svo á sjálfum sér á liðnu hausti – blessuð sé minning þess góða drengs.

Yfir kaffibolla að lokinni göngu – og aftur nú í morgun á fundi stækkaðs hóps – kviknaði tillaga um að hittast á Vesturlandi, einhvers staðar miðja vegu á milli Akureyrar og höfuðborgarsvæðisins, finna þægilegan gististað í tvær nætur, skoða land og skemmta sér saman við söng og skál – yfir einum góðum kvöldverði & tveimur morgunverðum (svipað og í fyrravor). Okkur datt í hug síðasta vikan í maí, áður en erlendir gestir yfirfylla öll gistirými og sprengja upp verð.

Nú viljum við kanna áhuga ykkar á þessu og biðjum ykkur að tilkynna sem allra fyrst þátttöku ef af getur orðið. Við höfum þegar sett af stað frumrannsókn á gistimöguleikum í Húnavatnssýslum en tilboðin sem við fáum markast auðvitað af fjölda þátttakenda.

Bestu kveðjur, Eiríkur Þór, Bessi, Gunna Páls, Ingimundur, Áskell, Borga og Brynja.

PS

Þessi póstur er líka á fésbókinni á MA-1970 síðunni og þeir sem eru þar geta svarað þar hvernig þeim líst á og hvort þeir vilja vera með og taka fram hvort maki kemur með. Við erum að afla tilboða og þurfum að vita nokkurn veginn fjölda. Við ætlum ekki að láta þetta taka langan tíma svo næsta vika ætti að duga, til 12. mars, til að fá út áhugann. Þeir sem ekki eru á facebook svarið þessum pósti með sömu upplýsingum

You may also like...